Takk, jólakveðja frá formanni LH

24. desember 2022

Kæra hestafólk og vinir.

Um leið og ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla langar mig að þakka ykkur fyrir árið sem er að líða en árið var okkur hestafólki gott og heilt yfir skemmtilegt.

Stórglæsilegt Landsmót hestamanna var loksins haldið á Gaddstaðaflötum við Hellu. Var það, öllum þeim sem að því stóðu, til mikils sóma og tókst framkvæmd þess með eindæmum vel. Við fjölskyldan vorum í tjaldi á miðju tjaldstæðinu í 9 nætur og náðum að upplifa landsmótsstemminguna frá flestum hliðum. Það er stórkostlegt að fá tækifæri til að hittast, gleðjast og hafa gaman saman. Horfa á öll bestu hross landsins saman komin, borða góðan mat, syngja og njóta lífsins. Landsmót hestamanna er eitt stærsta og skemmtilegasta mannamót sem haldið er þar sem fólk með þetta stórkostlega áhugamál, íslenska hestinn, alls staðar af á landinu og heiminum kemur saman á sannkallaðri uppskeruhátíð þar sem hesturinn er í aðalhlutverki. Á landsmótum leiðum við saman hesta okkar, tölum um hesta, syngjum um hesta, horfum á hesta, hittum gamla vini, eignumst nýja vini og látum gamminn geisa. 

Það að horfa á og fylgjast með hestafólki á öllum aldri, alls staðar af á landinu, koma með sína bestu hesta, uppábúið í sínu fínasta pússi til að taka þátt í þessum stórviðburði er ekkert minna en stórkostlegt! Að sjá áhugann og einbeitinguna í augum unga fólksins þegar þau undirbúa sig fyrir keppni og sjá gleðina og stoltið í augunum þegar þau koma úr braut, nánast óháð árangri, er eitthvað sem fær mann til að rifja upp af hverju við erum í þessu og af hverju við elskum þetta sport.

Hlutverk formanns LH á landsmóti eru mörg og mismunandi. Það var ánægjulegt að taka á móti forseta, þremur ráðherrum, forseta ÍSÍ auk fjölda annarra og sýna þessu fólki allt það frábæra sem landsmót hefur upp á að bjóða. Skemmtilegasti parturinn er þó að fá að taka þátt í gleði sigurvegara með því að fá að veita verðlaun á slíkum stundum. Að sjá vini sína og félaga uppskera svo ríkulega eftir þrotlausa vinnu, sem jafnvel hefur staðið árum saman er ógleymanlegt. Gleði foreldra sem maður veit að hafa lagt ótrúlega mikið á sig til að styðja við börnin sín sem og ræktenda sem hafa fylgst með og hlúð að sínum gripum og fylgst með vaxta úr grasi og verða að stólpagæðingum er eitthvað sem snertir mann að innstu hjartarótum og minnir enn og aftur á það hvað þessi einstaka íþrótt okkar getur verið gefandi og skemmtileg. 

Landsmót er stór þáttur í félagsstarfi okkar hestamanna og gríðarlega mikilvægur þáttur í hestamennsku flestra. Við þurfum að huga vel að þessu fjöreggi okkar hestamanna, hér eftir sem hingað til, og passa að missa ekki gleðina og stemminguna úr þessum viðburðum.

Að loknu landsmóti skelltum við fjölskyldan 5 hestum, rafmagnsgirðingu, reiðtygjum, tveimur hundum, tjaldi og viðlegubúnaði á kerru og lögðum af stað í óskipulagða hestaútilegu um landið. Þannig ferðuðumst við hringinn um landið í yfir 20 daga og nutum ótrúlegrar gestrisni hestamanna og fengum hvarvetna höfðinglegar móttökur þar sem við nutum leiðsagnar um reiðleiðir á hverjum stað og kynntumst fullt af nýju frábæru hestafólki. Sem dæmi um móttökur þá bilaði bíllinn lítillega á Akureyri en hestafólk á svæðinu var ekki lengi að redda forláta pallbíl að láni þannig að dvölin á Akureyri varð einkar ánægjuleg og eftirminnileg, enda reiðleiðir á því svæði einstakar.

Að loknu glæsilegu Íslandsmóti barna og unglinga í Borgarnesi var förinni heitið á Norðurlandamót á Álandseyjum. Þar áttum við Íslendingar fjölda verðugra fulltrúa. Sérstaklega var gaman að upplifa samstöðu og fagmennsku í íslenska hópsins og faglegt utanumhald landsliðsnefndar og þjálfara liðsins. Er óhætt að vera bjartsýnn fyrir framtíðinni eftir að hafa horft á reiðfærni og getu okkar fólks og er alveg ljóst að það starf sem unnið hefur verið í afreksstarfi yngri flokka er að skila sér og mun skila okkur enn framar þegar fram í sækir.

Í nóvember var haldið landsþing LH í félagsheimili Fáks, en Fákur fagnaði einmitt 100 ára afmæli sínu á árinu. Var landsþing vel sótt og almennur rómur gerður að því hversu góð samstaða hefði verið á meðal hestafólks á þessu þingi og ljóst að hestamenn vilja snúa bökum saman og koma fram sem ein heild. Var þetta sérstaklega ánægjulegt að finna fyrir formann, starfsmenn og stjórnir. Bæði fráfarandi og nýja stjórn. Ný stjórn var kjörin á þinginu og fengu nýir stjórnarmenn afar sterkt og afgerandi umboð sem er afar gott veganesti inn í nýtt tímabil. Vil ég af þessu tilefni þakka fyrri stjórn fyrir sitt óeigingjarna og góða starf á sama tíma og ég hlakka mikið til samstarfsins með nýrri stjórn.

Það er við hæfi á jólum og áramótum að líta til baka yfir árið sem senn gengur sinn veg og ekki síður að horfa fram á veginn og láta sig hlakka til nýs árs með nýjum áskorunum og viðfangsefnum. Stærsti viðburður íslandshestamennskunnar á næsta ári verður óneitanlega Heimsmeistaramót íslenska hestsins í Hollandi þangað sem ég trúi að íslenskt hestafólk muni fylkja liði og styðja við okkar frábæra landslið. Undirbúningur er þegar hafinn og má þar nefna ógleymanlega sýnikennslu landsliðsins, Leiðin að gullinu, sem haldin var í byrjun desember. Heppnaðist sá viðburður frábærlega og var gaman að sjá hvað landsliðin okkar eru samstillt og hvað hestafólk er fróðleiksfúst á sama tíma og það er áhugasamt um að styðja landsliðið okkar. Áfram Ísland!!

Á þessum tímapunkti er mér efst í huga þakklæti til alls þess frábæra fólks sem leggur fram ómælda og óeigingjarna sjálfboðavinnu til að félagsstarf eins og starf hestmannafélaganna og LH er, geti gengið svo vel sem raun ber vitni. Án dugnaðar og elju allra okkar frábæru sjálfboðaliða væri hvorki mótahald eða annað félagsstarf mögulegt. Þá er mér ofarlega í huga þakklæti fyrir allt það góða og skemmtilega fólks sem ég átt samskipti við á árinu og hlakka ég mikið til ársins sem senn gengur í garð.

Þegar þessi orð eru rituð í skammdegi og kulda að morgni Þorláksmessu er rétt að muna að daginn er tekið að lengja og hægt að fara að láta sig dreyma um sól og vor eins og daladæturnar í kvæði Davíðs Stefánssonar.

Um leið og ég þakka hestafólki nær og fjær fyrir góð og ánægjuleg samskipti á árinu, óska ég ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

Guðni Halldórsson

formaður Landssambands hestamannafélaga

 

 

Fréttasafn

24. desember 2025
Jóla- og nýárskveðja frá formanni LH
22. desember 2025
Landssamband hestamannafélaga óskar öllum hestamönnum nær og fjær gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári, með kærri þökk fyrir samstarfið á árinu.  Starfsfólk og stjórn LH
Eftir Berglind Karlsdóttir 18. desember 2025
Hekla Katharína Kristinsdóttir er reiðkennari ársins 2025
9. desember 2025
Ísólfur Líndal Þórisson hefur verið ráðinn landsliðsþjálfari A-landsliðs Íslands í hestaíþróttum
5. desember 2025
Alþjóðlegur dagur sjálboðaliða 5. desember
14. nóvember 2025
Form annafundur LH var haldinn laugardaginn 8. nóvember sl. Fundinn sóttu um áttatíu manns frá þrjátíu hestamannafélögum auk fulltrúa frá fastanefndum LH, dómarafélögunum og stjórn LH. Góðar og uppbyggilegar umræður urðu á fundinum sem stjórn LH tekur með sér í næsta starfsár og í undirbúning fyrir Landsþing 2026. Formaður LH, Linda Björk Gunnlaugsdóttir, fór í ræðu sinni yfir þau mál sem hafa verið fyrirferðarmest í starfsemi LH á árinu ásamt því að tæpa á helstu verkefnum sem framundan eru. Það eru mörg og umfangsmikil verkefni á borði stjórnar hverju sinni og hefur mikill tími farið fyrsta starfsárið hjá nýrri stjórn í að endurskipuleggja og hagræða í rekstri sambandsins. Afreksmálin eru alltaf fyrirferðarmikil á HM ári í verkefnum skrifstofu og stjórnar og eru afreksmálin á ákveðnum tímamótum núna þar sem samningar við landsliðsþjálfara eru lausir. Gjaldkeri LH, Ólafur Gunnarsson, fór yfir stöðu reikninga og uppfærðar fjárhagsáætlanir sem gera ráð fyrir á næstu tvö ár skili hagnaði en eins og áður kom fram hefur verið farið í hagræðingaraðgerðir á árinu í þeim tilgangi að snúa rekstri sambandsins til betri vegar. Starfshópar sem skipaðir voru skv. samþykkt landsþings 2024 kynntu sína vinnu frá landsþingi. Starfshópur um Íslandsmót telur ekki þörf á að gera breytingar á keppnishluta mótsins en leita þurfi leiða til að gera viðburðinn Íslandsmót að stærri viðburði fyrir áhorfendur. Starfshópur um innanhússmót lagði fram tillögu fyrir fundinn um haldið yrði 2ja til 3ja daga Íslandsmót innanhúss í lok innanhússkeppnistímabilsins 2026 til reynslu. Fundurinn vísaði tillögunni til stjórnar til nánari útfærslu og mun stjórn kalla til framhaldsfundar formanna til frekari umræðna. Æskulýðsbikar LH hlaut Hestamannafélagið Skagfirðingur og veittu yfirreiðkennari félagsins og formaður æskulýðsdeildar Skagfirðings bikarnum móttöku. Fulltrúar frá hestamannafélögunum Mána, Hring, Funa, Herði, Freyfaxa og Sleipni sögðu frá sínum verkefnum og helstu áskorunum. Voru það virkilega áhugaverðar frásagnir því flest hestamannafélög eru að eiga við svipaðar áskoranir þó aðstæður hjá hverju félagi séu mismunandi. Að loknum hefðbundnum fundarstörfum var fundinum skipt upp í þrjá umræðuhópa sem fjölluðu um stefnumótun, gjaldkerastörf og nýliðunar -og æskulýðsmál. Mikil umræða og góð vinna var í umræðuhópunum. Í hópnum um stefnumótum urðu mjög líflegar umræður og margir snertifletir ræddir á hinum ýmsu málum og ljóst að það er heilmikið að vinna úr í framhaldinu. Fundinum var skipt upp í sex minni hópa sem fjölluðu hver um sig um ákveðna þætti í starfsemi LH, hvaða markmið skuli setja og hvernig skuli ná þeim. Stefnumótunarfundurinn var framhald af opnum stefnumótunarfundi sem haldinn var sl. vor með fulltrúum hestamannafélaganna. Hópurinn um æskulýðs- og nýliðunarmál fjallaði um þátttöku stráka í hestamennsku, félagshesthús og almenna stöðu hjá félögunum. Margar hugmyndir komu upp og góðar umræður sköpuðust. Í gjaldkerahópnum var rætt um samskipti við sveitarfélög, fjármál hestamannafélaga, félög í almannaheilaskráningu og fyrirmyndafélög ásamt styrkjum til hestamannafélaga. Fjármál hestamannafélaganna eru almennt í góðum málum og faglega staðið að þeim en slíkt er algjör forsenda fyrir því að gott samtal geti átt sér stað við sveitarfélögin þegar kemur að styrkjamálum hins opinbera. Félögin voru einnig hvött til að skrá félagið á almannaheillaskrá en það er gott verkfæri þegar leitað er styrkja hjá almennum fyrirtækjum og veitir skattaafslátt á móti. Einnig voru félögin hvött til að hefju vinnu við að gerast fyrirmyndarfélag ÍSÍ og er það holl og góð vinna til að bæta starfshætti félagsins. Félög geta leitað til hvors annars um þau gögn sem þarf að skila og voru félögin hvött til að vinna þau saman. Samhliða formannafundi var haldinn mótanefndafundur sem um tuttugu manns sátu, en fyrirhugað er að halda framahaldsmótanefndafund um næstu mánaðamót til að ræða frekar mótadagskrá ársins. Stjórn LH þakkar formönnum hestamannafélaga í landinu og öðrum þátttakendum á formannafundi fyrir afar uppbyggilegar umræður sem munu nýtast vel á komandi starfsári. Skýrsla stjórnar LH 2024-2025
12. nóvember 2025
Ættingjar fyrsta heiðursfélaga LH afhentu LH viðurkenningarskjalið til varðveislu
11. nóvember 2025
Guðni Halldórsson og Kristinn Skúlason hlutu gullmerki LH
9. nóvember 2025
Haraldur Þórarinsson er heiðursverðlaunum LH sannarlega verðugur
9. nóvember 2025
Gott æskulýðsstarf er grunnurinn að framtíð hestamennskunnar
Lesa meira