Þetta byrjaði allt með Biskup - viðtal við Benedikt Ólafsson

20. júní 2024

Benedikt Ólafsson er þrátt fyrir ungan aldur orðinn risanafn í hestamennskunni. Hann varð tvöfaldur heimsmeistari á HM 2023 og er núna á sínu síðasta ári í ungmennaflokk. Benedikt er alinn upp í Mosfellsdal, á Ólafshaga og stundar sína hestamennsku þaðan. Hann var einmitt í reiðtúr þegar við slógum á þráðinn til hans.

Já, ég er á hestbaki á honum Svarti frá Ólafshaga. Virkilega efnilegur 6 vetra hestur, fasmikill, með mikinn fótaburð, fallegan háls og framfallegur undan honum Bikar okkar. Annars er ég búinn að vera á fullu síðan um áramótin að ríða út og temja, það er alveg geggjað að geta gert það að atvinnu sinni sem manni finnst skemmtilegast.

Verður það svona áfram?

Veit það ekki alveg, í haust er ég skráður í Háskólann í byggingariðnfræði og er líka með sveinspróf í húsasmíði og stúdentspróf. Þannig maður hefur það alltaf líka. En helst myndi ég vilja velja hestana og vera bóndi einhvers staðar og sinna því með öllu sem því fylgir. Það er samt ekki sjálfsagður hlutur að vera í toppbaráttunni í hestamennskunni og gera það að atvinnu sinni.

En hvernig er sumarið búið að vera?

Það eru reyndar bara búnir að koma tveir almennilegir sumardagar en það hefur verið alveg frábært. Keppnistímabilið er búið að vera spennandi og það er rosalega mikill samkeppni og allir þessir krakkar sem maður er að keppa við eru gífurlega hæfileikarík, þeir sem eru að taka sæti í ungmennaflokk eru að ríða í topp einkunnir og staðan er orðin þannig að ungmennin geta verið að keppa við meistarana og jafnvel stela titlum af þeim. Auðvitað er líka árangurinn hérna heima og þróunin sem er búin að vera í þessu alveg rosaleg, við sáum það alveg skýrt á HM og mín tilfinning var sú að við íslensku ungmennin væru komin miklu lengra en flest hinna erlendu. Hér fáum við gífurlega keppnisreynslu í gengum öll innanhúsmótin og mótaraðirnar sem eru að gera alveg frábæra hluti ekki síst fyrir okkur sem yngri erum. Nú geta krakkar verið að ná keppnisreynslu á einu ári sem hefði tekið 3-4 ár áður og það hefur mikið að segja.

Ungmenni í dag eru mörg hver bara með svipaða keppnisreynslu og meistaraflokksknapar og við erum líka bara að gera margt annað sem er svo flott hérna heima eins og hæfaleikamótunin og unglingastarfið. Þetta skipir auðvitað miklu máli.

Núna er ég á síðasta árinu mínu í ungmennaflokki og ég hlakka bara til að koma inn í meistaraflokk að ári. Það hefur verið ótrúlega gaman að sjá aðra úr ungmennaflokk koma inn í meistaraflokk og fara strax að gera frábæra hluti og ég hef bara fulla trú á mér að ég geti gert það líka. Ég er alltaf með sama hugarfarið þegar ég er með hest í höndunum og það er að reyna að gera mitt besta og gera góðan hest betri. Maður þarf líka að vera með enn betri hesta í meistaraflokk, ég er með færri keppnishross núna en meira af ungu og efnilegu og horfi fram til næstu ára með að gera það besta úr því sem ég er með í höndunum núna.

Fram undan er svo að sjálfsögðu Landsmót og þar mun ég mæta með Biskup og Tóbías. Svo er víst í reglunum að heimsmeistarar mega verja greinina sína á Landsmóti og þar sem ég er heimsmeistari í samanlögðum fimmgangsgreinum þá er ég að stefna með Bikar í slaktaumatöltið á Landsmóti. Hann er í góðum gír eftir Reykjarvíkurmót sem var hans fyrsta mót í sumar og það verður bara gaman að sjá hvernig það þróast.

Heldurðu að ungmenni í hestamennskunni nálgist hana á annan hátt en eldri kynslóðir?

Já hestamennskan er ekki bara áhugamál, þetta er íþrótt, áður var hestamennskan kannski meira auka sport en í dag eru þeir sem ætla sér að ná langt ekkert að velja á milli handbolta, fótbolta eða hesta. Þú verður bara að nota allan þinn tíma til að æfa og bæta þig. Ekki fara bara stundum í reiðtúr og keppa af og til, samkeppnin og gæðin eru orðin það mikil. Ég myndi segja það sé alveg dautt konsept að kalla þetta ekki íþrótt, enda er ótrúlegt að horfa á alla þess krakka vera blómstra í hestamennskunni og það að byrja snemma að nálgast þetta svona gefur þeim forskot seinna meir.

En auðvitað hafa líka aðstæður breyst. Nú eru reiðhallir um allt og hægt að stunda hestamennskuna á hærra leveli allt árið um kring. Margir af þessum knöpum sem eru á toppnum í dag voru ekki endilega með inniaðstöðu á veturna og maður getur varla ímyndað sér hvernig það var. Þetta ýtir bara undir gæðin og yngri kynslóðirnar verða vonandi bara betri og betri og taka við. Það ætti líka alltaf að vera þannig.

En hvað með áhyggjur margra um að pressan á árangur og góðar einkunnir geri það að verkum að krakkar eru að byrja á fullgóðum hestum og kunna kannski síður að fara með lítið gerðan hest og því verði vöntun á fólki sem er tilbúið í frumtamingar og slíkt?

Já það er alveg satt það er miklu meira um það í dag að krakkar komi með fullkláraða hesta og séu að keppa á þeim en ég held að það sé allt í lagi að byrja þannig þá lærirðu líka strax hvernig þú vilt að hesturinn sé og veist hverju þú átt að leita eftir seinna þegar kemur að því að áhugi vaknar á að móta hestinn sjálfur. Það er auðvitað allt annað að byggja upp og í raun búa til hestinn sjálfur en þá er líka gott að vera viss um hvað maður vill og hafa reynslu af góðum hestum til að geta reynt að setja það inn í hestana sem maður er að vinna með. En ég held að þú getir ekki komist á toppinn nema þú kunnir að gera hestinn eins góðan og hann getur orðið frá grunni. En svo er líka margt að breytast og kannski voru aðferðirnar ekki heldur alltaf frábærar áður, en ég held samt að það skipti máli að harka svolítið í þessu og fá reynslu, maður nýtur alltaf góðs af því. Í dag vinn ég mest við að frumtemja hross og það gefur mér mjög mikið.

Ertu farinn að leiða hugann að HM á næsta ári?

Næsta ár verður spennandi og ég fer auðvitað beint í djúpu laugina, með farmiða í meistaraflokk á HM í farteskinu. Það verður rosalega skrýtið en ég er ekkert á leiðinni þangað bara til að taka þátt heldur ætla ég mér að gera vel og stefni auðvitað á verðlaunasæti. En svo er samkeppnin hér heima ekkert minni og það verður líka mjög krefjandi að koma upp úr ungmennaflokk hér heima. Ég er ekki alveg búin að ákveða hvaða hest ég fer með en það eru tveir sem koma sterklega til greina þrátt fyrir að það sé ekkert meitlað í stein og ef maður fær eitthvað annað sem kemur til greina og er líklegt til árangurs þá stekkur maður kannski á það. En það er svo sem ekkert tímabært að nefna neitt þetta er ennþá allt að mótast.

Hvað varstu gamall þegar þú byrjaðir í hestum?

Í raun er ég alin upp í hestum með pabba. Það hafa alltaf verið hestar heima en ég byrjaði ekki að keppa fyrr en 2017. Fram að því var áhuginn ekki endilega í keppni meira bara í útreiðum og hestaferðum. Svo prófa ég að keppa á Biskup og við vinnum fyrsta mótið okkar saman og ég held að um leið og maður er kominn á bragðið að vinna keppni þá er erfitt að losna við þessa bakteríu. Við fórum að keppa saman á innanfélagsmótum og fljótlega á stærri mótum, ég fæddist svo með alveg ógeðslega mikið keppnisskap og vil alltaf vera með þeim betri í öllu því sem ég er að gera og láta taka eftir mér. Þarna var ég svo kominn með góðan hest sem gat unnið mót og með keppnisskapið mitt var ekki aftur snúið.

Þetta byrjar sem sagt allt með Biskup?

Já og við erum búnir að vaxa mikið saman, eða allavega er ég sennilega búinn að hækka um einhverja 30 sentimetra síðan við byrjuðum að keppa saman. Biskup er alveg einstakur hestur og hefur kennt mér allt. Ég byrjaði að þjálfa hann 6 vetra og keppa á honum þegar hann var 7 vetra og í dag þekkjum við hvorn annan alveg út og inn. Hann er besti vinur minn og mér líður stundum eins og hann sé hálfmennskur. Hann er auðvitað fæddur okkur og við erum búnir að fylgjast að í gegnum súrt og sætt og erum stundum eins og gömul hjón. Við höfum náð alveg frábærum árangri saman Landsmótssigurvegarar og Íslandsmeistarar auk allra hinna mótanna og gæðastundanna. Hann er auðvitað með alveg einstakt geðsleg og maður getur alveg stjórnað hvað maður fær út úr honum. Hann er núna 14 vetra í fullu fjöri. Við erum með geggjaða aðstöðu og hann eins og hinir hestarnir hérna fá að vera mikið úti, ekki bara inn í stíu eða gerði allan daginn. Þannig fá þau að vera hestar og ég held að það hafi ótrúlega jákvæð áhrif á þau og auki gleðina í öllum öðrum verkefnum.

En auðvitað gerist þetta ekkert að sjálfu sér, mamma og pabbi eiga eitthvað miklu meira en Fálkaorðu skilið fyrir alla aðstoðina og allar þessar kerruferðir hingað og þangað og bara allt. Þetta hafa síðustu ár verið bara mót hverja einustu helgi og einhver varð að skutla mér. Ég fékk sjálfur kerrupróf fyrir þremur árum og pabbi veit ekki ennþá almennilega hvað hann á að gera við allan þennan auka tíma. En það hefur aldrei verið nein pressa frá þeim um árangur. Bara stuðningur. Ég held að þú verðir að hafa viljann sjálfur ef vel á að takast, pressan frá öðrum geri þig aldrei meira en góðan ef þú hefur ekki sjálfur metnaðinn í að verða bestur.

Fréttasafn

24. desember 2025
Jóla- og nýárskveðja frá formanni LH
22. desember 2025
Landssamband hestamannafélaga óskar öllum hestamönnum nær og fjær gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári, með kærri þökk fyrir samstarfið á árinu.  Starfsfólk og stjórn LH
Eftir Berglind Karlsdóttir 18. desember 2025
Hekla Katharína Kristinsdóttir er reiðkennari ársins 2025
9. desember 2025
Ísólfur Líndal Þórisson hefur verið ráðinn landsliðsþjálfari A-landsliðs Íslands í hestaíþróttum
5. desember 2025
Alþjóðlegur dagur sjálboðaliða 5. desember
14. nóvember 2025
Form annafundur LH var haldinn laugardaginn 8. nóvember sl. Fundinn sóttu um áttatíu manns frá þrjátíu hestamannafélögum auk fulltrúa frá fastanefndum LH, dómarafélögunum og stjórn LH. Góðar og uppbyggilegar umræður urðu á fundinum sem stjórn LH tekur með sér í næsta starfsár og í undirbúning fyrir Landsþing 2026. Formaður LH, Linda Björk Gunnlaugsdóttir, fór í ræðu sinni yfir þau mál sem hafa verið fyrirferðarmest í starfsemi LH á árinu ásamt því að tæpa á helstu verkefnum sem framundan eru. Það eru mörg og umfangsmikil verkefni á borði stjórnar hverju sinni og hefur mikill tími farið fyrsta starfsárið hjá nýrri stjórn í að endurskipuleggja og hagræða í rekstri sambandsins. Afreksmálin eru alltaf fyrirferðarmikil á HM ári í verkefnum skrifstofu og stjórnar og eru afreksmálin á ákveðnum tímamótum núna þar sem samningar við landsliðsþjálfara eru lausir. Gjaldkeri LH, Ólafur Gunnarsson, fór yfir stöðu reikninga og uppfærðar fjárhagsáætlanir sem gera ráð fyrir á næstu tvö ár skili hagnaði en eins og áður kom fram hefur verið farið í hagræðingaraðgerðir á árinu í þeim tilgangi að snúa rekstri sambandsins til betri vegar. Starfshópar sem skipaðir voru skv. samþykkt landsþings 2024 kynntu sína vinnu frá landsþingi. Starfshópur um Íslandsmót telur ekki þörf á að gera breytingar á keppnishluta mótsins en leita þurfi leiða til að gera viðburðinn Íslandsmót að stærri viðburði fyrir áhorfendur. Starfshópur um innanhússmót lagði fram tillögu fyrir fundinn um haldið yrði 2ja til 3ja daga Íslandsmót innanhúss í lok innanhússkeppnistímabilsins 2026 til reynslu. Fundurinn vísaði tillögunni til stjórnar til nánari útfærslu og mun stjórn kalla til framhaldsfundar formanna til frekari umræðna. Æskulýðsbikar LH hlaut Hestamannafélagið Skagfirðingur og veittu yfirreiðkennari félagsins og formaður æskulýðsdeildar Skagfirðings bikarnum móttöku. Fulltrúar frá hestamannafélögunum Mána, Hring, Funa, Herði, Freyfaxa og Sleipni sögðu frá sínum verkefnum og helstu áskorunum. Voru það virkilega áhugaverðar frásagnir því flest hestamannafélög eru að eiga við svipaðar áskoranir þó aðstæður hjá hverju félagi séu mismunandi. Að loknum hefðbundnum fundarstörfum var fundinum skipt upp í þrjá umræðuhópa sem fjölluðu um stefnumótun, gjaldkerastörf og nýliðunar -og æskulýðsmál. Mikil umræða og góð vinna var í umræðuhópunum. Í hópnum um stefnumótum urðu mjög líflegar umræður og margir snertifletir ræddir á hinum ýmsu málum og ljóst að það er heilmikið að vinna úr í framhaldinu. Fundinum var skipt upp í sex minni hópa sem fjölluðu hver um sig um ákveðna þætti í starfsemi LH, hvaða markmið skuli setja og hvernig skuli ná þeim. Stefnumótunarfundurinn var framhald af opnum stefnumótunarfundi sem haldinn var sl. vor með fulltrúum hestamannafélaganna. Hópurinn um æskulýðs- og nýliðunarmál fjallaði um þátttöku stráka í hestamennsku, félagshesthús og almenna stöðu hjá félögunum. Margar hugmyndir komu upp og góðar umræður sköpuðust. Í gjaldkerahópnum var rætt um samskipti við sveitarfélög, fjármál hestamannafélaga, félög í almannaheilaskráningu og fyrirmyndafélög ásamt styrkjum til hestamannafélaga. Fjármál hestamannafélaganna eru almennt í góðum málum og faglega staðið að þeim en slíkt er algjör forsenda fyrir því að gott samtal geti átt sér stað við sveitarfélögin þegar kemur að styrkjamálum hins opinbera. Félögin voru einnig hvött til að skrá félagið á almannaheillaskrá en það er gott verkfæri þegar leitað er styrkja hjá almennum fyrirtækjum og veitir skattaafslátt á móti. Einnig voru félögin hvött til að hefju vinnu við að gerast fyrirmyndarfélag ÍSÍ og er það holl og góð vinna til að bæta starfshætti félagsins. Félög geta leitað til hvors annars um þau gögn sem þarf að skila og voru félögin hvött til að vinna þau saman. Samhliða formannafundi var haldinn mótanefndafundur sem um tuttugu manns sátu, en fyrirhugað er að halda framahaldsmótanefndafund um næstu mánaðamót til að ræða frekar mótadagskrá ársins. Stjórn LH þakkar formönnum hestamannafélaga í landinu og öðrum þátttakendum á formannafundi fyrir afar uppbyggilegar umræður sem munu nýtast vel á komandi starfsári. Skýrsla stjórnar LH 2024-2025
12. nóvember 2025
Ættingjar fyrsta heiðursfélaga LH afhentu LH viðurkenningarskjalið til varðveislu
11. nóvember 2025
Guðni Halldórsson og Kristinn Skúlason hlutu gullmerki LH
9. nóvember 2025
Haraldur Þórarinsson er heiðursverðlaunum LH sannarlega verðugur
9. nóvember 2025
Gott æskulýðsstarf er grunnurinn að framtíð hestamennskunnar
Lesa meira