Tilkynning frá A-landsliðsþjálfara LH, Sigurbirni Bárðarsyni

16. október 2025

Leiðarlok

Eftir að hafa gegnt starfi landsliðsþjálfara íslenska landsliðsins í hestaíþróttum frá árinu 2017 og átt þar áður sæti í landsliðsnefnd um áraraðir er nú komið að leiðarlokum.


Ég hef í áratugi tengst íslenska landsliðinu og komið að því að móta starfið frá ýmsum hliðum, allt frá frumbernsku íþróttarinnar. Á árunum 2017-2018 réðst ég ásamt landsliðsnefnd í heildarendurskoðun á öllu landsliðs- og afreksstarfi LH með það fyrir augum að bæta árangur og umgjörð landsliðsins, en einnig með það meginmarkmið að gjörbylta yngri flokka starfi sambandsins. Fólst sú endurskoðun meðal annars í því að horfa í auknu mæli til annarra íþróttagreina m.a. þegar kemur að skipulagningu afreksstarfsins, agamálum, uppbyggingu liðsanda, reglusemi, unglingastarfs og fleira. Þannig var meginfókusinn settur á knapann sem afreksíþróttamann.


Ekki verður um það deilt að árangurinn hefur verið stórkostlegur, jafnt innan vallar sem utan, þannig að eftir hefur verið tekið, langt út fyrir raðir hestafólks. En einnig þannig að önnur landslið í Íslandshestaheiminum hafa tekið afreksstarf LH, undir minni stjórn, til fyrirmyndar. Á þeim þremur heimsleikum sem ég hef leitt íslenska landsliðið hefur árangurinn verið mun betri en áður hefur þekkst. Þakka ég það meðal annars þeirri stefnu sem unnið hefur verið eftir, ásamt frábæru samstarfsfólki og snilldar knöpum sem hafa verið tilbúnir til að taka þátt í vegferðinni.

Oft hefur gefið á bátinn og þurft að taka erfiðar ákvarðanir, en það er hlutverk þeirra sem standa í brúnni hverju sinni að taka ákvarðanir, standa við þær og trúa að þær séu íþróttinni til heilla.


Nú stendur yfir vinna hjá LH um framtíðarsýn í afreks- og landslilðsmálum LH sem fela m.a. í sér breytingar á starfi landsliðsþjálfara. Eftir að hafa farið yfir stöðuna með formanni LH og landsliðsnefndar er það sameiginleg ákvörðun okkar að leiðir skilji og nýtt fólk verði fengið til að halda utan um landsliðsstarfið í nýrri mynd


Ég lít stoltur um öxl og vil af þessu tilefni þakka öllu því góða fólki sem ég hef unnið með öll þessi ár, fyrir samstarfið og frábær samskipti. Jafnframt óska nýju fólki velfarnaðar og góðs gengis í þessu krefjandi en skemmtilega verkefni. 


Áfram Ísland! Áfram íslenski hesturinn!

Sigurbjörn Bárðarson

Fréttasafn

22. október 2025
Viðtal við nýjan formann Landsliðsnefndar um afreks- og landsliðsmál
22. október 2025
Þann 15. maí sl. staðfesti framkvæmdastjórn ÍSÍ úthlutunarreglur vegna kostnaðarþátttöku ungmenna í landsliðsverkefnum. Tilgangur reglnanna er að setja ramma um styrki til sérsambanda ÍSÍ vegna kostnaðarþátttöku ungmenna í landsliðsstarfi á vegum sérsambanda ÍSÍ í samræmi við Afreksstefnu ÍSÍ. Meginmarkmið styrkveitinganna er að styðja ungmenni fjárhagslega sem taka þátt í landsliðsstarfi á vegum sérsambanda ÍSÍ og þurfa að greiða kostnað vegna þátttökunnar að fullu eða að hluta. Einnig að jafna möguleika ungmenna á þátttöku í landsliðsstarfi sérsambanda ÍSÍ. LH sótti um styrk fyrir hönd þeirra sjö ungmenna sem fóru á HM sl. sumar og niðurstaðan varð sú að Afrekssjóður styrkir hvert og eitt þeirra um rúmar 200.000 kr. Styrkurinn er gríðarlega mikilvægur stuðningur við ungmennin okkar og mikil hvatning.  Er þetta hluti af því aukna fjármagni sem stjórnvöld hafa sett í Afrekssjóð á þessu ári og markar sú ákvörðun tímamót í allri umgjörð afreksíþrótta í heild sinni. Vonast er til að sambærilegt fjármagn verði til úthlutunar til sérsambanda úr Afrekssjóði til frambúðar.
17. október 2025
NICH - Nordic Icelandic Horse Collaboration
9. október 2025
Hæfileikamótun LH er fyrir krakka á aldrinum 14-17 ára, fædd 2009-2012
7. október 2025
Valnefnd óskar eftir keppnisárangri ræktunarbúa
6. október 2025
Ragnar Tómasso n lögfræðingur og hestamaður lést 28. september á hjúkrunarheimilinu Sóltúni, 86 ára að aldri. Ragnar hlaut heiðursverðlaun Landssambands hestamannafélaga árið 2013. Ragnar var mikill hestamaður og sinnti ýmsum félagsstörfum vegna þess áhugamáls allt frá árinu 1972. Hann var m.a. formaður íþróttadeildar Fáks, átti sæti í stjórn íþróttaráðs Landssambands hestamanna, var liðsstjóri íslenska landsliðsins á Evrópumóti í hestaíþróttum í Svíþjóð árið 1985 og var um tíma dómari í hestaíþróttum. Þá vann hann að skipulagningu unglingastarfs hjá nokkrum hestamannafélögum. Ragnar átti jafnframt sæti í stjórn ÍFA, Íþrótta fyrir alla, og hóf baráttu fyrir eflingu líkamsræktar með maraþonhlaupi árið 1990. Var hann hvatamaður og aðstoðarmaður við gerð þáttanna Hristu af þér slenið, sem sýndir voru á RÚV árið 1991. Ritaði hann samnefnda bók tveimur árum síðar og sömuleiðis skrifaði hann fjölda greina í hestatímaritið Eiðfaxa. Ragnar fæddist í Reykjavík 30. janúar 1939 og ólst þar upp. Foreldrar hans voru Tómas Pétursson stórkaupmaður og Ragnheiður Einarsdóttir, lengi formaður Hringsins. Ragnar lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands 1959, embættisprófi í lögfræði 1965 og stundaði nám í Business School við Kaliforníuháskóla árið 1966. Hann opnaði málflutningsskrifstofu í Reykjavík sama ár og hóf nokkru síðar rekstur Fasteignaþjónustunnar og starfaði einkum við sölu fyrirtækja og samningaráðgjöf fyrir fyrir tæki í tengslum við samruna og fleira því tengt. Þau hjónin, Ragnar og Dagný Ólafía Gísladóttir, ráku saman um tíma sokkaverksmiðju, voru með umboð fyrir Polaroid-filmur og -myndavélar, fluttu inn innréttingar og baðtæki og ráku Jarlinn skyndibitastað ásamt fjölskyldu sinni. Dagný Ólafía lést árið 2016. Börn þeirra eru Ragna Þóra, f. 1964, Tómas, f. 1965, d. 2010, Dagný Ólafía, f. 1968, og Arnar Þór, f. 1972. Barnabörnin eru 12 talsins og langafabörnin 14. Landssamband hestamannafélaga vottar fjölskyldu Ragnars innilega samúð og þakkar Ragnari fyrir ómetanleg störf sín í þágu hestaíþrótta. Minningin um góðan hestamann lifir.
30. september 2025
Sigurbjörn Eiríksson er nýr formaður landsliðsnefndar LH
25. september 2025
Dagur þjálfarans
10. september 2025
Dagana 21. til 23. nóvember nk. verður haldið leiðtoganámskeið FEIF sem ætlað er ungmennum á aldrinum 18-26 ára. Námskeiðið er á vegum Danska Íslandshestasambandsins (DI) og er haldið í Gringdsted Landbúnaðarskólanum í Billund í Danmörku. Yfirskrift námskeiðsins er „Fighting Fit – Conflict, Fitness & Teamwork in Action“ og markmiðið er að hvetja ungmenni til að taka þátt í félagsstörfum í hestamennsku og að þátttakendur efli færni sína sem leiðtogar. Aðalfyrirlesarar verða Rebekka Hyldgaard, sjúkraþjálfari, sem fjallar um hvernig líkamsþjálfun getur bætt árangur í reiðmennsku, og Professor Janne Winther Christensen frá Aarhus University sem fjallar um nýjustu rannsóknir um „ animal conflict behaviour “. Þátttaka í viðburði sem þessum gefur frábæra reynslu, skapar tengsl og styrkir þátttakendur til frekari leiðtoga og ábyrgðarstarfa innan hestamannafélaganna. Við hvetjum hestamannafélögin til að hvetja fulltrúa sína til þátttöku á þessu námskeiði og minnum á mikilvægi þess að efla ungt fólk til þátttöku í nefndum og störfum innan félaganna til að efla nýliðun ásamt því að móta leiðtoga framtíðarinnar. Nánari upplýsingar um námskeiðið má finna á heimasíðu FEIF. Umsóknarfrestur er 15. október 2025 . Námskeiðið hefst föstudaginn 21. nóvember kl 16:00 og endar sunnudaginn 23. nóvember kl 13:00. Kostnaður er 200€ og innifalið í því er gisting, matur og fræðsla.
10. september 2025
Landssamband hestamannafélaga auglýsir til umsóknar eftirfarandi mót: · Íslandsmót fullorðinna og ungmenna 2028 · Íslandsmót barna og unglinga 2028 · Íslandsmót í gæðingalist 2026 (innanhússmót sem haldið skal fyrir 15. maí) · Áhugamannamót Íslands 2026 Dagsetningar mótanna eru ákveðnar í samráði við mótshaldara og að teknu tilliti til dagsetninga annarra móta. Á Íslandsmóti fullorðinna og ungmenna er keppt í íþróttakeppni í efsta styrkleikaflokki þar sem keppendur eru einir inni á vellinum í einu. Á Íslandsmóti barna og unglinga er keppt í íþróttakeppni og gæðingakeppni. Á Íslandsmóti í gæðingalist er keppt í öllum aldursflokkum og skal mótið haldið fyrir 15. maí 2026. Á Áhugamannamóti Íslands er keppt í íþróttakeppni og gæðingakeppni í 1., 2. og 3. flokki. Umsóknir áhugasamra mótshaldara skulu berast Landssambandi hestamannafélaga fyrir 1. október nk. á netfangið lh@lhhestar.is .
Lesa meira