Reglur um Gæðingalist uppfærðar

28. janúar 2025

Nú er mótahald í hinum ýmsu deildum víða um land að rjúka af stað og margar þeirra bjóða upp á keppni í Gæðingalist.

Á landsþingi sem haldið var í október síðastliðnum samþykkti þingið nokkrar breytingar í reglugerð um Gæðingalist sem hafa áhrif á framgang keppni í greininni. Uppfærðar reglur um Gæðingalist má finna á heimasíðu LH undir Lög og reglur. 

Á landsþingi var til að mynda var samþykkt að sérstakt Íslandsmót í Gæðingalist skuli haldið á vordögum á meðan innanhúsmótatímabilið stendur enn yfir eða fyrir 15. maí og Íslandsmeistarar skulu krýndir á því móti. Hestamannafélagið Sprettur fékk Íslandsmóti í Gæðingalist úthlutað fyrir þetta ár og verður mótið því haldið í Samskipahöllinni.

Einkunn fyrir fegurð í reið hefur verið færð yfir á flæði og munu því flæði, reiðmennska og fegurð í reið gilda 20% af heildareinkunn, en fegurð í reið var áður undir gangtegundaeinkunn. Með þessari breytingu er gangtegundum gert hærra undir höfði og gilda þær 40%, æfingar eftir sem áður 40% og að lokum flæði, reiðmennska og fegurð í reið gilda 20%.

Samþykkt var að vægisstuðlar æfinga, sem hafa vægi hærra en 1,0 fara ekki að hafa áhrif á einkunn fyrr en æfingin nær 5,0 í lágmarkseinkunn og þar að auki verður þak á heildareinkunn æfinga þannig að einkunn fyrir æfingu fer aldrei yfir 10.

Lágmarksvegalengd fetsýningar var stytt í 20m í stað 30m sem áður var.

Til þess að hljóta fullnaðareinkunn fyrir greitt tölt (7,5 eða hærra) þarf að sýna greitt tölt frá miðju skammhliðar til miðju skammhliðar, þannig að sýna þarf greitt tölt í gegnum tvær beygjur hið minnsta.

Faghópur LH um gæðingalist hefur heimild til þess að endurskoða og gera breytingar á vægi einstakra æfinga ár hvert og hefur faghópurinn nú birt breytt vægi æfinga og má það finna í uppfærðum reglum um Gæðingalist. Í stuttu máli má segja að vægi á flestum æfingum hefur verið lækkað, munur á vægi æfinga var minnkaður og bilið á erfiðleikastuðlum þrengt frá því sem áður var og á 1. stigi Gæðingalistar hafa allar æfingar jafnt vægi eða 1,0.

Möguleiki til þess að sækja um frjálsar æfingar er opinn og er þannig að knapi sem óskar að fá frjálsa æfingu metna þarf að skila inn umsókn til LH í gegnum hlekk á síðu sambandsins. Umsóknin þarf samkvæmt reglum um Gæðingalist að innihalda skýra lýsingu á æfingunni, útfærslu hennar og rökum ásamt teikningu af æfingunni. Faghópur fær æfinguna til afgreiðslu frá skrifstofu LH þar sem nafn viðkomandi knapa og upplýsingar um hann eru teknar út og hver umsókn er tekin fyrir með nafnleynd. Tekið skal fram að knapa er óheimilt að hafa samband við Faghóp í tengslum við afgreiðslu umsókna, og allar athugasemdir skulu berast skriflega gegnum skrifstofu LH.

Faghópur um Gæðingalist og stjórn LH óska öllum þátttakendum í greininni góðs keppnisárs og hlakka til að sjá fjölbreyttar, skapandi og fallegar sýningar í greininni.

Fréttasafn

10. september 2025
Dagana 21. til 23. nóvember nk. verður haldið leiðtoganámskeið FEIF sem ætlað er ungmennum á aldrinum 18-26 ára. Námskeiðið er á vegum Danska Íslandshestasambandsins (DI) og er haldið í Gringdsted Landbúnaðarskólanum í Billund í Danmörku. Yfirskrift námskeiðsins er „Fighting Fit – Conflict, Fitness & Teamwork in Action“ og markmiðið er að hvetja ungmenni til að taka þátt í félagsstörfum í hestamennsku og að þátttakendur efli færni sína sem leiðtogar. Aðalfyrirlesarar verða Rebekka Hyldgaard, sjúkraþjálfari, sem fjallar um hvernig líkamsþjálfun getur bætt árangur í reiðmennsku, og Professor Janne Winther Christensen frá Aarhus University sem fjallar um nýjustu rannsóknir um „ animal conflict behaviour “. Þátttaka í viðburði sem þessum gefur frábæra reynslu, skapar tengsl og styrkir þátttakendur til frekari leiðtoga og ábyrgðarstarfa innan hestamannafélaganna. Við hvetjum hestamannafélögin til að hvetja fulltrúa sína til þátttöku á þessu námskeiði og minnum á mikilvægi þess að efla ungt fólk til þátttöku í nefndum og störfum innan félaganna til að efla nýliðun ásamt því að móta leiðtoga framtíðarinnar. Nánari upplýsingar um námskeiðið má finna á heimasíðu FEIF. Umsóknarfrestur er 15. október 2025 . Námskeiðið hefst föstudaginn 21. nóvember kl 16:00 og endar sunnudaginn 23. nóvember kl 13:00. Kostnaður er 200€ og innifalið í því er gisting, matur og fræðsla.
10. september 2025
Landssamband hestamannafélaga auglýsir til umsóknar eftirfarandi mót: · Íslandsmót fullorðinna og ungmenna 2028 · Íslandsmót barna og unglinga 2028 · Íslandsmót í gæðingalist 2026 (innanhússmót sem haldið skal fyrir 15. maí) · Áhugamannamót Íslands 2026 Dagsetningar mótanna eru ákveðnar í samráði við mótshaldara og að teknu tilliti til dagsetninga annarra móta. Á Íslandsmóti fullorðinna og ungmenna er keppt í íþróttakeppni í efsta styrkleikaflokki þar sem keppendur eru einir inni á vellinum í einu. Á Íslandsmóti barna og unglinga er keppt í íþróttakeppni og gæðingakeppni. Á Íslandsmóti í gæðingalist er keppt í öllum aldursflokkum og skal mótið haldið fyrir 15. maí 2026. Á Áhugamannamóti Íslands er keppt í íþróttakeppni og gæðingakeppni í 1., 2. og 3. flokki. Umsóknir áhugasamra mótshaldara skulu berast Landssambandi hestamannafélaga fyrir 1. október nk. á netfangið lh@lhhestar.is .
14. ágúst 2025
Hörður Hákonarson hestamaður og alþjóðlegur hestaíþróttadómari í Reykjavík er látinn.
13. ágúst 2025
Til hamingju Ísland með frábært landslið
13. ágúst 2025
Úrslit í fjórgangi & fimmgangi
10. ágúst 2025
Þvílíkur morgunn!!!
10. ágúst 2025
Þá eru B-úrslitum lokið og ljóst hvaða keppendur bæta sér í toppbaráttuna í hverjum flokki.
10. ágúst 2025
Kristján Árni tvöfaldur heimsmeistari
9. ágúst 2025
Kristján Árni - Heimsmeistari
8. ágúst 2025
Niðurstöður úr kynbótasýningum sjö vetra og eldri hrossa
Lesa meira