Lausir dagar á Skógarhólum í júlí

3. júlí 2025

Skógarhólar hinn geysi vinsæli áningarstaður hestamanna í þjóðgarðinum á Þingvöllum hefur fengið góða andlitslyftinu á síðustu misserum og tekur nú enn betur á móti gestum. Nokkuð er um lausa daga í júlí.

Skógarhólar eiga sérstakan stað í hjörtum margra hestamanna en þar voru lögð drögin að stofnun LH auk þess sem fyrsta Landsmótið var haldið þar. Staðurin er falin perla, umvafinn einstakri náttúru, sögu og skemmtilegum reiðleiðum.



Þjóðgarðurinn skartar sínu fegursta um þessar mundir. Hægt er að nálgast upplýsingar um laus pláss með því að senda póst á skogarholar@lhhestar.is. Húsið tekur 30 í gistingu og matsalur rúmar allt að 50 manns. Fimm næturhólf eru fyrir hesta á Skógarhólum auk hólfa í Svartagili. Þá er einnig hægt að tjalda á staðnum.


Gjaldskrá og frekari upplýsingar má finna hér á síðunni: Skógarhólar


Þá er einnig um að gera að fylgja Skógarhólum á facebook: Skógarhólar á Facebook


Fyrr í sumar heyrðum við í Helgu Skowronski er umsjónarmanni Skógarhóla:


Er komið sumar á Skógarhólum?


,,Já, nú er sumarið komið á fullt hér á Skógarhólum, blóm í haga allt að verða eins best verður á kosið. Hér eru öll herbergi nýmáluð, klósett aðstaðan er orðin betri og nýlega var tekin í gagnið sturta sem gerir heimsóknir hingað enn betri. Þá er líka búið að lakka gólfin í eldhúsi og á gangi. Setustofan heldur líka mun betur hita eftir að gaflinn var þéttur og nýtt bárujárn sett yfir.“


En úti hvernig er staðan þar?


„Úti er búið að taka gamla pallinn sem var fyrir framan herbergin og var orðinn nokkuð lúinn í staðinn er komin möl sem kemur vel út, auk þess sem mikið hreinsunarstarf hefur verið unnið á staðnum sem breytir ásýndinni og gerir þetta allt snyrtilegra.“


„Hér eru svo komin ný grill sem Húsasmiðjan gaf okkur og vil ég að sjálfsögðu þakka kærlega fyrir það.“


En hvernig hafa bókanir farið af stað?


„Það hefur verið ágætis rennirí hingað í vor enda veðrið búið að vera gott og um helgina koma tveir stórir hópar, svo það má sannarlega segja að hér sé sumarið að komast á fullt, en enn er nóg af lausum dögum fyrir þá sem ekki hafa enn skipulagt ferð sína hingað í sumar.“


Fyrir þá sem ekki þekkja til eru Skógarhólar í eigu Hestamannafélaganna í landinu þar býðst hestamönnum sem eru í hestamannafélögum býðst gisting á sérstökum kjörum. Staðurinn er tilvalinn fyrir hópa og hverskonar hópefli, til dæmis æskulýðshópa hestamannafélaganna. Þá er einnig tilvalið fyrir hópa að koma með hross, gista eina nótt og ríða út í hinu ómótstæðilega umhverfi sem þjóðgarðurinn býður upp á.


Húsið tekur 30 í gistingu og matsalur rúmar allt að 50 manns. Fimm næturhólf eru fyrir hesta á Skógarhólum auk hólfa í Svartagili. Þá er einnig hægt að tjalda á staðnum.


Tekið er á móti bókunum á skogarholar@lhhestar.is, gjaldskrá og frekari upplýsingar má finna hér á síðunni: Skógarhólar


Þá er einnig um að gera að fylgja Skógarhólum á facebook: Skógarhólar á Facebook




Fréttasafn

14. ágúst 2025
Skrifstofa LH er lokuð vegna sumarfría starfsfólks, frá 14. ágúst til 1. september.
14. ágúst 2025
Hörður Hákonarson hestamaður og alþjóðlegur hestaíþróttadómari í Reykjavík er látinn.
13. ágúst 2025
Til hamingju Ísland með frábært landslið
13. ágúst 2025
Úrslit í fjórgangi & fimmgangi
10. ágúst 2025
Þvílíkur morgunn!!!
10. ágúst 2025
Þá eru B-úrslitum lokið og ljóst hvaða keppendur bæta sér í toppbaráttuna í hverjum flokki.
10. ágúst 2025
This is a subtitle for your new post
9. ágúst 2025
Kristján Árni - Heimsmeistari
8. ágúst 2025
Niðurstöður úr kynbótasýningum sjö vetra og eldri hrossa
8. ágúst 2025
Forkeppni í fjórgangi er nú lokið. Ísland átt fimm fulltrúa, þrjá í fullorðinsflokki þau Helgu Unu Björnsdóttur og Ósk frá Stað, Aðalheiði Önnu Guðjónsdóttur og Hulinn frá Breiðstöðum og Jóhönnu Margréti Snorradóttur og Össu frá Miðhúsum. Í ungmennaflokk kepptu fyrir Íslands hönd þau Herdís Björg Jóhannsdóttir og Kormákur frá Kvistum og Védís Huld Sigurðardóttir og Ísak frá Þjórsárbakka. Herdís og Kormákur riðu á vaðið fyrir hönd íslensku keppendanna en lukkan var ekki í liði með þeim í dag því Kormáki fipaðist á yfirferðinni og útkoman var 5,87. Næst í braut af íslensku keppendunum komu þau Védís Huld Sigurðardóttir og Ísak frá Þjórsárbakka en þau voru í feikna stuði og hlutu í einkunn 7,07 og eru önnur inn A-úrslit ungmenna. Þriðjar í braut íslensku keppendanna voru þær Helga Una Björnsdóttir og Ósk frá Stað með stórglæsilega sýningu sem skilaði þeim 7,47 og beint inn í A-úrslit. Fjórðu í braut af íslensku keppendunum voru síðan Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir og Hulinn frá Breiðstöðum en því miður missti Hulinn skeifu og þau hlutu ekki einkunn. Fimmtu í braut komu loks Jóhanna Margrét Snorradóttir og Assa frá Miðhúsum og enduðu þær með 7,07 og lönduðu þar með sæti í B-úrlitum. Af íslensku knöpunum eigum við því í fullorðinsflokki einn í A-úrslitum og einn í B-úrslitum, og í ungmennaflokki er einn í A-úrslitum. Anne Stine Haugen og Hæmir frá Hyldsbæk leiða fullorðinsflokkinn með yfirburðum en þau hlutu hvorki meira né minna en 8,20 fyrir sína mögnuðu sýningu en þau keppa fyrir hönd Noregs. Eiðfaxi hitti Anne Stine eftir þeirra sýnungu sem sjá má á fréttasíðu Eiðfaxa en hjá Eiðfaxa er að finna fjölmörg stórskemmtileg viðtöl við knapa að loknum sýningum sem og gesti og gangandi. Næst á dagskrá er yfirlit fyrir 7 vetra og eldri hryssur og stóðhesta. Þar eigum við tvo fulltrúa þau Eind frá Grafarkoti, sýnandi Bjarni Jónasson og Hljóm frá Auðsholtshjáleigu, sýnandi Árni Björn Pálsson. Eind hlaut 8,41 í fordómi og var þriðja hæst í sínum flokki. Hljómur frá Auðsholtshjáleigu var hæstur í sínum flokki eftir fordóm með 8,77 í aðaleinkunn. Það verður því einkar spennandi að fygjast með þeim á eftir.  Í kvöld fara svo fram seinni tveir sprettirnir í 250m skeiði. Þar eigum við fimm fulltrúa og sem stendur eiga þau Kristján Árni Birgisson og Krafla frá Syðri-Rauðalæk besta tímann í ungmennaflokk en þau hlupu á tímanum 22,38 sek. Í fullorðinsflokki eiga þeir Sigursteinn Sumarliðason og Krókus frá Dalbæ annan besta tímann eða 21,97 sek. Það verður því spennandi að sjá hvernig þeim og restinni af íslenska hópnum gengur í kvöld.
Lesa meira