Knapi ársins 2024

12. október 2024

Á Uppskeruhátíð LH voru krýndir bestu knapar ársins 2024 og keppnishestabú ársins valið.

Að baki valinu er valnefnd sem er skipuðuð fjölbreyttum hópi og þar eiga fulltrúa stjórn LH, GDLH, HÍDÍ, FT og fjölmiðlar. Við val á knöpum ársins skal tekið tillit til árangurs á árinu: ástundunar, prúðmennsku og íþróttamannlegrar framkomu innan vallar sem utan, sem og reglusemi. Knapi ársins í hverjum flokki er valinn sá sem talinn er hafa náð framúrskarandi árangri á sviði reiðmennsku og frammistaða hans sé álitin hestaíþróttinni til framdráttar, hvort sem um er að ræða eitt afgerandi afrek, eða frábæran árangur í mörgum greinum á mörgum mótum. Við val þeirra sem viðurkenningar hljóta skal gaumgæfa árangur jafnt hér heima sem erlendis (WR mót og stórmót).

Knapi ársins er Árni Björn Pálsson

Árni Björn er fjölhæfur afreksknapi og var árangur hans á árinu 2024 ótrúlegur. Hæst ber að nefna sigur í A-flokki gæðinga á Landsmóti þar sem hann og Álfamær áttu frábærar sýningar en þau eru einnig í þriðja sæti á stöðulista í gæðingaskeiði. Átti Árni Björn einnig eftirminnilegar sýningar á Seðli frá Árbæ í A flokki. Árni Björn er Íslandsmeistari í tölti á Kastaníu frá Kvistum, hlutu þau silfurverðlaun á Landsmóti í sömu grein og eru efst á WR listanum í þessari grein í ár. Hann náði góðum árangri á skeiðbrautinni á hestum sínum Ögra frá Horni og Þokka frá Varmalandi.

Árni Björn Pálsson er einstakur afreksknapi, sönn fyrirmynd fyrir elju sína, jákvæðni og fagmennsku í hvívetna og hlýtur hann því nafnbótina “Knapi ársins 2024”.

 

Íþróttaknapi ársins er Jakob Svavar Sigurðsson.

Jakob vann stóra sigra á árinu í tölti en meðal annars er hann tvöfaldur Íslandsmeistari þar sem hann sigraði slaktaumatölt á Hrefnu frá Fákshólum og gæðingaskeið á Erni frá Efri-Hrepp. Jakob sigraði tölt á Landsmóti með Skarpi frá Kýrholti með einkunnina 9.39!

Jakob Svavar er með frábæran heildarárangur í íþróttakeppni á árinu 2024 og hlýtur nafnbótina “Íþróttaknapi ársins.”

Aðrir tilnefndir eru:

Árni Björn Pálsson

Árni Björn er Íslandsmeistari í tölti á Kastaníu frá Kvistum með einkunnina 9,11. Þetta par var einnig í öðru sæti í tölti á Landsmóti og er efst á stöðulista í þeirri grein á landinu yfir árið. Árni Björn hlaut reiðmennskuverðlaun FT á Íslandsmóti fyrir sýningu sína í forkeppni í tölti á Kastaníu.

Ásmundur Ernir Snorrason

Ásmundur Ernir varð meðal annars Íslandsmeistari í samanlögðum fjórgangsgreinum á Hlökk frá Strandarhöfði en þau sigruðu einnig slaktaumatölt á Landsmóti og standa efst á stöðulista í þeirri grein. Ásmundur er einnig Íslandsmeistari í samanlögðum fimmgangsgreinum með Ask frá Holtsmúla og hlaut hann reiðmennskuverðlaun Félags tamningamanna á Landsmóti í sumar.

Guðmunda Ellen Sigurðardóttir

Guðmunda Ellen hefur átt frábært tímabil með Flaum frá Fákshólum en þau eru saman Íslandsmeistarar í fjórgangi ásamt því að ríða til úrslita í slaktaumatölti á sama móti. Þau riðu einnig til A-úrslita í fjórgangi á Landsmóti og sigruðu Reykjavíkurmót Fáks í sömu grein.

Hans Þór Hilmarsson

Hans Þór er Íslandsmeistari í fimmgangi á Öl frá Reykjavöllum og eru þeir einnig efstir á stöðulista í þeirri grein yfir árið með einkunnina 7.40. Hans var í þriðja sæti í fjórgangi á Íslandsmóti með Fák frá Kaldbak.

Skeiðknapi ársins er Konráð Valur Sveinsson.

Konráð Valur hefur átt frábær ár á skeiðbrautinni með hesta sína þá Kjark frá Árbæjarhjáleigu og Kastor frá Garðshorni á Þelamörk. Konráð Valur og Kjarkur eru eitt sigursælasta par sögunnar en í ár slógu þeir þrisvar sinnum Íslandsmet í 150m skeiði sem og heimsmetið þegar þeir hlupu brautina saman á tímanum 13,46 sekúndum! Konráð er þrefaldur Landsmótssigurvegari í skeiðgreinum og tvöfaldur Íslandsmeistari á árinu.

Konráð átti frábært ár í skeiðkappreiðum ársins og hlýtur nafnbótina “Skeiðknapi ársins 2024.”

Aðrir tilnefndir eru:

Daníel Gunnarsson

Daníel hefur átt gott ár í skeiðgreinum en meðal annars var hann í 3. sæti í 150m skeiði á Íslandsmóti með Skálmöld frá Torfunesi og urðu þau í 3. sæti á Landsmóti í sömu grein á 14,08 sekúndum. Daniel hefur einnig náð góðum árangri með fjölmörg hross í 250 m. skeiði og 100 m. skeiði, meðal annars með fjögur hross undir 8 sekúndum í 100m.

Ingibergur Árnason

Ingibergur var í 2. sæti í 100m skeiði á Íslandsmóti á tímanum 7,33 sekúndum á Sólveigu frá Kirkjubæ. Ingibergur hefur náð góðum árangri í öllum skeiðgreinum á árinu og er meðal annars í þriðja sæti á stöðulista í 100m skeiði og fjórða sæti í 250m skeiði.

Sigursteinn Sumarliðason

Sigursteinn er Íslandsmeistari í 250 m skeiði með Krókus frá Dalbæ en þeir fóru á tímanum 21,35 sekúndum sem er einnig besti tími ársins í þeirri grein. Þeir félagar urðu einnig í 2. sæti á Landsmóti í bæði 250m og 100m skeiði og í þriðja sæti í 100m skeiði á Íslandsmóti þar sem þeir fóru á tímanum 7,33 sekúndum.

Þórarinn Ragnarsson

Þórarinn vann til silfurverðlauna á Landsmóti og Íslandsmóti í sumar á Bínu frá Vatnsholti. Þau eru í öðru sæti á stöðulista í 150m skeiði með tímann 14,00 sek. Þórarinn hefur náð góðum árangri í 100m skeiði á árinu með Frey frá Hraunbæ og er besti tími þeirra 7,59 sekúndur.

 

Gæðingaknapi ársins er Sigurður Vignir Matthíasson.

Sigurður Vignir sigraði B-flokk á Landsmóti með Safír frá Mosfellsbæ þar sem þeir hlutu 9,02 í einkunn og eru þeir í þriðja sæti á stöðulista. Sigurður reið einnig til A-úrslita í A-flokki á Goða frá Bjarnarhöfn þar sem þeir hlutu 8,74 í einkunn.

Sigurður Vignir hlýtur nafnbótina “Gæðingaknapi ársins 2024.”

Aðrir tilnefndir eru:

Árni Björn Pálsson
Árni Björn sigraði A-flokk gæðinga á Landsmóti hestamanna í sumar á Álfamær frá Prestsbæ þar sem þau hlutu einkunnina 9,05 og er þetta fyrsta hryssan sem sigrar þennan flokk á Landsmóti. Árni og Álfamær eru í 2. sæti á stöðulista í A-flokki gæðinga.

Eyrún Ýr Pálsdóttir

Eyrún Ýr náði góðum árangri í A-flokki með Leynir frá Garðshorni á Þelamörk og hlutu 2. sæti í þeirri grein á Landsmóti og eru efst á stöðulista.

Hanna Rún Ingibergsdóttir

Hanna Rún átti gott ár með Sirkus frá Garðshorni á Þelamörk en meðal annars urðu þau í þriðja sæti á Landsmóti í A-flokki þar sem hún hlaut Gregersen styttuna fyrir prúðmannlega reiðmennsku.

Helgi Þór Guðjónsson

Helgi Þór vann til silfurverðlauna í B-flokki á Landsmóti í sumar með Þröst frá Kolsholti 2 en þeir félagar hlutu 9,0 í einkunn. Þeir sigruðu einnig gæðingamót Sleipnis og eru í öðru sæti á stöðulista í þeirri grein.

 

Efnilegasti knapi ársins er Matthías Sigurðsson.

Hann sigraði ungmennaflokk á Landsmóti á Tuma frá Jarðbrú með einkunna 9,03 eftir að hafa farið lengri leiðina og sigrað B-úrslitin. Hann hlaut einnig Öderinn á Landsmóti en þau verðlaun hlýtur sá knapi sem þykir sýna prúða og fagmannlega reiðmennsku með vel undirbúinn hest.

Matthías er Norðurlandameistari í A-flokki ungmenna með Gust frá Stóra-Vatnsskarði og var í 2. sæti í fimmgangi ungmenna með Páfa frá Kjarri. Hann er efstur á stöðulista í 250m skeiði og í 2. sæti í tölti í ungmennaflokki.

Matthías hlýtur nafnbótina “Efnilegasti knapi ársins 2024”.

Aðrir tilnefndir eru:

Guðný Dís Jónsdóttir

Guðný Dís hefur verið nær ósigrandi í fjórgangi á árinu með Hraunar frá Vorsabæ II en meðal annars eru þau Íslandsmeistarar í fjórgangi. Einnig voru þau í þriðja sæti í ungmennaflokki á Landsmóti. Guðný var í öðru sæti í tölti á Íslandsmóti með Straum frá Hofsstöðum, Garðabæ og er efst á stöðulista í gæðingaskeiði ungmenna með Ásu frá Fremri-Gufudal.

Guðmar Hólm Ísólfsson

Guðmar Hólm er Íslandsmeistari í 100m skeiði með Alviðru frá Kagaðarhóli en þau fóru á tímanum 7,38 sekúndum og standa þau efst á stöðulista yfir árið í þeirri grein. Guðmar náði frábærum árangri á Norðurlandamótinu þar sem hann sigraði B-flokk ungmenna á Eyvari frá Álfhólum og var í öðru sæti í A-flokki með Sólbjart frá Akureyri. Einnig reið hann til úrslita í tölti og fjórgangi á Íslandsmóti.

Kristján Árni Birgisson

Kristján Árni er Íslandsmeistari í gæðingaskeiði á Súlu frá Kanastöðum þar sem þau hlutu 7,38 í einkunn og vann til silfurverðlauna í flugskeiði á sama móti með Kröflu frá Syðri – Rauðalæk á tímanum 7,58 sekúndum. Hann reið einnig til úrslita í ungmennaflokki á Landsmóti og í tölti á Íslandsmóti.

Védís Huld Sigurðardóttir

Védís Huld er efst á stöðulista í ungmennaflokki yfir árið með Ísak frá Þjórsárbakka en þau unnu til silfurverðlauna á Landsmóti. Védís er einnig efst á stöðulista í slaktaumatölti ungmenna með Breka frá Sunnuhvoli og urðu þau í 2. sæti í slaktaumatölti ungmenna. Védís Huld sigraði B-úrslit í fimmgangi á Norðurlandamóti á Búa frá Húsavík og urðu þau Norðurlandameistarar eftir sigur í A-úrslitum.

Þórgunnur Þórarinsdóttir
Þórgunnur er Íslandsmeistari í samanlögðum fimmgangsgreinum með Djarf frá Flatatungu en þau urðu einnig í 2. sæti í fimmgangi og fjórða sæti í gæðingaskeiði á Íslandsmóti. Þórgunnur reið til B-úrslita á Landsmóti með Jaka frá Skipanesi og í fjórgangi á Íslandsmóti með Hnjúk frá Saurbæ.

Sérstök viðurkenning í ungmennaflokki

Jón Ársæll fékk sérstaka viðurkenningu fyrir frábæran árangur á árinu. Hann varð þrefaldur Íslandsmeistari á árinu. Í tölti á Heiðri frá Eystra-Fróðholti, 150 m. skeiði á Rikka frá Stóru-Gröf ytri og fimmgangi á Hörpu frá Höskuldsstöðum en þau unnu einnig fimmganginn í meistaraflokki á Landsmótinu.

Sérstök viðurkenning fyrir einstakt afrek á árinu

Konráð Valur hlaut sérstaka viðurkenningu fyrir einstakt afrek á árinu. Hann hefur átt frábært ár á skeiðbrautinni með hesta sína þá Kjark frá Árbæjarhjáleigu og Kastor frá Garðshorni á Þelamörk. Konráð Valur og Kjarkur eru eitt sigursælasta par sögunnar en í ár slógu þeir þrisvar sinnum Íslandsmet í 150m skeiði sem og heimsmetið þegar þeir hlupu brautina saman á tímanum 13,46 sekúndum! Þeir bæta þar með 13 ára gamalt heimsmet í greininni um eitt sekúndubrot.

Keppnishestabú ársins 2024 er Garðshorn á Þelamörk.

Ræktunarbúið Garðshorn á Þelamörk hefur á árinu átt fjölda hrossa í keppni víða um heim. Fremstur í flokki fer Kastor sem náði frábærum árangri á árinu en hann var meðal annars Íslandsmeistari, Reykjavíkurmeistari og tvöfaldur Landsmótssigurvegari í skeiðgreinum. Leynir vann til silfurverðlauna í A-flokki á Landsmóti hestamanna með 8,93 í einlkunn og rétt á hæla hans einungis 0,01 kommu á eftir var Sirkus með 8,92. Ómar og Adrían náðu einnig góðum árangri í sínum greinum. Ræktendur eru Agnar Þór Magnússon og Birna Tryggvadóttir.

Garðshorn á Þelamörk ræktar afburðagóð keppnishross sem ná árangri í keppni á öllum sviðum og hlýtur nafnbótina „Keppnishestabú ársins 2024“.

Önnur tilnefnd ræktunarbú

Fet

Fjöldi hrossa frá Feti hafa á árinu náð góðum árangri víða um heim. Þar má fyrst nefna Draum en hann vann til silfurverðlauna í slaktaumatölti bæði á Lands -og Íslandsmóti. Viðja sigraði slaktaumatölt á Svissneska meistaramótinu og í 1.-2. sæti á Miðevrópumótinu. Víkingur er norðurlandameistari í tölti unglinga sem og samanlagður sigurvegari í fjórgangsgreinum.

Kagaðarhóll

Helstu fulltrúar Kagðarhóls á keppnisbrautinni í ár voru Vísir frá Kagaðarhóli sem sigraði tölt á Reykjavíkurmóti og reið til A-úrslita í tölti á bæði Lands -og Íslandsmóti. Hann stendur í þriðja sæti á stöðulista á Íslandi yfir árið í tölti og fjórði á FEIF lista. Alviðra frá Kagaðarhóli er Íslandsmeistari í 100m skeiði ungmenna á tímanum 7,38 sekúndum. Hún hefur náð góðum árangri í 250m, 150m og 100m skeiði og er efst á stöðulista í 100m skeiði ungmenna yfir landið á þessu ári.

Kirkjubær
Kirkjubær átti 8 fulltrúa á Landsmóti Hestamanna. Þar af enduðu tveir í A-úrslitum, þau Ísafold í unglingaflokki og Sjóður í barnaflokki en bæði komu þau efst inn á Landsmót í sínum flokki. Sólveig á fjórða besta tíma ársins í 250 m skeiði og þriðja besta tímann í 100 m. skeiði. Bæði Ísafold og Sjóður eru efst á stöðulista í gæðingakeppni í sínum flokkum á árinu 2024.

Vorsabær II

Fjöldi hrossa frá Vorsabæ II hafa á árinu náð góðum árangri víða um heim. Hraunar hefur verið nær ósigrandi á árinu í fjórgangi bæði í ungmenna og unglingaflokki og er Íslandsmeistari í þeirri grein í báðum flokkum. Einnig var hann í þriðja sæti í ungmennaflokki á Landsmóti. Hagur er Norðurlandameistari í fjórgangi þar sem hann reið í 7.80 í einkunn. Fjölmörg hross stóðu sig vel og má þar nefna Ganta, Fylki, Kjark og Smyril.

Fréttasafn

24. desember 2025
Jóla- og nýárskveðja frá formanni LH
22. desember 2025
Landssamband hestamannafélaga óskar öllum hestamönnum nær og fjær gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári, með kærri þökk fyrir samstarfið á árinu.  Starfsfólk og stjórn LH
Eftir Berglind Karlsdóttir 18. desember 2025
Hekla Katharína Kristinsdóttir er reiðkennari ársins 2025
9. desember 2025
Ísólfur Líndal Þórisson hefur verið ráðinn landsliðsþjálfari A-landsliðs Íslands í hestaíþróttum
5. desember 2025
Alþjóðlegur dagur sjálboðaliða 5. desember
14. nóvember 2025
Form annafundur LH var haldinn laugardaginn 8. nóvember sl. Fundinn sóttu um áttatíu manns frá þrjátíu hestamannafélögum auk fulltrúa frá fastanefndum LH, dómarafélögunum og stjórn LH. Góðar og uppbyggilegar umræður urðu á fundinum sem stjórn LH tekur með sér í næsta starfsár og í undirbúning fyrir Landsþing 2026. Formaður LH, Linda Björk Gunnlaugsdóttir, fór í ræðu sinni yfir þau mál sem hafa verið fyrirferðarmest í starfsemi LH á árinu ásamt því að tæpa á helstu verkefnum sem framundan eru. Það eru mörg og umfangsmikil verkefni á borði stjórnar hverju sinni og hefur mikill tími farið fyrsta starfsárið hjá nýrri stjórn í að endurskipuleggja og hagræða í rekstri sambandsins. Afreksmálin eru alltaf fyrirferðarmikil á HM ári í verkefnum skrifstofu og stjórnar og eru afreksmálin á ákveðnum tímamótum núna þar sem samningar við landsliðsþjálfara eru lausir. Gjaldkeri LH, Ólafur Gunnarsson, fór yfir stöðu reikninga og uppfærðar fjárhagsáætlanir sem gera ráð fyrir á næstu tvö ár skili hagnaði en eins og áður kom fram hefur verið farið í hagræðingaraðgerðir á árinu í þeim tilgangi að snúa rekstri sambandsins til betri vegar. Starfshópar sem skipaðir voru skv. samþykkt landsþings 2024 kynntu sína vinnu frá landsþingi. Starfshópur um Íslandsmót telur ekki þörf á að gera breytingar á keppnishluta mótsins en leita þurfi leiða til að gera viðburðinn Íslandsmót að stærri viðburði fyrir áhorfendur. Starfshópur um innanhússmót lagði fram tillögu fyrir fundinn um haldið yrði 2ja til 3ja daga Íslandsmót innanhúss í lok innanhússkeppnistímabilsins 2026 til reynslu. Fundurinn vísaði tillögunni til stjórnar til nánari útfærslu og mun stjórn kalla til framhaldsfundar formanna til frekari umræðna. Æskulýðsbikar LH hlaut Hestamannafélagið Skagfirðingur og veittu yfirreiðkennari félagsins og formaður æskulýðsdeildar Skagfirðings bikarnum móttöku. Fulltrúar frá hestamannafélögunum Mána, Hring, Funa, Herði, Freyfaxa og Sleipni sögðu frá sínum verkefnum og helstu áskorunum. Voru það virkilega áhugaverðar frásagnir því flest hestamannafélög eru að eiga við svipaðar áskoranir þó aðstæður hjá hverju félagi séu mismunandi. Að loknum hefðbundnum fundarstörfum var fundinum skipt upp í þrjá umræðuhópa sem fjölluðu um stefnumótun, gjaldkerastörf og nýliðunar -og æskulýðsmál. Mikil umræða og góð vinna var í umræðuhópunum. Í hópnum um stefnumótum urðu mjög líflegar umræður og margir snertifletir ræddir á hinum ýmsu málum og ljóst að það er heilmikið að vinna úr í framhaldinu. Fundinum var skipt upp í sex minni hópa sem fjölluðu hver um sig um ákveðna þætti í starfsemi LH, hvaða markmið skuli setja og hvernig skuli ná þeim. Stefnumótunarfundurinn var framhald af opnum stefnumótunarfundi sem haldinn var sl. vor með fulltrúum hestamannafélaganna. Hópurinn um æskulýðs- og nýliðunarmál fjallaði um þátttöku stráka í hestamennsku, félagshesthús og almenna stöðu hjá félögunum. Margar hugmyndir komu upp og góðar umræður sköpuðust. Í gjaldkerahópnum var rætt um samskipti við sveitarfélög, fjármál hestamannafélaga, félög í almannaheilaskráningu og fyrirmyndafélög ásamt styrkjum til hestamannafélaga. Fjármál hestamannafélaganna eru almennt í góðum málum og faglega staðið að þeim en slíkt er algjör forsenda fyrir því að gott samtal geti átt sér stað við sveitarfélögin þegar kemur að styrkjamálum hins opinbera. Félögin voru einnig hvött til að skrá félagið á almannaheillaskrá en það er gott verkfæri þegar leitað er styrkja hjá almennum fyrirtækjum og veitir skattaafslátt á móti. Einnig voru félögin hvött til að hefju vinnu við að gerast fyrirmyndarfélag ÍSÍ og er það holl og góð vinna til að bæta starfshætti félagsins. Félög geta leitað til hvors annars um þau gögn sem þarf að skila og voru félögin hvött til að vinna þau saman. Samhliða formannafundi var haldinn mótanefndafundur sem um tuttugu manns sátu, en fyrirhugað er að halda framahaldsmótanefndafund um næstu mánaðamót til að ræða frekar mótadagskrá ársins. Stjórn LH þakkar formönnum hestamannafélaga í landinu og öðrum þátttakendum á formannafundi fyrir afar uppbyggilegar umræður sem munu nýtast vel á komandi starfsári. Skýrsla stjórnar LH 2024-2025
12. nóvember 2025
Ættingjar fyrsta heiðursfélaga LH afhentu LH viðurkenningarskjalið til varðveislu
11. nóvember 2025
Guðni Halldórsson og Kristinn Skúlason hlutu gullmerki LH
9. nóvember 2025
Haraldur Þórarinsson er heiðursverðlaunum LH sannarlega verðugur
9. nóvember 2025
Gott æskulýðsstarf er grunnurinn að framtíð hestamennskunnar
Lesa meira