Sjálfboðaliðar skila 650 klukkustundum í vinnu á WR íþróttamóti Geysis

26. maí 2023

Met skráninga á WR íþróttamót Geysis sem fram fer um helgina hefur vakið verðskuldaða athygli. Mótið átti upphaflega að vera þriggja daga mót en sökum mikillar skráningar hófst mótið kl. 10 í gær, fimmtudag og stendur fram á mánudagskvöld. Að baki móti eins og þessu liggur mikil vinna sjálfboðaliða. Við heyrðum í Eiríki Vilhelm Sigurðarsyni formanni Geysis sem sagði okkur örlítið frá mótinu og undirbúningnum.

Stefnduð þið alltaf á svona stórt mót?

„Nei við gerðum það í rauninni ekki, mótið átti að vera þrír dagar en við þurftum að bæta tveimur dögum við. Það eru 550 skráðir sem er töluvert meira en við áttum von á, en í fyrra voru um 300 skráningar svo þetta er töluverð stækkun á milli ára.“

Hversu mikil vinna hefur farið í undirbúninginn?

„Mótsstjórn sat við mörg kvöld, það fer alveg rosalegur tími í þetta en verkefnið er skemmtilegt og félagsskapurinn er góður. Allir sem koma að þessari framkvæmd eru sjálfboðaliðar og eru að skipuleggja þetta í frítíma sínum. Auðvitað er maður fyrst og fremst þakklátur fyrir það hvað hestafólk er tilbúið að leggja á sig mikla vinnu til að mótin megi verða að veruleika.“

Hvernig hefur mótið farið af stað, hefur veðrið sett strik í reikninginn?

„Mótið hefur farið vel af stað, spáin var ekki glæsileg en við vonum að vindurinn flýti sér hægt. Það er rigning og vindur en völlurinn heldur vel enda erum við búin að passa vel upp á hann. Stemningin er góð og Alendis munu sýna frá meistara- og ungmennaflokkum.“

Hver er helsta áskorunin við að halda svona mót?

„Aðal áskorunin er að raða niður á dagana og þar erum við heppin að vera með ákaflega reynslumikið fólk í mótsstjórn og í félaginu sem kann og getur áætlað tímana svo dagskráin gangi upp. Þetta er fimm daga mót við byrjuðum kl. 10 á fimmtudagsmorgun og verðum fram á mánudagskvöld, svo auðvitað er þetta mikið skipulag.“

Hvað koma margir starfsmenn og sjálfboðaliðar að framkvæmdinni?

Það koma 40 sjálfboðaliðar að framkvæmdinni og á hverjum tíma gerum við ráð fyrir því að það séu um 20 starfsmenn við vinnu. Öll vinna á mótinu fyrir utan dómarastörf eru unnin í sjálfboðavinnu. Í heildina reiknast mér til að sjálfboðaliðarnir okkar séu að skila um 650 klukkustundum í vinnu um helgina fyrir utan allan undirbúninginn. Það væri auðvitað ekki hægt að halda svona stórt og flott mót nema með því góða fólki sem leggur hendur á plóg. Vinnan dreifist á marga og það hefur verið gaman að undirbúa mótið og upplifa hversu jákvæðir félagsmenn eru fyrir því að koma og starfa með okkur.“

„Það spáir vel fyrir morgundaginn, svo við vonum auðvitað að sem flestir komi til okkar og kíki á mótið.“

Fréttasafn

8. ágúst 2025
Forkeppni í fjórgangi er nú lokið. Ísland átt fimm fulltrúa, þrjá í fullorðinsflokki þau Helgu Unu Björnsdóttur og Ósk frá Stað, Aðalheiði Önnu Guðjónsdóttur og Hulinn frá Breiðstöðum og Jóhönnu Margréti Snorradóttur og Össu frá Miðhúsum. Í ungmennaflokk kepptu fyrir Íslands hönd þau Herdís Björg Jóhannsdóttir og Kormákur frá Kvistum og Védís Huld Sigurðardóttir og Ísak frá Þjórsárbakka. Herdís og Kormákur riðu á vaðið fyrir hönd íslensku keppendanna en lukkan var ekki í liði með þeim í dag því Kormáki fipaðist á yfirferðinni og útkoman var 5,87. Næst í braut af íslensku keppendunum komu þau Védís Huld Sigurðardóttir og Ísak frá Þjórsárbakka en þau voru í feikna stuði og hlutu í einkunn 7,07 og eru önnur inn A-úrslit ungmenna. Þriðjar í braut íslensku keppendanna voru þær Helga Una Björnsdóttir og Ósk frá Stað með stórglæsilega sýningu sem skilaði þeim 7,47 og beint inn í A-úrslit. Fjórðu í braut af íslensku keppendunum voru síðan Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir og Hulinn frá Breiðstöðum en því miður missti Hulinn skeifu og þau hlutu ekki einkunn. Fimmtu í braut komu loks Jóhanna Margrét Snorradóttir og Assa frá Miðhúsum og enduðu þær með 7,07 og lönduðu þar með sæti í B-úrlitum. Af íslensku knöpunum eigum við því í fullorðinsflokki einn í A-úrslitum og einn í B-úrslitum, og í ungmennaflokki er einn í A-úrslitum. Anne Stine Haugen og Hæmir frá Hyldsbæk leiða fullorðinsflokkinn með yfirburðum en þau hlutu hvorki meira né minna en 8,20 fyrir sína mögnuðu sýningu en þau keppa fyrir hönd Noregs. Eiðfaxi hitti Anne Stine eftir þeirra sýnungu sem sjá má á fréttasíðu Eiðfaxa en hjá Eiðfaxa er að finna fjölmörg stórskemmtileg viðtöl við knapa að loknum sýningum sem og gesti og gangandi. Næst á dagskrá er yfirlit fyrir 7 vetra og eldri hryssur og stóðhesta. Þar eigum við tvo fulltrúa þau Eind frá Grafarkoti, sýnandi Bjarni Jónasson og Hljóm frá Auðsholtshjáleigu, sýnandi Árni Björn Pálsson. Eind hlaut 8,41 í fordómi og var þriðja hæst í sínum flokki. Hljómur frá Auðsholtshjáleigu var hæstur í sínum flokki eftir fordóm með 8,77 í aðaleinkunn. Það verður því einkar spennandi að fygjast með þeim á eftir.  Í kvöld fara svo fram seinni tveir sprettirnir í 250m skeiði. Þar eigum við fimm fulltrúa og sem stendur eiga þau Kristján Árni Birgisson og Krafla frá Syðri-Rauðalæk besta tímann í ungmennaflokk en þau hlupu á tímanum 22,38 sek. Í fullorðinsflokki eiga þeir Sigursteinn Sumarliðason og Krókus frá Dalbæ annan besta tímann eða 21,97 sek. Það verður því spennandi að sjá hvernig þeim og restinni af íslenska hópnum gengur í kvöld.
7. ágúst 2025
Þá er forkeppni í fimmgangi lokið, við áttum fimm fulltrúa, þrjá í fullorðinsflokki og tvo í ungmennaflokki.
7. ágúst 2025
Eftir yfirlit í flokki fimm og sex vetra kynbótahrossa standa þrjú af fjórum hrossum frá Íslandi efst í sínum flokki.
7. ágúst 2025
Kristján Árni og Sigursteinn standa efstir íslensku keppendanna
7. ágúst 2025
Árni Björn leiðir í tölti með miklum yfirburðum
Eftir Unnur Rún Sigurpálsdóttir 6. ágúst 2025
Þá er forkeppni í slaktaumatölti lokið. Þar átti Ísland fjóra fulltrúa, þrjá í fullorðinsflokki og einn í ungmennaflokki.
Eftir Unnur Rún Sigurpálsdóttir 6. ágúst 2025
Ísland landaði sínum fyrsta heimsmeistaratitli á HM 2025
Eftir Unnur Rún Sigurpálsdóttir 6. ágúst 2025
Heimsmeistaramót Íslenska hestsins hófst á kynbótadómum.
Eftir Unnur Rún Sigurpálsdóttir 4. ágúst 2025
Sig­ur­björn seg­ir alla hest­ana vera í góðu standi eft­ir ferðalagið. Hann bend­ir einnig á mik­il­vægi þess að styðja við bak liðsfé­lag­anna þegar keppn­in hefst á morg­un.
Eftir Unnur Rún Sigurpálsdóttir 4. ágúst 2025
Heims­meist­ara­mót ís­lenska hests­ins hefst með form­leg­um hætti í fyrramálið og kynbótadómum.
Lesa meira