Átta hlutu Gullmerki LH

25. október 2024

Á landsþingi voru 8 einstaklingum veitt Gullmerki LH. Það voru þau:  Halldór Sigurðsson, Gunnar Örn Guðmundsson, Sigríður Jóna Kristjánsdóttir, Jóní na Stefánsdóttir, Guðmundur Sveinsson, Helga Claessen, Pálmi Guðmundsson og Sigurður Ævarsson. 

Allir þessir félagar hafa unnið ötullega að framgangi hestamennskunnar á Íslandi hvert á sinn hátt og eru mikilvægir félagsmenn í sínum félögum sem og landssambandinu okkar. Hestamenn þakka þessu fólki fyrir sitt óeigingjarna starf og óska þeim til hamingju með gullmerki sitt. 

Hér að neðan má kynna sér þessa einstaklinga betur. 

Halldór Sigurðsson

Halldór Sigurðsson var alinn upp í Þverholtum og var þar stórt hestabú, svo hann hefur stundað hestamennsku frá ungum aldri og vann fyrir hrossaræktunarsamband Vesturlands. Halldór Sigurðsson hefur verið virkur gæðingadómari í 44 ár. Hann var stjórnarmaður í stjórn gæðingadómarafélagsins og kenndi á vegum gæðingadómarafélagsins um árabil. Halldór var í formennsku og stjórn hestamannafélagsins Skugga og starfaði í nefndum til fjölda ára. Þá var Halldór einnig í stjórn hestamannafélagsins Borgfirðings og er ennþá í nefndum á vegum félagsins.

Halldór Sigurðsson er hér með sæmd gullmerki LH

 

Gunnar Örn Guðmundsson

Gunnar hefur sinnt sem dýralæknir þjónustu við hestamenn í Borgarfirði síðastliðin 46 ár. Hann var lengi í stjórn Hestamannafélagsins Faxa og síðan formaður félagsins um nokkurra ára skeið. Á formannstíð hans var meðal annars unnið við undirbúning og síðar byggingu á glæsilegri reiðhöll hestamannafélaganna Faxa og Skugga í Borgarnesi, sem var mikið verkefni fyrir svo fámenn félög. Flest öll verk voru unnin í sjálfboðavinnu félagsmanna, sem kallaði á mikið skipulag og eftirfylgni. Reiðhöllin hefur reynst mikil lyftistöng fyrir hestamennsku í héraðinu og um allt Vesturland. Í formannstíð Gunnars var mikli áhersla lögð á fræðslu og þjálfun, sérstaklega barna og unglinga.

Gunnar Örn Guðmundsson er hér með sæmdur gullmerki LH

 

Sigga á Grund

Sigríður Jóna Kristjánsdóttir, betur þekkt sem Sigga á Grund, Listakonan sem sker íslenska hestinn út í tré, horn og hvaltennur og hefur verið eitt helsta nafn íslenskrar listasögu þegar kemur að tréskurði.

Verk hennar eru einstök og hafa mikil áhrif á bæði íslenskt menningarlíf og hestamennsku. Sigga er þjóðþekkt fyrir það hvernig hún skapaði útskornar myndir af íslenskum hestum á öllum sínum fimm gangtegundum. Þetta hefur hún gert með ótrúlegri nákvæmni og þekkingu á byggingu og hreyfingum hestsins, sem hefur fangað aðdáun bæði hestamanna og listunnenda.

Sigga á Grund hefur skapað sér einstaka stöðu í íslenskri listasögu. Verk hennar, sem endurspegla djúp tengsl hennar við íslenska hestinn og hestamennsku, munu halda áfram að lifa og veita innblástur komandi kynslóðum.

Sigríður Jóna Kristjánsdóttir er hér með sæmd gullmerki LH



Jónína Stefánsdóttir

Jónína Stefánsdóttir hefur verið í hestamannafélaginu Stíganda í Skagafirði frá 1972. Jónína hefur starfað mikið á stórmótum og verið óhrædd við að hlaupa í hin ýmsu störf. Hvort heldur sem við afgreiðslu í sjoppunni á Vindheimamelum, passa stóðhestahús, kalla inná keppnisbraut og/eða annað tilfallandi.

Jónína gekk í stjórn Stíganda 2004 og gegndi stöðu formanns frá 2008 - 2016. Jónína hafði þá einnig starfað í nefnd sem vann að sameiningu Skagfirsku félaganna Stíganda, Léttfeta og Svaða en ferlið tók 2 ár og varð að lokum hestamannafélagið Skagfirðingur. Jónína hefur verið formaður reiðveganefndar síðan 2008 og er enn. Loks var Jónína í Torfgarðsnefnd í áratug með vörslu á stóðhestum og gætir eigna þar. Um er að ræða jörð sem Skagfirðingur á með litlu samkomuhúsi og hesthúsi. Jónína hlaut starfsmerki UMFÍ árið 2012.

Jónína Stefánsdóttir er hér með sæmd gullmerki LH.

 

Guðmundur Sveinsson

Guðmundur fór fyrst í nefnd 15 ára gamall fyrir Hestamannafélagið Léttfeta, árið 1975. Hann hefur síðan þá starfað nánast óslitið í stjórnum og nefndum fyrir hestamenn  og er enn í nefnd fyrir sitt félag. Þetta spannar því nánast 50 ár af nefndarstörfum.

Guðmundur sat í stjórn Hestaíþróttasambands Íslands þegar sambandið fær inngöngu inn í ÍSÍ. Guðmundur var formaður hestamannafélagsins Léttfeta um árabil. Hann sat í stjórn Vindheimamela til martra ára og var fulltrúi Léttfeta í sameininganefnd  Skagfirsku Hestamannafélaganna.  Hann fylgdi stofnun Hestamannafélagsins Skagfirðings úr hlaði sem fyrsti formaður félagsins og er einn af stofnendum KS deildarinnar og sat í stjórn hennar í áratug. 

Einnig sat hann í stjórn Flugu og Hrossaræktarsambands Skagafjarðar. Guðmundur hlaut starfsmerki UMFÍ árið 2006.

Guðmundur Sveinsson er hér með sæmdur gullmerki LH.



Helga Claessen

Helga Claessen hefur tengst félagsstörfum frá unglingsárum. Hún stofnaði ásamt hópi unglinga á höfuðborgarsvæðinu hestamannafélagið Rauð árið 1974 en félagsmenn voru unglingar á höfuðborgarsvæðinu sem voru óánægð með hestastarf sem í boði var fyrir unglinga og töldu lítið gert fyrir þennan aldurshóp, engin keppni né aðrir viðburðir. Hugurinn var svo mikill og stofnun þessa félags gekk svo langt, að félagsmenn fengu að vera með áheyrnarfulltrúa á Landsþingi hestamanna sem þá var haldið. Þetta félag lifði í nokkur ár, en var fyrsti vísir að stofnun unglingadeildar Fáks. Helga starfaði í mörg ár í íþróttadeild Fáks. Hún var fulltrúi Fáks á landsþingum hestamanna í yfir 20 ár og í kjörnefnd til fjölda ára. He lga er gæðingadómari og var í stjórn GDLH í mörg ár.

Helga Claessen hér með sæmd gullmerki LH.

 

Pálmi Guðmundsson, Lækjarbrekku Hornafirði

Pálmi Guðmundsson hefur verið félagsmaður í hestamannafélaginu Hornfirðingi frá árinu 2002 og frá sama tíma félagsmaður og stjórnarmaður í Hornafjarðardeild – Félagi hrossabænda.

Pálmi hefur sinnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Hornfirðing, meðstjórnandi, ritari og  formaður í stjórn. Hann var einnig í forsvari fyrir ýmsum nefndum á vegum félagsins,  t.d. mótanefnd, firmanefnd og æskulýðsnefnd en Hornfirðingur hlaut einmitt æskulýðsbikar LH árið 2020, fyrir starfsárið 2019-2020. Enn Pálmi hefur verið ötull stuðningur við æskulýðsstarf barna- og unglinga á Hornafirði.

Pálmi tók þátt í undirbúningsvinnu og framkvæmd fjórðungsmótanna árið 2013 og 2019 að Fornustekkum. Pálmi hefur sinnt fjölmörgum öðrum verkefnum fyrir Hornfirðing svo sem uppbyggingarstarfi og sjálfboðavinnu við framkvæmdir við reiðhöll, ásamt hópi félaga úr Hornfirðingi. Hann hefur komið að vinnu við samninga við sveitarfélagið um eignarhald og afnot á reiðhöll. Hann hefur komið að vinnu við félagshesthús Hornfirðinga, uppbyggingarstarfi og sjálfboðavinnu við framkvæmdir og rekstur þess.

Pálmi Guðmundsson er hér með sæmdur gullmerki LH.

 

Sigurður Ævarsson

Sigurður Ævarsson hefur um áratugaskeið starfað að félagsmálum hestamanna og má segja að móta- og keppnismál séu eitt af hans stóru áhugamálum. Sigurður eða Siggi Ævars, eins og hann er ávallt kallaður, hefur setið í stjórn hestamannafélagsins Sörla og jafnframt gegnt stöðu formanns félagsins.

Siggi hefur setið í stjórn Landssambands hestamannafélaga og verið varaformaður sambandsins og er fráfarandi formaður Keppnisnefndar Lh. Samkvæmt bestu upplýsingum þá hefur Siggi verið starfandi í nefndum á vegum Lh, sleitulaust frá árinu 1996. Siggi hefur verið í stjórn Gæðingadómarafélagsins og í stjórn HÍDÍ.

Siggi er einn af þeim aðilum sem stóðu að stofnun Meistaradeildar æskunnar og hefur hann í störfum sínum ávallt lagt áherslu á þátttöku æskunnar í keppni og mótum og reynt að gera veg þeirra sem mestan.

 

Sigurður Ævarsson er hér með sæmdur gullmerki LH.

 

Fréttasafn

Eftir Berglind Karlsdóttir 7. nóvember 2025
Það er í mörg horn að líta í afreksmálum sérsambands af þeirri stærðargráðu sem Landssamband Hestamannafélaga er.  Nú á haustdögum hefur landsliðsnefnd LH unnið að skoðun afreksmálanna í heild sinni og fjölmargir komið að þeirri vinnu ásamt starfshópnum sem skipaður var til verksins af stjórn LH. Samningar landsliðsþjálfaranna voru í gildi fram í lok september 2025 og runnu þar með sitt skeið og í kjölfarið hafa ýmsar hliðar afreksmálanna verið skoðaðar með það í huga að styrkja starfið enn frekar. Afreks- og landsliðsnefnd hefur á þessum tíma unnið skýran ramma um afreksstarfið byggt á afreksstefnu LH og ÍSÍ, skilgreint verkefni og skyldur þjálfara landsliðanna ásamt verkefnum og skyldum afreksstjóra LH. Þar að auki haf ýmsir verkferlar verið bættir innan afreksstarfsins og þeirra hópa sem starfrækir eru innan þess. Valteymi var sett á laggirnar til aðstoðar þjálfurum hópanna við val í afrekshópa. Valteymið samanstendur af þjálfara hvers hóps ásamt formanni landsliðsnefndar og afreksstjóra LH. Valteymið aðstoðar við gagnaöflun, greiningu árangurs og undirbúning valferlis fyrir hópana og hefur ráðgefandi hlutverk. Landsliðsþjálfari/yfirþjálfari Hæfileikamótunar hefur þó endanlegt ákvörðunarvald um val í hópa sína og ber ábyrgð á því vali. Hóparnir sem starfa undir afreksstarfi LH eru Hæfileikamótun LH, U21-landsliðið og A-landslið. 42 verðandi afreksknapar á aldrinum 14-17 ára voru á dögunum teknir inn í Hæfileikamótun LH sem samanstendur af tveimur hópum. Sigvaldi Lárus Guðmundsson yfirþjálfari Hæfileikamótunar er fullur tilhlökkunnar inn í starfsárið sem hefst þegar fyrsti hópur fer námsferð að Hólum í komandi viku. Svo verða vinnuhelgar eftir áramótin með eigin hest og tveir stórir fræðsludagar með sýnikennslum, fyrirlestrum og foreldrafundi. Hvað landsliðin tvö varðar er það skýrt markmið landsliðsnefndar að sterkustu knapar landsins hverju sinni skipi landsliðshópa LH sem starfrækir eru yfir árið. Landsliðsumgjörðin veitir hópunum reglulega fræðslu og utanumhald, vinnur að fjáröflunarmálum með ýmsum viðburðum og veitir knöpum hópanna tækifæri á að efla og styrkja sig sem afreksknapa árið um kring samhliða því að sinna íþróttinni á sínum heimavelli. Því er það stefnan að landsliðshóparnir nái yfir afreksknapana okkar og eðli málsins samkvæmt þrengjast svo hóparnir þegar líður að stórmótum líkt og HM um þá knapa og hesta sem eru í baráttu um sæti í lokahóp og staðfest er hvaða hestar eru í boði inn í verkefnið. Hlutverk hvers knapa þegar kemur að lokahóp fyrir stórmót skal vera skýrt og við kynningu lokahópa verða varaknapar tilkynntir og þeir hafa gríðarlega mikilvægt hlutverk alveg fram að brottför hrossa frá Íslandi á HM. Nú vinnur afreks- og landsliðsnefnd að því að finna landsliðsþjálfara U21 og A-landsliðanna til starfa, og áhugasömum þjálfaraefnum er bent á að hafa samband við Sigurbjörn Eiríksson formann landsliðsnefndar landslidsnefnd@lhhestar.is eða Berglindi Karlsdóttur framkvæmdarstjóra LH berglind@lhhestar.is og láta þannig vita að sér.
6. nóvember 2025
Íslenska landsliðinu í hestaíþróttum var boðið til móttöku á Bessastöðum, þar sem forseti Íslands Halla Tómasdóttir og Björn bóndi hennar tóku móti hópnum. Tilefni boðsins var frábær árangur Íslenska landsliðsins á HM í Sviss sl. sumar en íslenska landsliðið hlaut alls 9 gullverðlaun á mótinu auk þess að vinna liðabikarinn, stigahæst liða á mótinu. Mótakan var hin hátíðlegasta og var landsliðinu mikill heiður sýndur með því að vera boðið til hennar. Halla fór fögrum orðum um íslenska hestinn sem einn mikilvægasta sendiherra Íslands, því hvert sem hún færi bæri fljótlega á góma íslenski hesturinn og hans sérstaka lundarfar og gangtegundirnar fimm. Einnig hafði hún á orði hversu mikið afrek það væri að vinna liðabikarinn þar sem liðsheildin væri mikilvæg. Svo var gestum boðið að rölta um hið merka hús á Bessastöðum, skoða listaverkin og gjafir hinna ýmsu þjóðhöfðingja í gegnum tíðina, sem prýða húsið. Að lokum var stillt upp fyrir hópmyndatöku á tröppunum á Bessastöðum í haustblíðunni.
30. október 2025
Sigvaldi Lárus Guðmundsson yfirþjálfari Hæfileikamótunar LH næstu tvö árin
27. október 2025
Keppnishestabú ársins verða heiðruð á Uppskeruhátíð hestafólks
27. október 2025
Uppskeruhátíð hestafólks fer fram í Gamla Bíó laugardaginn 8. nóvember nk., þar sem hestafólk af landinu öllu kemur saman til að fagna frábæru keppnisári og heiðra þá sem skarað hafa fram úr. Kvöldið verður í senn hátíðlegt og skemmtilegt. Veitingar verða í höndum LÚX veisluþjónustu, sem býður upp á dýrindis mat í takt við hátíðlega stemninguna í Gamla Bíó. Knapar ársins í hverjum flokki verða verðlaunaðir ásamt keppnishestabúi ársins og hljóta glæsilega verðlaunagripi úr smiðju Inga í Sign. Að loknum kvöldverði og öðrum hefðbundnum dagskrárliðum mun Stuðlabandið halda uppi fjörinu fram eftir nóttu og tryggja alvöru partýstemningu. Miðasala fer fram í vefverslun LH - takmarkaður fjöldi sæta í boði!! Sjáumst 8.nóvember í Gamla bíó!
24. október 2025
Íslandsmót 2026 haldið 17. til 21. júní hjá Sörla
23. október 2025
Knapar ársins verða heiðraðir á Uppskeruhátíð hestafólks
22. október 2025
Viðtal við nýjan formann Landsliðsnefndar um afreks- og landsliðsmál
22. október 2025
Þann 15. maí sl. staðfesti framkvæmdastjórn ÍSÍ úthlutunarreglur vegna kostnaðarþátttöku ungmenna í landsliðsverkefnum. Tilgangur reglnanna er að setja ramma um styrki til sérsambanda ÍSÍ vegna kostnaðarþátttöku ungmenna í landsliðsstarfi á vegum sérsambanda ÍSÍ í samræmi við Afreksstefnu ÍSÍ. Meginmarkmið styrkveitinganna er að styðja ungmenni fjárhagslega sem taka þátt í landsliðsstarfi á vegum sérsambanda ÍSÍ og þurfa að greiða kostnað vegna þátttökunnar að fullu eða að hluta. Einnig að jafna möguleika ungmenna á þátttöku í landsliðsstarfi sérsambanda ÍSÍ. LH sótti um styrk fyrir hönd þeirra sjö ungmenna sem fóru á HM sl. sumar og niðurstaðan varð sú að Afrekssjóður styrkir hvert og eitt þeirra um rúmar 200.000 kr. Styrkurinn er gríðarlega mikilvægur stuðningur við ungmennin okkar og mikil hvatning.  Er þetta hluti af því aukna fjármagni sem stjórnvöld hafa sett í Afrekssjóð á þessu ári og markar sú ákvörðun tímamót í allri umgjörð afreksíþrótta í heild sinni. Vonast er til að sambærilegt fjármagn verði til úthlutunar til sérsambanda úr Afrekssjóði til frambúðar.
17. október 2025
NICH - Nordic Icelandic Horse Collaboration
Lesa meira