Íslandsmót barna og unglinga hefst á morgun
Íslandsmót barna- og unglinga 2025
Á morgun fimmtudag hefst heilmikil veisla á glæsilegu félagssvæði Hestamannafélagsins Sörla í Hafnarfirði þar sem Íslandsmót barna- og unglinga fer fram yfir helgina.
Mikill fjöldi skráninga er á mótinu og ljóst að áhuginn er mikill hjá yngri kynslóðinni. Á mótinu er keppt í barnaflokki og unglingaflokki í hefðbundnum íþróttagreinum auk gæðingakeppni og gæðingatölts sem nú eru orðnar skyldugreinar á mótinu og því krýndir Íslandsmeistarar í gæðingaflokkunum einnig. Hestakostur á mótinu er gríðarlega sterkur og hægt að gera ráð fyrir frábærum sýningum hjá keppendum á mótinu.
Dagskrá hefst á morgun fimmtudag klukkan 8:30 með keppni í fjórgangi V1 unglinga sem eru tæplega 70 talsins í rásröðinni, og þar á eftir er fjórgangur V1 í barnaflokki. Dagskrá fimmtudags endar svo á Gæðingatölti í barna- og unglingaflokki.
Á föstudaginn hefst dagurinn á fimmgangi unglinga, T4 barna og svo unglinga, T3 barna, T1 unglinga og að lokum gæðingaskeið unglinga.
Á laugardag er það svo gæðingakeppnin sem ræður ríkjum ásamt b-úrslitum í hinum ýmsu greinum og svo á sunnudag er 100 m skeið og a-úrslit í öllum greinum.
Það verður af nógu að taka á Sörlastöðum um helgina og Landssamband Hestamannafélaga óskar keppendum, mótshöldurum og aðstandendum góðs gengis og frábærrar skemmtunar. Hægt verður að fylgjast með mótinu í útsendingu á Alendis.
Fréttasafn









