Frábær árangur Íslendinga í forkeppni í tölti
Árni Björn leiðir í tölti með miklum yfirburðum
Í tölti T1 átti Ísland 7 fulltrúa, tvo í fullorðinsflokki og 5 í ungmennaflokki.
Í ungmennaflokki röðuðu þrír fulltrúar Íslands sér beint í A-úrslit. Védís Huld Sigurðardóttir og Ísak frá Þjórsárbakka leiða með einkunnina 7,50 en þau tryggðu sér fyrsta sætið ásamt Daniel Rechten og Óskari frá Lindeberg sem keppa fyrir hönd Þýskalands. Þórgunnur Þórarinsdóttir og Djarfur frá Flatatungu koma þriðju inn í A-úrslit með einkunnina 7,13. Lilja Rún Sigurjónsdóttir og Arion frá Miklholti hlutu 7,10 og eru fjórðu inn í úrslit. Amanda Frandsen og Tinna frá Litlalandi eru fimmtu inn í úrslitin með einkunnina 6,80.
í fullorðinsflokki röðuðu íslenskir knapar sér í fyrsta og sjötta sæti og á Ísland þar með fulltrúa bæði í A-úrslitum og B-úrslitum.
Jóhanna Margrét Snorradóttir og Assa frá Miðhúsum eru efst inn í b-úrslin með einkunnina 7,83. B-úrslitin fara fram næstkomandi laugardag og má búast við harðri baráttu um sætið í A-úrslitum.
Árni Björn Pálsson og Kastanía frá Kvistum eru langefst að lokinni forkeppni með einkunn upp á hvorki meira né minna en 8,80. Þetta farsæla keppnispar hefur áður sýnt að þau kunni svo sannarlega að gera stórsýningu en þau áttu algjöra yfirburðarsýningu í forkeppninni. Önnur inn í A-úrslit voru þau Anna Lisa Zingsheim og Glaður frá Kálfhóli 2 með einkunnina 8,23 en þau keppa fyrir hönd Austurríkis. Þriðju eru þau Lisa Schürger og Kjalar frá Strandarhjáleigu með einkunnina 8,20 og keppa þau fyrir hönd Þýskalands. Þá komu þeir Jóhann Rúnar Skúlason og Evert frá Slippen fjórðir inn í úrslit með einkunnina 8,07 en þeir keppa fyrir hönd Danmerkur. Loks komu þau Jamila Berg og Toppur frá Auðsholtshjáleigu fimmtu inn í úrslitin með einkunn upp á 7,93 en þau keppa fyrir hönd Svía.
Sannarlega glæsilegur árangur hjá íslenska liðinu í tölti (T1) og spennandi úrslit í vændum um helgina.
Fréttasafn







