Skemmtileg úrslit á lokadegi HM
Úrslit í fjórgangi & fimmgangi
Eftir hádegishlé á lokadegi HM fór fram fjórgangur, þar átti Íslands einn fulltrúa og voru það vinkonurnar Helga Una Björnsdóttir og Ósk frá Stað. Þær stóðu sig með prýði og hlutu einkunnina 7.43 sem var sjötta sæti. Fyrir keppnina voru þau Anne Stine Haugen og Hæmir frá Hyldsbæk talin sigurstranglegust en þau áttu yfirburðarsýningu í forkeppninni með einkunn upp á 8,20. Þau héldu þeirri forystu og lönduðu heimsmeistaratitli í fjórgang með einkunn upp á 7.97.
Í A úrslitum í fimmgangi ungmenna áttu við tvo fulltrúa þau Þórgunni Þórarinsdóttur með Djarf frá Flatatungu og Jón Ársæl Bergmann með Hörpu frá Höskuldsstöðum. Þau stóðu sig bæði frábærlega og hlutu nákvæmlega sömu einkunn upp á 6.93 sem einnig var hæsta einkunnin! Dómarar þurftu því að skera úr um sætaröðun og var það Jón Ársæll Bergmann sem hampaði heimsmeistaratitlinum í fimmgangi ungmenna. Þvílíkir snillingar sem þessir ungu knapar eru!! Þetta er því hvorki meira né minna en þriðji heimsmeistaratitill Jóns Ársæls og Hörpu á mótinu!
Lokagrein mótsins var svo fimmgangur í fullorðinsflokki. Stúkan var algjörlega smekkfull og eftirvæntingin mikil. Okkar fulltrúar voru þau Glódís Rún Sigurðardóttir með Snilling frá Íbishóli og Elvar Þormarsson með Djáknar frá Selfossi. Það var alveg ljóst frá fyrstu mínútu að okkar knapar ætluðu ekki að gefa neitt eftir og mættu inn á völlinn í banastuði. Það fór svo að Glódís Rún og Snillingur hlutu fimmta sæti með einkunnina 7.02 en Elvar Þormarsson og Djáknar frá Selfossi hlutu þriðja til fjórða sætið með 7.17 í einkunn jöfn Anne Frank Andresen með Vökul frá Leirubakka. Heimsmeistarar í fimmgangi eru Lena Maxheimer og Abel frá Nordal en þau hlutu í einkunn 7.71. Í öðru sæti var Frauke Schenzel með Óðinn vom Habichtswald með 7.64 í einkunn en þær keppa báðar fyrir hönd Þýskalands.
Fréttasafn








