Íslenskt hey á heimsmeistaramóti

5. júní 2025

Nú styttist verulega í HM íslenska hestsins sem fram fer í Sviss 4.-10. ágúst næstkomandi. Það er að mörgu að huga og eitt það allra mikilvægasta er að tryggja að hestarnir okkar fái íslenskt gæða hey með sér á mótið.


Þið lásuð rétt, þegar íslenskir hestar fara utan til að taka þátt í stórmótum eins og heimsmeistaramótinu í hestaíþróttum, fylgja þeim ekki aðeins knapar og liðsstjórar — heldur líka hey frá Íslandi. Það er ekki tilviljun, heldur afar mikilvæg ráðstöfun til að tryggja heilbrigði hestanna og lágmarka áhættu á veikindum.


Líkt og undanfarin ár er það Villi í Litlu-Tungu sem sér íslensku hestunum fyrir heyi. Hann hefur síðan 1999 tryggt að íslensku hestarnir fái úrvalshey. Litla-Tunga er staðsett rétt við Rauðalæk, steinsnar frá Hellu.


Við spjölluð við Villa sem sagði okkur aðeins frá samstarfinu:


,,Já, ég hef styrkt Íslenska landsliðið með heyi síðan 1999, svo það eru komin nokkur ár. Við leggjum áherslu á að bjóða upp á gott og næringarríkt hey fyrir hesta og höfum átt marga góða viðskiptavini í gegnum árin. Oft á tíðum eru hestarnir sem fara utan þegar búnir að vera á heyi frá okkur og því eru fóðurbreytingar í lágmarki. Ég tel að íslenskir hestar þurfi íslenskt fóður til að tryggja heilbrigði og árangur.“


„Íslenskt hey er líka ákaflega næringarríkt og hentar vel fyrir hesta frá náttúrunnar hendi. Við seljum því töluvert að heyi erlendis líka, þar sem menn eru oft á tíðum að glíma við plöntur í grassverðinum sem henta ekki hestum og eru jafnvel eitraðar þeim. Á síðasta ári seldum við til dæmis einnig Austurríksaliðinu hey og það er gaman að segja frá því að þeim hefur aldrei gengið eins vel.“

Það er ljóst að Íslenski hesturinn er vanur ákveðnu umhverfi og fóðri sem er einstakt fyrir Ísland. Ávalt er mikilvægt er að forðast snöggar breytingar á fóðri, sérstaklega þó fyrir hesta í mikilli þjálfun og hvað þá á ögurstund eins og á heimsmeistaramóti. Erlent hey getur verið allt annars eðlis, bæði hvað varðar tegundir grasa, næringargildi og ekki síst örveruflóru og getur það haft slæm áhrif á meltingu og almenna líðan hestsins.


„Við berum ábyrgð á velferð hestanna okkar, og það er algjört grundvallaratriði að þeir fái það fóður sem þeir þekkja og þola vel,“ segir Hinnrik Þór Sigurðsson, afreksstjóri LH „Að taka með sér hey frá Íslandi er ekki aukaatriði – það getur skipt sköpum þegar kemur að heilsu og árangri.“


Íslenska landsliðið leggur áherslu á fagmennsku, velferð og heilbrigði – og með því að tryggja að hestarnir fái íslenskt hey, er stigið mikilvægt skref í að tryggja að þeir geti sýnt sitt besta á alþjóðavettvangi.


Landsliðið vill þakka Villa í Litlu-Tungu fyrir að hafa staðið vaktina með okkur og tryggt hestunum okkar gæða hey í krefjandi aðstæðum. Takk Villi!


Fréttasafn

30. október 2025
Sigvaldi Lárus Guðmundsson yfirþjálfari Hæfileikamótunar LH næstu tvö árin
27. október 2025
Keppnishestabú ársins verða heiðruð á Uppskeruhátíð hestafólks
27. október 2025
Uppskeruhátíð hestafólks fer fram í Gamla Bíó laugardaginn 8. nóvember nk., þar sem hestafólk af landinu öllu kemur saman til að fagna frábæru keppnisári og heiðra þá sem skarað hafa fram úr. Kvöldið verður í senn hátíðlegt og skemmtilegt. Veitingar verða í höndum LÚX veisluþjónustu, sem býður upp á dýrindis mat í takt við hátíðlega stemninguna í Gamla Bíó. Knapar ársins í hverjum flokki verða verðlaunaðir ásamt keppnishestabúi ársins og hljóta glæsilega verðlaunagripi úr smiðju Inga í Sign. Að loknum kvöldverði og öðrum hefðbundnum dagskrárliðum mun Stuðlabandið halda uppi fjörinu fram eftir nóttu og tryggja alvöru partýstemningu. Miðasala fer fram í vefverslun LH - takmarkaður fjöldi sæta í boði!! Sjáumst 8.nóvember í Gamla bíó!
24. október 2025
Íslandsmót 2026 haldið 17. til 21. júní hjá Sörla
23. október 2025
Knapar ársins verða heiðraðir á Uppskeruhátíð hestafólks
22. október 2025
Viðtal við nýjan formann Landsliðsnefndar um afreks- og landsliðsmál
22. október 2025
Þann 15. maí sl. staðfesti framkvæmdastjórn ÍSÍ úthlutunarreglur vegna kostnaðarþátttöku ungmenna í landsliðsverkefnum. Tilgangur reglnanna er að setja ramma um styrki til sérsambanda ÍSÍ vegna kostnaðarþátttöku ungmenna í landsliðsstarfi á vegum sérsambanda ÍSÍ í samræmi við Afreksstefnu ÍSÍ. Meginmarkmið styrkveitinganna er að styðja ungmenni fjárhagslega sem taka þátt í landsliðsstarfi á vegum sérsambanda ÍSÍ og þurfa að greiða kostnað vegna þátttökunnar að fullu eða að hluta. Einnig að jafna möguleika ungmenna á þátttöku í landsliðsstarfi sérsambanda ÍSÍ. LH sótti um styrk fyrir hönd þeirra sjö ungmenna sem fóru á HM sl. sumar og niðurstaðan varð sú að Afrekssjóður styrkir hvert og eitt þeirra um rúmar 200.000 kr. Styrkurinn er gríðarlega mikilvægur stuðningur við ungmennin okkar og mikil hvatning.  Er þetta hluti af því aukna fjármagni sem stjórnvöld hafa sett í Afrekssjóð á þessu ári og markar sú ákvörðun tímamót í allri umgjörð afreksíþrótta í heild sinni. Vonast er til að sambærilegt fjármagn verði til úthlutunar til sérsambanda úr Afrekssjóði til frambúðar.
17. október 2025
NICH - Nordic Icelandic Horse Collaboration
9. október 2025
Hæfileikamótun LH er fyrir krakka á aldrinum 14-17 ára, fædd 2009-2012
Lesa meira