Sjálfboðaliðar skila 650 klukkustundum í vinnu á WR íþróttamóti Geysis

26. maí 2023

Met skráninga á WR íþróttamót Geysis sem fram fer um helgina hefur vakið verðskuldaða athygli. Mótið átti upphaflega að vera þriggja daga mót en sökum mikillar skráningar hófst mótið kl. 10 í gær, fimmtudag og stendur fram á mánudagskvöld. Að baki móti eins og þessu liggur mikil vinna sjálfboðaliða. Við heyrðum í Eiríki Vilhelm Sigurðarsyni formanni Geysis sem sagði okkur örlítið frá mótinu og undirbúningnum.

Stefnduð þið alltaf á svona stórt mót?

„Nei við gerðum það í rauninni ekki, mótið átti að vera þrír dagar en við þurftum að bæta tveimur dögum við. Það eru 550 skráðir sem er töluvert meira en við áttum von á, en í fyrra voru um 300 skráningar svo þetta er töluverð stækkun á milli ára.“

Hversu mikil vinna hefur farið í undirbúninginn?

„Mótsstjórn sat við mörg kvöld, það fer alveg rosalegur tími í þetta en verkefnið er skemmtilegt og félagsskapurinn er góður. Allir sem koma að þessari framkvæmd eru sjálfboðaliðar og eru að skipuleggja þetta í frítíma sínum. Auðvitað er maður fyrst og fremst þakklátur fyrir það hvað hestafólk er tilbúið að leggja á sig mikla vinnu til að mótin megi verða að veruleika.“

Hvernig hefur mótið farið af stað, hefur veðrið sett strik í reikninginn?

„Mótið hefur farið vel af stað, spáin var ekki glæsileg en við vonum að vindurinn flýti sér hægt. Það er rigning og vindur en völlurinn heldur vel enda erum við búin að passa vel upp á hann. Stemningin er góð og Alendis munu sýna frá meistara- og ungmennaflokkum.“

Hver er helsta áskorunin við að halda svona mót?

„Aðal áskorunin er að raða niður á dagana og þar erum við heppin að vera með ákaflega reynslumikið fólk í mótsstjórn og í félaginu sem kann og getur áætlað tímana svo dagskráin gangi upp. Þetta er fimm daga mót við byrjuðum kl. 10 á fimmtudagsmorgun og verðum fram á mánudagskvöld, svo auðvitað er þetta mikið skipulag.“

Hvað koma margir starfsmenn og sjálfboðaliðar að framkvæmdinni?

Það koma 40 sjálfboðaliðar að framkvæmdinni og á hverjum tíma gerum við ráð fyrir því að það séu um 20 starfsmenn við vinnu. Öll vinna á mótinu fyrir utan dómarastörf eru unnin í sjálfboðavinnu. Í heildina reiknast mér til að sjálfboðaliðarnir okkar séu að skila um 650 klukkustundum í vinnu um helgina fyrir utan allan undirbúninginn. Það væri auðvitað ekki hægt að halda svona stórt og flott mót nema með því góða fólki sem leggur hendur á plóg. Vinnan dreifist á marga og það hefur verið gaman að undirbúa mótið og upplifa hversu jákvæðir félagsmenn eru fyrir því að koma og starfa með okkur.“

„Það spáir vel fyrir morgundaginn, svo við vonum auðvitað að sem flestir komi til okkar og kíki á mótið.“

Fréttasafn

10. september 2025
Dagana 21. til 23. nóvember nk. verður haldið leiðtoganámskeið FEIF sem ætlað er ungmennum á aldrinum 18-26 ára. Námskeiðið er á vegum Danska Íslandshestasambandsins (DI) og er haldið í Gringdsted Landbúnaðarskólanum í Billund í Danmörku. Yfirskrift námskeiðsins er „Fighting Fit – Conflict, Fitness & Teamwork in Action“ og markmiðið er að hvetja ungmenni til að taka þátt í félagsstörfum í hestamennsku og að þátttakendur efli færni sína sem leiðtogar. Aðalfyrirlesarar verða Rebekka Hyldgaard, sjúkraþjálfari, sem fjallar um hvernig líkamsþjálfun getur bætt árangur í reiðmennsku, og Professor Janne Winther Christensen frá Aarhus University sem fjallar um nýjustu rannsóknir um „ animal conflict behaviour “. Þátttaka í viðburði sem þessum gefur frábæra reynslu, skapar tengsl og styrkir þátttakendur til frekari leiðtoga og ábyrgðarstarfa innan hestamannafélaganna. Við hvetjum hestamannafélögin til að hvetja fulltrúa sína til þátttöku á þessu námskeiði og minnum á mikilvægi þess að efla ungt fólk til þátttöku í nefndum og störfum innan félaganna til að efla nýliðun ásamt því að móta leiðtoga framtíðarinnar. Nánari upplýsingar um námskeiðið má finna á heimasíðu FEIF. Umsóknarfrestur er 15. október 2025 . Námskeiðið hefst föstudaginn 21. nóvember kl 16:00 og endar sunnudaginn 23. nóvember kl 13:00. Kostnaður er 200€ og innifalið í því er gisting, matur og fræðsla.
10. september 2025
Landssamband hestamannafélaga auglýsir til umsóknar eftirfarandi mót: · Íslandsmót fullorðinna og ungmenna 2028 · Íslandsmót barna og unglinga 2028 · Íslandsmót í gæðingalist 2026 (innanhússmót sem haldið skal fyrir 15. maí) · Áhugamannamót Íslands 2026 Dagsetningar mótanna eru ákveðnar í samráði við mótshaldara og að teknu tilliti til dagsetninga annarra móta. Á Íslandsmóti fullorðinna og ungmenna er keppt í íþróttakeppni í efsta styrkleikaflokki þar sem keppendur eru einir inni á vellinum í einu. Á Íslandsmóti barna og unglinga er keppt í íþróttakeppni og gæðingakeppni. Á Íslandsmóti í gæðingalist er keppt í öllum aldursflokkum og skal mótið haldið fyrir 15. maí 2026. Á Áhugamannamóti Íslands er keppt í íþróttakeppni og gæðingakeppni í 1., 2. og 3. flokki. Umsóknir áhugasamra mótshaldara skulu berast Landssambandi hestamannafélaga fyrir 1. október nk. á netfangið lh@lhhestar.is .
14. ágúst 2025
Hörður Hákonarson hestamaður og alþjóðlegur hestaíþróttadómari í Reykjavík er látinn.
13. ágúst 2025
Til hamingju Ísland með frábært landslið
13. ágúst 2025
Úrslit í fjórgangi & fimmgangi
10. ágúst 2025
Þvílíkur morgunn!!!
10. ágúst 2025
Þá eru B-úrslitum lokið og ljóst hvaða keppendur bæta sér í toppbaráttuna í hverjum flokki.
10. ágúst 2025
Kristján Árni tvöfaldur heimsmeistari
9. ágúst 2025
Kristján Árni - Heimsmeistari
8. ágúst 2025
Niðurstöður úr kynbótasýningum sjö vetra og eldri hrossa
Lesa meira