Andlát - Ragnar Tómasson

Ragnar Tómasson lögfræðingur og hestamaður lést 28. september á hjúkrunarheimilinu Sóltúni, 86 ára að aldri.
Ragnar hlaut heiðursverðlaun Landssambands hestamannafélaga árið 2013.
Ragnar var mikill hestamaður og sinnti ýmsum félagsstörfum vegna þess áhugamáls allt frá árinu 1972. Hann var m.a. formaður íþróttadeildar Fáks, átti sæti í stjórn íþróttaráðs Landssambands hestamanna, var liðsstjóri íslenska landsliðsins á Evrópumóti í hestaíþróttum í Svíþjóð árið 1985 og var um tíma dómari í hestaíþróttum. Þá vann hann að skipulagningu unglingastarfs hjá nokkrum hestamannafélögum.
Ragnar átti jafnframt sæti í stjórn ÍFA, Íþrótta fyrir alla, og hóf baráttu fyrir eflingu líkamsræktar með maraþonhlaupi árið 1990. Var hann hvatamaður og aðstoðarmaður við gerð þáttanna Hristu af þér slenið, sem sýndir voru á RÚV árið 1991. Ritaði hann samnefnda bók tveimur árum síðar og sömuleiðis skrifaði hann fjölda greina í hestatímaritið Eiðfaxa.
Ragnar fæddist í Reykjavík 30. janúar 1939 og ólst þar upp. Foreldrar hans voru Tómas Pétursson stórkaupmaður og Ragnheiður Einarsdóttir, lengi formaður Hringsins.
Ragnar lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands 1959, embættisprófi í lögfræði 1965 og stundaði nám í Business School við Kaliforníuháskóla árið 1966. Hann opnaði málflutningsskrifstofu í Reykjavík sama ár og hóf nokkru síðar rekstur Fasteignaþjónustunnar og starfaði einkum við sölu fyrirtækja og samningaráðgjöf fyrir fyrirtæki í tengslum við samruna og fleira því tengt.
Þau hjónin, Ragnar og Dagný Ólafía Gísladóttir, ráku saman um tíma sokkaverksmiðju, voru með umboð fyrir Polaroid-filmur og -myndavélar, fluttu inn innréttingar og baðtæki og ráku Jarlinn skyndibitastað ásamt fjölskyldu sinni.
Dagný Ólafía lést árið 2016. Börn þeirra eru Ragna Þóra, f. 1964, Tómas, f. 1965, d. 2010, Dagný Ólafía, f. 1968, og Arnar Þór, f. 1972. Barnabörnin eru 12 talsins og langafabörnin 14.
Landssamband hestamannafélaga vottar fjölskyldu Ragnars innilega samúð og þakkar Ragnari fyrir ómetanleg störf sín í þágu hestaíþrótta. Minningin um góðan hestamann lifir.
Fréttasafn









