Knapi ársins 2025 er Konráð Valur Sveinsson
Á Uppskeruhátíð LH voru krýndir knapar ársins 2025 og keppnishestabú ársins valið.
Að baki valinu er valnefnd sem er skipuðuð fjölbreyttum hópi og þar eiga fulltrúa stjórn LH, GDLH, HÍDÍ, FT og fjölmiðlar.
Knapi ársins 2025 er Konráð Valur Sveinsson
Konungur kappreiðanna á Íslandi þessi misserin er Konráð Valur, en hann átti frábært ár í skeiðgreinum.
Konráð setti á árinu heimsmet í 250 m skeiði, hann er tvöfaldur Íslandsmeistari í skeiðkappreiðum, vann tvo Reykjavíkurmeistaratitla og er einnig samanlagður sigurvegari skeiðleika Skeiðfélagsins.
Íþróttaknapi ársins 2025 er Ásmundur Ernir Snorrason
Ásmundur varð Íslandsmeistari í fjórgangi og samanlögðum fjórgangsgreinum á Hlökk frá Strandarhöfði, samanlagður Íslandsmeistari í fimmgangsgreinum á Aski frá Holtsmúla ásamt því að sigra fjölda greina á Reykjavíkurmeistaramóti. Hann náði þeim eftirtektarverða árangri á Hlökk að ríða oftar en einu sinni yfir 9 í meðaleinkunn bæði í T1 og T2 á árinu.
Skeiðknapi ársins 2025 er Konráð Valur Sveinsson
Konráð setti á árinu heimsmet í 250 m skeiði á Kastor frá Garðshorni þegar þeir félagar hlupu sprettinn á 21,06 sek á Íslandsmótinu í sumar. Konráð er þar að auki Íslandsmeistari í 100 m skeiði og 250 m skeiði ásamt því að hafa sigrað sömu greinar á Reykjavíkurmeistaramótinu. Hann er einnig samanlagður sigurvegari skeiðleika Skeiðfélagsins og þar með Ödershafinn 2025.
Gæðingaknapi ársins 2026 er Jakob Svavar Sigurðsson
Jakob sigraði B-flokk á Fjórðungsmóti Vesturlands á eftirminnilegan hátt á Kór frá Skálakoti með einkunina 9,24. Reiðmennska Jakobs geislar ávallt af fagmennsku og krafti.
Kristján Árni Birgisson og Védís Huld Sigurðardóttir eru efnilegustu knapar ársins 2025
Kristján Árni Birgisson
Kristján varð á árinu tvöfaldur heimsmeistari í ungmennaflokki þegar hann sigraði 100 m skeið og 250 m skeið á Kröflu frá Syðri-Rauðalæk. Hann varð einnig Íslandsmeistari í 100 m skeiði á Kröflu og gæðingaskeiði ungmenna á Súlu frá Kanastöðum.
Védís Huld Sigurðardóttir
Védís varð á árin tvöfaldur heimsmeistari í ungmennaflokki, í tölti og fjórgangi á Ísak frá Þjórsárbakka.
Hún sigraði einnig tölt og fjórgang á Íslandsmótinu á Ísaki.
Sérstök verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í ungmennaflokki hlaut Jón Ársæll Bergmann
Jón Ársæll Bergmann varð á árinu þrefaldur heimsmeistari í ungmennaflokki á Hörpu frá Höskuldsstöðum. Hann sigraði fimmgang, gæðingaskeið og samanlagðar fimmgangsgreinar á mótinu ásamt því að ná frábærum árangri á fjölda móta hér á Íslandi sumarið 2025.
Keppnishestabú ársins 2025 er Strandarhöfuð
Strandarhöfuð hefur á undanförnum árum stimplað sig inn sem eitt af sterkustu ræktunarbúum keppnishrossa í hestamennskunni á Íslandi. Kórónan í ræktuninni er án efa Hlökk frá Strandarhöfði sem á árinu varð Íslandsmeistari í fjórgangi og samanlögðum fjórgangsgreinum auk þess að standa upp úr í töltsýningum í T1 og T2.
Fréttasafn

















