Dagur Íslenska hestsins er á morgun
30. apríl 2025
Dagur Íslenska hestsins er á morgun, 1. maí. Hestamannafélög hérlendis sem og erlendis munu í tilefni af deginum bjóða upp á fjölbreytta dagskrá. Við hverjum áhugasama til að kynna sér viðburði á sínu heimasvæði.
Þá verður einnig spennandi dagskrá í Fjölskyldu og Húsdýragarðinum:
Kl. 14:00 Fræðslufreyjur Fjölskyldu- og húsdýragarðsins ætlar að leyfa gestum að fylgjast með þjálfunarstund hestanna með aðferðum sóttum meðal annars til dýraatferlisfræðingsins Evu Bertilson. Fræðsludeild garðsins stóð fyrir skemmtilegu og fræðandi námskeiði með Evu fyrr í vetur. Eva hefur ferðast víða til þess að sinna kennslu og veita ráðgjöf um dýraþjálfun til fagfólks sem vinnur með dýr og hefur jafnframt sinnt fræðslu til almennings. Hún notast við jákvæðar þjálfunaraðferðir með það að leiðarljósi að auka lífsgæði dýranna.
Kl. 14:45 Kynbótadómar hrossa og ýmislegt þeim tengt frá Heiðrúnu Sigurðardóttur, búfjárerfðafræðingi. Ekkert viðkomandi hestamennsku og íslenska hestinn er Heiðrúnu óviðkomandi og ættu gestir ekki að vera sviknir að heyra það sem hún hefur að segja.
Horses of Iceland sem er markaðsverkefni tengt íslenska hestinum ætla að koma með sýndarveruleika gleraugu þar sem gestir upplifa hestinn á nýjan hátt.
Gestum mun gefast kostur á að hlaupa 100 metra og sjá hvort þeir eigi eitthvað í besta tíma hests í 100 m skeiði og kanna hæfileika sína í skeifukasti.
Fréttasafn

10. september 2025
Dagana 21. til 23. nóvember nk. verður haldið leiðtoganámskeið FEIF sem ætlað er ungmennum á aldrinum 18-26 ára. Námskeiðið er á vegum Danska Íslandshestasambandsins (DI) og er haldið í Gringdsted Landbúnaðarskólanum í Billund í Danmörku. Yfirskrift námskeiðsins er „Fighting Fit – Conflict, Fitness & Teamwork in Action“ og markmiðið er að hvetja ungmenni til að taka þátt í félagsstörfum í hestamennsku og að þátttakendur efli færni sína sem leiðtogar. Aðalfyrirlesarar verða Rebekka Hyldgaard, sjúkraþjálfari, sem fjallar um hvernig líkamsþjálfun getur bætt árangur í reiðmennsku, og Professor Janne Winther Christensen frá Aarhus University sem fjallar um nýjustu rannsóknir um „ animal conflict behaviour “. Þátttaka í viðburði sem þessum gefur frábæra reynslu, skapar tengsl og styrkir þátttakendur til frekari leiðtoga og ábyrgðarstarfa innan hestamannafélaganna. Við hvetjum hestamannafélögin til að hvetja fulltrúa sína til þátttöku á þessu námskeiði og minnum á mikilvægi þess að efla ungt fólk til þátttöku í nefndum og störfum innan félaganna til að efla nýliðun ásamt því að móta leiðtoga framtíðarinnar. Nánari upplýsingar um námskeiðið má finna á heimasíðu FEIF. Umsóknarfrestur er 15. október 2025 . Námskeiðið hefst föstudaginn 21. nóvember kl 16:00 og endar sunnudaginn 23. nóvember kl 13:00. Kostnaður er 200€ og innifalið í því er gisting, matur og fræðsla.

10. september 2025
Landssamband hestamannafélaga auglýsir til umsóknar eftirfarandi mót: · Íslandsmót fullorðinna og ungmenna 2028 · Íslandsmót barna og unglinga 2028 · Íslandsmót í gæðingalist 2026 (innanhússmót sem haldið skal fyrir 15. maí) · Áhugamannamót Íslands 2026 Dagsetningar mótanna eru ákveðnar í samráði við mótshaldara og að teknu tilliti til dagsetninga annarra móta. Á Íslandsmóti fullorðinna og ungmenna er keppt í íþróttakeppni í efsta styrkleikaflokki þar sem keppendur eru einir inni á vellinum í einu. Á Íslandsmóti barna og unglinga er keppt í íþróttakeppni og gæðingakeppni. Á Íslandsmóti í gæðingalist er keppt í öllum aldursflokkum og skal mótið haldið fyrir 15. maí 2026. Á Áhugamannamóti Íslands er keppt í íþróttakeppni og gæðingakeppni í 1., 2. og 3. flokki. Umsóknir áhugasamra mótshaldara skulu berast Landssambandi hestamannafélaga fyrir 1. október nk. á netfangið lh@lhhestar.is .







