Fyrsti dagur Norðurlandamótsins á Álandseyjum
Það var í mörg horn að líta hjá okkar knöpum í íslenska liðinu á Norðurlandamoti í hestaíþróttum þegar forkeppni í nokkrum greinum mótsins fóru fram.
Veðrið er gott á svæðinu og nokkrar mjög góðar sýningar sáust á mótinu í dag, og ber þá kannski hæst að nefna Jón Stenild frá Danmörku á Eilífi frá Tellborg sem áttu stórsýningu í fimmgangi og hlutu 7,57 í einkunn, og hina sænsku Teklu Petersson sem keppir í unglingaflokki og gerði hörkusýningu í fimmgangi unglinga á Vatnadísi från Noastallet. Hún hlaut 6,67 í einkunn, og það hefði hreinlega dugað henni í A-úrslit í fullorðinsflokki mótsins.
Á þessum fyrsta degi mótsins fór fram forkeppni í tölti T1 í unglinga og ungmennaflokki, tölti T2 unglinga og ungmenna, fimmgangi F1 fullorðinna og að lokum fimmgangi F1 í unglinga og ungmennaflokki.
Embla Lind Ragnarsdóttir endaði í fjórða sæti í forkeppninni í tölti T1 unglinga og ríður því til úrslita á sunnudag.
Í tölti T1 í ungmennafloki gerði Matthías Sigurðsson góða sýningu á Roða frá Garði og endaði í 4 sæti forkeppninnar þrátt fyrir nokkra hnökra í sýningu á hraðabreytingum og er því með heilmikil sóknarfæri í úrslitunum.
Harpa Dögg Bergmann Heiðarsdóttir og Glódís Rún Sigurðardóttir riðu sig inn í B-úrslit sem fara fram á föstudaginn.
Í tölti T2 ungmenna gerði íslenska liðið gott mót og við erum með hvorki meira né minna en þrjá knapa í A-úrsltium og tvo í B-úrslitum.
Eva Kærnested og Garri frá Fitjum áttu flotta sýningu, sérstaklega á slaka taumnum og uppskáru þriðja sætið, reyndar á nákvæmlega sömu tölum og Védís Huld á Stimpli frá Varmadal sem útfærðu sína sýningu af öryggi og með jafna góða sýningu. Þær hlutu 6,63 í einkunn.
Guðmar Hólm Ísólfsson Líndal er svo í 5 sætinu eftir flotta frammistöðu með 6,50.
Í B-úrslitum, sem fara fram á fimmtudaginn eru svo Selma Leifsdóttir á Fjalari frá Selfossi og Hulda María Sveinbjörnsdóttir á henni Hetju frá Árbæ.
Kristófer Darri lenti í smá hnökrum í sinni sýningu og er í 11. sætinu, næstur við B-úrslit og því er ekki ómögulegt að sú staða komi upp að allir 6 knapar okkar fái sæti í úrslitum í T2 áður en yfir lýkur.
Í fimmgangi F1 fullorðinna er Sigurður Vignir á Starkari frá Egilsstöðum í 6. Sæti eftir forkeppnina, og er því efstur inn í B-úrslit á föstudag.
Siggi er eins og allir hestamenn vita reynslumikill knapi, og er lunkinn við að grípa tækifærið á að ríða fimmgangsúrslit. Hann ætlar sér því örugglega mikið í B-úrslitunum.
Lokagrein dagsins var fimmgangur ungmenna þar sem þær Hulda María, Glódís Rún og Hekla Rán Hannesdóttir tóku þátt.
Hulda María og Glódís Rún komust báðar í A-úrslit, í þriðja og fjórða sæti.
Á morgun, miðvikudag er forkeppni í fjórgangi V1 unglinga, ungmenna og svo fullorðinna ásamt keppni í gæðingaskeiði PP1 í öllum flokkum.
Fyrstu Norðurlandameistarar mótsins verða því krýndir að lokinni keppni í gæðingaskeiði á morgun, miðvikudag.
Fréttasafn






Styrktaraðilar







