Íslandsmót í hestaíþróttum og áhugamannamót Íslands 2023 auglýst til umsóknar

1. desember 2022

Á landsþingi 2022 voru samþykktar breytingar á reglugerð Íslandsmóts og er því   Íslandsmót fullorðinna og ungmenna auglýst til umsóknar á ný.

Mótið skal haldið 29. júní-2. júlí 2023 og er hér með laust til umsóknar fyrir áhugasama og metnaðarfulla mótshaldara.

Eins og kunnugt er, þá er heimsmeistaramótsár framundan, á HM árum er Íslandsmótið iðulega hið allra glæsilegasta og rjóminn af því besta sem í boði er í hestaíþróttum mætir til leiks. Íslandsmótið 2023 verður því einn af stóru hápunktum keppnisársins á Íslandi.

Á Íslandsmóti fullorðinna og ungmenna skal keppt í einum styrkleikaflokki í hvorum flokki fyrir sig, keppt í greinum þar sem keppendur eru einir inni á vellinum í einu, en það eru V1, F1, T1, T2 ásamt skeiðgreinum, PP1, P1, P2 og P3. Auk þess er í ungmennaflokki keppt í fimi sem á liðnu landsþingi kom undir regluverk mótahalds LH.

Þátttökurétt á Íslandsmóti ungmenna og fullorðinna hafa pör sem á keppnisárinu hafa náð lágmarkseinkunn í hverri grein, og það er keppnisnefnd LH sem gefur út lágmörkin í febrúar.

Áhugamannamót Íslands 2023 er einnig auglýst til umsóknar og skal haldið 21.-23. júlí 2023.

Á Áhugamannamóti Íslands skal keppt í einum styrkleikaflokki, 1. flokkur, og keppnisgreinar eru T3, T4, T7, F2, V2, V5, PP1, 100m. skeið ásamt A-flokki og B-flokki gæðinga. Þátttökurétt á Áhugamannamóti Íslands hafa allir sem náð hafa 22 ára aldri á keppnisárinu og hafa ekki keppt í meistaraflokki í íþóttakeppni á síðastliðnum 5 árum.

Íslandsmóti barna og unglinga hefur þegar verið úthlutað til Hestamannafélagsins Geysis og verður haldið á Rangárbökkum 13.-16. júlí 2023. Þátttökuréttur á Íslandsmóti barna og unglinga er opinn öllum keppendum þessara flokka og keppt skal í:

  • Börn: V2, T3, T4 og fimi.
  • Unglingar: V1, T1, F2, T4, fimi og skeiðgreinum.

Mótshöldurum er heimilt að bjóða upp á fleiri greinar kjósi þeir svo, sem og sýningargreinar en í sýningargreinum skal ekki krýna Íslandsmeistara.

Umsóknir áhugasamra mótshaldara skulu berast Landssambandi hestamannafélaga fyrir 15 desember nk.  lh@lhhestar.is

Fréttasafn

Eftir Berglind Karlsdóttir 7. nóvember 2025
Það er í mörg horn að líta í afreksmálum sérsambands af þeirri stærðargráðu sem Landssamband Hestamannafélaga er.  Nú á haustdögum hefur landsliðsnefnd LH unnið að skoðun afreksmálanna í heild sinni og fjölmargir komið að þeirri vinnu ásamt starfshópnum sem skipaður var til verksins af stjórn LH. Samningar landsliðsþjálfaranna voru í gildi fram í lok september 2025 og runnu þar með sitt skeið og í kjölfarið hafa ýmsar hliðar afreksmálanna verið skoðaðar með það í huga að styrkja starfið enn frekar. Afreks- og landsliðsnefnd hefur á þessum tíma unnið skýran ramma um afreksstarfið byggt á afreksstefnu LH og ÍSÍ, skilgreint verkefni og skyldur þjálfara landsliðanna ásamt verkefnum og skyldum afreksstjóra LH. Þar að auki haf ýmsir verkferlar verið bættir innan afreksstarfsins og þeirra hópa sem starfrækir eru innan þess. Valteymi var sett á laggirnar til aðstoðar þjálfurum hópanna við val í afrekshópa. Valteymið samanstendur af þjálfara hvers hóps ásamt formanni landsliðsnefndar og afreksstjóra LH. Valteymið aðstoðar við gagnaöflun, greiningu árangurs og undirbúning valferlis fyrir hópana og hefur ráðgefandi hlutverk. Landsliðsþjálfari/yfirþjálfari Hæfileikamótunar hefur þó endanlegt ákvörðunarvald um val í hópa sína og ber ábyrgð á því vali. Hóparnir sem starfa undir afreksstarfi LH eru Hæfileikamótun LH, U21-landsliðið og A-landslið. 42 verðandi afreksknapar á aldrinum 14-17 ára voru á dögunum teknir inn í Hæfileikamótun LH sem samanstendur af tveimur hópum. Sigvaldi Lárus Guðmundsson yfirþjálfari Hæfileikamótunar er fullur tilhlökkunnar inn í starfsárið sem hefst þegar fyrsti hópur fer námsferð að Hólum í komandi viku. Svo verða vinnuhelgar eftir áramótin með eigin hest og tveir stórir fræðsludagar með sýnikennslum, fyrirlestrum og foreldrafundi. Hvað landsliðin tvö varðar er það skýrt markmið landsliðsnefndar að sterkustu knapar landsins hverju sinni skipi landsliðshópa LH sem starfrækir eru yfir árið. Landsliðsumgjörðin veitir hópunum reglulega fræðslu og utanumhald, vinnur að fjáröflunarmálum með ýmsum viðburðum og veitir knöpum hópanna tækifæri á að efla og styrkja sig sem afreksknapa árið um kring samhliða því að sinna íþróttinni á sínum heimavelli. Því er það stefnan að landsliðshóparnir nái yfir afreksknapana okkar og eðli málsins samkvæmt þrengjast svo hóparnir þegar líður að stórmótum líkt og HM um þá knapa og hesta sem eru í baráttu um sæti í lokahóp og staðfest er hvaða hestar eru í boði inn í verkefnið. Hlutverk hvers knapa þegar kemur að lokahóp fyrir stórmót skal vera skýrt og við kynningu lokahópa verða varaknapar tilkynntir og þeir hafa gríðarlega mikilvægt hlutverk alveg fram að brottför hrossa frá Íslandi á HM. Nú vinnur afreks- og landsliðsnefnd að því að finna landsliðsþjálfara U21 og A-landsliðanna til starfa, og áhugasömum þjálfaraefnum er bent á að hafa samband við Sigurbjörn Eiríksson formann landsliðsnefndar landslidsnefnd@lhhestar.is eða Berglindi Karlsdóttur framkvæmdarstjóra LH berglind@lhhestar.is og láta þannig vita að sér.
6. nóvember 2025
Íslenska landsliðinu í hestaíþróttum var boðið til móttöku á Bessastöðum, þar sem forseti Íslands Halla Tómasdóttir og Björn bóndi hennar tóku móti hópnum. Tilefni boðsins var frábær árangur Íslenska landsliðsins á HM í Sviss sl. sumar en íslenska landsliðið hlaut alls 9 gullverðlaun á mótinu auk þess að vinna liðabikarinn, stigahæst liða á mótinu. Mótakan var hin hátíðlegasta og var landsliðinu mikill heiður sýndur með því að vera boðið til hennar. Halla fór fögrum orðum um íslenska hestinn sem einn mikilvægasta sendiherra Íslands, því hvert sem hún færi bæri fljótlega á góma íslenski hesturinn og hans sérstaka lundarfar og gangtegundirnar fimm. Einnig hafði hún á orði hversu mikið afrek það væri að vinna liðabikarinn þar sem liðsheildin væri mikilvæg. Svo var gestum boðið að rölta um hið merka hús á Bessastöðum, skoða listaverkin og gjafir hinna ýmsu þjóðhöfðingja í gegnum tíðina, sem prýða húsið. Að lokum var stillt upp fyrir hópmyndatöku á tröppunum á Bessastöðum í haustblíðunni.
30. október 2025
Sigvaldi Lárus Guðmundsson yfirþjálfari Hæfileikamótunar LH næstu tvö árin
27. október 2025
Keppnishestabú ársins verða heiðruð á Uppskeruhátíð hestafólks
27. október 2025
Uppskeruhátíð hestafólks fer fram í Gamla Bíó laugardaginn 8. nóvember nk., þar sem hestafólk af landinu öllu kemur saman til að fagna frábæru keppnisári og heiðra þá sem skarað hafa fram úr. Kvöldið verður í senn hátíðlegt og skemmtilegt. Veitingar verða í höndum LÚX veisluþjónustu, sem býður upp á dýrindis mat í takt við hátíðlega stemninguna í Gamla Bíó. Knapar ársins í hverjum flokki verða verðlaunaðir ásamt keppnishestabúi ársins og hljóta glæsilega verðlaunagripi úr smiðju Inga í Sign. Að loknum kvöldverði og öðrum hefðbundnum dagskrárliðum mun Stuðlabandið halda uppi fjörinu fram eftir nóttu og tryggja alvöru partýstemningu. Miðasala fer fram í vefverslun LH - takmarkaður fjöldi sæta í boði!! Sjáumst 8.nóvember í Gamla bíó!
24. október 2025
Íslandsmót 2026 haldið 17. til 21. júní hjá Sörla
23. október 2025
Knapar ársins verða heiðraðir á Uppskeruhátíð hestafólks
22. október 2025
Viðtal við nýjan formann Landsliðsnefndar um afreks- og landsliðsmál
22. október 2025
Þann 15. maí sl. staðfesti framkvæmdastjórn ÍSÍ úthlutunarreglur vegna kostnaðarþátttöku ungmenna í landsliðsverkefnum. Tilgangur reglnanna er að setja ramma um styrki til sérsambanda ÍSÍ vegna kostnaðarþátttöku ungmenna í landsliðsstarfi á vegum sérsambanda ÍSÍ í samræmi við Afreksstefnu ÍSÍ. Meginmarkmið styrkveitinganna er að styðja ungmenni fjárhagslega sem taka þátt í landsliðsstarfi á vegum sérsambanda ÍSÍ og þurfa að greiða kostnað vegna þátttökunnar að fullu eða að hluta. Einnig að jafna möguleika ungmenna á þátttöku í landsliðsstarfi sérsambanda ÍSÍ. LH sótti um styrk fyrir hönd þeirra sjö ungmenna sem fóru á HM sl. sumar og niðurstaðan varð sú að Afrekssjóður styrkir hvert og eitt þeirra um rúmar 200.000 kr. Styrkurinn er gríðarlega mikilvægur stuðningur við ungmennin okkar og mikil hvatning.  Er þetta hluti af því aukna fjármagni sem stjórnvöld hafa sett í Afrekssjóð á þessu ári og markar sú ákvörðun tímamót í allri umgjörð afreksíþrótta í heild sinni. Vonast er til að sambærilegt fjármagn verði til úthlutunar til sérsambanda úr Afrekssjóði til frambúðar.
17. október 2025
NICH - Nordic Icelandic Horse Collaboration
Lesa meira