Áskell Heiðar ráðinn framkvæmdastjóri Landsmóts hestamanna á Hólum 2026

13. mars 2025

Stjórn Landsmóts hestamanna, sem fram fer að Hólum í Hjaltadal í 5.-12. júlí 2026, hefur ráðið Áskel Heiðar Ásgeirsson framkvæmdastjóra mótsins.

Þetta verður þriðja Landsmótið sem Áskell Heiðar stýrir, en hann var einnig framkvæmdastjóri Landsmóts á Hólum 2016 og í Reykjavík 2018.

Áskell Heiðar er menntaður landfræðingur frá Háskóla Íslands, með diplómu í opinberri stjórnsýslu frá HÍ og MA gráðu í ferðamálafræði og viðburðastjórnun frá Háskólanum á Hólum og Leeds Beckett University. Auk áðurnefndra Landsmóta hefur hann skipulagt fjölda viðburða hérlendis á undanförnum árum eins og tónlistarhátíðina Bræðsluna sem mun fagna tuttugu ára afmæli í sumar. Áskell Heiðar er lektor við Ferðamáladeild Háskólans á Hólum þar sem hann kennir viðburðastjórnun. Hann mun halda því áfram samhliða skipulagningu Landsmóts.

Löng hefð er fyrir glæsilegum landsmótum hestamanna í Skagafirði. Á Hólum var byggð upp glæsileg aðstaða fyrir landsmótið 2016 á athafnasvæði Háskólans á Hólum þar sem veitt er fagmenntun á sviði reiðmennsku, reiðkennslu, tamninga, og hestahalds, auk þess sem þarf fara fram rannsóknir á íslenska hestinum.

Mótið mun verða fyrsta landsmótið sem hestamannafélagið Skagfirðingur heldur alfarið, en með góðum stuðningi frá Skagafirði, Háskólanum á Hólum og íslenska ríkinu.

Skagfirðingur hefur stofnað sérstakt félag sem mun annast rekstur mótsins og þá hefur verið skipuð sérstök framkvæmdanefnd LM26 sem hittist í fyrsta skiptið á Hólum í dag. Í henni sitja; Elvar Einarsson, formaður, Stefanía Inga Sigurðardóttir, gjaldkeri, Bjarni Jónasson, Hallgrímur Ingi Jónsson og Arna Björg Bjarnadóttir frá hestamannafélaginu Skagfirðingi, Hjörtur Bergstað frá Landsambandi hestamanna og Sigfús Ingi Sigfússon og Hjörvar Halldórsson frá sveitarfélaginu Skagafirði.

Búist er við miklum fjölda gesta á landsmótið sem fram fer í júlí 2026. Undirbúningur er þegar hafinn og Elvar Einarsson formaður hestamannafélagsins Skagfirðings segist viss um að mótið verði lyftistöng fyrir hestamennsku á landinu. Áskell Heiðar segir framkvæmdanefndina búa að því að mikil þekking varðandi hestamannamót sé til í Skagafirði og nágrannabyggðum, ekki síst eftir síðasta landsmót á Hólum 2016. Þá hafi verið byggð upp glæsileg aðstaða sem muni nýtast aftur, en auðvitað þurfi að gera einhverjar lagfæringar á bæði völlum og annarri aðstöðu. „Landsmót er mjög skemmtilegt samvinnuverkefni þar sem mjög margir leggja hönd á plóg og það verður mitt stærsta verkefni á næstu mánuðum að virkja þennan mannauð og tryggja það að mótið verði vel heppnaður viðburður þar sem áherslan verður auðvitað á frábæra hesta, en einnig á að fólk hittist og eigi saman góðar stundir“ segir Áskell Heiðar.

Fréttasafn

8. ágúst 2025
Niðurstöður úr kynbótasýningum sjö vetra og eldri hrossa
8. ágúst 2025
Forkeppni í fjórgangi er nú lokið. Ísland átt fimm fulltrúa, þrjá í fullorðinsflokki þau Helgu Unu Björnsdóttur og Ósk frá Stað, Aðalheiði Önnu Guðjónsdóttur og Hulinn frá Breiðstöðum og Jóhönnu Margréti Snorradóttur og Össu frá Miðhúsum. Í ungmennaflokk kepptu fyrir Íslands hönd þau Herdís Björg Jóhannsdóttir og Kormákur frá Kvistum og Védís Huld Sigurðardóttir og Ísak frá Þjórsárbakka. Herdís og Kormákur riðu á vaðið fyrir hönd íslensku keppendanna en lukkan var ekki í liði með þeim í dag því Kormáki fipaðist á yfirferðinni og útkoman var 5,87. Næst í braut af íslensku keppendunum komu þau Védís Huld Sigurðardóttir og Ísak frá Þjórsárbakka en þau voru í feikna stuði og hlutu í einkunn 7,07 og eru önnur inn A-úrslit ungmenna. Þriðjar í braut íslensku keppendanna voru þær Helga Una Björnsdóttir og Ósk frá Stað með stórglæsilega sýningu sem skilaði þeim 7,47 og beint inn í A-úrslit. Fjórðu í braut af íslensku keppendunum voru síðan Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir og Hulinn frá Breiðstöðum en því miður missti Hulinn skeifu og þau hlutu ekki einkunn. Fimmtu í braut komu loks Jóhanna Margrét Snorradóttir og Assa frá Miðhúsum og enduðu þær með 7,07 og lönduðu þar með sæti í B-úrlitum. Af íslensku knöpunum eigum við því í fullorðinsflokki einn í A-úrslitum og einn í B-úrslitum, og í ungmennaflokki er einn í A-úrslitum. Anne Stine Haugen og Hæmir frá Hyldsbæk leiða fullorðinsflokkinn með yfirburðum en þau hlutu hvorki meira né minna en 8,20 fyrir sína mögnuðu sýningu en þau keppa fyrir hönd Noregs. Eiðfaxi hitti Anne Stine eftir þeirra sýnungu sem sjá má á fréttasíðu Eiðfaxa en hjá Eiðfaxa er að finna fjölmörg stórskemmtileg viðtöl við knapa að loknum sýningum sem og gesti og gangandi. Næst á dagskrá er yfirlit fyrir 7 vetra og eldri hryssur og stóðhesta. Þar eigum við tvo fulltrúa þau Eind frá Grafarkoti, sýnandi Bjarni Jónasson og Hljóm frá Auðsholtshjáleigu, sýnandi Árni Björn Pálsson. Eind hlaut 8,41 í fordómi og var þriðja hæst í sínum flokki. Hljómur frá Auðsholtshjáleigu var hæstur í sínum flokki eftir fordóm með 8,77 í aðaleinkunn. Það verður því einkar spennandi að fygjast með þeim á eftir.  Í kvöld fara svo fram seinni tveir sprettirnir í 250m skeiði. Þar eigum við fimm fulltrúa og sem stendur eiga þau Kristján Árni Birgisson og Krafla frá Syðri-Rauðalæk besta tímann í ungmennaflokk en þau hlupu á tímanum 22,38 sek. Í fullorðinsflokki eiga þeir Sigursteinn Sumarliðason og Krókus frá Dalbæ annan besta tímann eða 21,97 sek. Það verður því spennandi að sjá hvernig þeim og restinni af íslenska hópnum gengur í kvöld.
7. ágúst 2025
Þá er forkeppni í fimmgangi lokið, við áttum fimm fulltrúa, þrjá í fullorðinsflokki og tvo í ungmennaflokki.
7. ágúst 2025
Eftir yfirlit í flokki fimm og sex vetra kynbótahrossa standa þrjú af fjórum hrossum frá Íslandi efst í sínum flokki.
7. ágúst 2025
Kristján Árni og Sigursteinn standa efstir íslensku keppendanna
7. ágúst 2025
Árni Björn leiðir í tölti með miklum yfirburðum
Eftir Unnur Rún Sigurpálsdóttir 6. ágúst 2025
Þá er forkeppni í slaktaumatölti lokið. Þar átti Ísland fjóra fulltrúa, þrjá í fullorðinsflokki og einn í ungmennaflokki.
Eftir Unnur Rún Sigurpálsdóttir 6. ágúst 2025
Ísland landaði sínum fyrsta heimsmeistaratitli á HM 2025
Eftir Unnur Rún Sigurpálsdóttir 6. ágúst 2025
Heimsmeistaramót Íslenska hestsins hófst á kynbótadómum.
Eftir Unnur Rún Sigurpálsdóttir 4. ágúst 2025
Sig­ur­björn seg­ir alla hest­ana vera í góðu standi eft­ir ferðalagið. Hann bend­ir einnig á mik­il­vægi þess að styðja við bak liðsfé­lag­anna þegar keppn­in hefst á morg­un.
Lesa meira