Andlát - Ragnar Tómasson

6. október 2025

Ragnar Tómasson lögfræðingur og hestamaður lést 28. september á hjúkrunarheimilinu Sóltúni, 86 ára að aldri.


Ragnar hlaut heiðursverðlaun Landssambands hestamannafélaga árið 2013.


Ragnar var mikill hestamaður og sinnti ýmsum félagsstörfum vegna þess áhugamáls allt frá árinu 1972. Hann var m.a. formaður íþróttadeildar Fáks, átti sæti í stjórn íþróttaráðs Landssambands hestamanna, var liðsstjóri íslenska landsliðsins á Evrópumóti í hestaíþróttum í Svíþjóð árið 1985 og var um tíma dómari í hestaíþróttum. Þá vann hann að skipulagningu unglingastarfs hjá nokkrum hestamannafélögum.


Ragnar átti jafnframt sæti í stjórn ÍFA, Íþrótta fyrir alla, og hóf baráttu fyrir eflingu líkamsræktar með maraþonhlaupi árið 1990. Var hann hvatamaður og aðstoðarmaður við gerð þáttanna Hristu af þér slenið, sem sýndir voru á RÚV árið 1991. Ritaði hann samnefnda bók tveimur árum síðar og sömuleiðis skrifaði hann fjölda greina í hestatímaritið Eiðfaxa.


Ragnar fæddist í Reykjavík 30. janúar 1939 og ólst þar upp. Foreldrar hans voru Tómas Pétursson stórkaupmaður og Ragnheiður Einarsdóttir, lengi formaður Hringsins.


Ragnar lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands 1959, embættisprófi í lögfræði 1965 og stundaði nám í Business School við Kaliforníuháskóla árið 1966. Hann opnaði málflutningsskrifstofu í Reykjavík sama ár og hóf nokkru síðar rekstur Fasteignaþjónustunnar og starfaði einkum við sölu fyrirtækja og samningaráðgjöf fyrir fyrirtæki í tengslum við samruna og fleira því tengt.


Þau hjónin, Ragnar og Dagný Ólafía Gísladóttir, ráku saman um tíma sokkaverksmiðju, voru með umboð fyrir Polaroid-filmur og -myndavélar, fluttu inn innréttingar og baðtæki og ráku Jarlinn skyndibitastað ásamt fjölskyldu sinni.


Dagný Ólafía lést árið 2016. Börn þeirra eru Ragna Þóra, f. 1964, Tómas, f. 1965, d. 2010, Dagný Ólafía, f. 1968, og Arnar Þór, f. 1972. Barnabörnin eru 12 talsins og langafabörnin 14.


Landssamband hestamannafélaga vottar fjölskyldu Ragnars innilega samúð og þakkar Ragnari fyrir ómetanleg störf sín í þágu hestaíþrótta. Minningin um góðan hestamann lifir.



Fréttasafn

7. október 2025
Valnefnd óskar eftir keppnisárangri ræktunarbúa
30. september 2025
Sigurbjörn Eiríksson er nýr formaður landsliðsnefndar LH
25. september 2025
Dagur þjálfarans
10. september 2025
Dagana 21. til 23. nóvember nk. verður haldið leiðtoganámskeið FEIF sem ætlað er ungmennum á aldrinum 18-26 ára. Námskeiðið er á vegum Danska Íslandshestasambandsins (DI) og er haldið í Gringdsted Landbúnaðarskólanum í Billund í Danmörku. Yfirskrift námskeiðsins er „Fighting Fit – Conflict, Fitness & Teamwork in Action“ og markmiðið er að hvetja ungmenni til að taka þátt í félagsstörfum í hestamennsku og að þátttakendur efli færni sína sem leiðtogar. Aðalfyrirlesarar verða Rebekka Hyldgaard, sjúkraþjálfari, sem fjallar um hvernig líkamsþjálfun getur bætt árangur í reiðmennsku, og Professor Janne Winther Christensen frá Aarhus University sem fjallar um nýjustu rannsóknir um „ animal conflict behaviour “. Þátttaka í viðburði sem þessum gefur frábæra reynslu, skapar tengsl og styrkir þátttakendur til frekari leiðtoga og ábyrgðarstarfa innan hestamannafélaganna. Við hvetjum hestamannafélögin til að hvetja fulltrúa sína til þátttöku á þessu námskeiði og minnum á mikilvægi þess að efla ungt fólk til þátttöku í nefndum og störfum innan félaganna til að efla nýliðun ásamt því að móta leiðtoga framtíðarinnar. Nánari upplýsingar um námskeiðið má finna á heimasíðu FEIF. Umsóknarfrestur er 15. október 2025 . Námskeiðið hefst föstudaginn 21. nóvember kl 16:00 og endar sunnudaginn 23. nóvember kl 13:00. Kostnaður er 200€ og innifalið í því er gisting, matur og fræðsla.
10. september 2025
Landssamband hestamannafélaga auglýsir til umsóknar eftirfarandi mót: · Íslandsmót fullorðinna og ungmenna 2028 · Íslandsmót barna og unglinga 2028 · Íslandsmót í gæðingalist 2026 (innanhússmót sem haldið skal fyrir 15. maí) · Áhugamannamót Íslands 2026 Dagsetningar mótanna eru ákveðnar í samráði við mótshaldara og að teknu tilliti til dagsetninga annarra móta. Á Íslandsmóti fullorðinna og ungmenna er keppt í íþróttakeppni í efsta styrkleikaflokki þar sem keppendur eru einir inni á vellinum í einu. Á Íslandsmóti barna og unglinga er keppt í íþróttakeppni og gæðingakeppni. Á Íslandsmóti í gæðingalist er keppt í öllum aldursflokkum og skal mótið haldið fyrir 15. maí 2026. Á Áhugamannamóti Íslands er keppt í íþróttakeppni og gæðingakeppni í 1., 2. og 3. flokki. Umsóknir áhugasamra mótshaldara skulu berast Landssambandi hestamannafélaga fyrir 1. október nk. á netfangið lh@lhhestar.is .
14. ágúst 2025
Hörður Hákonarson hestamaður og alþjóðlegur hestaíþróttadómari í Reykjavík er látinn.
13. ágúst 2025
Til hamingju Ísland með frábært landslið
13. ágúst 2025
Úrslit í fjórgangi & fimmgangi
10. ágúst 2025
Þvílíkur morgunn!!!
10. ágúst 2025
Þá eru B-úrslitum lokið og ljóst hvaða keppendur bæta sér í toppbaráttuna í hverjum flokki.
Lesa meira