Hestarnir okkar keppa á MUSTAD

2. júlí 2025

Í dag eru 32 dagar í að HM í hestaíþróttum hefjist og óhætt að segja að farið sé að örla á töluverðri eftirvæntingu með hestaáhuga fólks, en ekki síst meðal þeirra knapa sem standa nú með tærnar rétt við rás markið og bíða þess og vona að verða kallaðir inn í hópinn, en línurnar eru að skýrast með það nú þegar Íslandsmóti er rétt lokið.

Í undirbúningi á vegferð sem þessari þarf að huga að mörgu og eitt af því sem skiptir sköpum í ferlinu er að huga vel að járningum bæði heima áður en haldið er út en ekki síst á meðan á mótinu sjálfu stendur. Í teymi Íslands er því járningamaður og líkt og undangengin ár mun Erlendur Árnason fylgja liðinu á HM.


Við slógum á þráðinn til Ella á Skíðbakka eins og hann er jafnframt kallaður.


Hvað hefur oft fylgt liðnu á stórmót?

„Það er nú ekkert svo langt síðan ég fór að fylgja liðinu, hef farið á síðustu þrjú mót og fer með til Sviss. Ég tel að það sé mikilvægt að það sé járningamaður í teyminu sem hefur mikla reynslu af keppnis- og kynbótajárningum. Það er margt sem getur komið upp á ögurstundu og þá er gott að búa að reynslunni sem getur skilið á milli þess hvort hesturinn verði keppnisfær eða ekki, eins og sýndi sig sannarlega á síðasta móti þegar skeifa fór undan hjá hestinum hennar Herdísar rétt áður en komið var að keppni í tölti, hennar einu grein á mótinu. Það fór á besta mögulega veg og þau stóðu uppi sem Heimsmeistarar.“


„Á mótinu er ég ekki einungis að huga að járningum, ég sé einnig um að fara með hestana í fóta -og búnaðarskoðun og tek þannig það álag af knöpunum. Þar er ég mjög reyndur þekki þetta af eigin raun sem dómari og er með allar reglur á hreinu.“


„Sem hluti af landsliðsteyminu eru svo fjölmörg önnur verkefni ég tek að mér þegar á mótið er komið til dæmis redda reiðhjólum og bílaleigubílum fyrir utan annað snatt. Svo getur ýmislegt komið upp á sem þarf að redda og þá hef ég oft getað lagt mitt af mörkum. Til dæmis slasaðist knapi á ökla á síðasta móti og þá gat ég stigið inn í verkefnin hans.“


Þú járnar töluvert af keppnis og kynbótahrossum ekki satt?


,,Jú heldur betur, ég sérhæfi mig algjörlega í því og á síðustu árum hef ég verið að járna í kringum 20% af öllum sýndum kynbótahrossum á landinu þá taldist mér til að um þriðjungur af hestunum í fullorðinsflokki á Íslandsmóti hafi verið járnaður af mér.“


„Stór hluti þeirra hesta sem hafa verið að fara á HM síðustu ár hef ég einnig verið að járna og það er mjög mikill kostur fyrir mig, þá þekki ég hestinn og hvað það er sem ég vil leggja til í járningum og hófhirðu þess hests.“


„Ég er að vinna alla daga, við að járna hesta fyrir þessi verkefni og legg mig gífurlega mikið fram við það. Alla jafna er ég að járna 6-7 hesta á dag, fimm daga vikunnar. Þannig reiknast mér til að ég hafi járnað um 50.000 hesta á ferlinum sem verður að teljast nokkuð gott. En þetta er mjög krefjandi vinna og eins og aðrir íþróttamenn og þeir sem vilja vera í fremstu röð þarf maður að hugsa vel um skrokkinn á sér. Ég fer til mynda alltaf í ræktina áður en ég fer að járna til að styrkja mig og halda mér í góðu formi. Það gengur ekki að vera með bumbuna út í loftið ef maður ætlar að vera að járna á þessu leveli.“


Hvernig kom það til að þú fórst að járna?


„Ég er alinn upp í sveit og í kringum hesta og þeir hafa alltaf verið mitt aðal áhugamál. Ég fór á Hóla fyrir 35 árum og fór svo í framhaldinu að vinna í Þýskalandi þar sem ég var að þjálfa og temja hesta. Þar var ég einnig að járna með fram hinu en fann svo þegar ég kom heim aftur í kringum 2004 að köllunin mín lægi meira á sviði járninga en tamninga. Það skiptir hins vegar miklu máli að ég hef góða þekkingu og tilfinningu fyrir hreyfifræði hesta og ég hef alltaf spáð mikið í því. Þegar maður er að járna hesta fyrir ákveðin verkefni er lykilatriði að skilja hvernig hesturinn hreyfir sig og hvað þarf til, svo að járningin bæti þá góðu kosti sem hesturinn hefur yfir að búa. Járningin er einn af þessum hlekkjum sem þurfa að hanga saman svo hesturinn geti náð sínum besta árangri.“


Nú keppir landsliðið á Mustad skeifum hvernig hefur það reynst?


„Það skiptir auðvitað mjög miklu máli að vera með góðar skeifur og Mustad býður upp á skeifur í fremstu röð. Ég vel skeifur sem passa hestinum vel og hef verið sérstaklega ánægður með nýju Mustad Libero Ice afturfótaskeifurnar, þar hafa gott lag og passa vel undir flesta hesta. Þær henta okkar íslenska gang hesti vel og það er mín tilfinning að það sé mun minna um ágrip þegar þær eru notaðar.“


„Við vorum einnig að nota Mustad á síðasta móti og þar vantaði ekki árangurinn og ég geri ráð fyrir því að þær muni einnig hjálpa okkur að ná langt á þessu móti.“

 

Við þökkum Ella kærlega fyrir spjallið og óskum honum góðs gengis í sínum verkefnum á HM.  Við bendum jafnframt á að Mustad skeifurnar fást í verslunum Líflands, en það eru OJ&K sem eru með umboðið fyrir Mustad á Íslandi.



#Áfram Ísland.

 

Fréttasafn

Eftir Jónína Sif Eyþórsdóttir 29. júní 2025
Það má segja að það hafi kristallast í úrslitum Íslandsmóts í dag á hversu háu stigi íþróttakeppnin er. Litlu munar á milli knapa í flestum greinum og heilt yfir frábært mót og sterk úrslit. Veðrið lék ekki við keppendur í byrjun dags en átti heldur betur eftir batna þegar leið á daginn og lauk frábæru móti í fallegu Íslensku sumarveðri.
Eftir Jónína Sif Eyþórsdóttir 28. júní 2025
Dásamlegur dagur að baki á Brávöllum, Selfossi þar sem veðrið lék við keppendur á Íslandsmótinu í hestaíþróttum.  Dagurinn hófst af krafti þegar seinni tveir sprettirnir í 250m skeiði fóru fram en þar gerðu þeir Konráður Valur og Kastor frá Garðshorni á Þelamörk sér lítið fyrir og settu nýtt heimsmet þegar þeir fóru brautina á einungis 21,06 sek. Fyrra heimsmet var 21,07 sek.
27. júní 2025
Jón Ársæll leiðir keppni í Fimmgang, Fjórgang, Tölti og Slaktaumatölti ungmenna.
Eftir Berglind Karlsdóttir 27. júní 2025
Jón Ársæll leiðir líka í fimmgangi
Eftir Berglind Karlsdóttir 27. júní 2025
Tilkynning frá stjórn LH um þátttökurétt á Fjórðungsmóti Vesturlands
Eftir Jónína Sif Eyþórsdóttir 26. júní 2025
Kristján Árni og Súla frá Kanastöðum eru Íslandsmeistarar í ungmennaflokki, annað árið í röð.
Eftir Jónína Sif Eyþórsdóttir 25. júní 2025
Nú stendur yfir Íslandsmót í hestaíþróttum á Brávöllum, Selfossi. Mótið hófst á keppni í fjórgangi.
Eftir Jónína Sif Eyþórsdóttir 25. júní 2025
Icelandair Cargo hefur áratuga reynslu af hestaflutningum á milli landa og hefur um margra ára skeið verið einn okkar sterkustu bakhjarla, í apríl síðastliðinn var skrifað undir styrktarsamning til tveggja ára, milli Landsliðs Íslands í hestaíþróttum og Icelandair Cargo.
Eftir Jónína Sif Eyþórsdóttir 25. júní 2025
Áhugamannamót Íslands 2025 – Þrír dagar af hestamennsku, gleði og samveru
Eftir Jónína Sif Eyþórsdóttir 23. júní 2025
Nú styttist heldur betur í HM í hestaíþróttum, einungis eru 42 dagar þar til stórhátíðin hefst!
Lesa meira