FEIF-þingið 2023

8. febrúar 2023

FEIF-þingið 2023 var haldið í Stokkhólmi dagana 3. og 4. febrúar. Á þinginu voru saman komin á annað hundrað manns úr forystusveitum Íslandshestamennskunnar um allan heim.

Gunnar Sturluson fráfarandi forseti FEIF gaf ekki kost á sér til áframhaldandi setu og nýkjörinn eftirmaður hans er Svisslendingurinn Jean-Paul Balz. Jean-Paul hefur meðal annars gegnt stöðu formanns Sportnefndar FEIF um nokkurn tíma. Gunnar sat í stjórn FEIF í 12 ár, þar af sem forseti í 9 ár og færum við honum bestu þakkir fyrir störf sín í þágu hestamennskunnar.

Atli Már Ingólfsson formaður Hestamannafélagsins Sörla í Hafnarfirði var kjörinn nýr inn í stjórn FEIF og óskum við honum til hamingju með kjörið en aðrir stjórnarmenn FEIF eru Inge Kringeland Noregi, formaður kynbótanefndar FEIF, Silke Feuchthofen Þýskalandi, formaður menntanefndar FEIF, Gundula Sharman, formaður æskulýðsnefndar FEIF, Will Covert BNA, nýkjörinn formaður keppnisnefndar FEIF og Even Hedland Noregi.

Fulltrúar Íslands í nefndum FEIF eru Hulda Gústafsdóttir og Sigurbjörn Bárðarson í keppnisnefnd, Herdís Reynisdóttir í menntanefnd, Dagbjört Hulda Guðbjörnsdóttir í æskulýðsnefnd, Olil Amble og Elsa Albertsdóttir í kynbótanefnd og Dóróthea Sigríður Unnsteinsdóttir ungliði í kynbótanefnd.

Aðrir fulltrúar Íslands á þinginu voru Guðni Halldórsson formaður LH, Sóley Margeirsdóttir stjórnarmaður LH, Berglind Karlsdóttir framkvæmdastjóri LH, Hinrik Þór Sigurðsson afreks- og mótastjóri LH og Einar Gíslason formaður keppnisnefndar LH.

Æskulýðsverðlaun FEIF 2023 hlaut Svíþjóð en svíar hafa rekið öflugt æskulýðsstarf um árabil. Í kosningu um reiðkennara ársins 2022 var það hin sænska Nina Bergholz sem varð hlutskörpust en Sigvaldi Lárus Guðmundsson var í hópi tilnefndra reiðkennara fyrir hönd Íslands.

Nokkrar breytingar voru gerðar á regluverki FEIF á þinginu og verða birtar með nýrri útgáfu af reglugerðum þann 1. apríl, en hér verður stiklað á því helsta.

Í stað bannlista yfir búnað sem ekki má nota í keppni verður framvegis þess í stað gefinn út listi yfir leyfilegan búnað í keppni, svo sem hvaða tegund af mélum og múlum má nota. Bannað er að setja eyrnatappa í hesta á mótum en því jafnframt beint til keppnisnefndar að setja reglur um leyfilegan styrkt tónlistar í keppni.

Regla um að keppa megi á sama hesti í fleiri en einni töltgrein á saman móti var samþykkt á þinginu og sama á við um aðrar greinar, þ.e fleiri en einni fjórgangsgrein osfrv. en sem fyrr eru hömlur á hversu oft sami hestur má ríða í braut á einum degi (5 vetra tvisvar sinnum á dag, 6 vetra þrisvar sinnum á dag og 7 vetra  og eldri fjórum sinnum á dag). Ísland greiddi atkvæði gegn þessari tillögu og þótti tillagan ekki nógu vel unnin þar sem til að mynda kappreiðaskeið fór ekki með í tillögunni og enn er bannað að fara með sama hest í 150 m og 250 m skeið. Þetta þótti íslensku sendinefndinni ósamræmi.

Til að fá met í skeiðkappreiðum staðfest skulu myndbandsupptökur vera á rásbásum til þess að gæta fyllsta samræmis allsstaðar á því hvenær tímataka er sett í gang við ræsingu. 

Nokkrar lagfæringar voru að auki gerðar á orðalagi í ýmsum greinum regluverksins.

Tillaga um að allir fimm dómarar telji til meðaleinkunna í úrslitum í íþróttakeppni var afturkölluð af Sportnefnd FEIF en í nefndinni er til umræðu tillaga um að allir fimm dómarara telji til meðaleinkunnar bæði í forkeppni og úrslitum.

Aðalfyrirlesari ráðstefnunnar var Dr. Michael Weishaupt dýralæknir, University of Veterinary Medicine Zurich. Hann fjallaði um „Social License to Operate“, hvernig hægt sé að nálgast það hugtak og hvaða spurningar við ættum að hafa í huga. Hann talaði um mikilvægi þess að safna saman öllum vísindarannsóknum sem gerðar hafa verið á íslenska hestinum, kynna þær vel, setja fram niðurstöður á skiljanlegu máli og greina hvar þörf er á meiri rannsóknum. Útskýra þarf fyrir almenningi að hestar eru ræktaðir til afkasta og íþrótta og að hægt sé að treysta því að hestur, sem þjálfaður er á réttan hátt fyrir ákveðið verkefni, valdi verkefninu. Á formannafundi var skipaður sérstakur starfshópur til að taka þetta mál áfram innan samtakanna og kynna betur. Var Þórhildur Katrín Stefánsdóttir varaformaður LH skipuð í þann hóp ásamt fjórum fulltrúum annarra landa og mun Horses of Iceland leggja málinu lið.

Annað meginviðfangsefni formannafundar FEIF var baráttan gegn kynferðislegri áreitni, ofbeldi og einelti innan íþróttarinnar. Nokkuð mismunandi er eftir löndum hvernig brugðist er við ósæmilegri hegðun innan íþróttarinnar, allt eftir því hvernig regluverkið er í hverju landi og afar misjafnt hversu langt samböndin eru komin í þessari mikilvægu vinnu. FEIF getur aðeins sett almennan ramma sem þjóðirnar geta stuðst við en keppnisbann í einu landi gildir þó í öllum löndum og tilkynna á keppnisbönn til FEIF. Einróma samkomulag var gert á formannfundinum um að ef landsliðsknapa er vísað úr landsliði vegna brota á siðareglum, ósæmilegrar hegðunar eða hvers konar ofbeldis, þá munu önnur lönd ekki taka til álita að taka viðkomandi knapa inn í sín landslið.

Fjörlegar umræður urðu í öllum nefndum sem teknar verða til áframhaldandi umræðu innan nefndanna áður en þær verða lagðar fram sem breytingartillögur við regluverk FEIF. Nánari grein verður gerð fyrir umræðum í keppnisnefnd og kynbótanefnd á næstu dögum.

Þingið þótti vel heppnað og umræður árangursríkar. Næsta FEIF-þing verður haldið í Luxemburg í febrúar 2024.

Fréttasafn

24. desember 2025
Jóla- og nýárskveðja frá formanni LH
22. desember 2025
Landssamband hestamannafélaga óskar öllum hestamönnum nær og fjær gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári, með kærri þökk fyrir samstarfið á árinu.  Starfsfólk og stjórn LH
Eftir Berglind Karlsdóttir 18. desember 2025
Hekla Katharína Kristinsdóttir er reiðkennari ársins 2025
9. desember 2025
Ísólfur Líndal Þórisson hefur verið ráðinn landsliðsþjálfari A-landsliðs Íslands í hestaíþróttum
5. desember 2025
Alþjóðlegur dagur sjálboðaliða 5. desember
14. nóvember 2025
Form annafundur LH var haldinn laugardaginn 8. nóvember sl. Fundinn sóttu um áttatíu manns frá þrjátíu hestamannafélögum auk fulltrúa frá fastanefndum LH, dómarafélögunum og stjórn LH. Góðar og uppbyggilegar umræður urðu á fundinum sem stjórn LH tekur með sér í næsta starfsár og í undirbúning fyrir Landsþing 2026. Formaður LH, Linda Björk Gunnlaugsdóttir, fór í ræðu sinni yfir þau mál sem hafa verið fyrirferðarmest í starfsemi LH á árinu ásamt því að tæpa á helstu verkefnum sem framundan eru. Það eru mörg og umfangsmikil verkefni á borði stjórnar hverju sinni og hefur mikill tími farið fyrsta starfsárið hjá nýrri stjórn í að endurskipuleggja og hagræða í rekstri sambandsins. Afreksmálin eru alltaf fyrirferðarmikil á HM ári í verkefnum skrifstofu og stjórnar og eru afreksmálin á ákveðnum tímamótum núna þar sem samningar við landsliðsþjálfara eru lausir. Gjaldkeri LH, Ólafur Gunnarsson, fór yfir stöðu reikninga og uppfærðar fjárhagsáætlanir sem gera ráð fyrir á næstu tvö ár skili hagnaði en eins og áður kom fram hefur verið farið í hagræðingaraðgerðir á árinu í þeim tilgangi að snúa rekstri sambandsins til betri vegar. Starfshópar sem skipaðir voru skv. samþykkt landsþings 2024 kynntu sína vinnu frá landsþingi. Starfshópur um Íslandsmót telur ekki þörf á að gera breytingar á keppnishluta mótsins en leita þurfi leiða til að gera viðburðinn Íslandsmót að stærri viðburði fyrir áhorfendur. Starfshópur um innanhússmót lagði fram tillögu fyrir fundinn um haldið yrði 2ja til 3ja daga Íslandsmót innanhúss í lok innanhússkeppnistímabilsins 2026 til reynslu. Fundurinn vísaði tillögunni til stjórnar til nánari útfærslu og mun stjórn kalla til framhaldsfundar formanna til frekari umræðna. Æskulýðsbikar LH hlaut Hestamannafélagið Skagfirðingur og veittu yfirreiðkennari félagsins og formaður æskulýðsdeildar Skagfirðings bikarnum móttöku. Fulltrúar frá hestamannafélögunum Mána, Hring, Funa, Herði, Freyfaxa og Sleipni sögðu frá sínum verkefnum og helstu áskorunum. Voru það virkilega áhugaverðar frásagnir því flest hestamannafélög eru að eiga við svipaðar áskoranir þó aðstæður hjá hverju félagi séu mismunandi. Að loknum hefðbundnum fundarstörfum var fundinum skipt upp í þrjá umræðuhópa sem fjölluðu um stefnumótun, gjaldkerastörf og nýliðunar -og æskulýðsmál. Mikil umræða og góð vinna var í umræðuhópunum. Í hópnum um stefnumótum urðu mjög líflegar umræður og margir snertifletir ræddir á hinum ýmsu málum og ljóst að það er heilmikið að vinna úr í framhaldinu. Fundinum var skipt upp í sex minni hópa sem fjölluðu hver um sig um ákveðna þætti í starfsemi LH, hvaða markmið skuli setja og hvernig skuli ná þeim. Stefnumótunarfundurinn var framhald af opnum stefnumótunarfundi sem haldinn var sl. vor með fulltrúum hestamannafélaganna. Hópurinn um æskulýðs- og nýliðunarmál fjallaði um þátttöku stráka í hestamennsku, félagshesthús og almenna stöðu hjá félögunum. Margar hugmyndir komu upp og góðar umræður sköpuðust. Í gjaldkerahópnum var rætt um samskipti við sveitarfélög, fjármál hestamannafélaga, félög í almannaheilaskráningu og fyrirmyndafélög ásamt styrkjum til hestamannafélaga. Fjármál hestamannafélaganna eru almennt í góðum málum og faglega staðið að þeim en slíkt er algjör forsenda fyrir því að gott samtal geti átt sér stað við sveitarfélögin þegar kemur að styrkjamálum hins opinbera. Félögin voru einnig hvött til að skrá félagið á almannaheillaskrá en það er gott verkfæri þegar leitað er styrkja hjá almennum fyrirtækjum og veitir skattaafslátt á móti. Einnig voru félögin hvött til að hefju vinnu við að gerast fyrirmyndarfélag ÍSÍ og er það holl og góð vinna til að bæta starfshætti félagsins. Félög geta leitað til hvors annars um þau gögn sem þarf að skila og voru félögin hvött til að vinna þau saman. Samhliða formannafundi var haldinn mótanefndafundur sem um tuttugu manns sátu, en fyrirhugað er að halda framahaldsmótanefndafund um næstu mánaðamót til að ræða frekar mótadagskrá ársins. Stjórn LH þakkar formönnum hestamannafélaga í landinu og öðrum þátttakendum á formannafundi fyrir afar uppbyggilegar umræður sem munu nýtast vel á komandi starfsári. Skýrsla stjórnar LH 2024-2025
12. nóvember 2025
Ættingjar fyrsta heiðursfélaga LH afhentu LH viðurkenningarskjalið til varðveislu
11. nóvember 2025
Guðni Halldórsson og Kristinn Skúlason hlutu gullmerki LH
9. nóvember 2025
Haraldur Þórarinsson er heiðursverðlaunum LH sannarlega verðugur
9. nóvember 2025
Gott æskulýðsstarf er grunnurinn að framtíð hestamennskunnar
Lesa meira