Vígsla reiðhallar á Sörlastöðum
Ný og glæsileg reiðhöll var vígð á Sörlastöðum í Hafnarfirði þann 4. júní.

Ný og glæsileg reiðhöll var vígð á Sörlastöðum í Hafnarfirði þann 4. júní.
Um er að ræða eina stærstu reiðhöll landsins. Höllin er frábær viðbót við þær hallir sem bjóða upp á aðstöðu fyrir keppnishald innanhúss, og má þá sérstaklega taka fram að hún er sambyggð eldri reiðhöll sem nýtist sem upphitunaraðstaða.
Höllin hefur verið í bygginu í tvö ár og reis með góðum stuðningi Hafnafjarðarbæjar. Þetta glæsilega íþróttamannvirki er til marks um þann mikla metnað sem er fyrir hestaíþróttinni í sveitarfélaginu, og bætir alla aðstöðu fyrir félagsmenn Sörla hvort heldur sem er vegna námskeiðahalds, keppni eða almennar ástundunar. Þá má þess einnig geta að í reiðhöllinni er glæsilegur samkomusalur með útsýni yfir keppnisvöll Hestamannafélagsins Sörla.
Að þessu tilefni færði formaður LH, Linda Björk Gunnlaugsdóttir, Hestamannafélaginu Sörla, táknrænan skjöld og blóm, fyrir hönd LH, sem Atli Már Ingólfsson veitti viðtöku.
Landssamband hestamannafélag óskar Hestamannafélaginu Sörla og hestamönnum öllum til hamingju með þessa glæsilegu reiðhöll. Við hvetjum alla til að leggja leið sína á Sörlastaði þegar Íslandsmót barna og unglinga verður haldið þar dagana 17. til 20. júlí og Áhugamannamót Íslands dagana 20. til 22. júní.
Fréttasafn








