FEIF-þingið 2023

8. febrúar 2023

FEIF-þingið 2023 var haldið í Stokkhólmi dagana 3. og 4. febrúar. Á þinginu voru saman komin á annað hundrað manns úr forystusveitum Íslandshestamennskunnar um allan heim.

Gunnar Sturluson fráfarandi forseti FEIF gaf ekki kost á sér til áframhaldandi setu og nýkjörinn eftirmaður hans er Svisslendingurinn Jean-Paul Balz. Jean-Paul hefur meðal annars gegnt stöðu formanns Sportnefndar FEIF um nokkurn tíma. Gunnar sat í stjórn FEIF í 12 ár, þar af sem forseti í 9 ár og færum við honum bestu þakkir fyrir störf sín í þágu hestamennskunnar.

Atli Már Ingólfsson formaður Hestamannafélagsins Sörla í Hafnarfirði var kjörinn nýr inn í stjórn FEIF og óskum við honum til hamingju með kjörið en aðrir stjórnarmenn FEIF eru Inge Kringeland Noregi, formaður kynbótanefndar FEIF, Silke Feuchthofen Þýskalandi, formaður menntanefndar FEIF, Gundula Sharman, formaður æskulýðsnefndar FEIF, Will Covert BNA, nýkjörinn formaður keppnisnefndar FEIF og Even Hedland Noregi.

Fulltrúar Íslands í nefndum FEIF eru Hulda Gústafsdóttir og Sigurbjörn Bárðarson í keppnisnefnd, Herdís Reynisdóttir í menntanefnd, Dagbjört Hulda Guðbjörnsdóttir í æskulýðsnefnd, Olil Amble og Elsa Albertsdóttir í kynbótanefnd og Dóróthea Sigríður Unnsteinsdóttir ungliði í kynbótanefnd.

Aðrir fulltrúar Íslands á þinginu voru Guðni Halldórsson formaður LH, Sóley Margeirsdóttir stjórnarmaður LH, Berglind Karlsdóttir framkvæmdastjóri LH, Hinrik Þór Sigurðsson afreks- og mótastjóri LH og Einar Gíslason formaður keppnisnefndar LH.

Æskulýðsverðlaun FEIF 2023 hlaut Svíþjóð en svíar hafa rekið öflugt æskulýðsstarf um árabil. Í kosningu um reiðkennara ársins 2022 var það hin sænska Nina Bergholz sem varð hlutskörpust en Sigvaldi Lárus Guðmundsson var í hópi tilnefndra reiðkennara fyrir hönd Íslands.

Nokkrar breytingar voru gerðar á regluverki FEIF á þinginu og verða birtar með nýrri útgáfu af reglugerðum þann 1. apríl, en hér verður stiklað á því helsta.

Í stað bannlista yfir búnað sem ekki má nota í keppni verður framvegis þess í stað gefinn út listi yfir leyfilegan búnað í keppni, svo sem hvaða tegund af mélum og múlum má nota. Bannað er að setja eyrnatappa í hesta á mótum en því jafnframt beint til keppnisnefndar að setja reglur um leyfilegan styrkt tónlistar í keppni.

Regla um að keppa megi á sama hesti í fleiri en einni töltgrein á saman móti var samþykkt á þinginu og sama á við um aðrar greinar, þ.e fleiri en einni fjórgangsgrein osfrv. en sem fyrr eru hömlur á hversu oft sami hestur má ríða í braut á einum degi (5 vetra tvisvar sinnum á dag, 6 vetra þrisvar sinnum á dag og 7 vetra  og eldri fjórum sinnum á dag). Ísland greiddi atkvæði gegn þessari tillögu og þótti tillagan ekki nógu vel unnin þar sem til að mynda kappreiðaskeið fór ekki með í tillögunni og enn er bannað að fara með sama hest í 150 m og 250 m skeið. Þetta þótti íslensku sendinefndinni ósamræmi.

Til að fá met í skeiðkappreiðum staðfest skulu myndbandsupptökur vera á rásbásum til þess að gæta fyllsta samræmis allsstaðar á því hvenær tímataka er sett í gang við ræsingu. 

Nokkrar lagfæringar voru að auki gerðar á orðalagi í ýmsum greinum regluverksins.

Tillaga um að allir fimm dómarar telji til meðaleinkunna í úrslitum í íþróttakeppni var afturkölluð af Sportnefnd FEIF en í nefndinni er til umræðu tillaga um að allir fimm dómarara telji til meðaleinkunnar bæði í forkeppni og úrslitum.

Aðalfyrirlesari ráðstefnunnar var Dr. Michael Weishaupt dýralæknir, University of Veterinary Medicine Zurich. Hann fjallaði um „Social License to Operate“, hvernig hægt sé að nálgast það hugtak og hvaða spurningar við ættum að hafa í huga. Hann talaði um mikilvægi þess að safna saman öllum vísindarannsóknum sem gerðar hafa verið á íslenska hestinum, kynna þær vel, setja fram niðurstöður á skiljanlegu máli og greina hvar þörf er á meiri rannsóknum. Útskýra þarf fyrir almenningi að hestar eru ræktaðir til afkasta og íþrótta og að hægt sé að treysta því að hestur, sem þjálfaður er á réttan hátt fyrir ákveðið verkefni, valdi verkefninu. Á formannafundi var skipaður sérstakur starfshópur til að taka þetta mál áfram innan samtakanna og kynna betur. Var Þórhildur Katrín Stefánsdóttir varaformaður LH skipuð í þann hóp ásamt fjórum fulltrúum annarra landa og mun Horses of Iceland leggja málinu lið.

Annað meginviðfangsefni formannafundar FEIF var baráttan gegn kynferðislegri áreitni, ofbeldi og einelti innan íþróttarinnar. Nokkuð mismunandi er eftir löndum hvernig brugðist er við ósæmilegri hegðun innan íþróttarinnar, allt eftir því hvernig regluverkið er í hverju landi og afar misjafnt hversu langt samböndin eru komin í þessari mikilvægu vinnu. FEIF getur aðeins sett almennan ramma sem þjóðirnar geta stuðst við en keppnisbann í einu landi gildir þó í öllum löndum og tilkynna á keppnisbönn til FEIF. Einróma samkomulag var gert á formannfundinum um að ef landsliðsknapa er vísað úr landsliði vegna brota á siðareglum, ósæmilegrar hegðunar eða hvers konar ofbeldis, þá munu önnur lönd ekki taka til álita að taka viðkomandi knapa inn í sín landslið.

Fjörlegar umræður urðu í öllum nefndum sem teknar verða til áframhaldandi umræðu innan nefndanna áður en þær verða lagðar fram sem breytingartillögur við regluverk FEIF. Nánari grein verður gerð fyrir umræðum í keppnisnefnd og kynbótanefnd á næstu dögum.

Þingið þótti vel heppnað og umræður árangursríkar. Næsta FEIF-þing verður haldið í Luxemburg í febrúar 2024.

Fréttasafn

10. september 2025
Dagana 21. til 23. nóvember nk. verður haldið leiðtoganámskeið FEIF sem ætlað er ungmennum á aldrinum 18-26 ára. Námskeiðið er á vegum Danska Íslandshestasambandsins (DI) og er haldið í Gringdsted Landbúnaðarskólanum í Billund í Danmörku. Yfirskrift námskeiðsins er „Fighting Fit – Conflict, Fitness & Teamwork in Action“ og markmiðið er að hvetja ungmenni til að taka þátt í félagsstörfum í hestamennsku og að þátttakendur efli færni sína sem leiðtogar. Aðalfyrirlesarar verða Rebekka Hyldgaard, sjúkraþjálfari, sem fjallar um hvernig líkamsþjálfun getur bætt árangur í reiðmennsku, og Professor Janne Winther Christensen frá Aarhus University sem fjallar um nýjustu rannsóknir um „ animal conflict behaviour “. Þátttaka í viðburði sem þessum gefur frábæra reynslu, skapar tengsl og styrkir þátttakendur til frekari leiðtoga og ábyrgðarstarfa innan hestamannafélaganna. Við hvetjum hestamannafélögin til að hvetja fulltrúa sína til þátttöku á þessu námskeiði og minnum á mikilvægi þess að efla ungt fólk til þátttöku í nefndum og störfum innan félaganna til að efla nýliðun ásamt því að móta leiðtoga framtíðarinnar. Nánari upplýsingar um námskeiðið má finna á heimasíðu FEIF. Umsóknarfrestur er 15. október 2025 . Námskeiðið hefst föstudaginn 21. nóvember kl 16:00 og endar sunnudaginn 23. nóvember kl 13:00. Kostnaður er 200€ og innifalið í því er gisting, matur og fræðsla.
10. september 2025
Landssamband hestamannafélaga auglýsir til umsóknar eftirfarandi mót: · Íslandsmót fullorðinna og ungmenna 2028 · Íslandsmót barna og unglinga 2028 · Íslandsmót í gæðingalist 2026 (innanhússmót sem haldið skal fyrir 15. maí) · Áhugamannamót Íslands 2026 Dagsetningar mótanna eru ákveðnar í samráði við mótshaldara og að teknu tilliti til dagsetninga annarra móta. Á Íslandsmóti fullorðinna og ungmenna er keppt í íþróttakeppni í efsta styrkleikaflokki þar sem keppendur eru einir inni á vellinum í einu. Á Íslandsmóti barna og unglinga er keppt í íþróttakeppni og gæðingakeppni. Á Íslandsmóti í gæðingalist er keppt í öllum aldursflokkum og skal mótið haldið fyrir 15. maí 2026. Á Áhugamannamóti Íslands er keppt í íþróttakeppni og gæðingakeppni í 1., 2. og 3. flokki. Umsóknir áhugasamra mótshaldara skulu berast Landssambandi hestamannafélaga fyrir 1. október nk. á netfangið lh@lhhestar.is .
14. ágúst 2025
Hörður Hákonarson hestamaður og alþjóðlegur hestaíþróttadómari í Reykjavík er látinn.
13. ágúst 2025
Til hamingju Ísland með frábært landslið
13. ágúst 2025
Úrslit í fjórgangi & fimmgangi
10. ágúst 2025
Þvílíkur morgunn!!!
10. ágúst 2025
Þá eru B-úrslitum lokið og ljóst hvaða keppendur bæta sér í toppbaráttuna í hverjum flokki.
10. ágúst 2025
Kristján Árni tvöfaldur heimsmeistari
9. ágúst 2025
Kristján Árni - Heimsmeistari
8. ágúst 2025
Niðurstöður úr kynbótasýningum sjö vetra og eldri hrossa
Lesa meira