Frábær helgi hjá U21

20. janúar 2025
 
Nú um helgina fór fram æfingahelgi U21 landsliðshópsins. Þau áttu saman frábæra helgi þar sem línur voru lagðar fyrir komandi tímabil. Hópurinn naut góðs af því að fá að vera í frábærri aðstöðu Eldhesta í Hveragerði. 
 
Hekla Katharína landsliðsþjálfari U21 og Sigurbjörn Bárðarson landsliðsþjálfari A-landsliðsins tóku þau í tvo einkatíma á þeim hestum sem knaparnir stefna með á HM í Sviss og voru þau heilt yfir ánægð með standið á hópnum og reyndu að sjálfsögðu að hvetja þau enn frekar til dáða með góðum punktum og hvatningu.
 
En það þarf ekki bara góðan hest til að ná árangri, það er fleira sem spilar inn í. Perla Ruth Albertsdóttir A-landsliðskona í handbolta kom með fyrirlestur um næringu og hugarfar.
Gríðarlega fræðandi, skemmtilegur og hvetjandi fyrirlestur sem knaparnir fengu og margt sem þau geta tekið með sér úr honum. 
 
Auk fyrirlestra og einkatíma var einnig farið í heimsóknir til A landsliðsknapa. 
 
Jakob Svavar Sigurðsson og Helga Una Björnsdóttir buðu hópinn velkominn að ræktunarbúi og þjálfunarstöð þeirra Fákshólum. Þar lagði Jakob á Landsmótssigurvegarann Skarp frá Kýrholti og gaf hópnum innsýn í þjálfunarstund og áherslur sínar með þennan frábæra gæðing. Öll nálgun Jakobs og Helgu er fagmannleg fram í fingurgóma og ávallt er væntumþykja gagnvart hestinum í forgrunni. 
 
Á milli heimsókna á laugardeginum bauð landsliðsþjálfari hópnum heim til sín í Árbæjarhjáleigu 2 þar sem þeirra beið dýrindis kjúklingasúpa svo allir væru vel nærðir fyrir langan dag.
 
Árni Björn Pálsson og Sylvía Sigurbjörnsdóttir buðu hópinn velkominn að þjálfunarstöð sinni á Kvistum. Þau sögðu hópnum frá upphafi þeirra hestamennsku og þar fylgdu með skemmtilegar sögur frá uppvextinum. Árni Björn lagði á gæðinginn Seðil frá Árbæ og gaf hópnum innsýn í þjálfunarstund og áherslur sínar. Einnig sýndi hann hópnum áherslur með efnilegan skeiðhest sem hann stefnir með í gæðingaskeið. Virkilega skemmtilegt að fá þá innsýn að auki.Árni og Sylvía eru til fyrirmyndar í öllu er viðkemur nálgun þeirra og viðhorfi til hestanna sinna. 
 
Það er ekki sjálfsagt mál að afreksknapar opni dyrnar á þennan hátt og leyfi svona hóp að skyggnast inn fyrir dyrnar og gefa svona mikið af sér. Þetta er að sjálfsögðu ómetanlegt innlegg fyrir U21 árs landsliðshópinn og þökkum við kærlega fyrir höfðinglegar móttökur.
 
Þessi helgi var veisluborð fyrir metnaðarfullt ungt hestaíþróttafólk. Stemmningin var létt og skemmtileg sem er einmitt ein af forsendum þess að góðir hlutir raungerist.
 
Áfram Ísland!

Fréttasafn

6. nóvember 2025
This is a subtitle for your new post
30. október 2025
Sigvaldi Lárus Guðmundsson yfirþjálfari Hæfileikamótunar LH næstu tvö árin
27. október 2025
Keppnishestabú ársins verða heiðruð á Uppskeruhátíð hestafólks
27. október 2025
Uppskeruhátíð hestafólks fer fram í Gamla Bíó laugardaginn 8. nóvember nk., þar sem hestafólk af landinu öllu kemur saman til að fagna frábæru keppnisári og heiðra þá sem skarað hafa fram úr. Kvöldið verður í senn hátíðlegt og skemmtilegt. Veitingar verða í höndum LÚX veisluþjónustu, sem býður upp á dýrindis mat í takt við hátíðlega stemninguna í Gamla Bíó. Knapar ársins í hverjum flokki verða verðlaunaðir ásamt keppnishestabúi ársins og hljóta glæsilega verðlaunagripi úr smiðju Inga í Sign. Að loknum kvöldverði og öðrum hefðbundnum dagskrárliðum mun Stuðlabandið halda uppi fjörinu fram eftir nóttu og tryggja alvöru partýstemningu. Miðasala fer fram í vefverslun LH - takmarkaður fjöldi sæta í boði!! Sjáumst 8.nóvember í Gamla bíó!
24. október 2025
Íslandsmót 2026 haldið 17. til 21. júní hjá Sörla
23. október 2025
Knapar ársins verða heiðraðir á Uppskeruhátíð hestafólks
22. október 2025
Viðtal við nýjan formann Landsliðsnefndar um afreks- og landsliðsmál
22. október 2025
Þann 15. maí sl. staðfesti framkvæmdastjórn ÍSÍ úthlutunarreglur vegna kostnaðarþátttöku ungmenna í landsliðsverkefnum. Tilgangur reglnanna er að setja ramma um styrki til sérsambanda ÍSÍ vegna kostnaðarþátttöku ungmenna í landsliðsstarfi á vegum sérsambanda ÍSÍ í samræmi við Afreksstefnu ÍSÍ. Meginmarkmið styrkveitinganna er að styðja ungmenni fjárhagslega sem taka þátt í landsliðsstarfi á vegum sérsambanda ÍSÍ og þurfa að greiða kostnað vegna þátttökunnar að fullu eða að hluta. Einnig að jafna möguleika ungmenna á þátttöku í landsliðsstarfi sérsambanda ÍSÍ. LH sótti um styrk fyrir hönd þeirra sjö ungmenna sem fóru á HM sl. sumar og niðurstaðan varð sú að Afrekssjóður styrkir hvert og eitt þeirra um rúmar 200.000 kr. Styrkurinn er gríðarlega mikilvægur stuðningur við ungmennin okkar og mikil hvatning.  Er þetta hluti af því aukna fjármagni sem stjórnvöld hafa sett í Afrekssjóð á þessu ári og markar sú ákvörðun tímamót í allri umgjörð afreksíþrótta í heild sinni. Vonast er til að sambærilegt fjármagn verði til úthlutunar til sérsambanda úr Afrekssjóði til frambúðar.
17. október 2025
NICH - Nordic Icelandic Horse Collaboration
Lesa meira