Áhugamannamót Íslands

25. júní 2025

Áhugamannamót Íslands 2025 – Þrír dagar af hestamennsku, gleði og samveru

Frá mótanefnd Sörla:

Áhugamannamót Íslands fór fram dagana
20.–22. júní á Hraunhamarsvellinum á glæsilegu félagssvæði Sörla í Hafnarfirði. Þrátt fyrir fjölbreytt veðurfar var frábær stemning alla helgina og þátttaka góð. Skipulagning mótsins var til fyrirmyndar og umgjörðin um vallarsvæðið, náttúran ásamt glæsilegri aðstöðu á svæðinu gerðu mótið eftirminnilegt fyrir keppendur og gesti.


Föstudagur – Glæsilegur upphafsdagur

Föstudagurinn bauð upp á sól og blíðu, sem skapaði kjöraðstæður fyrir forkeppni í töltgreinum og gæðingaskeiði. Keppendur og áhorfendur nutu dagsins til fulls og allt gekk samkvæmt áætlun.


Laugardagur – Rigning en góð stemning

Þrátt fyrir vætutíð og rigningu létu þátttakendur sig ekki vanta á laugardeginum þar sem haldnar voru forkeppnir í fjórgangs- og fimmgangsgreinum. Keppni gekk vel og sáust margar flottar sýningar.


Sunnudagur – Úrslit og glæsilegar sýningar

Sunnudagurinn var tileinkaður úrslitum í öllum greinum. Rigningaspáin gekk ekki eftir en sólin lét sjá sig og hlýtt var í veðri, kjöraðstæður fyrir úrslitadag. Keppnin var hörð og frammistaða knapa og hesta vakti mikla hrifningu.

Heildarniðurstöður mótsins má nálgast neðar á síðunni.


Fjölskyldudagskrá á laugardegi

Á meðan á keppni stóð á laugardeginum var boðið upp á fjölbreytta afþreyingu fyrir yngri kynslóðina:

  • Hoppukastalar voru settir upp inni í gömlu reiðhöllinni.
    Íshestar buðu börnum í teymt undir frá kl. 11:00–13:00 í stóra gerðinu fyrir aftan gömlu höllina.
    Pylsur í boði fyrir 16 ára og yngri voru bornar fram í hádeginu auk þess var hið rómaða Stebbukaffi opið alla mótsdaga, með ljúffengu úrvali fyrir svanga mótsgesti.


Kvöldskemmtun fyrir fullorðna – Stuð og stemming!

Kvölddagskrá fór fram á laugardagskvöldinu í veislusal Guðrún Árný steig á svið og hélt uppi stuðinu eins og henni einni er lagið – og stemningin var frábær og skemmti fólk sér vel. Skipuleggjendur hefðu samt vilja sjá fleiri mæta til að hafa gaman saman.


Saga Áhugamannamóts Íslands

Áhugamannamót Íslands hefur verið haldið árlega í yfir tvo áratugi og hefur fest sig í sessi sem mikilvægur viðburður í íslenskri hestamennsku. Mótið er ætlað fullorðnu áhugafólki sem ekki keppir í meistaraflokki og gefur því breiðari hópi tækifæri til að blómstra í samkeppni og samveru. 

Farandbikarar á mótinu

Á Áhugamannamóti Íslands 2025 voru veittir veglegir farandbikarar í 1. flokki, sem eru rausnarleg gjöf frá Gangmyllunni – þeim Olil Amble og Bergi Jónssyni. Bikararnir bera nöfn sem vísa beint í fræga ræktunarhryssa þeirra hjóna

Bikararnir og viðkomandi greinar eru eftirfarandi á þessu móti:

  • Ljónslapparbikarinn – veittur í Fimmgangi F2
  • Álfadísarbikarinn – veittur í Tölti T3
  • Heilladísarbikarinn – veittur í Tölti T4
  • Djörfungarbikarinn – veittur í Gæðingaskeiði PP1
  • Þernubikarinn – veittur í Fjórgangi V2

Þessir bikarar eru ekki aðeins tákn um úrslit heldur einnig viðurkenning fyrir frammistöðu og árangur, samspil knapa og hests. Hvetjum keppendur framtíðarinnar til að stefna á að skrá nafn sitt á þessa virðingarverðu farandbikara.


Takk fyrir okkur!


Við viljum færa öllum sem komu að mótinu – keppendum, sjálfboðaliðum, áhorfendum og styrktaraðilum – innilegar þakkir fyrir frábæra helgi. Við hlökkum til að sjá ykkur öll aftur að ári!


📸 Myndir og frekari upplýsingar má finna á Facebook viðburðinum: Áhugamannamót Íslands 2025





Fréttasafn

24. desember 2025
Jóla- og nýárskveðja frá formanni LH
22. desember 2025
Landssamband hestamannafélaga óskar öllum hestamönnum nær og fjær gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári, með kærri þökk fyrir samstarfið á árinu.  Starfsfólk og stjórn LH
Eftir Berglind Karlsdóttir 18. desember 2025
Hekla Katharína Kristinsdóttir er reiðkennari ársins 2025
9. desember 2025
Ísólfur Líndal Þórisson hefur verið ráðinn landsliðsþjálfari A-landsliðs Íslands í hestaíþróttum
5. desember 2025
Alþjóðlegur dagur sjálboðaliða 5. desember
14. nóvember 2025
Form annafundur LH var haldinn laugardaginn 8. nóvember sl. Fundinn sóttu um áttatíu manns frá þrjátíu hestamannafélögum auk fulltrúa frá fastanefndum LH, dómarafélögunum og stjórn LH. Góðar og uppbyggilegar umræður urðu á fundinum sem stjórn LH tekur með sér í næsta starfsár og í undirbúning fyrir Landsþing 2026. Formaður LH, Linda Björk Gunnlaugsdóttir, fór í ræðu sinni yfir þau mál sem hafa verið fyrirferðarmest í starfsemi LH á árinu ásamt því að tæpa á helstu verkefnum sem framundan eru. Það eru mörg og umfangsmikil verkefni á borði stjórnar hverju sinni og hefur mikill tími farið fyrsta starfsárið hjá nýrri stjórn í að endurskipuleggja og hagræða í rekstri sambandsins. Afreksmálin eru alltaf fyrirferðarmikil á HM ári í verkefnum skrifstofu og stjórnar og eru afreksmálin á ákveðnum tímamótum núna þar sem samningar við landsliðsþjálfara eru lausir. Gjaldkeri LH, Ólafur Gunnarsson, fór yfir stöðu reikninga og uppfærðar fjárhagsáætlanir sem gera ráð fyrir á næstu tvö ár skili hagnaði en eins og áður kom fram hefur verið farið í hagræðingaraðgerðir á árinu í þeim tilgangi að snúa rekstri sambandsins til betri vegar. Starfshópar sem skipaðir voru skv. samþykkt landsþings 2024 kynntu sína vinnu frá landsþingi. Starfshópur um Íslandsmót telur ekki þörf á að gera breytingar á keppnishluta mótsins en leita þurfi leiða til að gera viðburðinn Íslandsmót að stærri viðburði fyrir áhorfendur. Starfshópur um innanhússmót lagði fram tillögu fyrir fundinn um haldið yrði 2ja til 3ja daga Íslandsmót innanhúss í lok innanhússkeppnistímabilsins 2026 til reynslu. Fundurinn vísaði tillögunni til stjórnar til nánari útfærslu og mun stjórn kalla til framhaldsfundar formanna til frekari umræðna. Æskulýðsbikar LH hlaut Hestamannafélagið Skagfirðingur og veittu yfirreiðkennari félagsins og formaður æskulýðsdeildar Skagfirðings bikarnum móttöku. Fulltrúar frá hestamannafélögunum Mána, Hring, Funa, Herði, Freyfaxa og Sleipni sögðu frá sínum verkefnum og helstu áskorunum. Voru það virkilega áhugaverðar frásagnir því flest hestamannafélög eru að eiga við svipaðar áskoranir þó aðstæður hjá hverju félagi séu mismunandi. Að loknum hefðbundnum fundarstörfum var fundinum skipt upp í þrjá umræðuhópa sem fjölluðu um stefnumótun, gjaldkerastörf og nýliðunar -og æskulýðsmál. Mikil umræða og góð vinna var í umræðuhópunum. Í hópnum um stefnumótum urðu mjög líflegar umræður og margir snertifletir ræddir á hinum ýmsu málum og ljóst að það er heilmikið að vinna úr í framhaldinu. Fundinum var skipt upp í sex minni hópa sem fjölluðu hver um sig um ákveðna þætti í starfsemi LH, hvaða markmið skuli setja og hvernig skuli ná þeim. Stefnumótunarfundurinn var framhald af opnum stefnumótunarfundi sem haldinn var sl. vor með fulltrúum hestamannafélaganna. Hópurinn um æskulýðs- og nýliðunarmál fjallaði um þátttöku stráka í hestamennsku, félagshesthús og almenna stöðu hjá félögunum. Margar hugmyndir komu upp og góðar umræður sköpuðust. Í gjaldkerahópnum var rætt um samskipti við sveitarfélög, fjármál hestamannafélaga, félög í almannaheilaskráningu og fyrirmyndafélög ásamt styrkjum til hestamannafélaga. Fjármál hestamannafélaganna eru almennt í góðum málum og faglega staðið að þeim en slíkt er algjör forsenda fyrir því að gott samtal geti átt sér stað við sveitarfélögin þegar kemur að styrkjamálum hins opinbera. Félögin voru einnig hvött til að skrá félagið á almannaheillaskrá en það er gott verkfæri þegar leitað er styrkja hjá almennum fyrirtækjum og veitir skattaafslátt á móti. Einnig voru félögin hvött til að hefju vinnu við að gerast fyrirmyndarfélag ÍSÍ og er það holl og góð vinna til að bæta starfshætti félagsins. Félög geta leitað til hvors annars um þau gögn sem þarf að skila og voru félögin hvött til að vinna þau saman. Samhliða formannafundi var haldinn mótanefndafundur sem um tuttugu manns sátu, en fyrirhugað er að halda framahaldsmótanefndafund um næstu mánaðamót til að ræða frekar mótadagskrá ársins. Stjórn LH þakkar formönnum hestamannafélaga í landinu og öðrum þátttakendum á formannafundi fyrir afar uppbyggilegar umræður sem munu nýtast vel á komandi starfsári. Skýrsla stjórnar LH 2024-2025
12. nóvember 2025
Ættingjar fyrsta heiðursfélaga LH afhentu LH viðurkenningarskjalið til varðveislu
11. nóvember 2025
Guðni Halldórsson og Kristinn Skúlason hlutu gullmerki LH
9. nóvember 2025
Haraldur Þórarinsson er heiðursverðlaunum LH sannarlega verðugur
9. nóvember 2025
Gott æskulýðsstarf er grunnurinn að framtíð hestamennskunnar
Lesa meira