Áskell Heiðar ráðinn framkvæmdastjóri Landsmóts hestamanna á Hólum 2026

13. mars 2025

Stjórn Landsmóts hestamanna, sem fram fer að Hólum í Hjaltadal í 5.-12. júlí 2026, hefur ráðið Áskel Heiðar Ásgeirsson framkvæmdastjóra mótsins.

Þetta verður þriðja Landsmótið sem Áskell Heiðar stýrir, en hann var einnig framkvæmdastjóri Landsmóts á Hólum 2016 og í Reykjavík 2018.

Áskell Heiðar er menntaður landfræðingur frá Háskóla Íslands, með diplómu í opinberri stjórnsýslu frá HÍ og MA gráðu í ferðamálafræði og viðburðastjórnun frá Háskólanum á Hólum og Leeds Beckett University. Auk áðurnefndra Landsmóta hefur hann skipulagt fjölda viðburða hérlendis á undanförnum árum eins og tónlistarhátíðina Bræðsluna sem mun fagna tuttugu ára afmæli í sumar. Áskell Heiðar er lektor við Ferðamáladeild Háskólans á Hólum þar sem hann kennir viðburðastjórnun. Hann mun halda því áfram samhliða skipulagningu Landsmóts.

Löng hefð er fyrir glæsilegum landsmótum hestamanna í Skagafirði. Á Hólum var byggð upp glæsileg aðstaða fyrir landsmótið 2016 á athafnasvæði Háskólans á Hólum þar sem veitt er fagmenntun á sviði reiðmennsku, reiðkennslu, tamninga, og hestahalds, auk þess sem þarf fara fram rannsóknir á íslenska hestinum.

Mótið mun verða fyrsta landsmótið sem hestamannafélagið Skagfirðingur heldur alfarið, en með góðum stuðningi frá Skagafirði, Háskólanum á Hólum og íslenska ríkinu.

Skagfirðingur hefur stofnað sérstakt félag sem mun annast rekstur mótsins og þá hefur verið skipuð sérstök framkvæmdanefnd LM26 sem hittist í fyrsta skiptið á Hólum í dag. Í henni sitja; Elvar Einarsson, formaður, Stefanía Inga Sigurðardóttir, gjaldkeri, Bjarni Jónasson, Hallgrímur Ingi Jónsson og Arna Björg Bjarnadóttir frá hestamannafélaginu Skagfirðingi, Hjörtur Bergstað frá Landsambandi hestamanna og Sigfús Ingi Sigfússon og Hjörvar Halldórsson frá sveitarfélaginu Skagafirði.

Búist er við miklum fjölda gesta á landsmótið sem fram fer í júlí 2026. Undirbúningur er þegar hafinn og Elvar Einarsson formaður hestamannafélagsins Skagfirðings segist viss um að mótið verði lyftistöng fyrir hestamennsku á landinu. Áskell Heiðar segir framkvæmdanefndina búa að því að mikil þekking varðandi hestamannamót sé til í Skagafirði og nágrannabyggðum, ekki síst eftir síðasta landsmót á Hólum 2016. Þá hafi verið byggð upp glæsileg aðstaða sem muni nýtast aftur, en auðvitað þurfi að gera einhverjar lagfæringar á bæði völlum og annarri aðstöðu. „Landsmót er mjög skemmtilegt samvinnuverkefni þar sem mjög margir leggja hönd á plóg og það verður mitt stærsta verkefni á næstu mánuðum að virkja þennan mannauð og tryggja það að mótið verði vel heppnaður viðburður þar sem áherslan verður auðvitað á frábæra hesta, en einnig á að fólk hittist og eigi saman góðar stundir“ segir Áskell Heiðar.

Fréttasafn

10. september 2025
Dagana 21. til 23. nóvember nk. verður haldið leiðtoganámskeið FEIF sem ætlað er ungmennum á aldrinum 18-26 ára. Námskeiðið er á vegum Danska Íslandshestasambandsins (DI) og er haldið í Gringdsted Landbúnaðarskólanum í Billund í Danmörku. Yfirskrift námskeiðsins er „Fighting Fit – Conflict, Fitness & Teamwork in Action“ og markmiðið er að hvetja ungmenni til að taka þátt í félagsstörfum í hestamennsku og að þátttakendur efli færni sína sem leiðtogar. Aðalfyrirlesarar verða Rebekka Hyldgaard, sjúkraþjálfari, sem fjallar um hvernig líkamsþjálfun getur bætt árangur í reiðmennsku, og Professor Janne Winther Christensen frá Aarhus University sem fjallar um nýjustu rannsóknir um „ animal conflict behaviour “. Þátttaka í viðburði sem þessum gefur frábæra reynslu, skapar tengsl og styrkir þátttakendur til frekari leiðtoga og ábyrgðarstarfa innan hestamannafélaganna. Við hvetjum hestamannafélögin til að hvetja fulltrúa sína til þátttöku á þessu námskeiði og minnum á mikilvægi þess að efla ungt fólk til þátttöku í nefndum og störfum innan félaganna til að efla nýliðun ásamt því að móta leiðtoga framtíðarinnar. Nánari upplýsingar um námskeiðið má finna á heimasíðu FEIF. Umsóknarfrestur er 15. október 2025 . Námskeiðið hefst föstudaginn 21. nóvember kl 16:00 og endar sunnudaginn 23. nóvember kl 13:00. Kostnaður er 200€ og innifalið í því er gisting, matur og fræðsla.
10. september 2025
Landssamband hestamannafélaga auglýsir til umsóknar eftirfarandi mót: · Íslandsmót fullorðinna og ungmenna 2028 · Íslandsmót barna og unglinga 2028 · Íslandsmót í gæðingalist 2026 (innanhússmót sem haldið skal fyrir 15. maí) · Áhugamannamót Íslands 2026 Dagsetningar mótanna eru ákveðnar í samráði við mótshaldara og að teknu tilliti til dagsetninga annarra móta. Á Íslandsmóti fullorðinna og ungmenna er keppt í íþróttakeppni í efsta styrkleikaflokki þar sem keppendur eru einir inni á vellinum í einu. Á Íslandsmóti barna og unglinga er keppt í íþróttakeppni og gæðingakeppni. Á Íslandsmóti í gæðingalist er keppt í öllum aldursflokkum og skal mótið haldið fyrir 15. maí 2026. Á Áhugamannamóti Íslands er keppt í íþróttakeppni og gæðingakeppni í 1., 2. og 3. flokki. Umsóknir áhugasamra mótshaldara skulu berast Landssambandi hestamannafélaga fyrir 1. október nk. á netfangið lh@lhhestar.is .
14. ágúst 2025
Hörður Hákonarson hestamaður og alþjóðlegur hestaíþróttadómari í Reykjavík er látinn.
13. ágúst 2025
Til hamingju Ísland með frábært landslið
13. ágúst 2025
Úrslit í fjórgangi & fimmgangi
10. ágúst 2025
Þvílíkur morgunn!!!
10. ágúst 2025
Þá eru B-úrslitum lokið og ljóst hvaða keppendur bæta sér í toppbaráttuna í hverjum flokki.
10. ágúst 2025
Kristján Árni tvöfaldur heimsmeistari
9. ágúst 2025
Kristján Árni - Heimsmeistari
8. ágúst 2025
Niðurstöður úr kynbótasýningum sjö vetra og eldri hrossa
Lesa meira