Áhugamannamót Íslands

25. júní 2025

Áhugamannamót Íslands 2025 – Þrír dagar af hestamennsku, gleði og samveru

Frá mótanefnd Sörla:

Áhugamannamót Íslands fór fram dagana
20.–22. júní á Hraunhamarsvellinum á glæsilegu félagssvæði Sörla í Hafnarfirði. Þrátt fyrir fjölbreytt veðurfar var frábær stemning alla helgina og þátttaka góð. Skipulagning mótsins var til fyrirmyndar og umgjörðin um vallarsvæðið, náttúran ásamt glæsilegri aðstöðu á svæðinu gerðu mótið eftirminnilegt fyrir keppendur og gesti.


Föstudagur – Glæsilegur upphafsdagur

Föstudagurinn bauð upp á sól og blíðu, sem skapaði kjöraðstæður fyrir forkeppni í töltgreinum og gæðingaskeiði. Keppendur og áhorfendur nutu dagsins til fulls og allt gekk samkvæmt áætlun.


Laugardagur – Rigning en góð stemning

Þrátt fyrir vætutíð og rigningu létu þátttakendur sig ekki vanta á laugardeginum þar sem haldnar voru forkeppnir í fjórgangs- og fimmgangsgreinum. Keppni gekk vel og sáust margar flottar sýningar.


Sunnudagur – Úrslit og glæsilegar sýningar

Sunnudagurinn var tileinkaður úrslitum í öllum greinum. Rigningaspáin gekk ekki eftir en sólin lét sjá sig og hlýtt var í veðri, kjöraðstæður fyrir úrslitadag. Keppnin var hörð og frammistaða knapa og hesta vakti mikla hrifningu.

Heildarniðurstöður mótsins má nálgast neðar á síðunni.


Fjölskyldudagskrá á laugardegi

Á meðan á keppni stóð á laugardeginum var boðið upp á fjölbreytta afþreyingu fyrir yngri kynslóðina:

  • Hoppukastalar voru settir upp inni í gömlu reiðhöllinni.
    Íshestar buðu börnum í teymt undir frá kl. 11:00–13:00 í stóra gerðinu fyrir aftan gömlu höllina.
    Pylsur í boði fyrir 16 ára og yngri voru bornar fram í hádeginu auk þess var hið rómaða Stebbukaffi opið alla mótsdaga, með ljúffengu úrvali fyrir svanga mótsgesti.


Kvöldskemmtun fyrir fullorðna – Stuð og stemming!

Kvölddagskrá fór fram á laugardagskvöldinu í veislusal Guðrún Árný steig á svið og hélt uppi stuðinu eins og henni einni er lagið – og stemningin var frábær og skemmti fólk sér vel. Skipuleggjendur hefðu samt vilja sjá fleiri mæta til að hafa gaman saman.


Saga Áhugamannamóts Íslands

Áhugamannamót Íslands hefur verið haldið árlega í yfir tvo áratugi og hefur fest sig í sessi sem mikilvægur viðburður í íslenskri hestamennsku. Mótið er ætlað fullorðnu áhugafólki sem ekki keppir í meistaraflokki og gefur því breiðari hópi tækifæri til að blómstra í samkeppni og samveru. 

Farandbikarar á mótinu

Á Áhugamannamóti Íslands 2025 voru veittir veglegir farandbikarar í 1. flokki, sem eru rausnarleg gjöf frá Gangmyllunni – þeim Olil Amble og Bergi Jónssyni. Bikararnir bera nöfn sem vísa beint í fræga ræktunarhryssa þeirra hjóna

Bikararnir og viðkomandi greinar eru eftirfarandi á þessu móti:

  • Ljónslapparbikarinn – veittur í Fimmgangi F2
  • Álfadísarbikarinn – veittur í Tölti T3
  • Heilladísarbikarinn – veittur í Tölti T4
  • Djörfungarbikarinn – veittur í Gæðingaskeiði PP1
  • Þernubikarinn – veittur í Fjórgangi V2

Þessir bikarar eru ekki aðeins tákn um úrslit heldur einnig viðurkenning fyrir frammistöðu og árangur, samspil knapa og hests. Hvetjum keppendur framtíðarinnar til að stefna á að skrá nafn sitt á þessa virðingarverðu farandbikara.


Takk fyrir okkur!


Við viljum færa öllum sem komu að mótinu – keppendum, sjálfboðaliðum, áhorfendum og styrktaraðilum – innilegar þakkir fyrir frábæra helgi. Við hlökkum til að sjá ykkur öll aftur að ári!


📸 Myndir og frekari upplýsingar má finna á Facebook viðburðinum: Áhugamannamót Íslands 2025





Fréttasafn

25. september 2025
Dagur þjálfarans
10. september 2025
Dagana 21. til 23. nóvember nk. verður haldið leiðtoganámskeið FEIF sem ætlað er ungmennum á aldrinum 18-26 ára. Námskeiðið er á vegum Danska Íslandshestasambandsins (DI) og er haldið í Gringdsted Landbúnaðarskólanum í Billund í Danmörku. Yfirskrift námskeiðsins er „Fighting Fit – Conflict, Fitness & Teamwork in Action“ og markmiðið er að hvetja ungmenni til að taka þátt í félagsstörfum í hestamennsku og að þátttakendur efli færni sína sem leiðtogar. Aðalfyrirlesarar verða Rebekka Hyldgaard, sjúkraþjálfari, sem fjallar um hvernig líkamsþjálfun getur bætt árangur í reiðmennsku, og Professor Janne Winther Christensen frá Aarhus University sem fjallar um nýjustu rannsóknir um „ animal conflict behaviour “. Þátttaka í viðburði sem þessum gefur frábæra reynslu, skapar tengsl og styrkir þátttakendur til frekari leiðtoga og ábyrgðarstarfa innan hestamannafélaganna. Við hvetjum hestamannafélögin til að hvetja fulltrúa sína til þátttöku á þessu námskeiði og minnum á mikilvægi þess að efla ungt fólk til þátttöku í nefndum og störfum innan félaganna til að efla nýliðun ásamt því að móta leiðtoga framtíðarinnar. Nánari upplýsingar um námskeiðið má finna á heimasíðu FEIF. Umsóknarfrestur er 15. október 2025 . Námskeiðið hefst föstudaginn 21. nóvember kl 16:00 og endar sunnudaginn 23. nóvember kl 13:00. Kostnaður er 200€ og innifalið í því er gisting, matur og fræðsla.
10. september 2025
Landssamband hestamannafélaga auglýsir til umsóknar eftirfarandi mót: · Íslandsmót fullorðinna og ungmenna 2028 · Íslandsmót barna og unglinga 2028 · Íslandsmót í gæðingalist 2026 (innanhússmót sem haldið skal fyrir 15. maí) · Áhugamannamót Íslands 2026 Dagsetningar mótanna eru ákveðnar í samráði við mótshaldara og að teknu tilliti til dagsetninga annarra móta. Á Íslandsmóti fullorðinna og ungmenna er keppt í íþróttakeppni í efsta styrkleikaflokki þar sem keppendur eru einir inni á vellinum í einu. Á Íslandsmóti barna og unglinga er keppt í íþróttakeppni og gæðingakeppni. Á Íslandsmóti í gæðingalist er keppt í öllum aldursflokkum og skal mótið haldið fyrir 15. maí 2026. Á Áhugamannamóti Íslands er keppt í íþróttakeppni og gæðingakeppni í 1., 2. og 3. flokki. Umsóknir áhugasamra mótshaldara skulu berast Landssambandi hestamannafélaga fyrir 1. október nk. á netfangið lh@lhhestar.is .
14. ágúst 2025
Hörður Hákonarson hestamaður og alþjóðlegur hestaíþróttadómari í Reykjavík er látinn.
13. ágúst 2025
Til hamingju Ísland með frábært landslið
13. ágúst 2025
Úrslit í fjórgangi & fimmgangi
10. ágúst 2025
Þvílíkur morgunn!!!
10. ágúst 2025
Þá eru B-úrslitum lokið og ljóst hvaða keppendur bæta sér í toppbaráttuna í hverjum flokki.
10. ágúst 2025
Kristján Árni tvöfaldur heimsmeistari
9. ágúst 2025
Kristján Árni - Heimsmeistari
Lesa meira