Kosning um LH félaga ársins

13. nóvember 2023

 

Stjórn LH óskaði eftir tilnefningum frá aðildarfélögum LH að félaga ársins, ásamt rökstuðningi fyrir valinu.

Eftirfarandi sjálfboðaliðar hafa verið tilnefndir, endilega kynnið ykkur þau og kjósið hér neðst á síðunni.

Hestamannafélagið Fákur - Sæmundur Ólafsson

Hestamannafélagið Fákur tilnefndir til félaga ársins 2023 Sæmund Ólafsson. Sæmundur hefur í mörg ár staðið vaktina við alla helstu viðburði og mót í Fáki. Hann er ávallt boðinn og búinn til að aðstoða, hvort sem það er við undirbúning eða vinnu á viðburðunum sjálfum. Sæmundur er nefndarmaður í mótanefnd Fáks en sú nefnd heldur meðal annars Reykjavíkurmeistaramót sem er stærsti hestaviðburður í Íslandshestamennskunni þau ár sem ekki er Landsmót.

Til marks um hans óeigingjarna og mikla starf má öruggt telja að yfirgnæfandi hluti knapa mótsins þekki til hans þar sem hann stendur vaktina á Reykjavíkurmeistaramóti frá morgni til kvölds. Sæmundur er öðrum félagsmönnum Fáks mikil fyrirmynd og án hans og annarra sjálfboðaliða Fáks gæti félagið ekki haldið mót og viðburði.

Hestamannafélagið Hringur - Christina Niewert

Christina Niewert eða Tína eins og hún er jafnan kölluð er sannur Hringsfélagi. Hún starfar sem reiðkennari hjá Hring en hún er ekki bara venjulegur reiðkennari því hún brennur fyrir að virkja alla sem hafa minnsta snefil af áhuga á hestum og leggur mikla áherslu á að allir sem vilja, geta fengið tækifæri til að kynnast íslenska hestinum, sérstaklega ef aðstæður viðkomandi eru erfiðar. Eins og hjá börnum sem ekki hafa aðgang að hestum og nýbúum. Þannig berst hún með sína reiðhesta í Hringsholt í reiðkennslu til að börn og ungmenni sem ekki hafa aðgang að hestum geti stundað reiðnámekið hjá Hring. Hún vill gera hestamennsku aðgengilega fyrir alla, börn, hræddar konur og nýbúa.   

Tína er hugmyndaríkur frumkvöðull og fær oft góðar hugmyndir sem hún er líka dugleg að framkvæma. Sem dæmi má nefna konuhittingar, prikhestanámskeið, allskonar reiðtúrar með hringsfélögum á öllum aldri og öllum getustigum. Þá á hún sennilega metið í ferðum á hestbaki upp að Skeiðsvatn  hér í Svarfaðardal og býður ávallt einhverjum með sér.  Hún lætur fátt aftra sér í sinni hestamennsku og eru útsjónasemi, dugnaður og þrautseiga orð sem lýsa henni Tínu einna best.

Tina er alltaf boðin og búin til að taka þátt í hverju því starfi sem þarf, sérstaklega ef það snýr að börnum og unglingum og hefur hún verið í æskulýðsnefnd Hrings til margra ára og er hún einn traustasti nefndarfulltrúinn þeirrar nefndar, mætir á alla fundi og tekur þátt í öllum viðburðum hjá æskulýðsnefndinni. Auk þess að starfa með æskulýðsnefndinni í Hring er Tína óþreytandi stuðningur við hverja þá konu sem einhverra hluta vegna hefur misst kjarkinn gagnvart hestum eða hestamennsku og hefur hún aðstoðað margar konur við að komast aftur af stað í hestamennsku sinni.

Tína er dýrmætur félagi í Hring vegna hæfileika sinna, dugnaðar og starfsorku.

Hestamannafélagið Neisti - Selma Erludóttir

Hestamannafélagið Neisti tilnefnir Selmu Erludóttir sem LH félaga ársins.

Selma hefur unnið mikið og óeigingjarnt starf í þágu félagsins í mörg ár. Hún byrjaði að gera ársreikninga fyrir félagið árið 2000, kom inn í stjórn félagsins árið 2008 sem gjaldkeri og gegnir því hlutverki enn þann dag í dag. Selma hefur séð um heimasíðu félagsins, www.neisti.net í mörg ár.

Einnig var Selma lengi í æskulýðsnefnd og tók þátt í undirbúningi og uppsetningu fjölda sýninga sem hafa verið í reiðhöllinni Arnargerði á Blönduósi 

Síðastliðinn vetur fór stjórn Neista af stað með félagshesthús þar sem þátttakendum á námskeiðum á vegum félagsins bauðst að leigja stíur fyrir sína hesta á kostnaðarverði. Einnig buðum við upp á að leigja hesta fyrir þá sem eiga ekki hesta en vildu vera á námskeiðum hjá okkur í vetur. Aðsóknin var vonum framar og færri komust að en vildu. En til að hægt sé að bjóða upp á slíka þjónustu þarf einhver að halda utan um skipulagið og sá Selma alfarið um það. Hún var vakin og sofin yfir þessu verkefni, sá um að setja hestana út og moka og gefa eftir þörfum auk þess sem hún sá um að halda utan um og fá aðra með sér í lið við þessi verk. 

 Selma er alltaf boðin og búin að hjálpa til og er fyrst af stað þegar eitthvað þarf að gera fyrir félagið. 

Hestamannafélagið Skagfirðingur - Heiðrún Ósk Jakóbínudóttir

Hestamannafélagið Skagfirðingur tilnefnir Heiðrúnu Ósk Jakobínudóttir til LH félaga ársins.

Heiðrún Ósk er "JÁ" manneskjan okkar & hefur ekki verið þekkt fyrir að hafa nei í sínum orðaforða. Hún er alltaf boðin og búin til að aðstoða hvar sem þess gerist þörf. Hún er einn af drifkröftum Æskulýðsstarfins í skipulagi og framkvæmd þar sem hún fer fyrir nefndinni og heldur utan um ungana okkar. Einnig er hún mjög dugleg og drífandi við að standa vaktirnar í sjoppunni við fjáröflunar starfið. “Já þetta gerist ekki af sjálfum sér” segir hún stundum. Hún hefur einnig séð um útleigu og þrif á Tjarnabæ, félagshúsinu okkar og hefur gert það með miklum sóma ásamt mörgu öðru sem hún tekur sér fyrir hendur.

Hún er jákvæð, drífandi og mjög svo óeigingjörn á sinn tíma fyrir félagið.

Kosningu er lokið við þökkum fyrir góða þátttöku. Úrslit verða kynnt á Uppskeruhátíð.

Fréttasafn

8. ágúst 2025
Forkeppni í fjórgangi er nú lokið. Ísland átt fimm fulltrúa, þrjá í fullorðinsflokki þau Helgu Unu Björnsdóttur og Ósk frá Stað, Aðalheiði Önnu Guðjónsdóttur og Hulinn frá Breiðstöðum og Jóhönnu Margréti Snorradóttur og Össu frá Miðhúsum. Í ungmennaflokk kepptu fyrir Íslands hönd þau Herdís Björg Jóhannsdóttir og Kormákur frá Kvistum og Védís Huld Sigurðardóttir og Ísak frá Þjórsárbakka. Herdís og Kormákur riðu á vaðið fyrir hönd íslensku keppendanna en lukkan var ekki í liði með þeim í dag því Kormáki fipaðist á yfirferðinni og útkoman var 5,87. Næst í braut af íslensku keppendunum komu þau Védís Huld Sigurðardóttir og Ísak frá Þjórsárbakka en þau voru í feikna stuði og hlutu í einkunn 7,07 og eru önnur inn A-úrslit ungmenna. Þriðjar í braut íslensku keppendanna voru þær Helga Una Björnsdóttir og Ósk frá Stað með stórglæsilega sýningu sem skilaði þeim 7,47 og beint inn í A-úrslit. Fjórðu í braut af íslensku keppendunum voru síðan Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir og Hulinn frá Breiðstöðum en því miður missti Hulinn skeifu og þau hlutu ekki einkunn. Fimmtu í braut komu loks Jóhanna Margrét Snorradóttir og Assa frá Miðhúsum og enduðu þær með 7,07 og lönduðu þar með sæti í B-úrlitum. Af íslensku knöpunum eigum við því í fullorðinsflokki einn í A-úrslitum og einn í B-úrslitum, og í ungmennaflokki er einn í A-úrslitum. Anne Stine Haugen og Hæmir frá Hyldsbæk leiða fullorðinsflokkinn með yfirburðum en þau hlutu hvorki meira né minna en 8,20 fyrir sína mögnuðu sýningu en þau keppa fyrir hönd Noregs. Eiðfaxi hitti Anne Stine eftir þeirra sýnungu sem sjá má á fréttasíðu Eiðfaxa en hjá Eiðfaxa er að finna fjölmörg stórskemmtileg viðtöl við knapa að loknum sýningum sem og gesti og gangandi. Næst á dagskrá er yfirlit fyrir 7 vetra og eldri hryssur og stóðhesta. Þar eigum við tvo fulltrúa þau Eind frá Grafarkoti, sýnandi Bjarni Jónasson og Hljóm frá Auðsholtshjáleigu, sýnandi Árni Björn Pálsson. Eind hlaut 8,41 í fordómi og var þriðja hæst í sínum flokki. Hljómur frá Auðsholtshjáleigu var hæstur í sínum flokki eftir fordóm með 8,77 í aðaleinkunn. Það verður því einkar spennandi að fygjast með þeim á eftir.  Í kvöld fara svo fram seinni tveir sprettirnir í 250m skeiði. Þar eigum við fimm fulltrúa og sem stendur eiga þau Kristján Árni Birgisson og Krafla frá Syðri-Rauðalæk besta tímann í ungmennaflokk en þau hlupu á tímanum 22,38 sek. Í fullorðinsflokki eiga þeir Sigursteinn Sumarliðason og Krókus frá Dalbæ annan besta tímann eða 21,97 sek. Það verður því spennandi að sjá hvernig þeim og restinni af íslenska hópnum gengur í kvöld.
7. ágúst 2025
Þá er forkeppni í fimmgangi lokið, við áttum fimm fulltrúa, þrjá í fullorðinsflokki og tvo í ungmennaflokki.
7. ágúst 2025
Eftir yfirlit í flokki fimm og sex vetra kynbótahrossa standa þrjú af fjórum hrossum frá Íslandi efst í sínum flokki.
7. ágúst 2025
Kristján Árni og Sigursteinn standa efstir íslensku keppendanna
7. ágúst 2025
Árni Björn leiðir í tölti með miklum yfirburðum
Eftir Unnur Rún Sigurpálsdóttir 6. ágúst 2025
Þá er forkeppni í slaktaumatölti lokið. Þar átti Ísland fjóra fulltrúa, þrjá í fullorðinsflokki og einn í ungmennaflokki.
Eftir Unnur Rún Sigurpálsdóttir 6. ágúst 2025
Ísland landaði sínum fyrsta heimsmeistaratitli á HM 2025
Eftir Unnur Rún Sigurpálsdóttir 6. ágúst 2025
Heimsmeistaramót Íslenska hestsins hófst á kynbótadómum.
Eftir Unnur Rún Sigurpálsdóttir 4. ágúst 2025
Sig­ur­björn seg­ir alla hest­ana vera í góðu standi eft­ir ferðalagið. Hann bend­ir einnig á mik­il­vægi þess að styðja við bak liðsfé­lag­anna þegar keppn­in hefst á morg­un.
Eftir Unnur Rún Sigurpálsdóttir 4. ágúst 2025
Heims­meist­ara­mót ís­lenska hests­ins hefst með form­leg­um hætti í fyrramálið og kynbótadómum.
Lesa meira