Íslandsmeistarar mætast í fjórgangi á Allra sterkustu
Reynsluboltarnir Jóhanna Margrét, Eyrún Ýr og Sara Sigurbjörnsdóttir mæta allar til leiks í fjórgang á Allra sterkustu. Jóhanna Margrét mætir með Kormák frá Kvistum 9 vetra hest sem vakti gríðarlega athygli á kennslusýningu landsliðsins í desember síðastliðinn. Kormákur hefur stimplað sig vel inn sem keppnishestur í vetur og það verður spennandi að sjá hann í brautinni á laugardaginn.
Eyrún Ýr hefur sigrað A-flokk á landsmóti og orðið Íslandsmeistari í fimmgangi. Hún mætir nú á hestinum Blæng frá Hofstaðaseli sem á fullt inni sem keppnishestur.
Sara Sigurbjörnsdóttir er ríkjandi Íslandsmeistari í fimmgangi á Flóka frá Oddhóli. Sara mætir á Allra sterkustu á Flugu frá Oddhóli en saman urðu þær silfurhafar á Íslandsmóti og Reykjavíkurmeistarar í fjórgangi á síðasta ári.
Að öllum öðrum ólöstuðum verður án efa skemmtilegt að fylgjast með þessum flottu knöpum og hestunum þeirra á laugardaginn.
Allra sterkustu fer fram laugardaginn 6. maí kl. 20.00 í TM reiðhöllinni. Tryggið ykkur miða í vefverslun LH!
Fréttasafn






Styrktaraðilar







