Takk, jólakveðja frá formanni LH

Hinrik Sigurðsson • 24. desember 2022

Kæra hestafólk og vinir.

Um leið og ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla langar mig að þakka ykkur fyrir árið sem er að líða en árið var okkur hestafólki gott og heilt yfir skemmtilegt.

Stórglæsilegt Landsmót hestamanna var loksins haldið á Gaddstaðaflötum við Hellu. Var það, öllum þeim sem að því stóðu, til mikils sóma og tókst framkvæmd þess með eindæmum vel. Við fjölskyldan vorum í tjaldi á miðju tjaldstæðinu í 9 nætur og náðum að upplifa landsmótsstemminguna frá flestum hliðum. Það er stórkostlegt að fá tækifæri til að hittast, gleðjast og hafa gaman saman. Horfa á öll bestu hross landsins saman komin, borða góðan mat, syngja og njóta lífsins. Landsmót hestamanna er eitt stærsta og skemmtilegasta mannamót sem haldið er þar sem fólk með þetta stórkostlega áhugamál, íslenska hestinn, alls staðar af á landinu og heiminum kemur saman á sannkallaðri uppskeruhátíð þar sem hesturinn er í aðalhlutverki. Á landsmótum leiðum við saman hesta okkar, tölum um hesta, syngjum um hesta, horfum á hesta, hittum gamla vini, eignumst nýja vini og látum gamminn geisa. 

Það að horfa á og fylgjast með hestafólki á öllum aldri, alls staðar af á landinu, koma með sína bestu hesta, uppábúið í sínu fínasta pússi til að taka þátt í þessum stórviðburði er ekkert minna en stórkostlegt! Að sjá áhugann og einbeitinguna í augum unga fólksins þegar þau undirbúa sig fyrir keppni og sjá gleðina og stoltið í augunum þegar þau koma úr braut, nánast óháð árangri, er eitthvað sem fær mann til að rifja upp af hverju við erum í þessu og af hverju við elskum þetta sport.

Hlutverk formanns LH á landsmóti eru mörg og mismunandi. Það var ánægjulegt að taka á móti forseta, þremur ráðherrum, forseta ÍSÍ auk fjölda annarra og sýna þessu fólki allt það frábæra sem landsmót hefur upp á að bjóða. Skemmtilegasti parturinn er þó að fá að taka þátt í gleði sigurvegara með því að fá að veita verðlaun á slíkum stundum. Að sjá vini sína og félaga uppskera svo ríkulega eftir þrotlausa vinnu, sem jafnvel hefur staðið árum saman er ógleymanlegt. Gleði foreldra sem maður veit að hafa lagt ótrúlega mikið á sig til að styðja við börnin sín sem og ræktenda sem hafa fylgst með og hlúð að sínum gripum og fylgst með vaxta úr grasi og verða að stólpagæðingum er eitthvað sem snertir mann að innstu hjartarótum og minnir enn og aftur á það hvað þessi einstaka íþrótt okkar getur verið gefandi og skemmtileg. 

Landsmót er stór þáttur í félagsstarfi okkar hestamanna og gríðarlega mikilvægur þáttur í hestamennsku flestra. Við þurfum að huga vel að þessu fjöreggi okkar hestamanna, hér eftir sem hingað til, og passa að missa ekki gleðina og stemminguna úr þessum viðburðum.

Að loknu landsmóti skelltum við fjölskyldan 5 hestum, rafmagnsgirðingu, reiðtygjum, tveimur hundum, tjaldi og viðlegubúnaði á kerru og lögðum af stað í óskipulagða hestaútilegu um landið. Þannig ferðuðumst við hringinn um landið í yfir 20 daga og nutum ótrúlegrar gestrisni hestamanna og fengum hvarvetna höfðinglegar móttökur þar sem við nutum leiðsagnar um reiðleiðir á hverjum stað og kynntumst fullt af nýju frábæru hestafólki. Sem dæmi um móttökur þá bilaði bíllinn lítillega á Akureyri en hestafólk á svæðinu var ekki lengi að redda forláta pallbíl að láni þannig að dvölin á Akureyri varð einkar ánægjuleg og eftirminnileg, enda reiðleiðir á því svæði einstakar.

Að loknu glæsilegu Íslandsmóti barna og unglinga í Borgarnesi var förinni heitið á Norðurlandamót á Álandseyjum. Þar áttum við Íslendingar fjölda verðugra fulltrúa. Sérstaklega var gaman að upplifa samstöðu og fagmennsku í íslenska hópsins og faglegt utanumhald landsliðsnefndar og þjálfara liðsins. Er óhætt að vera bjartsýnn fyrir framtíðinni eftir að hafa horft á reiðfærni og getu okkar fólks og er alveg ljóst að það starf sem unnið hefur verið í afreksstarfi yngri flokka er að skila sér og mun skila okkur enn framar þegar fram í sækir.

Í nóvember var haldið landsþing LH í félagsheimili Fáks, en Fákur fagnaði einmitt 100 ára afmæli sínu á árinu. Var landsþing vel sótt og almennur rómur gerður að því hversu góð samstaða hefði verið á meðal hestafólks á þessu þingi og ljóst að hestamenn vilja snúa bökum saman og koma fram sem ein heild. Var þetta sérstaklega ánægjulegt að finna fyrir formann, starfsmenn og stjórnir. Bæði fráfarandi og nýja stjórn. Ný stjórn var kjörin á þinginu og fengu nýir stjórnarmenn afar sterkt og afgerandi umboð sem er afar gott veganesti inn í nýtt tímabil. Vil ég af þessu tilefni þakka fyrri stjórn fyrir sitt óeigingjarna og góða starf á sama tíma og ég hlakka mikið til samstarfsins með nýrri stjórn.

Það er við hæfi á jólum og áramótum að líta til baka yfir árið sem senn gengur sinn veg og ekki síður að horfa fram á veginn og láta sig hlakka til nýs árs með nýjum áskorunum og viðfangsefnum. Stærsti viðburður íslandshestamennskunnar á næsta ári verður óneitanlega Heimsmeistaramót íslenska hestsins í Hollandi þangað sem ég trúi að íslenskt hestafólk muni fylkja liði og styðja við okkar frábæra landslið. Undirbúningur er þegar hafinn og má þar nefna ógleymanlega sýnikennslu landsliðsins, Leiðin að gullinu, sem haldin var í byrjun desember. Heppnaðist sá viðburður frábærlega og var gaman að sjá hvað landsliðin okkar eru samstillt og hvað hestafólk er fróðleiksfúst á sama tíma og það er áhugasamt um að styðja landsliðið okkar. Áfram Ísland!!

Á þessum tímapunkti er mér efst í huga þakklæti til alls þess frábæra fólks sem leggur fram ómælda og óeigingjarna sjálfboðavinnu til að félagsstarf eins og starf hestmannafélaganna og LH er, geti gengið svo vel sem raun ber vitni. Án dugnaðar og elju allra okkar frábæru sjálfboðaliða væri hvorki mótahald eða annað félagsstarf mögulegt. Þá er mér ofarlega í huga þakklæti fyrir allt það góða og skemmtilega fólks sem ég átt samskipti við á árinu og hlakka ég mikið til ársins sem senn gengur í garð.

Þegar þessi orð eru rituð í skammdegi og kulda að morgni Þorláksmessu er rétt að muna að daginn er tekið að lengja og hægt að fara að láta sig dreyma um sól og vor eins og daladæturnar í kvæði Davíðs Stefánssonar.

Um leið og ég þakka hestafólki nær og fjær fyrir góð og ánægjuleg samskipti á árinu, óska ég ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

Guðni Halldórsson

formaður Landssambands hestamannafélaga

 

 

Fréttasafn

Eftir Jónína Sif Eyþórsdóttir 30. apríl 2025
Dagur Íslenska hestsins er á morgun, 1. maí. Hestamannafélög hérlendis sem og erlendis munu í tilefni af deginum bjóða upp á fjölbreytta dagskrá. Við hverjum áhugasama til að kynna sér viðburði á sínu heimasvæði.  Þá verður einnig spennandi dagskrá í Fjölskyldu og Húsdýragarðinum:
Eftir Jónína Sif Eyþórsdóttir 29. apríl 2025
Í gær mánudaginn 28. apríl fór fram stefnumótunarfundur Landssambands hestamannafélaga. Stjórn boðaði fundinn og voru fulltrúar hestamannafélaganna hvattir til að mæta á staðinn eða vera með á Teams. Markmið fundarins var að skapa sameiginlega framtíðarsýn fyrir samband allra hestamanna og var því ákaflega gleðilegt að sjá hversu margir tóku frá tíma til að vera með okkur í þessari vinnu en um 30 manns mættu á staðinn og 50 tóku þátt í fjarfundi. Petra Björk Mogensen stýrði fundinum ásamt Lindu Björk Gunnlaugsdóttur. Þær fengu svo dygga aðstoð frá þeim Jónínu Björk Vilhjálmsdóttur og Anna Kristín Kristinsdóttir sem tóku saman niðurstöður fundarins.
Eftir Jónína Sif Eyþórsdóttir 28. apríl 2025
Á 77. Íþróttaþingi ÍSÍ, sem fram fer dagana 16. og 17. maí nk. á Hótel Natura, verður kosið um forseta ÍSÍ til fjögurra ára og um sjö meðstjórnendur í framkvæmdastjórn ÍSÍ, til fjögurra ára. Skilafrestur framboða rann út föstudaginn 25. apríl sl. kl. 16:00. Til kjörnefndar bárust fimm framboð til embættis forseta ÍSÍ og níu framboð til setu í framkvæmdastjórn ÍSÍ.  Kjörnefnd ÍSÍ hefur úrskurðað öll innsend framboð gild.
Eftir Jónína Sif Eyþórsdóttir 27. apríl 2025
Nú er rétt rúm vika síðan hinn glæsilegi viðburður Allra sterkustu fór fram. Mikil stemning myndaðist að venju enda glæsilegar sýningar, keppni, happadrætti og stóðhestavelta í gangi. Á kvöldum sem þessum er dásamlegt að hafa fullt hús af áhorfendum og var það rauninn þann 19. apríl. Hinsvegar komust ekki allir sem vildu á sýninguna og því gleður það að tilkynna að Eiðfaxi tók upp herlegheitin og verður hægt að horfa á alla sýninguna á streymisveitunni þeirra frá og með miðri næstu viku.
Eftir Berglind Karlsdóttir 24. apríl 2025
Á Allra sterkustu var skrifað undir samstarfssamning milli Topreiter og Landsliðs Íslands í hestaíþróttum. Samningurinn gildir fram yfir Heimsmeistaramót 2027.
Eftir Berglind Karlsdóttir 23. apríl 2025
Hægt er að sækja vinningana á Skrifstofu LH Engjavegi 6 í Laugardal frá og með mánudeginum 28. apríl gegn framvísun happdrættismiðans.
Eftir Berglind Karlsdóttir 23. apríl 2025
Á Allra sterkustu var skrifað undir áframhaldandi samstarfssamning milli Landsliðs Íslands í hestaíþróttum og Líflands.
Eftir Hinrik Sigurðsson 23. apríl 2025
Ákveðið hefur verið að framlengja skráningafresti fyrir fyrsta Íslandsmótið í gæðingalist sem verður haldið í Samskipahöllinni í Spretti dagana 29.apríl – 1.maí 2025. Skráningafrestur er til miðnættis miðvikudaginn 23.apríl.
Eftir Jónína Sif Eyþórsdóttir 22. apríl 2025
Kæru hestamenn, takk kærlega fyrir samveruna og samvinnuna í kringum ALLRA STERKUSTU. Viðburðurinn heppnaðist vel og skiptir það sköpum fyrir landsliðin að finna þenna mikla áhuga og stuðning úr greininni. Viðburður eins og þessi gerist ekki að sjáflum sér. Að baki honum standa óteljandi klukkustundir sem sjálfboðaliðar hafa ljáð verkefninu, fullt af fyrirtækjum hafa lagt til fjármuni eða aðföng og stóðhestaeigendur sem hafa gefið tolla í stóðhestaveltuna. Þá hefur stjórn, skrifstofa, landsliðsnefnd, framkvæmdanefnd, landsliðsþjálfarar og landsliðsknaparnir sjálfir lagt dag við nótt að undirbúa og framkvæma þennan glæsilega viðburð.
Eftir Jónína Sif Eyþórsdóttir 22. apríl 2025
Ný stikuð leið frá Dalakofa í Landmannahelli. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða veitti Hestamannafélaginu Geysi styrk á síðasta ári til að stika svokallaðan Dalastíg. Leiðin þykir gífurlega falleg en er bæði brött og villugjörn og því miklar úrbætur að fá leiðina betur merkta og skráða.
Lesa meira

Styrktaraðilar