Takk styrktaraðilar

10. júlí 2024

Kæru hestamenn, nú er Landsmóti 2024 lokið. Mótið heppnaðist í alla staði alveg ótrúlega vel og meira að segja veðrið var mestan part eins og best verður á kosið. Sjaldan hefur verið viðlíka hestakostur á mótinu eins og núna. Þvílíkir gæðingar í öllum flokkum allt frá barnaflokki upp í A flokk gæðinga. Þá voru kynbótasýningarnar einnig alveg glæsilegar og fullt af frábærum hrossum þar sem munu halda áfram að bæta og efla okkar frábæra hestakyn.

Stemningin í þéttsetinni brekkunni var líka einstök. Í veðurblíðu er fátt eins dásamlegt eins og horfa á landsins bestu gæðinga og knapana þeirra sýna hæfileika sína. Stuðningurinn úr brekkunni og spennan var allt að því áþreifanleg og munu flestir þeirra sem þar sátu lifa á minningunni um þetta mót lengi. Ber einna helst að nefna orkuna sem stafaði frá mannfjöldanum þegar úrslit í Tölti T1 voru riðin í kvöldsólinni á laugardagskvöld. Þvílík gleði og stemning.

Það sem vakti eina helst athygli á mótinu er sá gífurlegi metnaður í barna- og unglingastarfi hestamannafélaganna sem skilar sér í afburða keppendum og sýnendum á mótinu. Kynslóðabilið verður sífellt minna þar sem okkar yngstu keppendur eru þegar farnir að narta í hælana á eldri og reynslumeiri knöpum. Að byggja upp afreksstarf í íþróttum er flókið og vandasamt verk, hvað þá í íþrótt þar sem ekki einungis þarf að hafa í huga að efla og styrkja knapann heldur líka hestinn. Á þessu móti sannaðist það að með markvissu og metnaðarfullu starfi er hægt að byggja undir heimsklassa árangur.

Hestamennskan er einstök íþrótt á margan hátt, hún er ein vinsælasta almenningsíþrótt á landinu og hefur gífurlegt menningarlegt gildi. Sem keppnisíþrótt er hún í algjörum sérflokki því sjaldan sjáum við á sama mótinu slíkt aldursbil eins og á Landsmóti hestamanna þar sem keppendur eru frá 10 ára og upp í rúmlega sjötugt. Þá er þetta ein afar fárra íþróttagreina þar sem keppni er ekki kynjaskipt.

Að halda úti móti eins og Landsmóti, starfi hestamannafélaga og afreksstarfi LH væri ómögulegt nema vegna þeirra góðu og öflugu sjálfboðaliða sem leggja sig fram í hvívetna og með stuðningi styrktaraðila okkar, en með framlögum sínum styðja þeir við áframhaldandi uppbyggingu í hestaíþróttinni.

Það sýndi sig á Landsmóti að áhugi á hestamennskunni eykst með hverju árinu, sjaldan hafa jafnmargir mætti á mótið en talið er að 10.000 manns hafi setið í brekkunni þegar mest var. Þá eru ótaldir þeir sem komu á mótið á öðrum tímum, horfðu á útsendingu RÚV eða á streymið frá Alendis bæði innan lands sem og erlendis.

Takk allir sem komu að Landsmóti með einum eða öðrum hætti og takk styrktaraðilar, ykkar framlag skiptir sköpum.

Fréttasafn

10. september 2025
Dagana 21. til 23. nóvember nk. verður haldið leiðtoganámskeið FEIF sem ætlað er ungmennum á aldrinum 18-26 ára. Námskeiðið er á vegum Danska Íslandshestasambandsins (DI) og er haldið í Gringdsted Landbúnaðarskólanum í Billund í Danmörku. Yfirskrift námskeiðsins er „Fighting Fit – Conflict, Fitness & Teamwork in Action“ og markmiðið er að hvetja ungmenni til að taka þátt í félagsstörfum í hestamennsku og að þátttakendur efli færni sína sem leiðtogar. Aðalfyrirlesarar verða Rebekka Hyldgaard, sjúkraþjálfari, sem fjallar um hvernig líkamsþjálfun getur bætt árangur í reiðmennsku, og Professor Janne Winther Christensen frá Aarhus University sem fjallar um nýjustu rannsóknir um „ animal conflict behaviour “. Þátttaka í viðburði sem þessum gefur frábæra reynslu, skapar tengsl og styrkir þátttakendur til frekari leiðtoga og ábyrgðarstarfa innan hestamannafélaganna. Við hvetjum hestamannafélögin til að hvetja fulltrúa sína til þátttöku á þessu námskeiði og minnum á mikilvægi þess að efla ungt fólk til þátttöku í nefndum og störfum innan félaganna til að efla nýliðun ásamt því að móta leiðtoga framtíðarinnar. Nánari upplýsingar um námskeiðið má finna á heimasíðu FEIF. Umsóknarfrestur er 15. október 2025 . Námskeiðið hefst föstudaginn 21. nóvember kl 16:00 og endar sunnudaginn 23. nóvember kl 13:00. Kostnaður er 200€ og innifalið í því er gisting, matur og fræðsla.
10. september 2025
Landssamband hestamannafélaga auglýsir til umsóknar eftirfarandi mót: · Íslandsmót fullorðinna og ungmenna 2028 · Íslandsmót barna og unglinga 2028 · Íslandsmót í gæðingalist 2026 (innanhússmót sem haldið skal fyrir 15. maí) · Áhugamannamót Íslands 2026 Dagsetningar mótanna eru ákveðnar í samráði við mótshaldara og að teknu tilliti til dagsetninga annarra móta. Á Íslandsmóti fullorðinna og ungmenna er keppt í íþróttakeppni í efsta styrkleikaflokki þar sem keppendur eru einir inni á vellinum í einu. Á Íslandsmóti barna og unglinga er keppt í íþróttakeppni og gæðingakeppni. Á Íslandsmóti í gæðingalist er keppt í öllum aldursflokkum og skal mótið haldið fyrir 15. maí 2026. Á Áhugamannamóti Íslands er keppt í íþróttakeppni og gæðingakeppni í 1., 2. og 3. flokki. Umsóknir áhugasamra mótshaldara skulu berast Landssambandi hestamannafélaga fyrir 1. október nk. á netfangið lh@lhhestar.is .
14. ágúst 2025
Hörður Hákonarson hestamaður og alþjóðlegur hestaíþróttadómari í Reykjavík er látinn.
13. ágúst 2025
Til hamingju Ísland með frábært landslið
13. ágúst 2025
Úrslit í fjórgangi & fimmgangi
10. ágúst 2025
Þvílíkur morgunn!!!
10. ágúst 2025
Þá eru B-úrslitum lokið og ljóst hvaða keppendur bæta sér í toppbaráttuna í hverjum flokki.
10. ágúst 2025
Kristján Árni tvöfaldur heimsmeistari
9. ágúst 2025
Kristján Árni - Heimsmeistari
8. ágúst 2025
Niðurstöður úr kynbótasýningum sjö vetra og eldri hrossa
Lesa meira