Viðurkenningarskjal fyrsta heiðursfélaga LH afhent LH
Ættingjar fyrsta heiðursfélaga LH afhentu LH viðurkenningarskjalið til varðveislu

Fyrsti heiðursfélagi Landssambands hestamannafélaga var Ásgeir Jónsson frá Gottorp. Heiðursverðlaunin hlaut hann "í viðurkenningar- og þakklætisskyni fyrir frábær ritstörf um hesta og hestamennsku" og veitti þeim móttöku á ársþingi LH árið 1954.
Ættingjar Ásgeirs buðu LH Heiðursverðlaunaskjalið til varðveislu og á formannafundi LH 2025 veitti Linda Björk Gunnlaugsdóttir formaður LH skjalinu viðtöku úr hendi Steinsþórs Freys Steinþórssonar, Davíðs Árnasonar og Viktors Hrafns Einarssonar, en þeir eru afkomendur uppeldisdóttur Ásgeirs.
Skjalið er fallega skrautritað og undirritað af þáverandi stjórnarmönnum LH, þeim Steinþóri Gestsyni formanni LH, Pálma Jónssyni gjaldkera, Ara Guðmundssyni ritara, Kristni Hákonarsyni meðstjórnanda og Samúel Kristbjarnarsyni meðstjórnanda.
Ásgeir Jónsson fæddist á Þingeyrum í Húnavatnssýslu árið 1876 og lést í Reykjavík árið 1963, þar sem hann bjó síðustu árin.
Ásgeir varð búfræðingur frá Hólum 1905 og stundaði fram yfir þrítugt ýmis sveitastörf, einkum fjárhirðingu og tamningar hesta. Hann hóf búskap að Gottorp í Vestur-Húnavatnssýslu 1908-1942. Í Gottorp varð hann landsfrægur fyrir ræktun á fé og fór fé hans, Gottorpsféð, víða um land sem kynbótafé. Síðar var hann búsettur í Reykjavík til æviloka. Þar stundaði hann einkum ritstörf meðan heilsa hans leyfði. Eftir hann liggja bækurnar; Horfnir góðhestar I (1946) og Horfnir góðhestar II (1949), Samskipti manns og hests (1951) og Forystufé (1953).
Ásgeir varð riddari hinnar íslensku fálkaorðu 1952, heiðursfélagi Landssambands hestamannafélaga, Fáki í Reykjavík og Léttfeta í Skagafirði.
Kona hans var Ingibjörg Björnsdóttir (f. 31. mars 1886, d. 1970). Þau voru barnlaus en tóku nokkur börn í fóstur og ólu upp sem sín eigin.
Þau hjónin frá Gottorp eru jarðsett í steyptum heimagrafreit á jörðinni, við svokallað Kerlingarsíki sem gerður var árið 1963 og var það síðasti heimagrafreitur sem leyfi var veitt fyrir á Íslandi. Þar hjá var í Blesi, hinn frægi hestur Ásgeirs, heygður á staðnum þar sem hann stóð jafnan og horfði yfir til æskustöðvanna í Vatnsdalnum.
Stjórn LH er ættingjum Ásgeirs afar þakklát fyrir þessa merkilegu gjöf og verður skjalið innrammað og varðveitt á skrifstofu LH.
Fréttasafn

















