Formannafundur LH 2023

Berglind Karlsdóttir • 28. nóvember 2023

Formannafundur LH var haldinn laugardaginn 18. nóvember sl. Fundinn sóttu um 60 manns frá 27 hestamannafélögum auk fulltrúa frá fastanefndum LH,  dómarafélögunum og stjórn LH. Góðar og uppbyggilegar umræður urðu á fundinum sem stjórn LH tekur með sér í undirbúning Landsþings 2024.

Formaður fór í ræðu sinni yfir þau mál sem hafa verið fyrirferðarmest í starfsemi LH á árinu ásamt því að tæpa á helstu verkefnum sem framundan eru. Gjaldkeri fór yfir stöðu reikninga og uppfærðar fjárhagsáætlanir. Fjárhagsleg staða LH er með ágætum en ljóst er að efla þarf tekjustofna LH til að samtökin geti staðið undir þeim verkefnum og þjónustu sem þeim er ætlað að veita. Formaður öryggisnefndar kynnti myndband sem nefndin hefur látið gera sem fjallar um hverju þarf að huga að varðandi öryggi reiðtygja. Myndbandið verður birt á samfélagsmiðlum innan skamms.

Æskulýðsbikar LH hlaut Hestamannafélagið Jökull og veitti formaður Jökuls bikarnum móttöku. Tveir félagsmenn hlutu gullmerki LH á fundinum en það voru þau Magnús Benediktsson og Helga B. Helgadóttir sem hlutu viðurkenningu fyrir framlag sitt til hestaíþróttanna í gegnum árin.

Að loknum hefðbundnum fundarstörfum var fundinum skipt upp í þrjá umræðuhópa sem fjölluðu um mótamál, fjáröflun og útbreiðslu.

Mest þátttakan varð í umræðuhópi um mótamál þar sem voru þrjú meginmál til umræðu; Landsmót, Íslandsmót og mótaraðir.

Hópnum var skipt í fjóra umræðuhópa þar sem mörg stór málefni um mótahaldið voru reifuð. Guðni Halldórsson formaður LH og Hinrik Þór Sigurðsson sviðstjóri mótamála hjá sambandinu leiddu umræðurnar með því að bera fram spurningar úr hverjum flokki um sig og hóparnir ræddu hvert málefni ítarlega og hópstjórar hvers hóps komu svo upp og gerðu grein fyrir helstu punktum frá hverjum hóp um sig.

Umræðurnar voru mjög líflegar og magir snertifletir ræddir á hinum ýmsu málum og ljóst að það er heilmikið að vinna úr í framhaldinu.

Fyrsti hluti umræðnanna snérist um málefni Landsmóts og Íslandsmótanna.

Umræðuefnin voru eftirfarandi:

  • Val hrossa inn á LM/fjöldi keppenda
    • Mjög skýr vilji fundarins um að fyrirkomulag á fjölda keppenda á LM og það fyrirkomulag sem nú er við lýði sé býsna gott.
  • Kynbótasýningar á Landsmóti
    • Kynbótasýningar á LM eru á höndum RML og Deildar hrossabænda. Ýmsir góðir punktar komu fram um kynbótasýningar á LM, allt frá óbreyttu fyrirkomulagi að því að hafa einungis yfirlitssýningar eða jafnvel landssýningu hæst dæmdu hrossanna. Einn punktur sem kom fram úr nokkrum hópum var um það hvort rétt væri að sleppa því að sýna 4 vetra hross á LM.
  • Keppnisleyfi (aukaspurning sem um efni sem rætt var í gjaldkerahópnum)
    • Umræða um keppnisleyfin var góð og uppbyggileg.
  • Fyrirkomulag gæðingakeppni á LM
    • Rætt var hvort núverandi fyrirkomulag með sérstakri forkeppni, milliriðli, B-úrslit, A-úrslit henti best og útfrá sjónarmiðum hestavelferðar, álags og fleira. Hestur sem sigrar B-úrslit í gæðingakeppni kemur fjórum sinnum fram í keppninni á örfáum dögum.
  • Fleiri greinar á LM?
    • A-flokkur ungmenna er grein sem nýtur vaxandi fylgis og umræða í þá áttina hvort hann ætti ma. að vera með á Landsmóti
  • Hvernig björgum við lífi Íslandsmóts?
    • Íslandsmót hefur átt undir högg að sækja hvað aðsókn varðar, sérstaklega á LM árum. Nokkrar hugmyndir voru reifaðar ss. Halda mótið síðsumars, halda Íslandsmót á Landsmóti eða jafnvel setja það í mótaröð sem samanlagðan árangur nokkurra heimsbikarmóta (WR).

Seinni hlutinn var umræða um innanhúsmótin og það stóra keppnistímabil sem fram fer innanhúss yfir vetrarmánuðina.

Umræðuefnin voru eftirfarandi:

  • Á að vinna að því að gera innanhússtímabilið að löglegum mótum?
    • Þessi punktur snýst um það hvort gera eigi innanhússmótin lögleg að því leyti að þau fari að telja inn á stöðulista, gildi til verðlauna fyrir knapa ársins og þá í framhaldinu íþróttamanns ársins í stað þess að standa utan regluverksins að stórum hluta líkt og nú er.
  • Eiga félögin að koma að mótahaldi deildanna og keppt yrði meira á félagsgrundvelli í innanhússdeildum?
    • Forsenda þess að hægt verði að krýna td. Íslandsmeistara innanhúss sbr. Líkt og gert er í frjálsum íþróttum er að keppt sé á vegum íþróttafélaganna, hestamannafélaganna.
    • Það er einnig ljóst að gríðarlegir fjármunir eru í umferð kringum deildirnar sem hestamannafélögin standa utanvið nema í einhverjum tilvikum í formi leigutekna á reiðhöllum yfir mótin. Mikil samkeppni er um styrki frá atvinnulífinu í íþróttahreyfingunni allri og erfitt fyrir félögin að keppa um styrki.
  • Aga og ágreiningsmál innanhússmótanna
    • Á meðan deildirnar eru utanvið regluverk Landssambandsins er ekki hægt að leita til úrskurðar og aganefndar LH eða dómstóla ÍSÍ með ágreiningsmál sem upp kunna að koma.
  • Fyrirkomulag deilda
    • Hvernig myndu félögin sjá fyrir sér deildir þar sem keppt er á vegum hestamannafélaganna í landinu?

Í umræðuhópi um fjáröflun var fjallað um keppnisleyfi sem eru við lýði í flestum öðrum FEIF-löndum og velt upp hugmyndum hvort ætti að taka upp innan LH þar sem langmestur tími stjórnar, nefnda og starfsmanna fara í að fjalla um og þjónusta mótahaldið. Um 12% félagsmanna innan LH taka þátt í keppni en allir félagsmenn fjármagna mótahaldið jafnt.

Einnig var rætt um styrki sem standa hestamannafélögum til boða eins og öðrum íþróttafélögum.

Útbreiðslunefnd tók saman upplýsingar um hvaða styrkir standa til boða hverju hestamannafélagi fyrir sig. Allir formenn hestamannfélaga fengu sendar upplýsingar um mögulega styrkri í þeirra héraði, hver umsóknarfresturinn er og hvað þurfi að hafa í huga þegar sótt er um styrki. Þetta er gott verkfæri fyrir félögin til að nýta fyrir einstök verkefni og framkvæmdir.

Í umræðuhópi um útbreiðslu var fjallað um vinnu nefndarinnar síðasta árið auk þess sem hugað var að frekari verkefnum til útbreiðslu og nýliðunar. Ýmsar hugmyndir komu fram sem geta ýtt undir fjölbreytileika og útbreiðslu hestaíþrótta t.d. Trek, Víðavangskeppnir, Þolreiðar, Smali,  Hestafimleikar, Sirkusnámskeið, Fimikeppnir, Hindrunarstökk ofl. Þá var einnig rætt um að endurvekja veðkappreiðar eins og þekktust hér á árum áður. 

Í samtali hópsins kom það fram að það sem stendur hvað oftast í vegi fyrir nýliðun er aðgangur að hesthúsum fyrir æskuna. Félagshesthúsin hafa komið þar sterkt inn og ljóst er að margar góðar útfærslur eru til á þeirri framkvæmd. 

Þá hafa opnir dagar í hesthúsum og sýningar í reiðhöllum undanfarið notið mikilla vinsælda og er ákaflega sniðugt verkfæri til að auka sýnileika hestamennskunnar.  

Stjórn þakkar formönnum og öðrum þátttakendum á formannafundi fyrir uppbyggilegar umræður sem munu nýtast vel á komandi starfsári.

Fréttasafn

Eftir Jónína Sif Eyþórsdóttir 30. apríl 2025
Dagur Íslenska hestsins er á morgun, 1. maí. Hestamannafélög hérlendis sem og erlendis munu í tilefni af deginum bjóða upp á fjölbreytta dagskrá. Við hverjum áhugasama til að kynna sér viðburði á sínu heimasvæði.  Þá verður einnig spennandi dagskrá í Fjölskyldu og Húsdýragarðinum:
Eftir Jónína Sif Eyþórsdóttir 29. apríl 2025
Í gær mánudaginn 28. apríl fór fram stefnumótunarfundur Landssambands hestamannafélaga. Stjórn boðaði fundinn og voru fulltrúar hestamannafélaganna hvattir til að mæta á staðinn eða vera með á Teams. Markmið fundarins var að skapa sameiginlega framtíðarsýn fyrir samband allra hestamanna og var því ákaflega gleðilegt að sjá hversu margir tóku frá tíma til að vera með okkur í þessari vinnu en um 30 manns mættu á staðinn og 50 tóku þátt í fjarfundi. Petra Björk Mogensen stýrði fundinum ásamt Lindu Björk Gunnlaugsdóttur. Þær fengu svo dygga aðstoð frá þeim Jónínu Björk Vilhjálmsdóttur og Anna Kristín Kristinsdóttir sem tóku saman niðurstöður fundarins.
Eftir Jónína Sif Eyþórsdóttir 28. apríl 2025
Á 77. Íþróttaþingi ÍSÍ, sem fram fer dagana 16. og 17. maí nk. á Hótel Natura, verður kosið um forseta ÍSÍ til fjögurra ára og um sjö meðstjórnendur í framkvæmdastjórn ÍSÍ, til fjögurra ára. Skilafrestur framboða rann út föstudaginn 25. apríl sl. kl. 16:00. Til kjörnefndar bárust fimm framboð til embættis forseta ÍSÍ og níu framboð til setu í framkvæmdastjórn ÍSÍ.  Kjörnefnd ÍSÍ hefur úrskurðað öll innsend framboð gild.
Eftir Jónína Sif Eyþórsdóttir 27. apríl 2025
Nú er rétt rúm vika síðan hinn glæsilegi viðburður Allra sterkustu fór fram. Mikil stemning myndaðist að venju enda glæsilegar sýningar, keppni, happadrætti og stóðhestavelta í gangi. Á kvöldum sem þessum er dásamlegt að hafa fullt hús af áhorfendum og var það rauninn þann 19. apríl. Hinsvegar komust ekki allir sem vildu á sýninguna og því gleður það að tilkynna að Eiðfaxi tók upp herlegheitin og verður hægt að horfa á alla sýninguna á streymisveitunni þeirra frá og með miðri næstu viku.
Eftir Berglind Karlsdóttir 24. apríl 2025
Á Allra sterkustu var skrifað undir samstarfssamning milli Topreiter og Landsliðs Íslands í hestaíþróttum. Samningurinn gildir fram yfir Heimsmeistaramót 2027.
Eftir Berglind Karlsdóttir 23. apríl 2025
Hægt er að sækja vinningana á Skrifstofu LH Engjavegi 6 í Laugardal frá og með mánudeginum 28. apríl gegn framvísun happdrættismiðans.
Eftir Berglind Karlsdóttir 23. apríl 2025
Á Allra sterkustu var skrifað undir áframhaldandi samstarfssamning milli Landsliðs Íslands í hestaíþróttum og Líflands.
Eftir Hinrik Sigurðsson 23. apríl 2025
Ákveðið hefur verið að framlengja skráningafresti fyrir fyrsta Íslandsmótið í gæðingalist sem verður haldið í Samskipahöllinni í Spretti dagana 29.apríl – 1.maí 2025. Skráningafrestur er til miðnættis miðvikudaginn 23.apríl.
Eftir Jónína Sif Eyþórsdóttir 22. apríl 2025
Kæru hestamenn, takk kærlega fyrir samveruna og samvinnuna í kringum ALLRA STERKUSTU. Viðburðurinn heppnaðist vel og skiptir það sköpum fyrir landsliðin að finna þenna mikla áhuga og stuðning úr greininni. Viðburður eins og þessi gerist ekki að sjáflum sér. Að baki honum standa óteljandi klukkustundir sem sjálfboðaliðar hafa ljáð verkefninu, fullt af fyrirtækjum hafa lagt til fjármuni eða aðföng og stóðhestaeigendur sem hafa gefið tolla í stóðhestaveltuna. Þá hefur stjórn, skrifstofa, landsliðsnefnd, framkvæmdanefnd, landsliðsþjálfarar og landsliðsknaparnir sjálfir lagt dag við nótt að undirbúa og framkvæma þennan glæsilega viðburð.
Eftir Jónína Sif Eyþórsdóttir 22. apríl 2025
Ný stikuð leið frá Dalakofa í Landmannahelli. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða veitti Hestamannafélaginu Geysi styrk á síðasta ári til að stika svokallaðan Dalastíg. Leiðin þykir gífurlega falleg en er bæði brött og villugjörn og því miklar úrbætur að fá leiðina betur merkta og skráða.
Lesa meira

Styrktaraðilar