Jólakveðja frá formanni LH

24. desember 2025

Jóla- og nýárskveðja frá formanni LH

Árið 2025 hefur verið mjög viðburðaríkt hjá hestamönnum landsins ef marka má fréttir af viðburðum, ferðum, námskeiðahaldi, keppni, útgáfu fræðslumynda og bóka og svo mætti lengi telja.


Stjórn, starfsmenn og nefndir hjá Landssambandi hestamannafélaga hafa haft úr miklu að moða og það verður að segjast eins og er að það er ekki lognmolla í kringum hestafólk eða málefni tengdum hestum bæði innanlands sem erlendis.


Við byrjuðum árið með trompi þegar Sigurbjörn Bárðarson hlaut þann heiður að vera kosin í Heiðurshöll ÍSÍ. Það er fyrsta skipti sem hestamaður kemst í Heiðurshöllina og hann er auk þess sá fyrsti og eini sem hefur verið kjörinn Íþróttamaður ársins og það var árið 1993.


Það var mikil áhersla lögð á árinu í undirbúning fyrir Heimsmeistaramótið í Sviss þar sem bretta þurfti upp ermar og safna peningum til að senda fríðan flokk knapa og hesta á mótið. Með samhentum hópi í landsliðsnefnd og miklum stuðningi styrktaraðila náðist góður árangur við að fjarmagna ferðina sem stuðlaði svo að enn betri árangri landsliða okkar.


Allra sterkustu 2025 tókst mjög vel og voru atriðin sem sýnd voru frábær og stuðningur þeirra sem mættu, styrktu landsliðin okkar og keyptu folatolla er ómetanlegur. Við þökkum öllum sem tóku þátt og lögðu okkur lið, fyrir stuðninginn.


Stóra málið hjá stjórn LH á árinu var að snúa við taprekstri á rekstri sambandsins sem hefur verið viðloðandi seinustu árin og það tókst með samstilltu átaki starfsmanna og stjórnar. 


Á vordögum leiddi stjórnin stefnumótun fyrir árin 2026 til 2030 og tóku félögin um landið virkan þátt og var þeirri vinnu svo framhaldið á formannafundi sem haldinn var í október. Stefnumótunin er á lokametrunum og  verður kynnt vel á nýja árinu.


Við höfum unnið þétt að því að auka sýnileika okkar innan ÍSÍ og eitt skref í þá átt var að fá kjörinn fulltrúa hestamanna í framkvæmdastjórn ÍSÍ. Það var sögulegur viðburður þegar Þórdís Anna Gylfadóttir náði frábæru kjöri í stjórn með næstflestum fjölda atkvæða.


Við vorum virk í alþjóðlegu samstarfi bæði með Norðurlandaþjóðunum og FEIF, við mótuðum nýja stefnu í Landsliðsnefnd, réðum nýja þjálfara, opnuðum nýja vefsíðu, gerðum tilraun með teljara á reiðstígum, tókum þátt í umræðu um taðlosun og beittum okkur þar og svo mætti lengi telja.


Við erum að kveðja flott ár og hefja nýtt ár með öllum þeim spennandi verkefnum sem liggja fyrir.  Gróskan er gífurleg í hestamennskunni á Íslandi hvort sem er í almennri reiðmennsku eða í keppni. Félögin í kringum landið eru mjög virk í námskeiðshaldi og eitthvað í boði fyrir alla. Reiðskólar sem eru grunnurinn af nýliðuninni blómstra og fimleikar á hestum er grein sem er að slá í gegn hjá börnum og unglingum.


Við erum að fara inn í stórt keppnisár þar sem Landsmót 2026 verður haldið að Hólum á vegum Skagfirðings, Íslandsmót fullorðinna hjá Sörla í Hafnarfirði og Íslandsmót barna og unglinga hjá Sleipni á Selfossi.

Við stefnum líka á að fara með sterkan hóp úr landsliðunum okkar á Norðurlandamótið sem verður haldið að Margrétarhofi í Svíþjóð í sumar. Við hlökkum til að sjá ykkur öll á þessum og öðrum mótum ársins.


En það eru einnig fjölmörg önnur verkefni sem liggja fyrir. Stóru málin hjá félögunum kringum landið eru skipulagsmál. Á mörgum stöðum og þá aðallega í þéttbýli er verið að þrengja að hestamannahverfunum og á öðrum stöðum er verið að þrengja að reiðleiðum og jafnvel verið að loka á þekktar þjóðleiðir. Hér er mikilvægt að félögin með stuðningi Landssambandsins myndi sterka heild til að verja hagsmuni hestamanna. Við verðum að standa saman og tryggja að sveitafélögin hafi okkur alltaf með sem umsagnaraðila þegar skipulag er rætt eða stendur til að breyta því.


Mig langar að lokum að þakka ykkur öllum fyrir þetta viðburðaríka ár. Þetta var fyrsta heila starfsárið mitt sem formaður og ég hef haft bæði ánægju og gleði að þvi að vinna að málefnum hestamanna vítt og breitt.  Við erum með frábært starfsfólk og mjög sterka stjórn sem vinnur ötullega að hagsmunum hestafólks og hestamennskunar.


Ég óska ykkar gleðilegra jóla og farsældar á komandi ár. Ég hlakka til samstarfsins á nýja árinu og stóra ársins sem fram undan er. Höldum í gleðina, jákvæðnina og samheldnina.



Jóla- og nýárskveðja,

Linda Björk Gunnlaugsdóttir


Fréttasafn

22. desember 2025
Landssamband hestamannafélaga óskar öllum hestamönnum nær og fjær gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári, með kærri þökk fyrir samstarfið á árinu.  Starfsfólk og stjórn LH
Eftir Berglind Karlsdóttir 18. desember 2025
Hekla Katharína Kristinsdóttir er reiðkennari ársins 2025
9. desember 2025
Ísólfur Líndal Þórisson hefur verið ráðinn landsliðsþjálfari A-landsliðs Íslands í hestaíþróttum
5. desember 2025
Alþjóðlegur dagur sjálboðaliða 5. desember
14. nóvember 2025
Form annafundur LH var haldinn laugardaginn 8. nóvember sl. Fundinn sóttu um áttatíu manns frá þrjátíu hestamannafélögum auk fulltrúa frá fastanefndum LH, dómarafélögunum og stjórn LH. Góðar og uppbyggilegar umræður urðu á fundinum sem stjórn LH tekur með sér í næsta starfsár og í undirbúning fyrir Landsþing 2026. Formaður LH, Linda Björk Gunnlaugsdóttir, fór í ræðu sinni yfir þau mál sem hafa verið fyrirferðarmest í starfsemi LH á árinu ásamt því að tæpa á helstu verkefnum sem framundan eru. Það eru mörg og umfangsmikil verkefni á borði stjórnar hverju sinni og hefur mikill tími farið fyrsta starfsárið hjá nýrri stjórn í að endurskipuleggja og hagræða í rekstri sambandsins. Afreksmálin eru alltaf fyrirferðarmikil á HM ári í verkefnum skrifstofu og stjórnar og eru afreksmálin á ákveðnum tímamótum núna þar sem samningar við landsliðsþjálfara eru lausir. Gjaldkeri LH, Ólafur Gunnarsson, fór yfir stöðu reikninga og uppfærðar fjárhagsáætlanir sem gera ráð fyrir á næstu tvö ár skili hagnaði en eins og áður kom fram hefur verið farið í hagræðingaraðgerðir á árinu í þeim tilgangi að snúa rekstri sambandsins til betri vegar. Starfshópar sem skipaðir voru skv. samþykkt landsþings 2024 kynntu sína vinnu frá landsþingi. Starfshópur um Íslandsmót telur ekki þörf á að gera breytingar á keppnishluta mótsins en leita þurfi leiða til að gera viðburðinn Íslandsmót að stærri viðburði fyrir áhorfendur. Starfshópur um innanhússmót lagði fram tillögu fyrir fundinn um haldið yrði 2ja til 3ja daga Íslandsmót innanhúss í lok innanhússkeppnistímabilsins 2026 til reynslu. Fundurinn vísaði tillögunni til stjórnar til nánari útfærslu og mun stjórn kalla til framhaldsfundar formanna til frekari umræðna. Æskulýðsbikar LH hlaut Hestamannafélagið Skagfirðingur og veittu yfirreiðkennari félagsins og formaður æskulýðsdeildar Skagfirðings bikarnum móttöku. Fulltrúar frá hestamannafélögunum Mána, Hring, Funa, Herði, Freyfaxa og Sleipni sögðu frá sínum verkefnum og helstu áskorunum. Voru það virkilega áhugaverðar frásagnir því flest hestamannafélög eru að eiga við svipaðar áskoranir þó aðstæður hjá hverju félagi séu mismunandi. Að loknum hefðbundnum fundarstörfum var fundinum skipt upp í þrjá umræðuhópa sem fjölluðu um stefnumótun, gjaldkerastörf og nýliðunar -og æskulýðsmál. Mikil umræða og góð vinna var í umræðuhópunum. Í hópnum um stefnumótum urðu mjög líflegar umræður og margir snertifletir ræddir á hinum ýmsu málum og ljóst að það er heilmikið að vinna úr í framhaldinu. Fundinum var skipt upp í sex minni hópa sem fjölluðu hver um sig um ákveðna þætti í starfsemi LH, hvaða markmið skuli setja og hvernig skuli ná þeim. Stefnumótunarfundurinn var framhald af opnum stefnumótunarfundi sem haldinn var sl. vor með fulltrúum hestamannafélaganna. Hópurinn um æskulýðs- og nýliðunarmál fjallaði um þátttöku stráka í hestamennsku, félagshesthús og almenna stöðu hjá félögunum. Margar hugmyndir komu upp og góðar umræður sköpuðust. Í gjaldkerahópnum var rætt um samskipti við sveitarfélög, fjármál hestamannafélaga, félög í almannaheilaskráningu og fyrirmyndafélög ásamt styrkjum til hestamannafélaga. Fjármál hestamannafélaganna eru almennt í góðum málum og faglega staðið að þeim en slíkt er algjör forsenda fyrir því að gott samtal geti átt sér stað við sveitarfélögin þegar kemur að styrkjamálum hins opinbera. Félögin voru einnig hvött til að skrá félagið á almannaheillaskrá en það er gott verkfæri þegar leitað er styrkja hjá almennum fyrirtækjum og veitir skattaafslátt á móti. Einnig voru félögin hvött til að hefju vinnu við að gerast fyrirmyndarfélag ÍSÍ og er það holl og góð vinna til að bæta starfshætti félagsins. Félög geta leitað til hvors annars um þau gögn sem þarf að skila og voru félögin hvött til að vinna þau saman. Samhliða formannafundi var haldinn mótanefndafundur sem um tuttugu manns sátu, en fyrirhugað er að halda framahaldsmótanefndafund um næstu mánaðamót til að ræða frekar mótadagskrá ársins. Stjórn LH þakkar formönnum hestamannafélaga í landinu og öðrum þátttakendum á formannafundi fyrir afar uppbyggilegar umræður sem munu nýtast vel á komandi starfsári. Skýrsla stjórnar LH 2024-2025
12. nóvember 2025
Ættingjar fyrsta heiðursfélaga LH afhentu LH viðurkenningarskjalið til varðveislu
11. nóvember 2025
Guðni Halldórsson og Kristinn Skúlason hlutu gullmerki LH
9. nóvember 2025
Haraldur Þórarinsson er heiðursverðlaunum LH sannarlega verðugur
9. nóvember 2025
Gott æskulýðsstarf er grunnurinn að framtíð hestamennskunnar
9. nóvember 2025
Á Uppskeruhátíð LH voru krýndir knapar ársins 2025 og keppnishestabú ársins valið. Að baki valinu er valnefnd sem er skipuðuð fjölbreyttum hópi og þar eiga fulltrúa stjórn LH, GDLH, HÍDÍ, FT og fjölmiðlar. Knapi ársins 2025 er Konráð Valur Sveinsson Konungur kappreiðanna á Íslandi þessi misserin er Konráð Valur, en hann átti frábært ár í skeiðgreinum. Konráð setti á árinu heimsmet í 250 m skeiði, hann er tvöfaldur Íslandsmeistari í skeiðkappreiðum, vann tvo Reykjavíkurmeistaratitla og er einnig samanlagður sigurvegari skeiðleika Skeiðfélagsins. Íþróttaknapi ársins 2025 er Ásmundur Ernir Snorrason Ásmundur varð Íslandsmeistari í fjórgangi og samanlögðum fjórgangsgreinum á Hlökk frá Strandarhöfði, samanlagður Íslandsmeistari í fimmgangsgreinum á Aski frá Holtsmúla ásamt því að sigra fjölda greina á Reykjavíkurmeistaramóti. Hann náði þeim eftirtektarverða árangri á Hlökk að ríða oftar en einu sinni yfir 9 í meðaleinkunn bæði í T1 og T2 á árinu. Skeiðknapi ársins 2025 er Konráð Valur Sveinsson Konráð setti á árinu heimsmet í 250 m skeiði á Kastor frá Garðshorni þegar þeir félagar hlupu sprettinn á 21,06 sek á Íslandsmótinu í sumar. Konráð er þar að auki Íslandsmeistari í 100 m skeiði og 250 m skeiði ásamt því að hafa sigrað sömu greinar á Reykjavíkurmeistaramótinu. Hann er einnig samanlagður sigurvegari skeiðleika Skeiðfélagsins og þar með Ödershafinn 2025. Gæðingaknapi ársins 2026 er Jakob Svavar Sigurðsson Jakob sigraði B-flokk á Fjórðungsmóti Vesturlands á eftirminnilegan hátt á Kór frá Skálakoti með einkunina 9,24. Reiðmennska Jakobs geislar ávallt af fagmennsku og krafti. Kristján Árni Birgisson og Védís Huld Sigurðardóttir eru efnilegustu knapar ársins 2025 Kristján Árni Birgisson Kristján varð á árinu tvöfaldur heimsmeistari í ungmennaflokki þegar hann sigraði 100 m skeið og 250 m skeið á Kröflu frá Syðri-Rauðalæk. Hann varð einnig Íslandsmeistari í 100 m skeiði á Kröflu og gæðingaskeiði ungmenna á Súlu frá Kanastöðum. Védís Huld Sigurðardóttir Védís varð á árin tvöfaldur heimsmeistari í ungmennaflokki, í tölti og fjórgangi á Ísak frá Þjórsárbakka. Hún sigraði einnig tölt og fjórgang á Íslandsmótinu á Ísaki. Sérstök verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í ungmennaflokki hlaut Jón Ársæll Bergmann Jón Ársæll Bergmann varð á árinu þrefaldur heimsmeistari í ungmennaflokki á Hörpu frá Höskuldsstöðum. Hann sigraði fimmgang, gæðingaskeið og samanlagðar fimmgangsgreinar á mótinu ásamt því að ná frábærum árangri á fjölda móta hér á Íslandi sumarið 2025. Keppnishestabú ársins 2025 er Strandarhöfuð Strandarhöfuð hefur á undanförnum árum stimplað sig inn sem eitt af sterkustu ræktunarbúum keppnishrossa í hestamennskunni á Íslandi. Kórónan í ræktuninni er án efa Hlökk frá Strandarhöfði sem á árinu varð Íslandsmeistari í fjórgangi og samanlögðum fjórgangsgreinum auk þess að standa upp úr í töltsýningum í T1 og T2.
Lesa meira