Afrekssjóður ÍSÍ styrkir ungmenni á HM
Þann 15. maí sl. staðfesti framkvæmdastjórn ÍSÍ úthlutunarreglur vegna kostnaðarþátttöku ungmenna í landsliðsverkefnum. Tilgangur reglnanna er að setja ramma um styrki til sérsambanda ÍSÍ vegna kostnaðarþátttöku ungmenna í landsliðsstarfi á vegum sérsambanda ÍSÍ í samræmi við Afreksstefnu ÍSÍ.
Meginmarkmið styrkveitinganna er að styðja ungmenni fjárhagslega sem taka þátt í landsliðsstarfi á vegum sérsambanda ÍSÍ og þurfa að greiða kostnað vegna þátttökunnar að fullu eða að hluta. Einnig að jafna möguleika ungmenna á þátttöku í landsliðsstarfi sérsambanda ÍSÍ.
LH sótti um styrk fyrir hönd þeirra sjö ungmenna sem fóru á HM sl. sumar og niðurstaðan varð sú að Afrekssjóður styrkir hvert og eitt þeirra um rúmar 200.000 kr. Styrkurinn er gríðarlega mikilvægur stuðningur við ungmennin okkar og mikil hvatning.
Er þetta hluti af því aukna fjármagni sem stjórnvöld hafa sett í Afrekssjóð á þessu ári og markar sú ákvörðun tímamót í allri umgjörð afreksíþrótta í heild sinni. Vonast er til að sambærilegt fjármagn verði til úthlutunar til sérsambanda úr Afrekssjóði til frambúðar.
Fréttasafn










