Um þolreiðar og Survive Iceland

10. ágúst 2022

Þolreiðar (e. Endurance ride) er keppnisgrein sem er gífurlega vinsæl út um allan heim en hefur hins vegar ekki verið keppt mikið í á Íslandi. Á níunda áratugnum var keppt í þolreiðum í nokkur ár þar sem riðið var frá Laxnesi til Þingvalla.  

FEI (Federation Equestre Internationale), alþjóðleg samtök hestaíþrótta, hafa viðurkennt þolreiðar sem alþjóðlega keppnisgrein allt frá 1978, en upphaf keppnigreinarinnar má rekja til herþjálfunar á hestum í byrjun 20. aldar. Vegalengdir í þolreiðarkeppnum erlendis eru misjafnar, algengt er að dagleiðir séu 80-160 km. sem knapi og hestur verða að klára á 12 -24 klst. en einnig eru til styttri þolreiðar þar sem keppt er í 25-35 km. vegalengdum. Knapar mega hlaupa, ganga eða skokka með hesta sína hvenær sem er en verða þó að koma ríðandi í mark.

Það hestakyn sem hefur þótt henta best til þolreiða er arabíski hesturinn en hann er gífurlega úthaldsmikill en einnig er keppt á mörgum öðrum hestakynjum við góðan árangur. Samanburður á íslenska hestinum hefur leitt í ljós að sá íslenski hentar vel í allt að 70 km. en í lengri keppnum henta önnur hestakyn betur.

Landssamband hestamannafélaga hefur sett á laggirnar þolreiðarkeppni þar sem reglurnar hafa verið aðlagaðar íslenskum aðstæðum og íslenskum hestum. Keppnin hefur hlotið nafnið Survive Iceland þar sem að hámarki 10 knapar keppa, bæði íslenskir og erlendir.

Sumarið 2021 var haldið eins konar prufumót, til að fá reynslu á keppnisreglur sem Helgi Sigurðsson dýralæknir tók að sér að aðlaga að íslenskum aðstæðum. Þar kepptu fjórir knapar, 2 Íslendingar og 2 erlendir knapar, og var riðið á fjórum dögum úr Skagafirði, yfir Kjöl og endað á Þingvöllum. Prufumótið gekk vel og var ástand hesta gott eftir þá þolreið og töldu skipuleggjendur og knapar mótið almennt vel lukkað.

Survive Iceland fer fram dagana 25. til 28. ágúst þar sem riðið verður um Landsveit, Rangárvelli og Fjallabak nyrðra og munu 6-8 lið taka þátt. Hvert lið samanstendur af einum knapa, tveimur aðstoðarmönnum og þremur hestum. Fyrirkomulag Survive Iceland þetta árið er þannig að hver knapi ríður 50-70 km. á dag á tveimur hestum þar sem hvor hestur fer um 25-35 km. legg, þannig er alltaf einn hestur í hverju liði í hvíld á hverjum degi. Keppendur er ræstir með 5 mín. fresti og tíminn tekinn á hverjum legg fyrir sig. Keppendur verða með staðsetningarbúnað á sér og hægt verður að fylgjast með keppendum á vefsíðu Landssambands hestamannafélaga, www.lhhestar.is.

Áður en keppnin hefst er framkvæmd dýralæknaskoðun þar sem ástand hestsins er kannað í þaula. Framkvæmd er áverkaskoðun, skoðað upp í munn, þreifað fyrir eymslum í baki, prófað fyrir helti o.fl. Velferð, öryggi og virðing fyrir hestunum er algjört leiðarljós keppninnar. Í lok hvers áfanga er framkvæmd dýralæknaskoðun þar sem mæld er öndun og púls, fætur og bak skoðað og hvort hesturinn hefur hlotið einhverja áverka. Ef púls hestsins er yfir ákveðnum mörkum 30 mín. eftir að komið er í mark fær knapi refsistig og mínútur bætast við tímann. Einnig fær knapi refsistig ef áverkar eru sýnilegir. Þannig er ekki endilega sá sem kemur fyrstur í mark með besta tímann á hverjum legg.

Helgi Sigurðsson sérgreinadýralæknir í hestum er dýralæknir þolreiðarinnar en hann var frumkvöðull í framgangi þolreiða á Íslandi á árunum 1987-1992. Helgi er hestamönnum vel kunnur og hefur hann verið á meðal okkar fremstu dýralækna í yfir 40 ár, hlaut meðal annars viðurkenningu sem sérfræðingur í hestasjúkdómum árið 1994 og heiðursverðlaun Landssambands hestamannafélaga 2021.

Þolreið er mjög tæknileg keppnisgrein. Knapinn þarf að lesa hestinn og landslagið, ekki er farsælt að ríða mikið á stökki, oft er riðið á feti og á þeim kjörgangi sem hesturinn kýs. Skynsamur knapi ríður þannig að hestinum miðar vel áfram en er sjaldan á stökki eða mjög miklum hraða og það að taka endasprett á miklum hraða þannig að púls hestsins fari upp getur leitt til refsistiga. Þolreið er ekki þeysireið.

Hestarnir sem notaðir eru í þolreiðinni eru allir þrautþjálfaðir hestar, reyndir hestaferðahestar sem hafa verið í löngum ferðum um hálendið á hverju sumri í mörg ár. Lágmarksaldur hesta í keppninni er 8 ár. Segja má að ákveðin hestgerð henti betur til þolreiða en aðrar, það er þessi djarfi, sterki, þolni, sjálfstæði gæðingur sem nýtur sín best í þolreiðum, hann fer sparlega með orkuna sína en er viljugur áfram, reiðhestur sem allir hestamenn vilja eiga.

Knapar eru valdir til þátttöku og fara í gegnum ákveðið umsóknarferli. Knapinn þarf að hafa gífurlegt úthald þegar riðið er 50-70km á dag, vera vanur löngum dagleiðum, reynslumikill, næmur knapi sem á auðvelt með að lesa hestinn og aðstæður.

Gætt verður vel að velferð hestanna í keppninni með reglubundnum skoðunum og Ytra eftirlit Matvælastofnunar mun fara fram að keppni lokinni..

Tilgangurinn með að endurvekja þolreiðar á Íslandi er margþættur. Fyrst og fremst er verið að hefja aftur til vegs og virðingar hið forna aðalsmerki íslenska hestsins, þ.e.  þol og úthald. Þá er tilgangurinn líka að auka áhuga hestamanna á þoli og þreki eigin hesta og gera þolreiðar að keppnisgrein hér á landi. Þolreið er vel til þess fallin að auka áhuga almennings sem jafnan stundar ekki hestamennsku, til að fylgjast með hestaíþrótt sem er einföld og auðskiljanleg.

Íslenski hesturinn er þjóðargersemi. Hann hefur fylgt þjóðinni frá landnámi, var þarfasti þjónninn og þurfti að vera sterkur, úthaldsmikill og fara hratt yfir. Okkur Íslendingum ber skylda til að varðveita styrk hans og úthald.

 

Fréttasafn

Eftir Berglind Karlsdóttir 7. nóvember 2025
Það er í mörg horn að líta í afreksmálum sérsambands af þeirri stærðargráðu sem Landssamband Hestamannafélaga er.  Nú á haustdögum hefur landsliðsnefnd LH unnið að skoðun afreksmálanna í heild sinni og fjölmargir komið að þeirri vinnu ásamt starfshópnum sem skipaður var til verksins af stjórn LH. Samningar landsliðsþjálfaranna voru í gildi fram í lok september 2025 og runnu þar með sitt skeið og í kjölfarið hafa ýmsar hliðar afreksmálanna verið skoðaðar með það í huga að styrkja starfið enn frekar. Afreks- og landsliðsnefnd hefur á þessum tíma unnið skýran ramma um afreksstarfið byggt á afreksstefnu LH og ÍSÍ, skilgreint verkefni og skyldur þjálfara landsliðanna ásamt verkefnum og skyldum afreksstjóra LH. Þar að auki haf ýmsir verkferlar verið bættir innan afreksstarfsins og þeirra hópa sem starfrækir eru innan þess. Valteymi var sett á laggirnar til aðstoðar þjálfurum hópanna við val í afrekshópa. Valteymið samanstendur af þjálfara hvers hóps ásamt formanni landsliðsnefndar og afreksstjóra LH. Valteymið aðstoðar við gagnaöflun, greiningu árangurs og undirbúning valferlis fyrir hópana og hefur ráðgefandi hlutverk. Landsliðsþjálfari/yfirþjálfari Hæfileikamótunar hefur þó endanlegt ákvörðunarvald um val í hópa sína og ber ábyrgð á því vali. Hóparnir sem starfa undir afreksstarfi LH eru Hæfileikamótun LH, U21-landsliðið og A-landslið. 42 verðandi afreksknapar á aldrinum 14-17 ára voru á dögunum teknir inn í Hæfileikamótun LH sem samanstendur af tveimur hópum. Sigvaldi Lárus Guðmundsson yfirþjálfari Hæfileikamótunar er fullur tilhlökkunnar inn í starfsárið sem hefst þegar fyrsti hópur fer námsferð að Hólum í komandi viku. Svo verða vinnuhelgar eftir áramótin með eigin hest og tveir stórir fræðsludagar með sýnikennslum, fyrirlestrum og foreldrafundi. Hvað landsliðin tvö varðar er það skýrt markmið landsliðsnefndar að sterkustu knapar landsins hverju sinni skipi landsliðshópa LH sem starfrækir eru yfir árið. Landsliðsumgjörðin veitir hópunum reglulega fræðslu og utanumhald, vinnur að fjáröflunarmálum með ýmsum viðburðum og veitir knöpum hópanna tækifæri á að efla og styrkja sig sem afreksknapa árið um kring samhliða því að sinna íþróttinni á sínum heimavelli. Því er það stefnan að landsliðshóparnir nái yfir afreksknapana okkar og eðli málsins samkvæmt þrengjast svo hóparnir þegar líður að stórmótum líkt og HM um þá knapa og hesta sem eru í baráttu um sæti í lokahóp og staðfest er hvaða hestar eru í boði inn í verkefnið. Hlutverk hvers knapa þegar kemur að lokahóp fyrir stórmót skal vera skýrt og við kynningu lokahópa verða varaknapar tilkynntir og þeir hafa gríðarlega mikilvægt hlutverk alveg fram að brottför hrossa frá Íslandi á HM. Nú vinnur afreks- og landsliðsnefnd að því að finna landsliðsþjálfara U21 og A-landsliðanna til starfa, og áhugasömum þjálfaraefnum er bent á að hafa samband við Sigurbjörn Eiríksson formann landsliðsnefndar landslidsnefnd@lhhestar.is eða Berglindi Karlsdóttur framkvæmdarstjóra LH berglind@lhhestar.is og láta þannig vita að sér.
6. nóvember 2025
Íslenska landsliðinu í hestaíþróttum var boðið til móttöku á Bessastöðum, þar sem forseti Íslands Halla Tómasdóttir og Björn bóndi hennar tóku móti hópnum. Tilefni boðsins var frábær árangur Íslenska landsliðsins á HM í Sviss sl. sumar en íslenska landsliðið hlaut alls 9 gullverðlaun á mótinu auk þess að vinna liðabikarinn, stigahæst liða á mótinu. Mótakan var hin hátíðlegasta og var landsliðinu mikill heiður sýndur með því að vera boðið til hennar. Halla fór fögrum orðum um íslenska hestinn sem einn mikilvægasta sendiherra Íslands, því hvert sem hún færi bæri fljótlega á góma íslenski hesturinn og hans sérstaka lundarfar og gangtegundirnar fimm. Einnig hafði hún á orði hversu mikið afrek það væri að vinna liðabikarinn þar sem liðsheildin væri mikilvæg. Svo var gestum boðið að rölta um hið merka hús á Bessastöðum, skoða listaverkin og gjafir hinna ýmsu þjóðhöfðingja í gegnum tíðina, sem prýða húsið. Að lokum var stillt upp fyrir hópmyndatöku á tröppunum á Bessastöðum í haustblíðunni.
30. október 2025
Sigvaldi Lárus Guðmundsson yfirþjálfari Hæfileikamótunar LH næstu tvö árin
27. október 2025
Keppnishestabú ársins verða heiðruð á Uppskeruhátíð hestafólks
27. október 2025
Uppskeruhátíð hestafólks fer fram í Gamla Bíó laugardaginn 8. nóvember nk., þar sem hestafólk af landinu öllu kemur saman til að fagna frábæru keppnisári og heiðra þá sem skarað hafa fram úr. Kvöldið verður í senn hátíðlegt og skemmtilegt. Veitingar verða í höndum LÚX veisluþjónustu, sem býður upp á dýrindis mat í takt við hátíðlega stemninguna í Gamla Bíó. Knapar ársins í hverjum flokki verða verðlaunaðir ásamt keppnishestabúi ársins og hljóta glæsilega verðlaunagripi úr smiðju Inga í Sign. Að loknum kvöldverði og öðrum hefðbundnum dagskrárliðum mun Stuðlabandið halda uppi fjörinu fram eftir nóttu og tryggja alvöru partýstemningu. Miðasala fer fram í vefverslun LH - takmarkaður fjöldi sæta í boði!! Sjáumst 8.nóvember í Gamla bíó!
24. október 2025
Íslandsmót 2026 haldið 17. til 21. júní hjá Sörla
23. október 2025
Knapar ársins verða heiðraðir á Uppskeruhátíð hestafólks
22. október 2025
Viðtal við nýjan formann Landsliðsnefndar um afreks- og landsliðsmál
22. október 2025
Þann 15. maí sl. staðfesti framkvæmdastjórn ÍSÍ úthlutunarreglur vegna kostnaðarþátttöku ungmenna í landsliðsverkefnum. Tilgangur reglnanna er að setja ramma um styrki til sérsambanda ÍSÍ vegna kostnaðarþátttöku ungmenna í landsliðsstarfi á vegum sérsambanda ÍSÍ í samræmi við Afreksstefnu ÍSÍ. Meginmarkmið styrkveitinganna er að styðja ungmenni fjárhagslega sem taka þátt í landsliðsstarfi á vegum sérsambanda ÍSÍ og þurfa að greiða kostnað vegna þátttökunnar að fullu eða að hluta. Einnig að jafna möguleika ungmenna á þátttöku í landsliðsstarfi sérsambanda ÍSÍ. LH sótti um styrk fyrir hönd þeirra sjö ungmenna sem fóru á HM sl. sumar og niðurstaðan varð sú að Afrekssjóður styrkir hvert og eitt þeirra um rúmar 200.000 kr. Styrkurinn er gríðarlega mikilvægur stuðningur við ungmennin okkar og mikil hvatning.  Er þetta hluti af því aukna fjármagni sem stjórnvöld hafa sett í Afrekssjóð á þessu ári og markar sú ákvörðun tímamót í allri umgjörð afreksíþrótta í heild sinni. Vonast er til að sambærilegt fjármagn verði til úthlutunar til sérsambanda úr Afrekssjóði til frambúðar.
17. október 2025
NICH - Nordic Icelandic Horse Collaboration
Lesa meira