Átta hlutu Gullmerki LH

25. október 2024

Á landsþingi voru 8 einstaklingum veitt Gullmerki LH. Það voru þau:  Halldór Sigurðsson, Gunnar Örn Guðmundsson, Sigríður Jóna Kristjánsdóttir, Jóní na Stefánsdóttir, Guðmundur Sveinsson, Helga Claessen, Pálmi Guðmundsson og Sigurður Ævarsson. 

Allir þessir félagar hafa unnið ötullega að framgangi hestamennskunnar á Íslandi hvert á sinn hátt og eru mikilvægir félagsmenn í sínum félögum sem og landssambandinu okkar. Hestamenn þakka þessu fólki fyrir sitt óeigingjarna starf og óska þeim til hamingju með gullmerki sitt. 

Hér að neðan má kynna sér þessa einstaklinga betur. 

Halldór Sigurðsson

Halldór Sigurðsson var alinn upp í Þverholtum og var þar stórt hestabú, svo hann hefur stundað hestamennsku frá ungum aldri og vann fyrir hrossaræktunarsamband Vesturlands. Halldór Sigurðsson hefur verið virkur gæðingadómari í 44 ár. Hann var stjórnarmaður í stjórn gæðingadómarafélagsins og kenndi á vegum gæðingadómarafélagsins um árabil. Halldór var í formennsku og stjórn hestamannafélagsins Skugga og starfaði í nefndum til fjölda ára. Þá var Halldór einnig í stjórn hestamannafélagsins Borgfirðings og er ennþá í nefndum á vegum félagsins.

Halldór Sigurðsson er hér með sæmd gullmerki LH

 

Gunnar Örn Guðmundsson

Gunnar hefur sinnt sem dýralæknir þjónustu við hestamenn í Borgarfirði síðastliðin 46 ár. Hann var lengi í stjórn Hestamannafélagsins Faxa og síðan formaður félagsins um nokkurra ára skeið. Á formannstíð hans var meðal annars unnið við undirbúning og síðar byggingu á glæsilegri reiðhöll hestamannafélaganna Faxa og Skugga í Borgarnesi, sem var mikið verkefni fyrir svo fámenn félög. Flest öll verk voru unnin í sjálfboðavinnu félagsmanna, sem kallaði á mikið skipulag og eftirfylgni. Reiðhöllin hefur reynst mikil lyftistöng fyrir hestamennsku í héraðinu og um allt Vesturland. Í formannstíð Gunnars var mikli áhersla lögð á fræðslu og þjálfun, sérstaklega barna og unglinga.

Gunnar Örn Guðmundsson er hér með sæmdur gullmerki LH

 

Sigga á Grund

Sigríður Jóna Kristjánsdóttir, betur þekkt sem Sigga á Grund, Listakonan sem sker íslenska hestinn út í tré, horn og hvaltennur og hefur verið eitt helsta nafn íslenskrar listasögu þegar kemur að tréskurði.

Verk hennar eru einstök og hafa mikil áhrif á bæði íslenskt menningarlíf og hestamennsku. Sigga er þjóðþekkt fyrir það hvernig hún skapaði útskornar myndir af íslenskum hestum á öllum sínum fimm gangtegundum. Þetta hefur hún gert með ótrúlegri nákvæmni og þekkingu á byggingu og hreyfingum hestsins, sem hefur fangað aðdáun bæði hestamanna og listunnenda.

Sigga á Grund hefur skapað sér einstaka stöðu í íslenskri listasögu. Verk hennar, sem endurspegla djúp tengsl hennar við íslenska hestinn og hestamennsku, munu halda áfram að lifa og veita innblástur komandi kynslóðum.

Sigríður Jóna Kristjánsdóttir er hér með sæmd gullmerki LH



Jónína Stefánsdóttir

Jónína Stefánsdóttir hefur verið í hestamannafélaginu Stíganda í Skagafirði frá 1972. Jónína hefur starfað mikið á stórmótum og verið óhrædd við að hlaupa í hin ýmsu störf. Hvort heldur sem við afgreiðslu í sjoppunni á Vindheimamelum, passa stóðhestahús, kalla inná keppnisbraut og/eða annað tilfallandi.

Jónína gekk í stjórn Stíganda 2004 og gegndi stöðu formanns frá 2008 - 2016. Jónína hafði þá einnig starfað í nefnd sem vann að sameiningu Skagfirsku félaganna Stíganda, Léttfeta og Svaða en ferlið tók 2 ár og varð að lokum hestamannafélagið Skagfirðingur. Jónína hefur verið formaður reiðveganefndar síðan 2008 og er enn. Loks var Jónína í Torfgarðsnefnd í áratug með vörslu á stóðhestum og gætir eigna þar. Um er að ræða jörð sem Skagfirðingur á með litlu samkomuhúsi og hesthúsi. Jónína hlaut starfsmerki UMFÍ árið 2012.

Jónína Stefánsdóttir er hér með sæmd gullmerki LH.

 

Guðmundur Sveinsson

Guðmundur fór fyrst í nefnd 15 ára gamall fyrir Hestamannafélagið Léttfeta, árið 1975. Hann hefur síðan þá starfað nánast óslitið í stjórnum og nefndum fyrir hestamenn  og er enn í nefnd fyrir sitt félag. Þetta spannar því nánast 50 ár af nefndarstörfum.

Guðmundur sat í stjórn Hestaíþróttasambands Íslands þegar sambandið fær inngöngu inn í ÍSÍ. Guðmundur var formaður hestamannafélagsins Léttfeta um árabil. Hann sat í stjórn Vindheimamela til martra ára og var fulltrúi Léttfeta í sameininganefnd  Skagfirsku Hestamannafélaganna.  Hann fylgdi stofnun Hestamannafélagsins Skagfirðings úr hlaði sem fyrsti formaður félagsins og er einn af stofnendum KS deildarinnar og sat í stjórn hennar í áratug. 

Einnig sat hann í stjórn Flugu og Hrossaræktarsambands Skagafjarðar. Guðmundur hlaut starfsmerki UMFÍ árið 2006.

Guðmundur Sveinsson er hér með sæmdur gullmerki LH.



Helga Claessen

Helga Claessen hefur tengst félagsstörfum frá unglingsárum. Hún stofnaði ásamt hópi unglinga á höfuðborgarsvæðinu hestamannafélagið Rauð árið 1974 en félagsmenn voru unglingar á höfuðborgarsvæðinu sem voru óánægð með hestastarf sem í boði var fyrir unglinga og töldu lítið gert fyrir þennan aldurshóp, engin keppni né aðrir viðburðir. Hugurinn var svo mikill og stofnun þessa félags gekk svo langt, að félagsmenn fengu að vera með áheyrnarfulltrúa á Landsþingi hestamanna sem þá var haldið. Þetta félag lifði í nokkur ár, en var fyrsti vísir að stofnun unglingadeildar Fáks. Helga starfaði í mörg ár í íþróttadeild Fáks. Hún var fulltrúi Fáks á landsþingum hestamanna í yfir 20 ár og í kjörnefnd til fjölda ára. He lga er gæðingadómari og var í stjórn GDLH í mörg ár.

Helga Claessen hér með sæmd gullmerki LH.

 

Pálmi Guðmundsson, Lækjarbrekku Hornafirði

Pálmi Guðmundsson hefur verið félagsmaður í hestamannafélaginu Hornfirðingi frá árinu 2002 og frá sama tíma félagsmaður og stjórnarmaður í Hornafjarðardeild – Félagi hrossabænda.

Pálmi hefur sinnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Hornfirðing, meðstjórnandi, ritari og  formaður í stjórn. Hann var einnig í forsvari fyrir ýmsum nefndum á vegum félagsins,  t.d. mótanefnd, firmanefnd og æskulýðsnefnd en Hornfirðingur hlaut einmitt æskulýðsbikar LH árið 2020, fyrir starfsárið 2019-2020. Enn Pálmi hefur verið ötull stuðningur við æskulýðsstarf barna- og unglinga á Hornafirði.

Pálmi tók þátt í undirbúningsvinnu og framkvæmd fjórðungsmótanna árið 2013 og 2019 að Fornustekkum. Pálmi hefur sinnt fjölmörgum öðrum verkefnum fyrir Hornfirðing svo sem uppbyggingarstarfi og sjálfboðavinnu við framkvæmdir við reiðhöll, ásamt hópi félaga úr Hornfirðingi. Hann hefur komið að vinnu við samninga við sveitarfélagið um eignarhald og afnot á reiðhöll. Hann hefur komið að vinnu við félagshesthús Hornfirðinga, uppbyggingarstarfi og sjálfboðavinnu við framkvæmdir og rekstur þess.

Pálmi Guðmundsson er hér með sæmdur gullmerki LH.

 

Sigurður Ævarsson

Sigurður Ævarsson hefur um áratugaskeið starfað að félagsmálum hestamanna og má segja að móta- og keppnismál séu eitt af hans stóru áhugamálum. Sigurður eða Siggi Ævars, eins og hann er ávallt kallaður, hefur setið í stjórn hestamannafélagsins Sörla og jafnframt gegnt stöðu formanns félagsins.

Siggi hefur setið í stjórn Landssambands hestamannafélaga og verið varaformaður sambandsins og er fráfarandi formaður Keppnisnefndar Lh. Samkvæmt bestu upplýsingum þá hefur Siggi verið starfandi í nefndum á vegum Lh, sleitulaust frá árinu 1996. Siggi hefur verið í stjórn Gæðingadómarafélagsins og í stjórn HÍDÍ.

Siggi er einn af þeim aðilum sem stóðu að stofnun Meistaradeildar æskunnar og hefur hann í störfum sínum ávallt lagt áherslu á þátttöku æskunnar í keppni og mótum og reynt að gera veg þeirra sem mestan.

 

Sigurður Ævarsson er hér með sæmdur gullmerki LH.

 

Fréttasafn

10. september 2025
Dagana 21. til 23. nóvember nk. verður haldið leiðtoganámskeið FEIF sem ætlað er ungmennum á aldrinum 18-26 ára. Námskeiðið er á vegum Danska Íslandshestasambandsins (DI) og er haldið í Gringdsted Landbúnaðarskólanum í Billund í Danmörku. Yfirskrift námskeiðsins er „Fighting Fit – Conflict, Fitness & Teamwork in Action“ og markmiðið er að hvetja ungmenni til að taka þátt í félagsstörfum í hestamennsku og að þátttakendur efli færni sína sem leiðtogar. Aðalfyrirlesarar verða Rebekka Hyldgaard, sjúkraþjálfari, sem fjallar um hvernig líkamsþjálfun getur bætt árangur í reiðmennsku, og Professor Janne Winther Christensen frá Aarhus University sem fjallar um nýjustu rannsóknir um „ animal conflict behaviour “. Þátttaka í viðburði sem þessum gefur frábæra reynslu, skapar tengsl og styrkir þátttakendur til frekari leiðtoga og ábyrgðarstarfa innan hestamannafélaganna. Við hvetjum hestamannafélögin til að hvetja fulltrúa sína til þátttöku á þessu námskeiði og minnum á mikilvægi þess að efla ungt fólk til þátttöku í nefndum og störfum innan félaganna til að efla nýliðun ásamt því að móta leiðtoga framtíðarinnar. Nánari upplýsingar um námskeiðið má finna á heimasíðu FEIF. Umsóknarfrestur er 15. október 2025 . Námskeiðið hefst föstudaginn 21. nóvember kl 16:00 og endar sunnudaginn 23. nóvember kl 13:00. Kostnaður er 200€ og innifalið í því er gisting, matur og fræðsla.
10. september 2025
Landssamband hestamannafélaga auglýsir til umsóknar eftirfarandi mót: · Íslandsmót fullorðinna og ungmenna 2028 · Íslandsmót barna og unglinga 2028 · Íslandsmót í gæðingalist 2026 (innanhússmót sem haldið skal fyrir 15. maí) · Áhugamannamót Íslands 2026 Dagsetningar mótanna eru ákveðnar í samráði við mótshaldara og að teknu tilliti til dagsetninga annarra móta. Á Íslandsmóti fullorðinna og ungmenna er keppt í íþróttakeppni í efsta styrkleikaflokki þar sem keppendur eru einir inni á vellinum í einu. Á Íslandsmóti barna og unglinga er keppt í íþróttakeppni og gæðingakeppni. Á Íslandsmóti í gæðingalist er keppt í öllum aldursflokkum og skal mótið haldið fyrir 15. maí 2026. Á Áhugamannamóti Íslands er keppt í íþróttakeppni og gæðingakeppni í 1., 2. og 3. flokki. Umsóknir áhugasamra mótshaldara skulu berast Landssambandi hestamannafélaga fyrir 1. október nk. á netfangið lh@lhhestar.is .
14. ágúst 2025
Hörður Hákonarson hestamaður og alþjóðlegur hestaíþróttadómari í Reykjavík er látinn.
13. ágúst 2025
Til hamingju Ísland með frábært landslið
13. ágúst 2025
Úrslit í fjórgangi & fimmgangi
10. ágúst 2025
Þvílíkur morgunn!!!
10. ágúst 2025
Þá eru B-úrslitum lokið og ljóst hvaða keppendur bæta sér í toppbaráttuna í hverjum flokki.
10. ágúst 2025
Kristján Árni tvöfaldur heimsmeistari
9. ágúst 2025
Kristján Árni - Heimsmeistari
8. ágúst 2025
Niðurstöður úr kynbótasýningum sjö vetra og eldri hrossa
Lesa meira