U21-starfið komið á fulla ferð

23. janúar 2023

 

U21-landsliðshópur LH hittist á dögunum á æfingarhelgi í frábærri aðstöðu Eldhesta í Ölfusinu.

Helgin var vel nýtt í hin ýmsu atriði sem lúta að þjálfun og uppbyggingu keppnishesta liðsins og knapa þeirra.

Landsliðsþjálfari U21-hópsins, Hekla Katharína Kristinsdóttir hafði Sigurbjörn Bárðarson landsliðsþjálfara A-landsliðsins með sér alla helgina og fóru þau yfir málin með hverjum knapa og hesti fyrir sig.

„Ég fékk Sigurbjörn til liðs við mig til þess að vera með mér þegar ég myndi athuga stöðuna á hverjum knapa og hesti. Það var mikið gæfuspor fyrir mig að fá hann með mér. Hans reynsla og nærvera er eitthvað sem var ómetanlegt að fá“ sagði Hekla Katharína eftir helgina.

„Öll voru þau á góðum stað með hestana sína. Öll eru þau frábærlega ríðandi og hægt er að sjá mjög líklega kandidata fyrir HM.

Sigurbjörn hafði það á orði við mig að velja 5 fulltrúa úr þessum hóp yrði gríðarleg áskorun og það veit ég vel. Ásamt öllum þeim fyrir utan hópinn sem vilja sanna sig“ hélt hún áfram.

Fyrir utan verklega tíma í þjálfun hestanna voru haldnir fyrirlestrar fyrir hópinn.

Hinrik Sigurðsson hélt fyrirlestur um hugarþjálfun og það að vera best(ur) þegar á reynir. Hann ræddi við hópinn um hugarfarsþjálfun og mikilvægi hennar í undirbúningi íþróttafólks á öllum stigum fyrir sín verkefni og gaf hópnum ýmis verkfæri til þess að nýta sér og vinna með.

Sigurbjörn Bárðarson hélt í hádegishléinu á laugardeginum frábæran fyrirlestur um skeið og undirbúning skeiðs. Þar studdist hann við myndbrot úr þjálfunarmyndbandi sínu „Skeið undirbúningur-þjálfun“ ásamt því að hann fræddi knapana og jós úr viskubrunni sínum. Þetta var einstök stund og Sigurbjörn lagði svo sannarlega hjarta og sál á borðið. Hópurinn tók gríðarlega góðan þátt í fyrirlestrunum báðum og spurði margra spurninga.

Það er margt framundan hjá U21-hópnum í þjálfun, æfingum og keppni enda ætla þau sér öll að sanna sig fyrir sæti í landsliðshópnum sem verða fulltrúar Íslands á heimsmeistaramótinu í Hollandi á komandi sumri.

Fréttasafn

10. september 2025
Dagana 21. til 23. nóvember nk. verður haldið leiðtoganámskeið FEIF sem ætlað er ungmennum á aldrinum 18-26 ára. Námskeiðið er á vegum Danska Íslandshestasambandsins (DI) og er haldið í Gringdsted Landbúnaðarskólanum í Billund í Danmörku. Yfirskrift námskeiðsins er „Fighting Fit – Conflict, Fitness & Teamwork in Action“ og markmiðið er að hvetja ungmenni til að taka þátt í félagsstörfum í hestamennsku og að þátttakendur efli færni sína sem leiðtogar. Aðalfyrirlesarar verða Rebekka Hyldgaard, sjúkraþjálfari, sem fjallar um hvernig líkamsþjálfun getur bætt árangur í reiðmennsku, og Professor Janne Winther Christensen frá Aarhus University sem fjallar um nýjustu rannsóknir um „ animal conflict behaviour “. Þátttaka í viðburði sem þessum gefur frábæra reynslu, skapar tengsl og styrkir þátttakendur til frekari leiðtoga og ábyrgðarstarfa innan hestamannafélaganna. Við hvetjum hestamannafélögin til að hvetja fulltrúa sína til þátttöku á þessu námskeiði og minnum á mikilvægi þess að efla ungt fólk til þátttöku í nefndum og störfum innan félaganna til að efla nýliðun ásamt því að móta leiðtoga framtíðarinnar. Nánari upplýsingar um námskeiðið má finna á heimasíðu FEIF. Umsóknarfrestur er 15. október 2025 . Námskeiðið hefst föstudaginn 21. nóvember kl 16:00 og endar sunnudaginn 23. nóvember kl 13:00. Kostnaður er 200€ og innifalið í því er gisting, matur og fræðsla.
10. september 2025
Landssamband hestamannafélaga auglýsir til umsóknar eftirfarandi mót: · Íslandsmót fullorðinna og ungmenna 2028 · Íslandsmót barna og unglinga 2028 · Íslandsmót í gæðingalist 2026 (innanhússmót sem haldið skal fyrir 15. maí) · Áhugamannamót Íslands 2026 Dagsetningar mótanna eru ákveðnar í samráði við mótshaldara og að teknu tilliti til dagsetninga annarra móta. Á Íslandsmóti fullorðinna og ungmenna er keppt í íþróttakeppni í efsta styrkleikaflokki þar sem keppendur eru einir inni á vellinum í einu. Á Íslandsmóti barna og unglinga er keppt í íþróttakeppni og gæðingakeppni. Á Íslandsmóti í gæðingalist er keppt í öllum aldursflokkum og skal mótið haldið fyrir 15. maí 2026. Á Áhugamannamóti Íslands er keppt í íþróttakeppni og gæðingakeppni í 1., 2. og 3. flokki. Umsóknir áhugasamra mótshaldara skulu berast Landssambandi hestamannafélaga fyrir 1. október nk. á netfangið lh@lhhestar.is .
14. ágúst 2025
Hörður Hákonarson hestamaður og alþjóðlegur hestaíþróttadómari í Reykjavík er látinn.
13. ágúst 2025
Til hamingju Ísland með frábært landslið
13. ágúst 2025
Úrslit í fjórgangi & fimmgangi
10. ágúst 2025
Þvílíkur morgunn!!!
10. ágúst 2025
Þá eru B-úrslitum lokið og ljóst hvaða keppendur bæta sér í toppbaráttuna í hverjum flokki.
10. ágúst 2025
Kristján Árni tvöfaldur heimsmeistari
9. ágúst 2025
Kristján Árni - Heimsmeistari
8. ágúst 2025
Niðurstöður úr kynbótasýningum sjö vetra og eldri hrossa
Lesa meira