Glæsileg byrjun í fimmgangi
Þá er forkeppni í fimmgangi lokið, við áttum fimm fulltrúa, þrjá í fullorðinsflokki og tvo í ungmennaflokki.
Allir okkar keppendur stóðu sig vel og eru komnir inn í úrslit. Glódís Rún Sigurðardóttir og Snillingur frá Íbishóli voru fyrst inn á völlinn og settu tóninn með frábærri sýningu upp á 7,20 og eru þau fimmtu inn í A-úrslit fullorðinna.
Á eftir Glódísi voru þau Jón Ársæll Bergmann og Harpa frá Höskuldsstöðum en þau áttu frábæra sýningu og koma önnur inn í A-úrslit í ungmennaflokki með einkunn upp á 6,87. Þriðja íslenska parið í braut voru þeir Elvar Þórmarsson og Djáknar frá Selfossi en þeir áttu glæsilega sýningu með einkunn upp á 7,33 og koma aðrir inn í A-úrslit fullorðinna.
Fjórðu voru þau Þórgunnur Þórarinsdóttir og Djarfur frá Flatatungu. Þau áttu flotta sýningu og eru komin í úrslit í ungmennaflokki. Þeir Þórarinn Ragnarsson og Herkúles frá Vesturkoti slógu botninn í fimmganginn hjá okkar hóp með góðri sýningu upp á 6,83 sem skilaði þeim sæti í b-úrslitum fullorðinna.
Efst í fullorðinsflokki að lokinni forkeppni er Lena Maxheimer frá Þýskalandi á Abel fra Nordal með einkunnina 7,40. Í ungmennaflokki er það Tekla Petersson frá Svíþjóð á Vatnadísi från Noastallet sem leiðir með 6,90.
Það stefnir því í hörku spennandi keppni bæði í b og a-úrslitum um helgina.

Fréttasafn







