Íslenskt hey á heimsmeistaramóti

5. júní 2025

Nú styttist verulega í HM íslenska hestsins sem fram fer í Sviss 4.-10. ágúst næstkomandi. Það er að mörgu að huga og eitt það allra mikilvægasta er að tryggja að hestarnir okkar fái íslenskt gæða hey með sér á mótið.


Þið lásuð rétt, þegar íslenskir hestar fara utan til að taka þátt í stórmótum eins og heimsmeistaramótinu í hestaíþróttum, fylgja þeim ekki aðeins knapar og liðsstjórar — heldur líka hey frá Íslandi. Það er ekki tilviljun, heldur afar mikilvæg ráðstöfun til að tryggja heilbrigði hestanna og lágmarka áhættu á veikindum.


Líkt og undanfarin ár er það Villi í Litlu-Tungu sem sér íslensku hestunum fyrir heyi. Hann hefur síðan 1999 tryggt að íslensku hestarnir fái úrvalshey. Litla-Tunga er staðsett rétt við Rauðalæk, steinsnar frá Hellu.


Við spjölluð við Villa sem sagði okkur aðeins frá samstarfinu:


,,Já, ég hef styrkt Íslenska landsliðið með heyi síðan 1999, svo það eru komin nokkur ár. Við leggjum áherslu á að bjóða upp á gott og næringarríkt hey fyrir hesta og höfum átt marga góða viðskiptavini í gegnum árin. Oft á tíðum eru hestarnir sem fara utan þegar búnir að vera á heyi frá okkur og því eru fóðurbreytingar í lágmarki. Ég tel að íslenskir hestar þurfi íslenskt fóður til að tryggja heilbrigði og árangur.“


„Íslenskt hey er líka ákaflega næringarríkt og hentar vel fyrir hesta frá náttúrunnar hendi. Við seljum því töluvert að heyi erlendis líka, þar sem menn eru oft á tíðum að glíma við plöntur í grassverðinum sem henta ekki hestum og eru jafnvel eitraðar þeim. Á síðasta ári seldum við til dæmis einnig Austurríksaliðinu hey og það er gaman að segja frá því að þeim hefur aldrei gengið eins vel.“

Það er ljóst að Íslenski hesturinn er vanur ákveðnu umhverfi og fóðri sem er einstakt fyrir Ísland. Ávalt er mikilvægt er að forðast snöggar breytingar á fóðri, sérstaklega þó fyrir hesta í mikilli þjálfun og hvað þá á ögurstund eins og á heimsmeistaramóti. Erlent hey getur verið allt annars eðlis, bæði hvað varðar tegundir grasa, næringargildi og ekki síst örveruflóru og getur það haft slæm áhrif á meltingu og almenna líðan hestsins.


„Við berum ábyrgð á velferð hestanna okkar, og það er algjört grundvallaratriði að þeir fái það fóður sem þeir þekkja og þola vel,“ segir Hinnrik Þór Sigurðsson, afreksstjóri LH „Að taka með sér hey frá Íslandi er ekki aukaatriði – það getur skipt sköpum þegar kemur að heilsu og árangri.“


Íslenska landsliðið leggur áherslu á fagmennsku, velferð og heilbrigði – og með því að tryggja að hestarnir fái íslenskt hey, er stigið mikilvægt skref í að tryggja að þeir geti sýnt sitt besta á alþjóðavettvangi.


Landsliðið vill þakka Villa í Litlu-Tungu fyrir að hafa staðið vaktina með okkur og tryggt hestunum okkar gæða hey í krefjandi aðstæðum. Takk Villi!


Fréttasafn

14. ágúst 2025
Skrifstofa LH er lokuð vegna sumarfría starfsfólks, frá 14. ágúst til 1. september.
14. ágúst 2025
Hörður Hákonarson hestamaður og alþjóðlegur hestaíþróttadómari í Reykjavík er látinn.
13. ágúst 2025
Til hamingju Ísland með frábært landslið
13. ágúst 2025
Úrslit í fjórgangi & fimmgangi
10. ágúst 2025
Þvílíkur morgunn!!!
10. ágúst 2025
Þá eru B-úrslitum lokið og ljóst hvaða keppendur bæta sér í toppbaráttuna í hverjum flokki.
10. ágúst 2025
This is a subtitle for your new post
9. ágúst 2025
Kristján Árni - Heimsmeistari
8. ágúst 2025
Niðurstöður úr kynbótasýningum sjö vetra og eldri hrossa
8. ágúst 2025
Forkeppni í fjórgangi er nú lokið. Ísland átt fimm fulltrúa, þrjá í fullorðinsflokki þau Helgu Unu Björnsdóttur og Ósk frá Stað, Aðalheiði Önnu Guðjónsdóttur og Hulinn frá Breiðstöðum og Jóhönnu Margréti Snorradóttur og Össu frá Miðhúsum. Í ungmennaflokk kepptu fyrir Íslands hönd þau Herdís Björg Jóhannsdóttir og Kormákur frá Kvistum og Védís Huld Sigurðardóttir og Ísak frá Þjórsárbakka. Herdís og Kormákur riðu á vaðið fyrir hönd íslensku keppendanna en lukkan var ekki í liði með þeim í dag því Kormáki fipaðist á yfirferðinni og útkoman var 5,87. Næst í braut af íslensku keppendunum komu þau Védís Huld Sigurðardóttir og Ísak frá Þjórsárbakka en þau voru í feikna stuði og hlutu í einkunn 7,07 og eru önnur inn A-úrslit ungmenna. Þriðjar í braut íslensku keppendanna voru þær Helga Una Björnsdóttir og Ósk frá Stað með stórglæsilega sýningu sem skilaði þeim 7,47 og beint inn í A-úrslit. Fjórðu í braut af íslensku keppendunum voru síðan Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir og Hulinn frá Breiðstöðum en því miður missti Hulinn skeifu og þau hlutu ekki einkunn. Fimmtu í braut komu loks Jóhanna Margrét Snorradóttir og Assa frá Miðhúsum og enduðu þær með 7,07 og lönduðu þar með sæti í B-úrlitum. Af íslensku knöpunum eigum við því í fullorðinsflokki einn í A-úrslitum og einn í B-úrslitum, og í ungmennaflokki er einn í A-úrslitum. Anne Stine Haugen og Hæmir frá Hyldsbæk leiða fullorðinsflokkinn með yfirburðum en þau hlutu hvorki meira né minna en 8,20 fyrir sína mögnuðu sýningu en þau keppa fyrir hönd Noregs. Eiðfaxi hitti Anne Stine eftir þeirra sýnungu sem sjá má á fréttasíðu Eiðfaxa en hjá Eiðfaxa er að finna fjölmörg stórskemmtileg viðtöl við knapa að loknum sýningum sem og gesti og gangandi. Næst á dagskrá er yfirlit fyrir 7 vetra og eldri hryssur og stóðhesta. Þar eigum við tvo fulltrúa þau Eind frá Grafarkoti, sýnandi Bjarni Jónasson og Hljóm frá Auðsholtshjáleigu, sýnandi Árni Björn Pálsson. Eind hlaut 8,41 í fordómi og var þriðja hæst í sínum flokki. Hljómur frá Auðsholtshjáleigu var hæstur í sínum flokki eftir fordóm með 8,77 í aðaleinkunn. Það verður því einkar spennandi að fygjast með þeim á eftir.  Í kvöld fara svo fram seinni tveir sprettirnir í 250m skeiði. Þar eigum við fimm fulltrúa og sem stendur eiga þau Kristján Árni Birgisson og Krafla frá Syðri-Rauðalæk besta tímann í ungmennaflokk en þau hlupu á tímanum 22,38 sek. Í fullorðinsflokki eiga þeir Sigursteinn Sumarliðason og Krókus frá Dalbæ annan besta tímann eða 21,97 sek. Það verður því spennandi að sjá hvernig þeim og restinni af íslenska hópnum gengur í kvöld.
Lesa meira