Æsi spennandi lokadagur Íslandsmóts

29. júní 2025

Það má segja að það hafi kristallast í úrslitum Íslandsmóts í dag á hversu háu stigi íþróttakeppnin er. Litlu munar á milli knapa í flestum greinum og heilt yfir frábært mót og sterk úrslit. Veðrið lék ekki við keppendur í byrjun dags en átti heldur betur eftir batna þegar leið á daginn og lauk frábæru móti í fallegu Íslensku sumarveðri.

100m Skeið

Dagurinn hófst á keppni í 100 metra skeiði. Konráð Valur og Kastor frá Garðshorni á Þelamörk bætt við sig Íslandsmeistara titli þegar þeir fóru brautina á besta tímanum 7,40 sek.


En keppnin var jöfn og rétt á eftir þeim á tímanum 7,47 voru þau Ingibergur Árnason og Sólveig frá Kirkjubæ. Í þriðja sæti voru svo Sigurður Sigurðarson og Tromma frá Skúfslæk á 7,51 sek.


Í ungmennaflokki voru það þau Kristján Árni og Krafla frá Syðri-Rauðalæk sem voru fljótustu en þau fóru 100 m. á tímanum 7,59 sek. Hann er einnig Íslandsmeistari í Gæðingaskeiði. Í öðru sæti varð Guðrún Lilja og Glitnir frá Skipaskaga tímanum 7,84 og í því þriðja Sara Dís Snorradóttir á Djarfi frá Litla-Hofi á 7,84 sek.


Fjórgangur

Fyrsta atriði eftir hádegi var svo A úrslit í fjórgangi ungmenna. Þar var keppnin hörð og voru allir knapar með yfir 7 í einkunn. Það var þó glæsileg og jöfn sýning hjá Védísi Huld og Ísak frá Þjórsárbakka sem tryggði þeim sigurinn og Íslandsmeistaratitilinn.


Í öðru sæti er Guðmar Hólm á Gretti frá Hólum  með 7,43 í einkunn og þriðji varð Ragnar Snær á Stimpil frá Strandarhöfði með 7,40 í einkunn. Ragnar keppir sem gestur á mótinu og tekur því ekki sæti. Fjórði var Jón Ársæll og Halldóra frá Hólaborg, en þau leiddu inn í úrslitin. Þau eru einnig Íslandsmeistarar í samanlögðum fjórgangsgreinum.


A úrslit í fjórgangi fullorðinna voru einnig ákaflega spennandi. Ásmundur Ernir og Hlökk frá Strandarhöfði komu efst inn í úrslitin og sigruðu nokkuð örugglega með 8,20 í einkunn en líkt og í forkeppninni voru þeir og Jakob Svavar á Skarpi frá Kýrholti rétt á hælunum á þeim og enduðu með 8,07. Árni Björn og Kriki frá Krika gerðu líka harða atlögu í úrslitunum og enduðu með 8,03.


Barbara Wenzl og Loftur frá Kálfsstöðum hlutu að sýningu lokinni FT fjöðrina, í umsögn FT fjöðrina segir: ,,Reiðmennska þess sem FT fjöðrina hlýtur skal einkennast af léttleika, lipurð og samspili þar sem saman fer einstök útgeislun og jafnvægi. Knapi og hestur ljóma af heilbrigði, lífskrafti og gleði.“

Fimmgangur

Næst á dagskrá var keppni í fimmgang. Að venju hófust leikar í ungmennaflokki þar sem Jón Ársæll og Harpa frá Höskuldsstöðum áttu frábæra sýningu og tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn með 7,55 í einkunn.  Næst á eftir þeim voru þau Fanndís  og Sproti frá Vesturkoti með 7,43 í einkunn.


Í þriðja sæti og jafnframt Íslandsmeistarar í samanlögðum fimmgangsgreinum var Þórgunnur Þórarinsdóttir á Djarfi frá Flatatungu með 7,36 í einkunn. Hún hlaut einnig FT fjöðrina. Glæsilegur árangur það.


A úrslit í flokki fullorðinna var einnig mjög spennandi og rak þar hver glæsi sýningin aðra. Það fór þó svo að Þorgeir Ólafsson og Aþena frá Þjóðólfshaga 1 sem leiddu eftir forkeppni héldu uppteknum hætti og standa uppi sem Íslandsmeistarar í fimmgangi með 7,76 í einkunn.


Í öðru sæti voru þeir Teitur Árnason og Leynir frá Garðshorni með 7,71. Þriðja var svo  Glódís Rún á Snillingi frá Íbishóli með 7,62 í einkunn.




Slaktaumatölt

Þá var komið að keppni ungmenna í Slaktaumatölti. Þar voru það Jón Ársæll og Díana frá Bakkakoti sem áttu sviðið og nældu sér í sinn þriðja Íslandsmeistaratitil. Í öðru sæti voru þau Lilja Rún og Arion frá Miklholti með 7,75 í einkunn, en þau eru gestir á mótinu og taka þar af leiðandi ekki sæti. Silfrið komi því hendur Huldu Maríu og Lifra frá Lindarlundi sem hlutu  7,63 í einkunn.


Í fullorðinsflokki var virkilega spennandi og máttu litlu muna milli keppenda. En það voru það svo þær Helga Una og Ósk frá Stað sem tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn með 8,63 í einkunn eftir glæsilega sýningu.

Jöfn í örðu sæti með 8,46 í einkunn voru svo þau Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir og Hulinn frá Breiðstöðum og Jakob Svavar Sigurðsson á Hrefnu frá Fákshólum.

Tölt

Það má segja að stemmingin hafi verið orðin rafmögnuð þegar komið var að keppni í tölti.  Dagurinn búinn að líða á ljóshraða á sterku og glæsilegu Íslandsmóti þar sem mótshaldarar eiga stórt hrós skilið.


Í ungmennaflokki komu efst inn Jón Ársæll og Heiður frá Eystra-Fróðholti, en þrátt fyrir drengilega keppni náður þeir ekki að skáka Védísi Huld og Ísak frá Þjórsárbakka sem hömpuðu sínum öðrum Íslandsmeistaratitli eftir frábæra sýningu sem hlaut 8,00 í einkunn. Jón og Heiður hlutu 7,89 og næstir á eftir þeim voru þeir Guðmar og Grettir frá Hólum með 7,78 í einkunn.


En dagurinn leið ekki án þess að þar væri að finna örlitla dramatík. Það var ljóst frá upphafi að það stefndi í feikilega spennandi keppni milli þeirra Ásmundar, Jakobs og Árna á sínum úrvals tölthestum Hlökk, Skarp og Kastaníu og mátti vart á milli muna fyrr en komið var að hraða töltinu en þá fór því miður skeifa undan Hlökk og þar með voru draumar þeirra Ásmundar um að bæta við sig titli út um þúfur. En þau leiddu inn í forkeppnina með 9,13 í einkunn og hefðu einnig getað keppt til úrslita í slaktaumatölti.


Jakob Svavar og Skarpur kláruðu hins vegar sýninguna sína með stæl og tryggðu sér Íslandsmeistaratitil eftir að hafa hlotið 9,33 í einkunn. Í örðu sæti voru þau Árni Björn og Kastanía frá Kvistum með 8,94 og í þriðja sæti voru þeir Flosi Ólafsson og Röðull frá Haukagili á Hvítársíðu með 8,89 í einkunn.



Frábæru Íslandsmóti er nú lokið við óskum öllum ný krýndum Íslandsmeisturum innilega til hamingju og þökkum öllum keppendum, mótshöldurum og sjálfboðaliðum fyrir þeirra aðkomu að þessu glæsilega móti.


Fréttasafn

12. nóvember 2025
Ættingjar fyrsta heiðursfélaga LH afhentu LH viðurkenningarskjalið til varðveislu
11. nóvember 2025
Guðni Halldórsson og Kristinn Skúlason hlutu gullmerki LH
9. nóvember 2025
Haraldur Þórarinsson er heiðursverðlaunum LH sannarlega verðugur
9. nóvember 2025
Gott æskulýðsstarf er grunnurinn að framtíð hestamennskunnar
9. nóvember 2025
Á Uppskeruhátíð LH voru krýndir knapar ársins 2025 og keppnishestabú ársins valið. Að baki valinu er valnefnd sem er skipuðuð fjölbreyttum hópi og þar eiga fulltrúa stjórn LH, GDLH, HÍDÍ, FT og fjölmiðlar. Knapi ársins 2025 er Konráð Valur Sveinsson Konungur kappreiðanna á Íslandi þessi misserin er Konráð Valur, en hann átti frábært ár í skeiðgreinum. Konráð setti á árinu heimsmet í 250 m skeiði, hann er tvöfaldur Íslandsmeistari í skeiðkappreiðum, vann tvo Reykjavíkurmeistaratitla og er einnig samanlagður sigurvegari skeiðleika Skeiðfélagsins. Íþróttaknapi ársins 2025 er Ásmundur Ernir Snorrason Ásmundur varð Íslandsmeistari í fjórgangi og samanlögðum fjórgangsgreinum á Hlökk frá Strandarhöfði, samanlagður Íslandsmeistari í fimmgangsgreinum á Aski frá Holtsmúla ásamt því að sigra fjölda greina á Reykjavíkurmeistaramóti. Hann náði þeim eftirtektarverða árangri á Hlökk að ríða oftar en einu sinni yfir 9 í meðaleinkunn bæði í T1 og T2 á árinu. Skeiðknapi ársins 2025 er Konráð Valur Sveinsson Konráð setti á árinu heimsmet í 250 m skeiði á Kastor frá Garðshorni þegar þeir félagar hlupu sprettinn á 21,06 sek á Íslandsmótinu í sumar. Konráð er þar að auki Íslandsmeistari í 100 m skeiði og 250 m skeiði ásamt því að hafa sigrað sömu greinar á Reykjavíkurmeistaramótinu. Hann er einnig samanlagður sigurvegari skeiðleika Skeiðfélagsins og þar með Ödershafinn 2025. Gæðingaknapi ársins 2026 er Jakob Svavar Sigurðsson Jakob sigraði B-flokk á Fjórðungsmóti Vesturlands á eftirminnilegan hátt á Kór frá Skálakoti með einkunina 9,24. Reiðmennska Jakobs geislar ávallt af fagmennsku og krafti. Kristján Árni Birgisson og Védís Huld Sigurðardóttir eru efnilegustu knapar ársins 2025 Kristján Árni Birgisson Kristján varð á árinu tvöfaldur heimsmeistari í ungmennaflokki þegar hann sigraði 100 m skeið og 250 m skeið á Kröflu frá Syðri-Rauðalæk. Hann varð einnig Íslandsmeistari í 100 m skeiði á Kröflu og gæðingaskeiði ungmenna á Súlu frá Kanastöðum. Védís Huld Sigurðardóttir Védís varð á árin tvöfaldur heimsmeistari í ungmennaflokki, í tölti og fjórgangi á Ísak frá Þjórsárbakka. Hún sigraði einnig tölt og fjórgang á Íslandsmótinu á Ísaki. Sérstök verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í ungmennaflokki hlaut Jón Ársæll Bergmann Jón Ársæll Bergmann varð á árinu þrefaldur heimsmeistari í ungmennaflokki á Hörpu frá Höskuldsstöðum. Hann sigraði fimmgang, gæðingaskeið og samanlagðar fimmgangsgreinar á mótinu ásamt því að ná frábærum árangri á fjölda móta hér á Íslandi sumarið 2025. Keppnishestabú ársins 2025 er Strandarhöfuð Strandarhöfuð hefur á undanförnum árum stimplað sig inn sem eitt af sterkustu ræktunarbúum keppnishrossa í hestamennskunni á Íslandi. Kórónan í ræktuninni er án efa Hlökk frá Strandarhöfði sem á árinu varð Íslandsmeistari í fjórgangi og samanlögðum fjórgangsgreinum auk þess að standa upp úr í töltsýningum í T1 og T2.
Eftir Berglind Karlsdóttir 7. nóvember 2025
Það er í mörg horn að líta í afreksmálum sérsambands af þeirri stærðargráðu sem Landssamband Hestamannafélaga er.  Nú á haustdögum hefur landsliðsnefnd LH unnið að skoðun afreksmálanna í heild sinni og fjölmargir komið að þeirri vinnu ásamt starfshópnum sem skipaður var til verksins af stjórn LH. Samningar landsliðsþjálfaranna voru í gildi fram í lok september 2025 og runnu þar með sitt skeið og í kjölfarið hafa ýmsar hliðar afreksmálanna verið skoðaðar með það í huga að styrkja starfið enn frekar. Afreks- og landsliðsnefnd hefur á þessum tíma unnið skýran ramma um afreksstarfið byggt á afreksstefnu LH og ÍSÍ, skilgreint verkefni og skyldur þjálfara landsliðanna ásamt verkefnum og skyldum afreksstjóra LH. Þar að auki haf ýmsir verkferlar verið bættir innan afreksstarfsins og þeirra hópa sem starfrækir eru innan þess. Valteymi var sett á laggirnar til aðstoðar þjálfurum hópanna við val í afrekshópa. Valteymið samanstendur af þjálfara hvers hóps ásamt formanni landsliðsnefndar og afreksstjóra LH. Valteymið aðstoðar við gagnaöflun, greiningu árangurs og undirbúning valferlis fyrir hópana og hefur ráðgefandi hlutverk. Landsliðsþjálfari/yfirþjálfari Hæfileikamótunar hefur þó endanlegt ákvörðunarvald um val í hópa sína og ber ábyrgð á því vali. Hóparnir sem starfa undir afreksstarfi LH eru Hæfileikamótun LH, U21-landsliðið og A-landslið. 42 verðandi afreksknapar á aldrinum 14-17 ára voru á dögunum teknir inn í Hæfileikamótun LH sem samanstendur af tveimur hópum. Sigvaldi Lárus Guðmundsson yfirþjálfari Hæfileikamótunar er fullur tilhlökkunnar inn í starfsárið sem hefst þegar fyrsti hópur fer námsferð að Hólum í komandi viku. Svo verða vinnuhelgar eftir áramótin með eigin hest og tveir stórir fræðsludagar með sýnikennslum, fyrirlestrum og foreldrafundi. Hvað landsliðin tvö varðar er það skýrt markmið landsliðsnefndar að sterkustu knapar landsins hverju sinni skipi landsliðshópa LH sem starfrækir eru yfir árið. Landsliðsumgjörðin veitir hópunum reglulega fræðslu og utanumhald, vinnur að fjáröflunarmálum með ýmsum viðburðum og veitir knöpum hópanna tækifæri á að efla og styrkja sig sem afreksknapa árið um kring samhliða því að sinna íþróttinni á sínum heimavelli. Því er það stefnan að landsliðshóparnir nái yfir afreksknapana okkar og eðli málsins samkvæmt þrengjast svo hóparnir þegar líður að stórmótum líkt og HM um þá knapa og hesta sem eru í baráttu um sæti í lokahóp og staðfest er hvaða hestar eru í boði inn í verkefnið. Hlutverk hvers knapa þegar kemur að lokahóp fyrir stórmót skal vera skýrt og við kynningu lokahópa verða varaknapar tilkynntir og þeir hafa gríðarlega mikilvægt hlutverk alveg fram að brottför hrossa frá Íslandi á HM. Nú vinnur afreks- og landsliðsnefnd að því að finna landsliðsþjálfara U21 og A-landsliðanna til starfa, og áhugasömum þjálfaraefnum er bent á að hafa samband við Sigurbjörn Eiríksson formann landsliðsnefndar landslidsnefnd@lhhestar.is eða Berglindi Karlsdóttur framkvæmdarstjóra LH berglind@lhhestar.is og láta þannig vita að sér.
6. nóvember 2025
Íslenska landsliðinu í hestaíþróttum var boðið til móttöku á Bessastöðum, þar sem forseti Íslands Halla Tómasdóttir og Björn bóndi hennar tóku móti hópnum. Tilefni boðsins var frábær árangur Íslenska landsliðsins á HM í Sviss sl. sumar en íslenska landsliðið hlaut alls 9 gullverðlaun á mótinu auk þess að vinna liðabikarinn, stigahæst liða á mótinu. Mótakan var hin hátíðlegasta og var landsliðinu mikill heiður sýndur með því að vera boðið til hennar. Halla fór fögrum orðum um íslenska hestinn sem einn mikilvægasta sendiherra Íslands, því hvert sem hún færi bæri fljótlega á góma íslenski hesturinn og hans sérstaka lundarfar og gangtegundirnar fimm. Einnig hafði hún á orði hversu mikið afrek það væri að vinna liðabikarinn þar sem liðsheildin væri mikilvæg. Svo var gestum boðið að rölta um hið merka hús á Bessastöðum, skoða listaverkin og gjafir hinna ýmsu þjóðhöfðingja í gegnum tíðina, sem prýða húsið. Að lokum var stillt upp fyrir hópmyndatöku á tröppunum á Bessastöðum í haustblíðunni.
30. október 2025
Sigvaldi Lárus Guðmundsson yfirþjálfari Hæfileikamótunar LH næstu tvö árin
27. október 2025
Keppnishestabú ársins verða heiðruð á Uppskeruhátíð hestafólks
27. október 2025
Uppskeruhátíð hestafólks fer fram í Gamla Bíó laugardaginn 8. nóvember nk., þar sem hestafólk af landinu öllu kemur saman til að fagna frábæru keppnisári og heiðra þá sem skarað hafa fram úr. Kvöldið verður í senn hátíðlegt og skemmtilegt. Veitingar verða í höndum LÚX veisluþjónustu, sem býður upp á dýrindis mat í takt við hátíðlega stemninguna í Gamla Bíó. Knapar ársins í hverjum flokki verða verðlaunaðir ásamt keppnishestabúi ársins og hljóta glæsilega verðlaunagripi úr smiðju Inga í Sign. Að loknum kvöldverði og öðrum hefðbundnum dagskrárliðum mun Stuðlabandið halda uppi fjörinu fram eftir nóttu og tryggja alvöru partýstemningu. Miðasala fer fram í vefverslun LH - takmarkaður fjöldi sæta í boði!! Sjáumst 8.nóvember í Gamla bíó!
Lesa meira