Nýr landsliðsþjálfari A-landsliðsins í hestaíþróttum
Ísólfur Líndal Þórisson hefur verið ráðinn landsliðsþjálfari A-landsliðs Íslands í hestaíþróttum
Ísólfur Líndal Þórisson hefur verið ráðinn landsliðsþjálfari A-landsliðs Íslands í hestaíþróttum. Ísólfur er hestamönnum víða um heim að góðu kunnur og hefur í gegnum tíðina náð góðum árangri á keppnisbrautinni í ýmsum greinum.
Snemma vakti Ísólfur athygli fyrir faglega framkomu og fagmennsku við þjálfun og kennslu. Hann útskrifaðist sem reiðkennari frá Hólaskóla árið 2005 og hlaut þar viðurkenningu fyrir reiðkennslu og hefur starfað við kennslu allar götur síðan.
Hann var valinn gæðingaknapi ársins 2013 og reiðkennari ársins hjá LH árið 2020. Hann starfar nú sem kennari við Háskólann á Hólum samhliða því að stunda hrossarækt á Lækjarmóti og reka tamningastöð ásamt fjölskyldu sinni á Staðarhofi í Skagafirði.
Hjá landsliðshópum Íslands eru heilmikil verkefni framundan, en landsliðin koma saman í fræðslu og ýmsum verkefnum yfir árið ásamt því að taka þátt á Norðurlandamótinu í Svíþjóð sumarið 2026 og Heimsmeistaramótinu í Rieden í Þýskalandi 2027.
Nýr landsliðshópur A-landsliðsins verður kynntur snemma á nýju ári og ljóst að Ísólfi bíður spennandi verkefni að setja saman og vinna með hópnum á komandi árum.
Atrennan að HM 2027 er hér með hafin og Landssamband Hestamannafélaga býður Ísólf velkominn til starfa og væntir mikils af samstarfi við hann með íslenska landsliðið.
Áfram Ísland
Fréttasafn


















