Menntadagur A-landsliðsins - Leiðin að gullinu
24. nóvember 2022
Menntadagur íslenska landsliðsins verður haldinn í TM reiðhöllinni í Víðidal þann 10. desember næstkomandi kl. 10.30 til 16.00. Vegleg dagskrá er í boði yfir daginn þar sem okkar allra færustu knapar og þjálfarar halda sýnikennslu.
Þetta er frábært tækifæri fyrir fróðleiksþyrsta hestamenn að skyggnast inn í aðferðafræði landsliðsknapanna okkar, fræðast um þjálfun þeirra með hesta sína, skyggnast inn í undirbúning þeirra í upphafi vetrar og fá innblástur inn í nýjan hestavetur.
Í sýnikennslu verður meðal annars farið yfir ýmsar æfingar, tilgang þeirra og virkni, fyrsti undirbúningurinn á þjálfun í upphafi vetrar, þjálfun kappreiðaskeiðhesta, undirbúningur og áherslur fyrir 100, 150 og 250 m skeið, gæðingaskeið: aðdragandi og undirbúningur, áhersla í þjálfun fjórgangshestsins, áhersla í þjálfun fyrir fimmgang, tölt T2: aðferðafræði við þjálfun, undirbúningur og að kenna hestinum tölt á slökum taum, tölt T1: Undirbúningur og áherslur, grunnatriði við þjálfun hraðabreytinga.
Nú er HM ár framundan, og íslenska landsliðið komið á fullt í sinn undirbúning og ætlar svo sannarlega ekki að láta sitt eftir liggja þegar á hólminn er komið.
Takið daginn frá, notið tækifærið og sækið ykkur fróðleik hjá knöpum á hæsta stigi reiðmennskunnar og styrkið landsliðið okkar til dáða inn í mikilvægt tímabil.
Miðaverð í forsölu er kr. 4000-
(fullt verð á staðnum kr. 5.000)
Miðasala fer fram í vefverslun LH og verslun Líflands Lynghálsi
Fréttasafn

10. september 2025
Dagana 21. til 23. nóvember nk. verður haldið leiðtoganámskeið FEIF sem ætlað er ungmennum á aldrinum 18-26 ára. Námskeiðið er á vegum Danska Íslandshestasambandsins (DI) og er haldið í Gringdsted Landbúnaðarskólanum í Billund í Danmörku. Yfirskrift námskeiðsins er „Fighting Fit – Conflict, Fitness & Teamwork in Action“ og markmiðið er að hvetja ungmenni til að taka þátt í félagsstörfum í hestamennsku og að þátttakendur efli færni sína sem leiðtogar. Aðalfyrirlesarar verða Rebekka Hyldgaard, sjúkraþjálfari, sem fjallar um hvernig líkamsþjálfun getur bætt árangur í reiðmennsku, og Professor Janne Winther Christensen frá Aarhus University sem fjallar um nýjustu rannsóknir um „ animal conflict behaviour “. Þátttaka í viðburði sem þessum gefur frábæra reynslu, skapar tengsl og styrkir þátttakendur til frekari leiðtoga og ábyrgðarstarfa innan hestamannafélaganna. Við hvetjum hestamannafélögin til að hvetja fulltrúa sína til þátttöku á þessu námskeiði og minnum á mikilvægi þess að efla ungt fólk til þátttöku í nefndum og störfum innan félaganna til að efla nýliðun ásamt því að móta leiðtoga framtíðarinnar. Nánari upplýsingar um námskeiðið má finna á heimasíðu FEIF. Umsóknarfrestur er 15. október 2025 . Námskeiðið hefst föstudaginn 21. nóvember kl 16:00 og endar sunnudaginn 23. nóvember kl 13:00. Kostnaður er 200€ og innifalið í því er gisting, matur og fræðsla.

10. september 2025
Landssamband hestamannafélaga auglýsir til umsóknar eftirfarandi mót: · Íslandsmót fullorðinna og ungmenna 2028 · Íslandsmót barna og unglinga 2028 · Íslandsmót í gæðingalist 2026 (innanhússmót sem haldið skal fyrir 15. maí) · Áhugamannamót Íslands 2026 Dagsetningar mótanna eru ákveðnar í samráði við mótshaldara og að teknu tilliti til dagsetninga annarra móta. Á Íslandsmóti fullorðinna og ungmenna er keppt í íþróttakeppni í efsta styrkleikaflokki þar sem keppendur eru einir inni á vellinum í einu. Á Íslandsmóti barna og unglinga er keppt í íþróttakeppni og gæðingakeppni. Á Íslandsmóti í gæðingalist er keppt í öllum aldursflokkum og skal mótið haldið fyrir 15. maí 2026. Á Áhugamannamóti Íslands er keppt í íþróttakeppni og gæðingakeppni í 1., 2. og 3. flokki. Umsóknir áhugasamra mótshaldara skulu berast Landssambandi hestamannafélaga fyrir 1. október nk. á netfangið lh@lhhestar.is .







