Álfamær frá Prestbæ fyrsta hryssan til að vinna A flokk á Landsmóti

7. júlí 2024

Vá vá vá! Þá er stórglæsilegu Landsmóti í Víðidal lokið! Landsmót 2024 hefur verið veisla frá degi eitt, frábærir hestar, frábærar aðstæður og stútfull brekka af fólki allt mótið.

Dagurinn í dag hófst á úrslitum í Tölti T2 þar sem Ásmundur Ernir Snorrason og Hlökk frá Strandarhöfði áttu glæsilega sýningu og sigruðu örugglega með 8,96 í einkunn. Fjórgangurinn var þá næstur og þar vor það Gústaf Ásgeir Hinriksson og Assa frá Miðhúsum sem sigruðu með 8,30. Þá var komið að fimmganginum og þar voru það þau Jón Ársæll Bergmann og Harpa frá Höskuldsstöðum sem voru efst eftir forkeppnina og sú forysta var aldrei í hættu, en þau sigruðu með 7,86 í einkunn. Jón Ársæll keppir í ungmennaflokk en sýnir það og sannar enn einu sinni hversu ótrúlegir hæfileikar og gæði eru að finna í ungu knöpunum okkar, framtíðin er sannarlega björt.

Eftir hádegi var svo komið að úrslitum í barnaflokki. Þar var boðið uppá ótrúlegar sýningar. Þrír keppendur hafa deilt efstu sætunum uppúr sérstakri forkeppni, þau Elimar Elvarsson á Sölku frá Hólateig, Linda Guðbjörg Friðriksdóttir og Sjóður frá Kirkjubæ og Viktoría Huld Hannesdóttir og Þinur frá Enni og þau röðuðu sér einnig í efstu þrjú sætin í dag. En það var hún Viktoría Huld Hannesdóttir og Þinur frá Enni sem stóðu uppi sem sigurvegarar eftir magnaða sýningu og einkunn upp á 9,25.

Í unglingaflokki var engu minni spenna en þar voru það þær Ída Mekkín Hlynsdóttir og Marín frá Lækjarbrekku 2 sem sigruðu með 8,96 en í öðru sæti og rétt við hælana á þeim voru sigurvegarar B úrslitanna þær Svandís Aitken Sævarsdóttir og Fjöður frá Hrísakoti með 8,93 í einkunn.

B flokkur gæðinga kom næstur og þar var heldur betur spennandi keppni háð og mjótt á munum milli efstu knapa en Safír frá Mosfellsbæ og Sigurður Vignir Matthíasson unnu með 9,02 í einkunn en rétt á eftir þeim voru þeir Þröstur frá Kolsholti 2 og Helgi Þór Guðjónsson með 9,00 í einkunn.

Í B flokki ungmenna komu þrusu sýningar, en þó var eins og það væri skrifað í skýin að Matthías Sigurðsson (sonur Sigurðar Vignis) og Tumi frá Jarðbrú væru að fara að taka þetta, þeir áttu frábæran dag uppskáru fyrsta sætið með einkunnina 9,03. Þvílíkt afrek hjá þeim feðgum.

Deginum lauk svo á háspennu keppni á A flokki gæðinga, þar hélst spennan fram á síðasta sprett en að lokum var það Álfamær frá Prestbæ og Árni Björn Pálsson sem stóðu uppi sem sigurvegarar með 9,05 í einkunn. Þess má geta að Álfamær er fyrsta hryssan til að vinna A flokk gæðinga á Landsmóti. Glæsilegur árangur!

Til hamingju sigurvegarar, þátttakendur, starfsmenn, sjálfboðaliðar og hestamenn allir með frábært Landsmót. Sjáumst á Hólum 2026!

 

 

Fréttasafn

10. september 2025
Dagana 21. til 23. nóvember nk. verður haldið leiðtoganámskeið FEIF sem ætlað er ungmennum á aldrinum 18-26 ára. Námskeiðið er á vegum Danska Íslandshestasambandsins (DI) og er haldið í Gringdsted Landbúnaðarskólanum í Billund í Danmörku. Yfirskrift námskeiðsins er „Fighting Fit – Conflict, Fitness & Teamwork in Action“ og markmiðið er að hvetja ungmenni til að taka þátt í félagsstörfum í hestamennsku og að þátttakendur efli færni sína sem leiðtogar. Aðalfyrirlesarar verða Rebekka Hyldgaard, sjúkraþjálfari, sem fjallar um hvernig líkamsþjálfun getur bætt árangur í reiðmennsku, og Professor Janne Winther Christensen frá Aarhus University sem fjallar um nýjustu rannsóknir um „ animal conflict behaviour “. Þátttaka í viðburði sem þessum gefur frábæra reynslu, skapar tengsl og styrkir þátttakendur til frekari leiðtoga og ábyrgðarstarfa innan hestamannafélaganna. Við hvetjum hestamannafélögin til að hvetja fulltrúa sína til þátttöku á þessu námskeiði og minnum á mikilvægi þess að efla ungt fólk til þátttöku í nefndum og störfum innan félaganna til að efla nýliðun ásamt því að móta leiðtoga framtíðarinnar. Nánari upplýsingar um námskeiðið má finna á heimasíðu FEIF. Umsóknarfrestur er 15. október 2025 . Námskeiðið hefst föstudaginn 21. nóvember kl 16:00 og endar sunnudaginn 23. nóvember kl 13:00. Kostnaður er 200€ og innifalið í því er gisting, matur og fræðsla.
10. september 2025
Landssamband hestamannafélaga auglýsir til umsóknar eftirfarandi mót: · Íslandsmót fullorðinna og ungmenna 2028 · Íslandsmót barna og unglinga 2028 · Íslandsmót í gæðingalist 2026 (innanhússmót sem haldið skal fyrir 15. maí) · Áhugamannamót Íslands 2026 Dagsetningar mótanna eru ákveðnar í samráði við mótshaldara og að teknu tilliti til dagsetninga annarra móta. Á Íslandsmóti fullorðinna og ungmenna er keppt í íþróttakeppni í efsta styrkleikaflokki þar sem keppendur eru einir inni á vellinum í einu. Á Íslandsmóti barna og unglinga er keppt í íþróttakeppni og gæðingakeppni. Á Íslandsmóti í gæðingalist er keppt í öllum aldursflokkum og skal mótið haldið fyrir 15. maí 2026. Á Áhugamannamóti Íslands er keppt í íþróttakeppni og gæðingakeppni í 1., 2. og 3. flokki. Umsóknir áhugasamra mótshaldara skulu berast Landssambandi hestamannafélaga fyrir 1. október nk. á netfangið lh@lhhestar.is .
14. ágúst 2025
Hörður Hákonarson hestamaður og alþjóðlegur hestaíþróttadómari í Reykjavík er látinn.
13. ágúst 2025
Til hamingju Ísland með frábært landslið
13. ágúst 2025
Úrslit í fjórgangi & fimmgangi
10. ágúst 2025
Þvílíkur morgunn!!!
10. ágúst 2025
Þá eru B-úrslitum lokið og ljóst hvaða keppendur bæta sér í toppbaráttuna í hverjum flokki.
10. ágúst 2025
Kristján Árni tvöfaldur heimsmeistari
9. ágúst 2025
Kristján Árni - Heimsmeistari
8. ágúst 2025
Niðurstöður úr kynbótasýningum sjö vetra og eldri hrossa
Lesa meira