Yfirlitssýning 5 og 6 vetra hrossa á HM
Eftir yfirlit í flokki fimm og sex vetra kynbótahrossa standa þrjú af fjórum hrossum frá Íslandi efst í sínum flokki.
Íslensku hrossin áttu sannkallaðan stórleik á yfirlitssýningu í flokki fimm og sex vetra kynbótahrossa á HM.
Óskastund frá Steinnesi stendur efst í flokki 5 vetra hryssna, sýnd af Árna Birni Pálssyni. Óskastund hlaut tvær 9,0 fyrir bæði tölt og samstarfsvilja og hvorki meira né minna en 9,5 fyrir skeið og í aðaleinkunn 8,46.
Efstur í flokki 5 vetra stóðhesta varð Sörli frá Lyngási sýndur af Agnari Þór Magnússyni. Sörli hlaut 8,43 í aðaleinkunn og þar af 9,0 fyrir samstarfsvilja.
Drangur frá Ketilsstöðum stóð efstur í flokki 6 vetra stóðhesta með knapa sínum Víðari Ingólfssyni. Drangur hlaut 8,58 í aðaleinkunn og þar af þrjár 9,0 fyrir tölt, fet og samstarfsvilja.
Í flokki 6 vetra hryssna varð Ólga frá Lækjamóti önnur eftir yfirlitið með aðaleinkunn upp á 8,32 og þar af tvær 9,0 fyrir bæði tölt og samstarfsvilja. Ólga var sýnd af Benjamín Sandi Ingólfssyni.
Fréttasafn







