Formannafundur LH 2023

28. nóvember 2023

Formannafundur LH var haldinn laugardaginn 18. nóvember sl. Fundinn sóttu um 60 manns frá 27 hestamannafélögum auk fulltrúa frá fastanefndum LH,  dómarafélögunum og stjórn LH. Góðar og uppbyggilegar umræður urðu á fundinum sem stjórn LH tekur með sér í undirbúning Landsþings 2024.

Formaður fór í ræðu sinni yfir þau mál sem hafa verið fyrirferðarmest í starfsemi LH á árinu ásamt því að tæpa á helstu verkefnum sem framundan eru. Gjaldkeri fór yfir stöðu reikninga og uppfærðar fjárhagsáætlanir. Fjárhagsleg staða LH er með ágætum en ljóst er að efla þarf tekjustofna LH til að samtökin geti staðið undir þeim verkefnum og þjónustu sem þeim er ætlað að veita. Formaður öryggisnefndar kynnti myndband sem nefndin hefur látið gera sem fjallar um hverju þarf að huga að varðandi öryggi reiðtygja. Myndbandið verður birt á samfélagsmiðlum innan skamms.

Æskulýðsbikar LH hlaut Hestamannafélagið Jökull og veitti formaður Jökuls bikarnum móttöku. Tveir félagsmenn hlutu gullmerki LH á fundinum en það voru þau Magnús Benediktsson og Helga B. Helgadóttir sem hlutu viðurkenningu fyrir framlag sitt til hestaíþróttanna í gegnum árin.

Að loknum hefðbundnum fundarstörfum var fundinum skipt upp í þrjá umræðuhópa sem fjölluðu um mótamál, fjáröflun og útbreiðslu.

Mest þátttakan varð í umræðuhópi um mótamál þar sem voru þrjú meginmál til umræðu; Landsmót, Íslandsmót og mótaraðir.

Hópnum var skipt í fjóra umræðuhópa þar sem mörg stór málefni um mótahaldið voru reifuð. Guðni Halldórsson formaður LH og Hinrik Þór Sigurðsson sviðstjóri mótamála hjá sambandinu leiddu umræðurnar með því að bera fram spurningar úr hverjum flokki um sig og hóparnir ræddu hvert málefni ítarlega og hópstjórar hvers hóps komu svo upp og gerðu grein fyrir helstu punktum frá hverjum hóp um sig.

Umræðurnar voru mjög líflegar og magir snertifletir ræddir á hinum ýmsu málum og ljóst að það er heilmikið að vinna úr í framhaldinu.

Fyrsti hluti umræðnanna snérist um málefni Landsmóts og Íslandsmótanna.

Umræðuefnin voru eftirfarandi:

  • Val hrossa inn á LM/fjöldi keppenda
    • Mjög skýr vilji fundarins um að fyrirkomulag á fjölda keppenda á LM og það fyrirkomulag sem nú er við lýði sé býsna gott.
  • Kynbótasýningar á Landsmóti
    • Kynbótasýningar á LM eru á höndum RML og Deildar hrossabænda. Ýmsir góðir punktar komu fram um kynbótasýningar á LM, allt frá óbreyttu fyrirkomulagi að því að hafa einungis yfirlitssýningar eða jafnvel landssýningu hæst dæmdu hrossanna. Einn punktur sem kom fram úr nokkrum hópum var um það hvort rétt væri að sleppa því að sýna 4 vetra hross á LM.
  • Keppnisleyfi (aukaspurning sem um efni sem rætt var í gjaldkerahópnum)
    • Umræða um keppnisleyfin var góð og uppbyggileg.
  • Fyrirkomulag gæðingakeppni á LM
    • Rætt var hvort núverandi fyrirkomulag með sérstakri forkeppni, milliriðli, B-úrslit, A-úrslit henti best og útfrá sjónarmiðum hestavelferðar, álags og fleira. Hestur sem sigrar B-úrslit í gæðingakeppni kemur fjórum sinnum fram í keppninni á örfáum dögum.
  • Fleiri greinar á LM?
    • A-flokkur ungmenna er grein sem nýtur vaxandi fylgis og umræða í þá áttina hvort hann ætti ma. að vera með á Landsmóti
  • Hvernig björgum við lífi Íslandsmóts?
    • Íslandsmót hefur átt undir högg að sækja hvað aðsókn varðar, sérstaklega á LM árum. Nokkrar hugmyndir voru reifaðar ss. Halda mótið síðsumars, halda Íslandsmót á Landsmóti eða jafnvel setja það í mótaröð sem samanlagðan árangur nokkurra heimsbikarmóta (WR).

Seinni hlutinn var umræða um innanhúsmótin og það stóra keppnistímabil sem fram fer innanhúss yfir vetrarmánuðina.

Umræðuefnin voru eftirfarandi:

  • Á að vinna að því að gera innanhússtímabilið að löglegum mótum?
    • Þessi punktur snýst um það hvort gera eigi innanhússmótin lögleg að því leyti að þau fari að telja inn á stöðulista, gildi til verðlauna fyrir knapa ársins og þá í framhaldinu íþróttamanns ársins í stað þess að standa utan regluverksins að stórum hluta líkt og nú er.
  • Eiga félögin að koma að mótahaldi deildanna og keppt yrði meira á félagsgrundvelli í innanhússdeildum?
    • Forsenda þess að hægt verði að krýna td. Íslandsmeistara innanhúss sbr. Líkt og gert er í frjálsum íþróttum er að keppt sé á vegum íþróttafélaganna, hestamannafélaganna.
    • Það er einnig ljóst að gríðarlegir fjármunir eru í umferð kringum deildirnar sem hestamannafélögin standa utanvið nema í einhverjum tilvikum í formi leigutekna á reiðhöllum yfir mótin. Mikil samkeppni er um styrki frá atvinnulífinu í íþróttahreyfingunni allri og erfitt fyrir félögin að keppa um styrki.
  • Aga og ágreiningsmál innanhússmótanna
    • Á meðan deildirnar eru utanvið regluverk Landssambandsins er ekki hægt að leita til úrskurðar og aganefndar LH eða dómstóla ÍSÍ með ágreiningsmál sem upp kunna að koma.
  • Fyrirkomulag deilda
    • Hvernig myndu félögin sjá fyrir sér deildir þar sem keppt er á vegum hestamannafélaganna í landinu?

Í umræðuhópi um fjáröflun var fjallað um keppnisleyfi sem eru við lýði í flestum öðrum FEIF-löndum og velt upp hugmyndum hvort ætti að taka upp innan LH þar sem langmestur tími stjórnar, nefnda og starfsmanna fara í að fjalla um og þjónusta mótahaldið. Um 12% félagsmanna innan LH taka þátt í keppni en allir félagsmenn fjármagna mótahaldið jafnt.

Einnig var rætt um styrki sem standa hestamannafélögum til boða eins og öðrum íþróttafélögum.

Útbreiðslunefnd tók saman upplýsingar um hvaða styrkir standa til boða hverju hestamannafélagi fyrir sig. Allir formenn hestamannfélaga fengu sendar upplýsingar um mögulega styrkri í þeirra héraði, hver umsóknarfresturinn er og hvað þurfi að hafa í huga þegar sótt er um styrki. Þetta er gott verkfæri fyrir félögin til að nýta fyrir einstök verkefni og framkvæmdir.

Í umræðuhópi um útbreiðslu var fjallað um vinnu nefndarinnar síðasta árið auk þess sem hugað var að frekari verkefnum til útbreiðslu og nýliðunar. Ýmsar hugmyndir komu fram sem geta ýtt undir fjölbreytileika og útbreiðslu hestaíþrótta t.d. Trek, Víðavangskeppnir, Þolreiðar, Smali,  Hestafimleikar, Sirkusnámskeið, Fimikeppnir, Hindrunarstökk ofl. Þá var einnig rætt um að endurvekja veðkappreiðar eins og þekktust hér á árum áður. 

Í samtali hópsins kom það fram að það sem stendur hvað oftast í vegi fyrir nýliðun er aðgangur að hesthúsum fyrir æskuna. Félagshesthúsin hafa komið þar sterkt inn og ljóst er að margar góðar útfærslur eru til á þeirri framkvæmd. 

Þá hafa opnir dagar í hesthúsum og sýningar í reiðhöllum undanfarið notið mikilla vinsælda og er ákaflega sniðugt verkfæri til að auka sýnileika hestamennskunnar.  

Stjórn þakkar formönnum og öðrum þátttakendum á formannafundi fyrir uppbyggilegar umræður sem munu nýtast vel á komandi starfsári.

Fréttasafn

24. desember 2025
Jóla- og nýárskveðja frá formanni LH
22. desember 2025
Landssamband hestamannafélaga óskar öllum hestamönnum nær og fjær gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári, með kærri þökk fyrir samstarfið á árinu.  Starfsfólk og stjórn LH
Eftir Berglind Karlsdóttir 18. desember 2025
Hekla Katharína Kristinsdóttir er reiðkennari ársins 2025
9. desember 2025
Ísólfur Líndal Þórisson hefur verið ráðinn landsliðsþjálfari A-landsliðs Íslands í hestaíþróttum
5. desember 2025
Alþjóðlegur dagur sjálboðaliða 5. desember
14. nóvember 2025
Form annafundur LH var haldinn laugardaginn 8. nóvember sl. Fundinn sóttu um áttatíu manns frá þrjátíu hestamannafélögum auk fulltrúa frá fastanefndum LH, dómarafélögunum og stjórn LH. Góðar og uppbyggilegar umræður urðu á fundinum sem stjórn LH tekur með sér í næsta starfsár og í undirbúning fyrir Landsþing 2026. Formaður LH, Linda Björk Gunnlaugsdóttir, fór í ræðu sinni yfir þau mál sem hafa verið fyrirferðarmest í starfsemi LH á árinu ásamt því að tæpa á helstu verkefnum sem framundan eru. Það eru mörg og umfangsmikil verkefni á borði stjórnar hverju sinni og hefur mikill tími farið fyrsta starfsárið hjá nýrri stjórn í að endurskipuleggja og hagræða í rekstri sambandsins. Afreksmálin eru alltaf fyrirferðarmikil á HM ári í verkefnum skrifstofu og stjórnar og eru afreksmálin á ákveðnum tímamótum núna þar sem samningar við landsliðsþjálfara eru lausir. Gjaldkeri LH, Ólafur Gunnarsson, fór yfir stöðu reikninga og uppfærðar fjárhagsáætlanir sem gera ráð fyrir á næstu tvö ár skili hagnaði en eins og áður kom fram hefur verið farið í hagræðingaraðgerðir á árinu í þeim tilgangi að snúa rekstri sambandsins til betri vegar. Starfshópar sem skipaðir voru skv. samþykkt landsþings 2024 kynntu sína vinnu frá landsþingi. Starfshópur um Íslandsmót telur ekki þörf á að gera breytingar á keppnishluta mótsins en leita þurfi leiða til að gera viðburðinn Íslandsmót að stærri viðburði fyrir áhorfendur. Starfshópur um innanhússmót lagði fram tillögu fyrir fundinn um haldið yrði 2ja til 3ja daga Íslandsmót innanhúss í lok innanhússkeppnistímabilsins 2026 til reynslu. Fundurinn vísaði tillögunni til stjórnar til nánari útfærslu og mun stjórn kalla til framhaldsfundar formanna til frekari umræðna. Æskulýðsbikar LH hlaut Hestamannafélagið Skagfirðingur og veittu yfirreiðkennari félagsins og formaður æskulýðsdeildar Skagfirðings bikarnum móttöku. Fulltrúar frá hestamannafélögunum Mána, Hring, Funa, Herði, Freyfaxa og Sleipni sögðu frá sínum verkefnum og helstu áskorunum. Voru það virkilega áhugaverðar frásagnir því flest hestamannafélög eru að eiga við svipaðar áskoranir þó aðstæður hjá hverju félagi séu mismunandi. Að loknum hefðbundnum fundarstörfum var fundinum skipt upp í þrjá umræðuhópa sem fjölluðu um stefnumótun, gjaldkerastörf og nýliðunar -og æskulýðsmál. Mikil umræða og góð vinna var í umræðuhópunum. Í hópnum um stefnumótum urðu mjög líflegar umræður og margir snertifletir ræddir á hinum ýmsu málum og ljóst að það er heilmikið að vinna úr í framhaldinu. Fundinum var skipt upp í sex minni hópa sem fjölluðu hver um sig um ákveðna þætti í starfsemi LH, hvaða markmið skuli setja og hvernig skuli ná þeim. Stefnumótunarfundurinn var framhald af opnum stefnumótunarfundi sem haldinn var sl. vor með fulltrúum hestamannafélaganna. Hópurinn um æskulýðs- og nýliðunarmál fjallaði um þátttöku stráka í hestamennsku, félagshesthús og almenna stöðu hjá félögunum. Margar hugmyndir komu upp og góðar umræður sköpuðust. Í gjaldkerahópnum var rætt um samskipti við sveitarfélög, fjármál hestamannafélaga, félög í almannaheilaskráningu og fyrirmyndafélög ásamt styrkjum til hestamannafélaga. Fjármál hestamannafélaganna eru almennt í góðum málum og faglega staðið að þeim en slíkt er algjör forsenda fyrir því að gott samtal geti átt sér stað við sveitarfélögin þegar kemur að styrkjamálum hins opinbera. Félögin voru einnig hvött til að skrá félagið á almannaheillaskrá en það er gott verkfæri þegar leitað er styrkja hjá almennum fyrirtækjum og veitir skattaafslátt á móti. Einnig voru félögin hvött til að hefju vinnu við að gerast fyrirmyndarfélag ÍSÍ og er það holl og góð vinna til að bæta starfshætti félagsins. Félög geta leitað til hvors annars um þau gögn sem þarf að skila og voru félögin hvött til að vinna þau saman. Samhliða formannafundi var haldinn mótanefndafundur sem um tuttugu manns sátu, en fyrirhugað er að halda framahaldsmótanefndafund um næstu mánaðamót til að ræða frekar mótadagskrá ársins. Stjórn LH þakkar formönnum hestamannafélaga í landinu og öðrum þátttakendum á formannafundi fyrir afar uppbyggilegar umræður sem munu nýtast vel á komandi starfsári. Skýrsla stjórnar LH 2024-2025
12. nóvember 2025
Ættingjar fyrsta heiðursfélaga LH afhentu LH viðurkenningarskjalið til varðveislu
11. nóvember 2025
Guðni Halldórsson og Kristinn Skúlason hlutu gullmerki LH
9. nóvember 2025
Haraldur Þórarinsson er heiðursverðlaunum LH sannarlega verðugur
9. nóvember 2025
Gott æskulýðsstarf er grunnurinn að framtíð hestamennskunnar
Lesa meira