Haraldur Þórarinsson hlýtur heiðursverðlaun LH
Haraldur Þórarinsson er heiðursverðlaunum LH sannarlega verðugur
Haraldur Þórarinsson hlaut heiðursmerki LH á uppskeruhátíð hestafólks sem fram fór í Gamla bíó þann 8. nóvember. Linda Björk Gunnlaugsdóttir formaður LH veitti honum viðurkenninguna og flutti við það tilefni þessi orð:
Haraldur Þórarinsson hefur um áratugaskeið unnið ómetanlegt starf í þágu hestamennskunar. Hann var kjörinn í varastjórn LH frá 1995 - 1998, aðalstjórn frá 1998 - 2006 og gegndi síðan formennsku frá 2006 til 2014. Auk starfa í stjórn LH gegndi hann formennsku í hestamannafélaginu Sleipni á Selfossi á árunum 1991 - 1995 og var formaður Landsmóts ehf. frá 2008 - 2014.
Undir hans forystu voru mörg mikilvæg skref stigin í þróun og eflingu íslenskrar hestamennsku. Hann átti stóran þátt í sameiningu Landssambands hestamannafélaga og Hestaíþróttasambandsins undir merkjum ÍSÍ, stofnun Landsmóts ehf. og eflingu menntunar tengdri íslenska hestinum og festa hana í sessi innan íslenska menntakerfisins.
Haraldur vann jafnframt ötullega að því að tryggja rétt hestamanna til að ferðast um landið með því að hvetja hestamannafélög til að koma reiðvegum inn á aðalskipulag sveitarfélaga. Hann leiddi samstarf LH við Vegagerðina og Kortasjá, þar sem skráðar voru helstu reiðleiðir landsins. Með þessu var lagður traustur grunnur að skipulagi og vernd reiðleiða víðsvegar um landið.
Á formannstíð Haraldar voru mörgum nýjum og metnaðarfullum verkefnum hrundið af stað. Þar má nefna stofnun afrekshóps LH, þróun kerfisins Klár í keppni, skilgreiningu á gangtegundum íslenska hestsins og innleiðingu nýrra tölvukerfa í keppnishaldi. Þá átti hann frumkvæði að því að koma á verðlaunum fyrir þann ræktanda sem ræktaði bestu keppnishross ársins, viðurkenningu sem hefur síðan orðið fastur liður á uppskeruhátíð LH.
Haraldur lagði jafnframt ríka áherslu á að efla starf landsliðsins í hestaíþróttum, stuðla að samvinnu og fagmennsku innan samtakanna og efla leiðtogahlutverk Íslands innan FEIF og á Norðurlöndunum.
Haraldur Þórarinsson hefur með störfum sínum markað djúp spor í sögu Landssambands hestamannafélaga og lagt ómetanlegt framlag til framþróunar íslenskrar hestamennsku.
Haraldur Þórarinsson er heiðursverðlaunum LH sannarlega verðugur.
Fréttasafn

















