Heimsmet í skráningum!

4. júní 2025

Heimsmet í skráningum á hestaíþróttamót!

Þær gleðifréttir hafa borist úr Víðidalnum að hið árlega Reykjarvíkurmót Fáks hafi slegið öll skráningarmet, en alls eru 1027 skráningar á mótið!

Það er frábært að sjá þennan mikla vöxt og áhuga sem er ríkir í íþróttinni okkar. Mótið hefur lengi verið eitt stærsta hestaíþróttamót sem haldið er hérlendis og nú hefur heilum degi verið bætt við þar sem skráningar hafa farið fram úr björtustu vonum. Mótið hefst næstkomandi sunnudag 8. júní og stendur til 15. Júní.


Mótið er World Ranking mót, sem þýðir að árangur keppenda í WR greinum, telur inn á heimslista.


Við heyrðum í Einari Gíslasyni framkvæmdastjóra Fáks sem var að vonum nokkuð glaður með þann mikla áhuga sem er á mótinu:


„Við vissum að þetta yrði stórt mót, fundum fyrir miklum áhuga eins og alltaf þegar ekki er Landsmót. En við áttum kannski ekki alveg von á að þurfa að bæta við heilum degi til að koma á móts við fjölda skráninga. Þetta verður stórt mót og langir dagar en Víðidalurinn er góðu standi, allir vellir og innviðir eins og best verður á kosið og að því leytinu ekkert því til fyrirstöðu að hér verði haldið glæsilegt mót.“


Hvaða áskorun felst helst í því að halda svona stórt mót?


„Helsta áskorunin er að manna mótið, okkur vantar klárlega fleiri sjálfboðaliða, en svona mót er ekki hægt að halda nema með þeirra aðkomu og vonandi munu fleiri áhugasamir bætast við þann öfluga hóp sem þegar hefur gefið kost á sér í ýmis verkefni.“


Er skráningin jöfn í alla flokka?


„Það er mikil skráning í alla flokka og ljóst að þetta verður stórt og spennandi mót og eins og alltaf munum við eiga von á glæsilegum sýningum og spennandi keppni.“


Eigið þið von á mörgum áhorfendum?


„Já, við hvetjum auðvitað alla til að koma í Víðidalinn, veitingasala verður í reiðhöllinni og gott að sitja í brekkunni, fjöldi þeirra sem koma og fylgjast með hefur einnig aukist ár frá ári og vonandi á veðrið eftir að leika við keppendur og gesti. Þá er mótinu einnig útvarpað á rás 102,5 fyrir þá sem sitja inn í bíl. Fyrir þá sem eiga ekki heimangengt verður mótinu streymt á vegum Alendis.“


Við tökum undir orð Einars og hvetjum alla hestamenn til að gera sér ferð í Víðdalinn og fylgjast með þessu gríðarstóra og firnasterka íþróttamóti og ekki síst hvetjum við þá sem geta, til að bjóða fram krafta sína í sjálfboðavinnu svo mótið megi verða sem glæsilegast.


Dagskrá mótsins og frekari upplýsingar er hægt að nálgast inn á facebooksíðu mótsins: https://fb.me/e/4YK7ZDmoW og á heimasíðu Fáks


Fréttasafn

14. ágúst 2025
Skrifstofa LH er lokuð vegna sumarfría starfsfólks, frá 14. ágúst til 1. september.
14. ágúst 2025
Hörður Hákonarson hestamaður og alþjóðlegur hestaíþróttadómari í Reykjavík er látinn.
13. ágúst 2025
Til hamingju Ísland með frábært landslið
13. ágúst 2025
Úrslit í fjórgangi & fimmgangi
10. ágúst 2025
Þvílíkur morgunn!!!
10. ágúst 2025
Þá eru B-úrslitum lokið og ljóst hvaða keppendur bæta sér í toppbaráttuna í hverjum flokki.
10. ágúst 2025
This is a subtitle for your new post
9. ágúst 2025
Kristján Árni - Heimsmeistari
8. ágúst 2025
Niðurstöður úr kynbótasýningum sjö vetra og eldri hrossa
8. ágúst 2025
Forkeppni í fjórgangi er nú lokið. Ísland átt fimm fulltrúa, þrjá í fullorðinsflokki þau Helgu Unu Björnsdóttur og Ósk frá Stað, Aðalheiði Önnu Guðjónsdóttur og Hulinn frá Breiðstöðum og Jóhönnu Margréti Snorradóttur og Össu frá Miðhúsum. Í ungmennaflokk kepptu fyrir Íslands hönd þau Herdís Björg Jóhannsdóttir og Kormákur frá Kvistum og Védís Huld Sigurðardóttir og Ísak frá Þjórsárbakka. Herdís og Kormákur riðu á vaðið fyrir hönd íslensku keppendanna en lukkan var ekki í liði með þeim í dag því Kormáki fipaðist á yfirferðinni og útkoman var 5,87. Næst í braut af íslensku keppendunum komu þau Védís Huld Sigurðardóttir og Ísak frá Þjórsárbakka en þau voru í feikna stuði og hlutu í einkunn 7,07 og eru önnur inn A-úrslit ungmenna. Þriðjar í braut íslensku keppendanna voru þær Helga Una Björnsdóttir og Ósk frá Stað með stórglæsilega sýningu sem skilaði þeim 7,47 og beint inn í A-úrslit. Fjórðu í braut af íslensku keppendunum voru síðan Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir og Hulinn frá Breiðstöðum en því miður missti Hulinn skeifu og þau hlutu ekki einkunn. Fimmtu í braut komu loks Jóhanna Margrét Snorradóttir og Assa frá Miðhúsum og enduðu þær með 7,07 og lönduðu þar með sæti í B-úrlitum. Af íslensku knöpunum eigum við því í fullorðinsflokki einn í A-úrslitum og einn í B-úrslitum, og í ungmennaflokki er einn í A-úrslitum. Anne Stine Haugen og Hæmir frá Hyldsbæk leiða fullorðinsflokkinn með yfirburðum en þau hlutu hvorki meira né minna en 8,20 fyrir sína mögnuðu sýningu en þau keppa fyrir hönd Noregs. Eiðfaxi hitti Anne Stine eftir þeirra sýnungu sem sjá má á fréttasíðu Eiðfaxa en hjá Eiðfaxa er að finna fjölmörg stórskemmtileg viðtöl við knapa að loknum sýningum sem og gesti og gangandi. Næst á dagskrá er yfirlit fyrir 7 vetra og eldri hryssur og stóðhesta. Þar eigum við tvo fulltrúa þau Eind frá Grafarkoti, sýnandi Bjarni Jónasson og Hljóm frá Auðsholtshjáleigu, sýnandi Árni Björn Pálsson. Eind hlaut 8,41 í fordómi og var þriðja hæst í sínum flokki. Hljómur frá Auðsholtshjáleigu var hæstur í sínum flokki eftir fordóm með 8,77 í aðaleinkunn. Það verður því einkar spennandi að fygjast með þeim á eftir.  Í kvöld fara svo fram seinni tveir sprettirnir í 250m skeiði. Þar eigum við fimm fulltrúa og sem stendur eiga þau Kristján Árni Birgisson og Krafla frá Syðri-Rauðalæk besta tímann í ungmennaflokk en þau hlupu á tímanum 22,38 sek. Í fullorðinsflokki eiga þeir Sigursteinn Sumarliðason og Krókus frá Dalbæ annan besta tímann eða 21,97 sek. Það verður því spennandi að sjá hvernig þeim og restinni af íslenska hópnum gengur í kvöld.
Lesa meira