Alls eru 84 knapar í afreksstarfi LH
Knapar í afreksstarfi LH eru fyrirmyndir annarra knapa og hver og einn er mikilvægur hlekkur í þeirri keðju sem afreksstarfið myndar.

Undanfarna daga hefur verið mikið um að vera í afreksmálum hjá LH. Landsliðshóparnir hafa nú verið kynntir með pompi og prakt, vel skipaðir hópar af framúrskarandi hestaíþróttafólki hvort sem er í A-liðinu eða U21. Báðir hóparnir eru með nýja þjálfara sem munu án efa leggja allt undir við að ná góðum árangri með sína knapa.
Vetrarstarfið er framundan hjá landsliðshópunum með ýmis konar fræðslu og viðburðum og undirbúningur er þegar hafinn af fullum krafti. Áhersla er lögð á heilbrigði, yfirsýn yfir hestinn í heild og haldið verður áfram að vinna með hugarfar knapans, markmið, skipulag og líkamlegt hreysti hans.
Hæfileikamótun LH er einnig á fullu og þar eru 42 ungir knapar á aldrinum 14-17 ára, en starfið í Hæfileikamótun er gríðaröflugt. Áhuginn, krafturinn og ekki síst hestakosturinn sem knaparnir í Hæfileikamótun búa yfir er magnaður.
Þess má geta að samanlagt í báðum landsliðshópum og Hæfileikamótun eru 84 knapar í afreksstarfi sambandsins auk þjálfara og starfsfólks. Þessir 84 knapar eru þar með hluti af þeirri vegferð sem framundan er í afreksmálum LH, knapar sem vinna að persónulegum markmiðum ásamt því að vera hluti af afrekstarfi LH. Allir þessir knapar eru afreksfólk í íþróttinni, fyrirmyndir annarra knapa og hver og einn er mikilvægur hlekkur í þeirri keðju sem afreksstarfið myndar.
Framundan er stórt ár þar sem Íslandsmótin og Landsmót hestamanna á Hólum eru stærstu viðburðirnir hér á landi og þar að auki verður Norðurlandamót íslenska hestsins haldið á glæsilegu mótssvæði á Margaretehof í Suður-Svíþjóð.
Margaretehof er staðsett á nálægð við Kristianstad, þar sem íslenska karlalandsliðið í handbolta hefur undanfarið leikið í riðlakeppni EM og Íslendingum hefur ævinlega verið tekið fagnandi í borginni. Það liggur því beint við að fjölmenna til Svíþjóðar í byrjun ágúst, fylgja íslenska liðinu og upplifa það besta sem hestamennskan á Norðurlöndum hefur upp á að bjóða.
Það má einnig segja að árið sé einskonar forleikur að því þegar íslenska landsliðið mætir til leiks á Heimsmeistaramótinu í Rieden í Þýskalandi árið 2027 þar sem við munum að venju standa í eldlínunni með okkar sterkustu knapa.
Áfram Ísland!
Fréttasafn
























