Reiðkennari ársins – Tilnefningar

18. nóvember 2024

Menntanefnd LH auglýsir netkosningu á reiðkennara ársins 2024. Kosningu lýkur á miðnætti sunnudaginn 24. nóvember. Sigurvegari fær afhent verðlaun á Menntadegi A – landsliðsins, laugardaginn 30. nóvember og fer áfram í kosningu á vefsíðu FEIF (FEIF instructor/trainer of the year), þar sem kosið verður um einn reiðkennara frá hverju FEIF landi.

Meðfylgjandi er útdráttur úr umsögnum sem fylgdu tilnefningunum til Menntanefndar LH sem kallað var eftir í frétt fyrir stuttu (https://www.lhhestar.is/is/frettir/oskad-er-eftir-tilnefningum-fyrir-reidkennara-arsins-2024 ). Allir tilnefndir eru að þessu sinni með reiðkennaramenntun frá Háskólanum á Hólum og eru Level 3 innan FEIF-matrixunnar.

Tilnefndir eru eftirfarandi aðilar:

Bergrún Ingólfsdóttir

Bergrún hefur stigið fram á sjónarsviðið síðustu ár með sína nálgun í reiðkennslu þar sem er sérstaklega horft til þjálfunar knapans og áhrifa hans á frammistöðu hestsins. Hennar nálgun er persónuleg og einstaklingsmiðuð og skiptir engu á hvaða stigi eða stað hestamennsku nemendur eru, eða hver þeirra líkamlega færni er. Aldur er heldur ekki takmarkandi þáttur. 

Hún sem reiðkennari og einkaþjálfari kemur með góða sýn á hvernig líkamsgerð knapa hefur áhrif á þjálfun hests, hvað er hægt að gera til að bæta sig sem knapa og hvernig líka horft er til jákvæðra þátta. Hún kennir einfaldar líkamsæfingar til að styrkja hvern og einn nemanda þar sem þarf og eins kennir hún verklega með hest hvernig ábendingar geta orðið betri með því að breyta um ásetu og þjálfa sig til að beita betri ábendingum og vera í jafnvægi með hestinum. Hún hefur getið sér gott orð sem reiðkennari, hefur ljúfa en ákveðna framkomu og er skýr í sínum leiðbeiningum.

Finnbogi Bjarnason

Finnbogi starfar sem reiðkennari og þjálfari bæði á Íslandi og í Sviss. Hann kennir Reiðmanninn 1 & 3 á Sauðárkróki þar sem fjöldi nemenda eru skráðir en reiðmaðurinn er nám í reiðmennsku og hestafræðum á vegum Landbúnaðarháskóla Íslands.

Hann er einnig reiðkennari í æskulýðsstarfi Skagfirðings og hefur verið síðustu ár þar sem hann kennir keppnisþjálfun og almenna reiðkennslu fyrir krakkana í félaginu en Finnbogi hefur sjálfur töluvert mikla reynslu á keppnisbrautinni. Hann hefur fylgt krökkunum vel eftir í kennslunni, meðal annars á Landsmóti hestamanna í sumar. Einnig hefur hann starfað við reiðkennslu á hestabraut FNV á Sauðárkróki sem er þriggja ára námsbraut í hestamennsku.

Í Sviss hefur hann verið virkur í reiðkennslu bæði með ungmennum og fullorðnum, meðal annars aðstoðarmaður/þjálfari nokkurra keppenda í Svissneska landsliðinu á síðasta HM. Finnbogi hefur mikinn metnað, ávallt jákvæður fyrir verkefninu og nemendur láta afar vel af honum.

Sindri Sigurðsson

Sindri starfar sem reiðkennari og er virkur gæðingadómari bæði hérlendis og erlendis. Hann hefur verið í fræðslunefnd Sörla til fjölda ára og hefur brennandi áhuga á öllu sem við kemur hestum og tengist reiðkennslu á öllum stigum. Hver reiðtími hjá Sindra er mjög krefjandi, lærdómsríkur og skemmtilegur. Hann er metnaðarfullur, jákvæður og góður þjálfari sem leggur sig allan fram í verkefnið.

 

Fréttasafn

8. ágúst 2025
Forkeppni í fjórgangi er nú lokið. Ísland átt fimm fulltrúa, þrjá í fullorðinsflokki þau Helgu Unu Björnsdóttur og Ósk frá Stað, Aðalheiði Önnu Guðjónsdóttur og Hulinn frá Breiðstöðum og Jóhönnu Margréti Snorradóttur og Össu frá Miðhúsum. Í ungmennaflokk kepptu fyrir Íslands hönd þau Herdís Björg Jóhannsdóttir og Kormákur frá Kvistum og Védís Huld Sigurðardóttir og Ísak frá Þjórsárbakka. Herdís og Kormákur riðu á vaðið fyrir hönd íslensku keppendanna en lukkan var ekki í liði með þeim í dag því Kormáki fipaðist á yfirferðinni og útkoman var 5,87. Næst í braut af íslensku keppendunum komu þau Védís Huld Sigurðardóttir og Ísak frá Þjórsárbakka en þau voru í feikna stuði og hlutu í einkunn 7,07 og eru önnur inn A-úrslit ungmenna. Þriðjar í braut íslensku keppendanna voru þær Helga Una Björnsdóttir og Ósk frá Stað með stórglæsilega sýningu sem skilaði þeim 7,47 og beint inn í A-úrslit. Fjórðu í braut af íslensku keppendunum voru síðan Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir og Hulinn frá Breiðstöðum en því miður missti Hulinn skeifu og þau hlutu ekki einkunn. Fimmtu í braut komu loks Jóhanna Margrét Snorradóttir og Assa frá Miðhúsum og enduðu þær með 7,07 og lönduðu þar með sæti í B-úrlitum. Af íslensku knöpunum eigum við því í fullorðinsflokki einn í A-úrslitum og einn í B-úrslitum, og í ungmennaflokki er einn í A-úrslitum. Anne Stine Haugen og Hæmir frá Hyldsbæk leiða fullorðinsflokkinn með yfirburðum en þau hlutu hvorki meira né minna en 8,20 fyrir sína mögnuðu sýningu en þau keppa fyrir hönd Noregs. Eiðfaxi hitti Anne Stine eftir þeirra sýnungu sem sjá má á fréttasíðu Eiðfaxa en hjá Eiðfaxa er að finna fjölmörg stórskemmtileg viðtöl við knapa að loknum sýningum sem og gesti og gangandi. Næst á dagskrá er yfirlit fyrir 7 vetra og eldri hryssur og stóðhesta. Þar eigum við tvo fulltrúa þau Eind frá Grafarkoti, sýnandi Bjarni Jónasson og Hljóm frá Auðsholtshjáleigu, sýnandi Árni Björn Pálsson. Eind hlaut 8,41 í fordómi og var þriðja hæst í sínum flokki. Hljómur frá Auðsholtshjáleigu var hæstur í sínum flokki eftir fordóm með 8,77 í aðaleinkunn. Það verður því einkar spennandi að fygjast með þeim á eftir.  Í kvöld fara svo fram seinni tveir sprettirnir í 250m skeiði. Þar eigum við fimm fulltrúa og sem stendur eiga þau Kristján Árni Birgisson og Krafla frá Syðri-Rauðalæk besta tímann í ungmennaflokk en þau hlupu á tímanum 22,38 sek. Í fullorðinsflokki eiga þeir Sigursteinn Sumarliðason og Krókus frá Dalbæ annan besta tímann eða 21,97 sek. Það verður því spennandi að sjá hvernig þeim og restinni af íslenska hópnum gengur í kvöld.
7. ágúst 2025
Þá er forkeppni í fimmgangi lokið, við áttum fimm fulltrúa, þrjá í fullorðinsflokki og tvo í ungmennaflokki.
7. ágúst 2025
Eftir yfirlit í flokki fimm og sex vetra kynbótahrossa standa þrjú af fjórum hrossum frá Íslandi efst í sínum flokki.
7. ágúst 2025
Kristján Árni og Sigursteinn standa efstir íslensku keppendanna
7. ágúst 2025
Árni Björn leiðir í tölti með miklum yfirburðum
Eftir Unnur Rún Sigurpálsdóttir 6. ágúst 2025
Þá er forkeppni í slaktaumatölti lokið. Þar átti Ísland fjóra fulltrúa, þrjá í fullorðinsflokki og einn í ungmennaflokki.
Eftir Unnur Rún Sigurpálsdóttir 6. ágúst 2025
Ísland landaði sínum fyrsta heimsmeistaratitli á HM 2025
Eftir Unnur Rún Sigurpálsdóttir 6. ágúst 2025
Heimsmeistaramót Íslenska hestsins hófst á kynbótadómum.
Eftir Unnur Rún Sigurpálsdóttir 4. ágúst 2025
Sig­ur­björn seg­ir alla hest­ana vera í góðu standi eft­ir ferðalagið. Hann bend­ir einnig á mik­il­vægi þess að styðja við bak liðsfé­lag­anna þegar keppn­in hefst á morg­un.
Eftir Unnur Rún Sigurpálsdóttir 4. ágúst 2025
Heims­meist­ara­mót ís­lenska hests­ins hefst með form­leg­um hætti í fyrramálið og kynbótadómum.
Lesa meira