Samstarf Norðurlanda
NICH - Nordic Icelandic Horse Collaboration
Í byrjun október var haldinn fundur í samstarfshópi formanna Íslandshestasambanda Norðurlanda, The Nordic Icelandic Horse Collaboration (NIHC). Fundurinn var haldinn í Helsinki í Finnlandi og fyrir Íslands hönd sóttu fundinn Linda Björk Gunnlaugsdóttir formaður LH og Berglind Karlsdóttir framkvæmdastjóri LH. Hópurinn fundar nokkrum sinnum á ári á fjarfundum en hefðin hefur verið að hittast að minnsta kosti einu sinni á ári og eru viðburðir í alþjóðasamstarfinu einnig nýttir til fundahalda, eins og FEIF-þingið og Heimsmeistaramót og Norðurlandamót.
Öll Norðurlöndin sex eiga aðild að samstarfinu, Ísland, Noregur, Svíþjóð, Danmörk, Finnland og Færeyjar og um næstu áramót tekur Ísland við formennsku í ráðinu.
Meginmarkmið NIHC er að ræða velferðarmál tengd íslenska hestinum og að efla samstarf samstarf Norðurlanda í öllum málum sem tengast íslenska hestinum.
NIHC var sett á laggirnar árið 2017 í kjölfarið á góðri samvinnu Norðurlanda á HM í Danmörku sama ár. Hópurinn stendur fyrir sameiginlegum gildum hvað varðar sjálfboðaliðastörf, lýðræði, heilindi og jafnræði en jafnframt er NIHC stuðningur við FEIF sem er æðsta vald í málefnum íslenska hestsins.
NIHC gegnir lykilhlutverki þegar kemur að skipulagningu stórra viðburða eins og Norðurlandamóts til tryggja að mótið sé haldið af metnaði og í góðu samstarfi milli aðildarlanda.
Saman mótum við framtíðarsýn Íslandshestamennsku í heiminum, sem er allt í senn íþrótt, menning og lífsstíll.
Fréttasafn










