FEIF-þingið 2023

8. febrúar 2023

FEIF-þingið 2023 var haldið í Stokkhólmi dagana 3. og 4. febrúar. Á þinginu voru saman komin á annað hundrað manns úr forystusveitum Íslandshestamennskunnar um allan heim.

Gunnar Sturluson fráfarandi forseti FEIF gaf ekki kost á sér til áframhaldandi setu og nýkjörinn eftirmaður hans er Svisslendingurinn Jean-Paul Balz. Jean-Paul hefur meðal annars gegnt stöðu formanns Sportnefndar FEIF um nokkurn tíma. Gunnar sat í stjórn FEIF í 12 ár, þar af sem forseti í 9 ár og færum við honum bestu þakkir fyrir störf sín í þágu hestamennskunnar.

Atli Már Ingólfsson formaður Hestamannafélagsins Sörla í Hafnarfirði var kjörinn nýr inn í stjórn FEIF og óskum við honum til hamingju með kjörið en aðrir stjórnarmenn FEIF eru Inge Kringeland Noregi, formaður kynbótanefndar FEIF, Silke Feuchthofen Þýskalandi, formaður menntanefndar FEIF, Gundula Sharman, formaður æskulýðsnefndar FEIF, Will Covert BNA, nýkjörinn formaður keppnisnefndar FEIF og Even Hedland Noregi.

Fulltrúar Íslands í nefndum FEIF eru Hulda Gústafsdóttir og Sigurbjörn Bárðarson í keppnisnefnd, Herdís Reynisdóttir í menntanefnd, Dagbjört Hulda Guðbjörnsdóttir í æskulýðsnefnd, Olil Amble og Elsa Albertsdóttir í kynbótanefnd og Dóróthea Sigríður Unnsteinsdóttir ungliði í kynbótanefnd.

Aðrir fulltrúar Íslands á þinginu voru Guðni Halldórsson formaður LH, Sóley Margeirsdóttir stjórnarmaður LH, Berglind Karlsdóttir framkvæmdastjóri LH, Hinrik Þór Sigurðsson afreks- og mótastjóri LH og Einar Gíslason formaður keppnisnefndar LH.

Æskulýðsverðlaun FEIF 2023 hlaut Svíþjóð en svíar hafa rekið öflugt æskulýðsstarf um árabil. Í kosningu um reiðkennara ársins 2022 var það hin sænska Nina Bergholz sem varð hlutskörpust en Sigvaldi Lárus Guðmundsson var í hópi tilnefndra reiðkennara fyrir hönd Íslands.

Nokkrar breytingar voru gerðar á regluverki FEIF á þinginu og verða birtar með nýrri útgáfu af reglugerðum þann 1. apríl, en hér verður stiklað á því helsta.

Í stað bannlista yfir búnað sem ekki má nota í keppni verður framvegis þess í stað gefinn út listi yfir leyfilegan búnað í keppni, svo sem hvaða tegund af mélum og múlum má nota. Bannað er að setja eyrnatappa í hesta á mótum en því jafnframt beint til keppnisnefndar að setja reglur um leyfilegan styrkt tónlistar í keppni.

Regla um að keppa megi á sama hesti í fleiri en einni töltgrein á saman móti var samþykkt á þinginu og sama á við um aðrar greinar, þ.e fleiri en einni fjórgangsgrein osfrv. en sem fyrr eru hömlur á hversu oft sami hestur má ríða í braut á einum degi (5 vetra tvisvar sinnum á dag, 6 vetra þrisvar sinnum á dag og 7 vetra  og eldri fjórum sinnum á dag). Ísland greiddi atkvæði gegn þessari tillögu og þótti tillagan ekki nógu vel unnin þar sem til að mynda kappreiðaskeið fór ekki með í tillögunni og enn er bannað að fara með sama hest í 150 m og 250 m skeið. Þetta þótti íslensku sendinefndinni ósamræmi.

Til að fá met í skeiðkappreiðum staðfest skulu myndbandsupptökur vera á rásbásum til þess að gæta fyllsta samræmis allsstaðar á því hvenær tímataka er sett í gang við ræsingu. 

Nokkrar lagfæringar voru að auki gerðar á orðalagi í ýmsum greinum regluverksins.

Tillaga um að allir fimm dómarar telji til meðaleinkunna í úrslitum í íþróttakeppni var afturkölluð af Sportnefnd FEIF en í nefndinni er til umræðu tillaga um að allir fimm dómarara telji til meðaleinkunnar bæði í forkeppni og úrslitum.

Aðalfyrirlesari ráðstefnunnar var Dr. Michael Weishaupt dýralæknir, University of Veterinary Medicine Zurich. Hann fjallaði um „Social License to Operate“, hvernig hægt sé að nálgast það hugtak og hvaða spurningar við ættum að hafa í huga. Hann talaði um mikilvægi þess að safna saman öllum vísindarannsóknum sem gerðar hafa verið á íslenska hestinum, kynna þær vel, setja fram niðurstöður á skiljanlegu máli og greina hvar þörf er á meiri rannsóknum. Útskýra þarf fyrir almenningi að hestar eru ræktaðir til afkasta og íþrótta og að hægt sé að treysta því að hestur, sem þjálfaður er á réttan hátt fyrir ákveðið verkefni, valdi verkefninu. Á formannafundi var skipaður sérstakur starfshópur til að taka þetta mál áfram innan samtakanna og kynna betur. Var Þórhildur Katrín Stefánsdóttir varaformaður LH skipuð í þann hóp ásamt fjórum fulltrúum annarra landa og mun Horses of Iceland leggja málinu lið.

Annað meginviðfangsefni formannafundar FEIF var baráttan gegn kynferðislegri áreitni, ofbeldi og einelti innan íþróttarinnar. Nokkuð mismunandi er eftir löndum hvernig brugðist er við ósæmilegri hegðun innan íþróttarinnar, allt eftir því hvernig regluverkið er í hverju landi og afar misjafnt hversu langt samböndin eru komin í þessari mikilvægu vinnu. FEIF getur aðeins sett almennan ramma sem þjóðirnar geta stuðst við en keppnisbann í einu landi gildir þó í öllum löndum og tilkynna á keppnisbönn til FEIF. Einróma samkomulag var gert á formannfundinum um að ef landsliðsknapa er vísað úr landsliði vegna brota á siðareglum, ósæmilegrar hegðunar eða hvers konar ofbeldis, þá munu önnur lönd ekki taka til álita að taka viðkomandi knapa inn í sín landslið.

Fjörlegar umræður urðu í öllum nefndum sem teknar verða til áframhaldandi umræðu innan nefndanna áður en þær verða lagðar fram sem breytingartillögur við regluverk FEIF. Nánari grein verður gerð fyrir umræðum í keppnisnefnd og kynbótanefnd á næstu dögum.

Þingið þótti vel heppnað og umræður árangursríkar. Næsta FEIF-þing verður haldið í Luxemburg í febrúar 2024.

Fréttasafn

Eftir Berglind Karlsdóttir 7. nóvember 2025
Það er í mörg horn að líta í afreksmálum sérsambands af þeirri stærðargráðu sem Landssamband Hestamannafélaga er.  Nú á haustdögum hefur landsliðsnefnd LH unnið að skoðun afreksmálanna í heild sinni og fjölmargir komið að þeirri vinnu ásamt starfshópnum sem skipaður var til verksins af stjórn LH. Samningar landsliðsþjálfaranna voru í gildi fram í lok september 2025 og runnu þar með sitt skeið og í kjölfarið hafa ýmsar hliðar afreksmálanna verið skoðaðar með það í huga að styrkja starfið enn frekar. Afreks- og landsliðsnefnd hefur á þessum tíma unnið skýran ramma um afreksstarfið byggt á afreksstefnu LH og ÍSÍ, skilgreint verkefni og skyldur þjálfara landsliðanna ásamt verkefnum og skyldum afreksstjóra LH. Þar að auki haf ýmsir verkferlar verið bættir innan afreksstarfsins og þeirra hópa sem starfrækir eru innan þess. Valteymi var sett á laggirnar til aðstoðar þjálfurum hópanna við val í afrekshópa. Valteymið samanstendur af þjálfara hvers hóps ásamt formanni landsliðsnefndar og afreksstjóra LH. Valteymið aðstoðar við gagnaöflun, greiningu árangurs og undirbúning valferlis fyrir hópana og hefur ráðgefandi hlutverk. Landsliðsþjálfari/yfirþjálfari Hæfileikamótunar hefur þó endanlegt ákvörðunarvald um val í hópa sína og ber ábyrgð á því vali. Hóparnir sem starfa undir afreksstarfi LH eru Hæfileikamótun LH, U21-landsliðið og A-landslið. 42 verðandi afreksknapar á aldrinum 14-17 ára voru á dögunum teknir inn í Hæfileikamótun LH sem samanstendur af tveimur hópum. Sigvaldi Lárus Guðmundsson yfirþjálfari Hæfileikamótunar er fullur tilhlökkunnar inn í starfsárið sem hefst þegar fyrsti hópur fer námsferð að Hólum í komandi viku. Svo verða vinnuhelgar eftir áramótin með eigin hest og tveir stórir fræðsludagar með sýnikennslum, fyrirlestrum og foreldrafundi. Hvað landsliðin tvö varðar er það skýrt markmið landsliðsnefndar að sterkustu knapar landsins hverju sinni skipi landsliðshópa LH sem starfrækir eru yfir árið. Landsliðsumgjörðin veitir hópunum reglulega fræðslu og utanumhald, vinnur að fjáröflunarmálum með ýmsum viðburðum og veitir knöpum hópanna tækifæri á að efla og styrkja sig sem afreksknapa árið um kring samhliða því að sinna íþróttinni á sínum heimavelli. Því er það stefnan að landsliðshóparnir nái yfir afreksknapana okkar og eðli málsins samkvæmt þrengjast svo hóparnir þegar líður að stórmótum líkt og HM um þá knapa og hesta sem eru í baráttu um sæti í lokahóp og staðfest er hvaða hestar eru í boði inn í verkefnið. Hlutverk hvers knapa þegar kemur að lokahóp fyrir stórmót skal vera skýrt og við kynningu lokahópa verða varaknapar tilkynntir og þeir hafa gríðarlega mikilvægt hlutverk alveg fram að brottför hrossa frá Íslandi á HM. Nú vinnur afreks- og landsliðsnefnd að því að finna landsliðsþjálfara U21 og A-landsliðanna til starfa, og áhugasömum þjálfaraefnum er bent á að hafa samband við Sigurbjörn Eiríksson formann landsliðsnefndar landslidsnefnd@lhhestar.is eða Berglindi Karlsdóttur framkvæmdarstjóra LH berglind@lhhestar.is og láta þannig vita að sér.
6. nóvember 2025
Íslenska landsliðinu í hestaíþróttum var boðið til móttöku á Bessastöðum, þar sem forseti Íslands Halla Tómasdóttir og Björn bóndi hennar tóku móti hópnum. Tilefni boðsins var frábær árangur Íslenska landsliðsins á HM í Sviss sl. sumar en íslenska landsliðið hlaut alls 9 gullverðlaun á mótinu auk þess að vinna liðabikarinn, stigahæst liða á mótinu. Mótakan var hin hátíðlegasta og var landsliðinu mikill heiður sýndur með því að vera boðið til hennar. Halla fór fögrum orðum um íslenska hestinn sem einn mikilvægasta sendiherra Íslands, því hvert sem hún færi bæri fljótlega á góma íslenski hesturinn og hans sérstaka lundarfar og gangtegundirnar fimm. Einnig hafði hún á orði hversu mikið afrek það væri að vinna liðabikarinn þar sem liðsheildin væri mikilvæg. Svo var gestum boðið að rölta um hið merka hús á Bessastöðum, skoða listaverkin og gjafir hinna ýmsu þjóðhöfðingja í gegnum tíðina, sem prýða húsið. Að lokum var stillt upp fyrir hópmyndatöku á tröppunum á Bessastöðum í haustblíðunni.
30. október 2025
Sigvaldi Lárus Guðmundsson yfirþjálfari Hæfileikamótunar LH næstu tvö árin
27. október 2025
Keppnishestabú ársins verða heiðruð á Uppskeruhátíð hestafólks
27. október 2025
Uppskeruhátíð hestafólks fer fram í Gamla Bíó laugardaginn 8. nóvember nk., þar sem hestafólk af landinu öllu kemur saman til að fagna frábæru keppnisári og heiðra þá sem skarað hafa fram úr. Kvöldið verður í senn hátíðlegt og skemmtilegt. Veitingar verða í höndum LÚX veisluþjónustu, sem býður upp á dýrindis mat í takt við hátíðlega stemninguna í Gamla Bíó. Knapar ársins í hverjum flokki verða verðlaunaðir ásamt keppnishestabúi ársins og hljóta glæsilega verðlaunagripi úr smiðju Inga í Sign. Að loknum kvöldverði og öðrum hefðbundnum dagskrárliðum mun Stuðlabandið halda uppi fjörinu fram eftir nóttu og tryggja alvöru partýstemningu. Miðasala fer fram í vefverslun LH - takmarkaður fjöldi sæta í boði!! Sjáumst 8.nóvember í Gamla bíó!
24. október 2025
Íslandsmót 2026 haldið 17. til 21. júní hjá Sörla
23. október 2025
Knapar ársins verða heiðraðir á Uppskeruhátíð hestafólks
22. október 2025
Viðtal við nýjan formann Landsliðsnefndar um afreks- og landsliðsmál
22. október 2025
Þann 15. maí sl. staðfesti framkvæmdastjórn ÍSÍ úthlutunarreglur vegna kostnaðarþátttöku ungmenna í landsliðsverkefnum. Tilgangur reglnanna er að setja ramma um styrki til sérsambanda ÍSÍ vegna kostnaðarþátttöku ungmenna í landsliðsstarfi á vegum sérsambanda ÍSÍ í samræmi við Afreksstefnu ÍSÍ. Meginmarkmið styrkveitinganna er að styðja ungmenni fjárhagslega sem taka þátt í landsliðsstarfi á vegum sérsambanda ÍSÍ og þurfa að greiða kostnað vegna þátttökunnar að fullu eða að hluta. Einnig að jafna möguleika ungmenna á þátttöku í landsliðsstarfi sérsambanda ÍSÍ. LH sótti um styrk fyrir hönd þeirra sjö ungmenna sem fóru á HM sl. sumar og niðurstaðan varð sú að Afrekssjóður styrkir hvert og eitt þeirra um rúmar 200.000 kr. Styrkurinn er gríðarlega mikilvægur stuðningur við ungmennin okkar og mikil hvatning.  Er þetta hluti af því aukna fjármagni sem stjórnvöld hafa sett í Afrekssjóð á þessu ári og markar sú ákvörðun tímamót í allri umgjörð afreksíþrótta í heild sinni. Vonast er til að sambærilegt fjármagn verði til úthlutunar til sérsambanda úr Afrekssjóði til frambúðar.
17. október 2025
NICH - Nordic Icelandic Horse Collaboration
Lesa meira