Heiðursverðlaun LH - Sigurbjörn Bárðarson

12. nóvember 2022

Á verðlaunahátíð LH 2022 var Sigurbjörn Bárðarson sæmdur heiðursverðlaunum LH. 

Keppnisferill Sigurbjörns Bárðarsonar er einstakur og er auðvelt að fullyrða að enginn íþróttamaður á Íslandi standist honum samanburð í þeim efnum.

Ferillinn spannar yfir 50 ár og inniheldur 13 heimsmeistaratitla, fjölmörg  heimsmet, ótal Íslandsmet, ófáa Íslandsmeistaratitla, nokkra Landsmótssigra, nú síðast Íslandsmeistari og Landsmótsmeistari í 150 m skeiði í ár, 70 ára gamall.

Árið 1993 hlaut Sigurbjörn Bárðarson titilinn íþróttamaður ársins í kjöri íþróttafréttamanna og er það einn mesti heiður sem íslenskum hestaíþróttamanni hefur hlotnast.

Sigurbjörn hefur í gegnum tíðina átt stórt hlutverk í menntamálum hestamanna á Íslandi, gefið út kennslubók, kennsluefni og myndbönd, setið í fræðslu- og menntanefndum FT og GDLH og háskólaráði ásamt því að hafa virka aðkomu að framkvæmd og dæmingu prófa á Háskólanum á Hólum.

Þar að auki skipta nemendur hans í reiðkennslu þúsundum um heim allan gegnum tíðina.

Sigurbjörn hefur unnið ötullega að félagsstörfum alla tíð og var til að mynda formaður Félags tamningamanna um árabil, varaformaður Hestamannafélagsins Fáks, sat í stjórn og byggingarnefnd fyrstu alvöru reiðhallarinnar á Íslandi, sem í dag er TM reiðhöllin, auk þess að sitja í nefndum FEIF og fleiri samtaka.

Þegar kemur að kynningarmálum hefur Sigurbjörn ekki látið sitt eftir liggja og sem dæmi má nefna aðkomu að stórsýningum um heim allan, eins og í Madison Square Garden, Equitana og fleiri stórviðburðum auk þess að setja á fót ýmsar sýningar hér á landi, sumar ansi frumlegar og sérstakar eins og Hrossagaldur í Skautahöllinni í Laugardal, sýning í Ásbyrgi, riðið niður Almannagjá, Miðbæjarreið og margt fleira. Þegar kemur að því að kynna íslenska hestinn er Sigurbjörn sannarega ötull sendiherra.

Heiðursviðurkenning LH bætist nú við ótrúlegt safn verðlauna og viðurkenninga sem Sigurbirni Bárðarsyni hefur hlotnast í gegn um tíðina en auk þess að eiga langstærsta verðlaunasafn landsins þá hefur hann eins og áður segir hlotið fjölda annarra viðurkenninga en þar má til dæmis nefna Gullmerki LH, Riddarakross hinnar íslensku Fálkaorðu auk titilsins íþróttamaður ársins.

Þáttur Sigurbjörns í ímyndarvinnu hestamennskunnar verður seint að fullu metinn. Hann hefur lyft íþróttinni upp á annað plan hvað varðar ásýnd og fagmennsku. Vandvirkni hans og virðing fyrir viðfangsefninu hefur smitast til allra sem að hestamennsku koma enda hefur hann verið fyrirmynd nýrra kynslóða í áratugi. Það er sannarlega við hæfi að veita Sigurbirni heiðursverðlaun LH í Fáksheimilinu í miðju Víðidalsins þar sem hann hefur starfað stóran hluta starfsferils síns.

Fréttasafn

6. nóvember 2025
This is a subtitle for your new post
30. október 2025
Sigvaldi Lárus Guðmundsson yfirþjálfari Hæfileikamótunar LH næstu tvö árin
27. október 2025
Keppnishestabú ársins verða heiðruð á Uppskeruhátíð hestafólks
27. október 2025
Uppskeruhátíð hestafólks fer fram í Gamla Bíó laugardaginn 8. nóvember nk., þar sem hestafólk af landinu öllu kemur saman til að fagna frábæru keppnisári og heiðra þá sem skarað hafa fram úr. Kvöldið verður í senn hátíðlegt og skemmtilegt. Veitingar verða í höndum LÚX veisluþjónustu, sem býður upp á dýrindis mat í takt við hátíðlega stemninguna í Gamla Bíó. Knapar ársins í hverjum flokki verða verðlaunaðir ásamt keppnishestabúi ársins og hljóta glæsilega verðlaunagripi úr smiðju Inga í Sign. Að loknum kvöldverði og öðrum hefðbundnum dagskrárliðum mun Stuðlabandið halda uppi fjörinu fram eftir nóttu og tryggja alvöru partýstemningu. Miðasala fer fram í vefverslun LH - takmarkaður fjöldi sæta í boði!! Sjáumst 8.nóvember í Gamla bíó!
24. október 2025
Íslandsmót 2026 haldið 17. til 21. júní hjá Sörla
23. október 2025
Knapar ársins verða heiðraðir á Uppskeruhátíð hestafólks
22. október 2025
Viðtal við nýjan formann Landsliðsnefndar um afreks- og landsliðsmál
22. október 2025
Þann 15. maí sl. staðfesti framkvæmdastjórn ÍSÍ úthlutunarreglur vegna kostnaðarþátttöku ungmenna í landsliðsverkefnum. Tilgangur reglnanna er að setja ramma um styrki til sérsambanda ÍSÍ vegna kostnaðarþátttöku ungmenna í landsliðsstarfi á vegum sérsambanda ÍSÍ í samræmi við Afreksstefnu ÍSÍ. Meginmarkmið styrkveitinganna er að styðja ungmenni fjárhagslega sem taka þátt í landsliðsstarfi á vegum sérsambanda ÍSÍ og þurfa að greiða kostnað vegna þátttökunnar að fullu eða að hluta. Einnig að jafna möguleika ungmenna á þátttöku í landsliðsstarfi sérsambanda ÍSÍ. LH sótti um styrk fyrir hönd þeirra sjö ungmenna sem fóru á HM sl. sumar og niðurstaðan varð sú að Afrekssjóður styrkir hvert og eitt þeirra um rúmar 200.000 kr. Styrkurinn er gríðarlega mikilvægur stuðningur við ungmennin okkar og mikil hvatning.  Er þetta hluti af því aukna fjármagni sem stjórnvöld hafa sett í Afrekssjóð á þessu ári og markar sú ákvörðun tímamót í allri umgjörð afreksíþrótta í heild sinni. Vonast er til að sambærilegt fjármagn verði til úthlutunar til sérsambanda úr Afrekssjóði til frambúðar.
17. október 2025
NICH - Nordic Icelandic Horse Collaboration
Lesa meira