Frábær helgi hjá U21

20. janúar 2025
 
Nú um helgina fór fram æfingahelgi U21 landsliðshópsins. Þau áttu saman frábæra helgi þar sem línur voru lagðar fyrir komandi tímabil. Hópurinn naut góðs af því að fá að vera í frábærri aðstöðu Eldhesta í Hveragerði. 
 
Hekla Katharína landsliðsþjálfari U21 og Sigurbjörn Bárðarson landsliðsþjálfari A-landsliðsins tóku þau í tvo einkatíma á þeim hestum sem knaparnir stefna með á HM í Sviss og voru þau heilt yfir ánægð með standið á hópnum og reyndu að sjálfsögðu að hvetja þau enn frekar til dáða með góðum punktum og hvatningu.
 
En það þarf ekki bara góðan hest til að ná árangri, það er fleira sem spilar inn í. Perla Ruth Albertsdóttir A-landsliðskona í handbolta kom með fyrirlestur um næringu og hugarfar.
Gríðarlega fræðandi, skemmtilegur og hvetjandi fyrirlestur sem knaparnir fengu og margt sem þau geta tekið með sér úr honum. 
 
Auk fyrirlestra og einkatíma var einnig farið í heimsóknir til A landsliðsknapa. 
 
Jakob Svavar Sigurðsson og Helga Una Björnsdóttir buðu hópinn velkominn að ræktunarbúi og þjálfunarstöð þeirra Fákshólum. Þar lagði Jakob á Landsmótssigurvegarann Skarp frá Kýrholti og gaf hópnum innsýn í þjálfunarstund og áherslur sínar með þennan frábæra gæðing. Öll nálgun Jakobs og Helgu er fagmannleg fram í fingurgóma og ávallt er væntumþykja gagnvart hestinum í forgrunni. 
 
Á milli heimsókna á laugardeginum bauð landsliðsþjálfari hópnum heim til sín í Árbæjarhjáleigu 2 þar sem þeirra beið dýrindis kjúklingasúpa svo allir væru vel nærðir fyrir langan dag.
 
Árni Björn Pálsson og Sylvía Sigurbjörnsdóttir buðu hópinn velkominn að þjálfunarstöð sinni á Kvistum. Þau sögðu hópnum frá upphafi þeirra hestamennsku og þar fylgdu með skemmtilegar sögur frá uppvextinum. Árni Björn lagði á gæðinginn Seðil frá Árbæ og gaf hópnum innsýn í þjálfunarstund og áherslur sínar. Einnig sýndi hann hópnum áherslur með efnilegan skeiðhest sem hann stefnir með í gæðingaskeið. Virkilega skemmtilegt að fá þá innsýn að auki.Árni og Sylvía eru til fyrirmyndar í öllu er viðkemur nálgun þeirra og viðhorfi til hestanna sinna. 
 
Það er ekki sjálfsagt mál að afreksknapar opni dyrnar á þennan hátt og leyfi svona hóp að skyggnast inn fyrir dyrnar og gefa svona mikið af sér. Þetta er að sjálfsögðu ómetanlegt innlegg fyrir U21 árs landsliðshópinn og þökkum við kærlega fyrir höfðinglegar móttökur.
 
Þessi helgi var veisluborð fyrir metnaðarfullt ungt hestaíþróttafólk. Stemmningin var létt og skemmtileg sem er einmitt ein af forsendum þess að góðir hlutir raungerist.
 
Áfram Ísland!

Fréttasafn

10. september 2025
Dagana 21. til 23. nóvember nk. verður haldið leiðtoganámskeið FEIF sem ætlað er ungmennum á aldrinum 18-26 ára. Námskeiðið er á vegum Danska Íslandshestasambandsins (DI) og er haldið í Gringdsted Landbúnaðarskólanum í Billund í Danmörku. Yfirskrift námskeiðsins er „Fighting Fit – Conflict, Fitness & Teamwork in Action“ og markmiðið er að hvetja ungmenni til að taka þátt í félagsstörfum í hestamennsku og að þátttakendur efli færni sína sem leiðtogar. Aðalfyrirlesarar verða Rebekka Hyldgaard, sjúkraþjálfari, sem fjallar um hvernig líkamsþjálfun getur bætt árangur í reiðmennsku, og Professor Janne Winther Christensen frá Aarhus University sem fjallar um nýjustu rannsóknir um „ animal conflict behaviour “. Þátttaka í viðburði sem þessum gefur frábæra reynslu, skapar tengsl og styrkir þátttakendur til frekari leiðtoga og ábyrgðarstarfa innan hestamannafélaganna. Við hvetjum hestamannafélögin til að hvetja fulltrúa sína til þátttöku á þessu námskeiði og minnum á mikilvægi þess að efla ungt fólk til þátttöku í nefndum og störfum innan félaganna til að efla nýliðun ásamt því að móta leiðtoga framtíðarinnar. Nánari upplýsingar um námskeiðið má finna á heimasíðu FEIF. Umsóknarfrestur er 15. október 2025 . Námskeiðið hefst föstudaginn 21. nóvember kl 16:00 og endar sunnudaginn 23. nóvember kl 13:00. Kostnaður er 200€ og innifalið í því er gisting, matur og fræðsla.
10. september 2025
Landssamband hestamannafélaga auglýsir til umsóknar eftirfarandi mót: · Íslandsmót fullorðinna og ungmenna 2028 · Íslandsmót barna og unglinga 2028 · Íslandsmót í gæðingalist 2026 (innanhússmót sem haldið skal fyrir 15. maí) · Áhugamannamót Íslands 2026 Dagsetningar mótanna eru ákveðnar í samráði við mótshaldara og að teknu tilliti til dagsetninga annarra móta. Á Íslandsmóti fullorðinna og ungmenna er keppt í íþróttakeppni í efsta styrkleikaflokki þar sem keppendur eru einir inni á vellinum í einu. Á Íslandsmóti barna og unglinga er keppt í íþróttakeppni og gæðingakeppni. Á Íslandsmóti í gæðingalist er keppt í öllum aldursflokkum og skal mótið haldið fyrir 15. maí 2026. Á Áhugamannamóti Íslands er keppt í íþróttakeppni og gæðingakeppni í 1., 2. og 3. flokki. Umsóknir áhugasamra mótshaldara skulu berast Landssambandi hestamannafélaga fyrir 1. október nk. á netfangið lh@lhhestar.is .
14. ágúst 2025
Hörður Hákonarson hestamaður og alþjóðlegur hestaíþróttadómari í Reykjavík er látinn.
13. ágúst 2025
Til hamingju Ísland með frábært landslið
13. ágúst 2025
Úrslit í fjórgangi & fimmgangi
10. ágúst 2025
Þvílíkur morgunn!!!
10. ágúst 2025
Þá eru B-úrslitum lokið og ljóst hvaða keppendur bæta sér í toppbaráttuna í hverjum flokki.
10. ágúst 2025
Kristján Árni tvöfaldur heimsmeistari
9. ágúst 2025
Kristján Árni - Heimsmeistari
8. ágúst 2025
Niðurstöður úr kynbótasýningum sjö vetra og eldri hrossa
Lesa meira