Staðan eftir fyrri umferð í 250 m. skeiði
Kristján Árni og Sigursteinn standa efstir íslensku keppendanna
Fimm íslenskir knapar hófu leik í 250m skeiði. Stemningin á skeiðbrautinni var gífurleg.
Fyrstur íslensku keppendanna mættu þeir Sigursteinn Sumarliðason og Krókus frá Dalbæ en þeir voru í feikna stuði og náðu góðum spretti á tímanum 22,73 sek. Í seinni sprettinum bættu þeir fyrri tíma á 21,97 sek og eru með annan besta tímann í fullorðinsflokki eftir fyrri umferð.
Næstur íslensku keppendanna í braut voru þau Kristján Árni Birgisson og Krafla frá Syðri-Rauðalæk og náðu þau frábærum tíma 22,72 sek og leiddu þar með ungmennaflokkinn eftir fyrsta sprett. í seinni sprett gerðu þau enn betur á tímanum 22,38 sek og héldu þar af leiðandi forystu eftir fyrri umferð með töluverðum yfirburðum.
Þriðju í braut íslensku keppendanna mættu silfurhafarnir úr gæðingaskeiðinu þau Hinrik Bragason og Trú frá Árbakka og röðuðu sér beint í toppbaráttuna á tímanum 22,82 sek. Í seinni umferð bættu þau tímann með glæsilegum spretti á 22,64 sek og eru í sjöunda sæti eftir fyrri umferð.
Fjórðu í braut íslensku keppendanna mættu þau Matthías Sigurðsson og Magnea frá Staðartungu en þau skiluðu ekki gildum spretti í fyrri spretti. Í seinni spretti fóru þau brautina á 25,10 sek.
Síðust íslensku keppendanna mættu þau Daníel Gunnarsson og Kló frá Einhamri 2 en þau áttu frábæra spretti og voru með fjórða besta tímann eftir fyrri sprett eða 22,54 sek. Í seinni sprettinum hlupu þau á tímanum 22,62 sek og enda í sjötta sæti eftir fyrri umferð.
Ríkjandi heimsmeistarinn Fjalladís frá Fornusöndum sem sigraði 250m skeiðið með knapa sínum Elvari Þormarssyni á heimsmeistaramótinu 2023 mætti aftur til leiks með nýjum knapa, Sigurði Óla Kristinssyni og keppir þau fyrir hönd Danmerkur. Fjalladís og Sigurður Óli Kristjánsson skiluðu frábærum tíma og hlupu á 22.21 og eru með fjórða besta tímann eftir fyrstu umferð.
Eftir fyrri umferð leiða því þau Kristján Árni Birgisson og Krafla frá Syðri-Rauðalæk ungmennaflokkinn á tímanum 22,38 en í fullorðinsflokki leiðir danski knapinn Natalia Fischer og Ímnir frá Egeskov fullorðinsflokk á tímanum 21,91.
Seinni umferð í 250 m. skeiði fer fram á föstudagsmorgun og stefnir í æsispennandi keppni þar sem íslensku knaparnir ætla sér ekkert annað en sigur.
Fréttasafn







