Jólakveðja frá formanni LH
Jóla- og nýárskveðja frá formanni LH

Árið 2025 hefur verið mjög viðburðaríkt hjá hestamönnum landsins ef marka má fréttir af viðburðum, ferðum, námskeiðahaldi, keppni, útgáfu fræðslumynda og bóka og svo mætti lengi telja.
Stjórn, starfsmenn og nefndir hjá Landssambandi hestamannafélaga hafa haft úr miklu að moða og það verður að segjast eins og er að það er ekki lognmolla í kringum hestafólk eða málefni tengdum hestum bæði innanlands sem erlendis.
Við byrjuðum árið með trompi þegar Sigurbjörn Bárðarson hlaut þann heiður að vera kosin í Heiðurshöll ÍSÍ. Það er fyrsta skipti sem hestamaður kemst í Heiðurshöllina og hann er auk þess sá fyrsti og eini sem hefur verið kjörinn Íþróttamaður ársins og það var árið 1993.
Það var mikil áhersla lögð á árinu í undirbúning fyrir Heimsmeistaramótið í Sviss þar sem bretta þurfti upp ermar og safna peningum til að senda fríðan flokk knapa og hesta á mótið. Með samhentum hópi í landsliðsnefnd og miklum stuðningi styrktaraðila náðist góður árangur við að fjarmagna ferðina sem stuðlaði svo að enn betri árangri landsliða okkar.
Allra sterkustu 2025 tókst mjög vel og voru atriðin sem sýnd voru frábær og stuðningur þeirra sem mættu, styrktu landsliðin okkar og keyptu folatolla er ómetanlegur. Við þökkum öllum sem tóku þátt og lögðu okkur lið, fyrir stuðninginn.
Stóra málið hjá stjórn LH á árinu var að snúa við taprekstri á rekstri sambandsins sem hefur verið viðloðandi seinustu árin og það tókst með samstilltu átaki starfsmanna og stjórnar.
Á vordögum leiddi stjórnin stefnumótun fyrir árin 2026 til 2030 og tóku félögin um landið virkan þátt og var þeirri vinnu svo framhaldið á formannafundi sem haldinn var í október. Stefnumótunin er á lokametrunum og verður kynnt vel á nýja árinu.
Við höfum unnið þétt að því að auka sýnileika okkar innan ÍSÍ og eitt skref í þá átt var að fá kjörinn fulltrúa hestamanna í framkvæmdastjórn ÍSÍ. Það var sögulegur viðburður þegar Þórdís Anna Gylfadóttir náði frábæru kjöri í stjórn með næstflestum fjölda atkvæða.
Við vorum virk í alþjóðlegu samstarfi bæði með Norðurlandaþjóðunum og FEIF, við mótuðum nýja stefnu í Landsliðsnefnd, réðum nýja þjálfara, opnuðum nýja vefsíðu, gerðum tilraun með teljara á reiðstígum, tókum þátt í umræðu um taðlosun og beittum okkur þar og svo mætti lengi telja.
Við erum að kveðja flott ár og hefja nýtt ár með öllum þeim spennandi verkefnum sem liggja fyrir. Gróskan er gífurleg í hestamennskunni á Íslandi hvort sem er í almennri reiðmennsku eða í keppni. Félögin í kringum landið eru mjög virk í námskeiðshaldi og eitthvað í boði fyrir alla. Reiðskólar sem eru grunnurinn af nýliðuninni blómstra og fimleikar á hestum er grein sem er að slá í gegn hjá börnum og unglingum.
Við erum að fara inn í stórt keppnisár þar sem Landsmót 2026 verður haldið að Hólum á vegum Skagfirðings, Íslandsmót fullorðinna hjá Sörla í Hafnarfirði og Íslandsmót barna og unglinga hjá Sleipni á Selfossi.
Við stefnum líka á að fara með sterkan hóp úr landsliðunum okkar á Norðurlandamótið sem verður haldið að Margrétarhofi í Svíþjóð í sumar. Við hlökkum til að sjá ykkur öll á þessum og öðrum mótum ársins.
En það eru einnig fjölmörg önnur verkefni sem liggja fyrir. Stóru málin hjá félögunum kringum landið eru skipulagsmál. Á mörgum stöðum og þá aðallega í þéttbýli er verið að þrengja að hestamannahverfunum og á öðrum stöðum er verið að þrengja að reiðleiðum og jafnvel verið að loka á þekktar þjóðleiðir. Hér er mikilvægt að félögin með stuðningi Landssambandsins myndi sterka heild til að verja hagsmuni hestamanna. Við verðum að standa saman og tryggja að sveitafélögin hafi okkur alltaf með sem umsagnaraðila þegar skipulag er rætt eða stendur til að breyta því.
Mig langar að lokum að þakka ykkur öllum fyrir þetta viðburðaríka ár. Þetta var fyrsta heila starfsárið mitt sem formaður og ég hef haft bæði ánægju og gleði að þvi að vinna að málefnum hestamanna vítt og breitt. Við erum með frábært starfsfólk og mjög sterka stjórn sem vinnur ötullega að hagsmunum hestafólks og hestamennskunar.
Ég óska ykkar gleðilegra jóla og farsældar á komandi ár. Ég hlakka til samstarfsins á nýja árinu og stóra ársins sem fram undan er. Höldum í gleðina, jákvæðnina og samheldnina.
Jóla- og nýárskveðja,
Linda Björk Gunnlaugsdóttir
Fréttasafn
















