Breytingar á keppnisreglum sem taka gildi 1. apríl.

27. mars 2024

Á FEIF þingi sem haldið var í febrúar síðastliðnum urðu ýmsar breytingar og lagfæringar á reglum gerðar á nokkrum stöðum. Breytingar þessar taka gildi 1. apríl og hafa verið færðar inn í regluverk LH.

Reglur mótahaldsins má finna á https://www.lhhestar.is/is/log-og-reglur ásamt heimasíðu Feif www.feif.org

Hér verður stiklað á helstu atriðum sem breytingar þessar taka til í mótahaldinu, en ýmsar breytingar hafa einnig orðið í almennum reglum og kynbótareglum sem gott er að skoða. Athugið að reglurnar eru ekki birtar orðréttar hér, heldur er þetta ítarefni til upplýsinga.

Almennar reglur:

A1.3.2 Gerviefni eða viðgerðir á hófum.
Hestar sem þurfa á viðgerðarefni á hófum að halda, öðru en leyfðum búnaði mega einungis taka þátt í keppni með slíkt ef yfirdómari mótsins samþykkir efnið/viðgerðina.

Þetta þýðir að ef hófur er til dæmis steyptur eftir brot þarf yfirdómari að skoða viðgerðina og gefa samþykki sitt fyrir þátttöku hestsins á mótinu. Meginreglan er sú að nauðsynleg viðgerð er leyfð, en ekkert sem hægt er að túlka sem viðbætur á hófinn.

A2.1.7 Knapar í íþróttakeppni (gildir einnig um gæðingakeppni)
Knapi má ekki fá neina utanaðkomandi aðstoð á meðan á keppni stendur. Öll notkun samskiptatækja af öllu tagi er bönnuð í safnhring og keppnisbraut.

Samskiptatækni fleygir fram, og meðal annars hafa verið framleiddir hjálmar með innbyggðum heyrnatólum þó sjaldgæft sé. En öll slík notkun er bönnuð.

A8.3.2.2. Skeifur
Leður og plastkransar eða botnar
Þegar fylliefni og/eða botn er notaður má hámarksþykkt skeifu vera 8mm, að öðrum kosti má skeifa vera allt að 10mm þykk. Að fylliefni frátöldu má einungis nota einn botn eða krans á hvern fót hestsins. Þegar enginn botn er notaður (eða einungis net) má setja fylliefni í hófinn að meðtaldri þykkt skeifunnar, þ.e. Að neðri brún skeifu.

Reglur um íþróttakeppni:

Í2.5 Úrslit
Fimm efstu hross úr forkeppni komast beint í úrslit (A-úrslit). Ef þátttakendur í greininni eru margir getur mótshaldari haldið B-úrslit fyrir 6.-10. sæti og sigurvegari B-úrslita má taka þátt í A-úrslitum. Ef sigurvegari B-úrslita þiggur ekki sæti í A-úrslitum fer enginn annar knapi þangað í hans stað.
Sama á við um C-úrslit sem heimilt er að halda í stórum flokkum (sæti 11-15). Sigurvegari C-úrslita má taka þátt í B- úrslitum en þiggi hann það ekki fer enginn annar knapi þangað í hans stað.

Ef fleiri en einn eru jafnir inn í úrslitin í sæti 5 og fjöldi hesta yrði því fleiri en 5 í úrslitunum þar sem 5 dómarar eru að störfum eru hæsta og lægsta einkunn reiknuð inn hjá þeim knöpum til þess að skera úr um hverjir ríða til úrslita. Meðaleinkunn með tveimur aukastöfum frá öllum fimm dómurum ræður því hverjir þessarra jöfnu hesta fara beint inn í úrslitin, hinir fara í B-úrslit þar sem við á og þau eru í boði. Í þeim tilvikum þar sem einkunnir allra fimm dómara skera ekki úr um sæti jafnra hesta/knapa og þeir eru enn jafnir þegar allar tölur eru teknar inn fara allir jafnir hestar inn í úrslitin sem um ræðir.

Þar sem ekki er boðið upp á B -úrslit má mótshaldari leyfa 6 knöpum þátttöku í úrslitum í stað 5.

Í praktík þýðir þessi breyting á reglu það að á þeim íþróttamótum þar sem 5 dómarar eru að störfum er sú regla um að hæsta og lægsta einkunn detti út sett til hliðar ef hestar eru jafnir inn í úrslit, einungis til þess að skera úr um hvaða hestar fá sæti í úrslitunum. Þetta hefur ekki áhrif á lokaeinkunn hestsins í greininni, heldur einungis til þess að raða inn í úrslitasætin og er gert til þess að forðast það að of mikill fjöldi hesta sé inni í sömu úrslitum. Það eru mörg dæmi um úrslit þar sem allt að 9 hestar hafa verið á vellinum samtímis og það er óboðlegt fyrir hesta, knapa og ekki síst dómara mótsins að vinna úr því á góðan hátt.

Í2.7 Tónlist
Þegar knapi er einn í braut á hringvellinum, má hann óska eftir því að slökkt sé á tónlist við völlinn. Hljóðstyrkur (Decibel, dB) má ekki fara yfir 85 dB ef mældur er 5 metrum frá hátalara vallarins. Yfirdómari ákveður hljóðstyrk tónlistar.

Í2.8.2.2 Úrslit í T2

Þátttakendur úrslita sýna atriðin að viðsnúningum meðtöldum eftir fyrirmælum þular á eftirfarandi hátt:

  1. Tölt frjáls hraði, hægt niður á fet og skipt um hönd.
  2. Hægt tölt
  3. Hægt til milliferðartölt á slökum taum með báða tauma í annarri hendi og án taumsambands við munn hestsins. Hægt niður á fet og skipt um hönd. Hvílt á feti 120 sek en 30 sekúndum fyrir enda hvíldarinnar mega knapar byrja að undirbúa hesta sína eftir fyrirmæli frá þul. Hægt til milliferðartölt á slökum taum með báða tauma í annarri hendi og án taumsambands við munn hestsins.

Dómarar gefa eina einkunn fyrir allt þriðja atriðið (slakur taumur) sem hefur tvöfalt vægi í aðaleinkunn. Í T2 úrslitum þar sem atriði 3 er sýnt á báðar hendur eftir fyrirmælum þular, gildir tímatafla eins og í greiðu tölti T1/T3, eftir fjölda knapa í braut.

Þessi breyting er kannski sú stærsta sem breytist á þessu ári, og gjörbreytir framkvæmd úrslita í slataumatölti T2. Í fyrsta lagi er það þannig að slakur taumur verður nú riðinn á báðar hendur ólíkt því sem áður var, en einnig það að viðsnúningur færist til og nú er snúið við strax eftir frjálsa ferð á tölti í stað hæga töltsins sem áður var. Nú er því riðið jafn mikið á báðar hendur, þ.e frjáls ferð á aðra höndina, hægt tölt á hina og svo er slakur taumur sýndur á báðar hendur.

Í3.1 Búnaður
Það er leyfilegt að skipta um búnað á milli spretta í öllum skeiðgreinum. Pískur er ekki leyfður í P1 (250 m skeið) og P3 (150 m skeið) að safnhring meðtöldum þar sem hann er til, annars innan 8 metra frá rásbásum.

Nú er pískur semsagt ekki leyfilegur í upphitun í nánasta umhverfi rásbása í kappreiðaskeiðinu.

Í3.6.4.4 Í gæðingaskeiði
Meðaleinkunn beggja spretta ræður úrslitum og sætaröð. Ef knapar eru jafnir eru það einkunnir dómara sem kveða á um sigurvegara. Ef knapar eru enn jafnir er það besti tími úr sprettum sem ræður úrslitum. Ef þeir eru enn jafnir eftir það ræður einkunn fyrir niðurtöku, þar á eftir næst besti tími og að lokum er hlutkesti varpað.

Í þessari reglu er verið að reka marga varnagla til þess að ráða úrslitum áður en hlutkesti er varpað.

Í 8 Viðauki 1: World ranking stöðulistar

Frá og með þessu ári gildir árangur pars inn á stöðulista WR en hingað til hefur það verið knapinn. Reiknað er út frá meðaltali þriggja bestu einkunna parsins til þess að raða á WR lista.

Í 17.5 Innkoma á hringvöll og upphaf keppni

Inngangur á skammhlið (að hornum meðtöldum)- knapi sem hefur keppni á skammhlið fjær inngangi þarf að halda áfram frá upphafspunkti sínum (miðri skammhlið), með langhiðinni öðru megin og byrja beint á miðri næstu skammhlið (bannað að snúa við þar).

Þýðir að knapi skal ríða inn í braut á þá hönd sem hann ætlar að hefja keppni og halda áfram þar.

 

Aðrar breytingar eru meira orðalagsbreytingar sem hafa ekki áhrif á framgang hverrar greinar, eða breytingar á greinum sem lítið eru notaðar í keppni á Íslandi. En ítarefni er að finna á heimasíðu FEIF.

Fréttasafn

Eftir Berglind Karlsdóttir 7. nóvember 2025
Það er í mörg horn að líta í afreksmálum sérsambands af þeirri stærðargráðu sem Landssamband Hestamannafélaga er.  Nú á haustdögum hefur landsliðsnefnd LH unnið að skoðun afreksmálanna í heild sinni og fjölmargir komið að þeirri vinnu ásamt starfshópnum sem skipaður var til verksins af stjórn LH. Samningar landsliðsþjálfaranna voru í gildi fram í lok september 2025 og runnu þar með sitt skeið og í kjölfarið hafa ýmsar hliðar afreksmálanna verið skoðaðar með það í huga að styrkja starfið enn frekar. Afreks- og landsliðsnefnd hefur á þessum tíma unnið skýran ramma um afreksstarfið byggt á afreksstefnu LH og ÍSÍ, skilgreint verkefni og skyldur þjálfara landsliðanna ásamt verkefnum og skyldum afreksstjóra LH. Þar að auki haf ýmsir verkferlar verið bættir innan afreksstarfsins og þeirra hópa sem starfrækir eru innan þess. Valteymi var sett á laggirnar til aðstoðar þjálfurum hópanna við val í afrekshópa. Valteymið samanstendur af þjálfara hvers hóps ásamt formanni landsliðsnefndar og afreksstjóra LH. Valteymið aðstoðar við gagnaöflun, greiningu árangurs og undirbúning valferlis fyrir hópana og hefur ráðgefandi hlutverk. Landsliðsþjálfari/yfirþjálfari Hæfileikamótunar hefur þó endanlegt ákvörðunarvald um val í hópa sína og ber ábyrgð á því vali. Hóparnir sem starfa undir afreksstarfi LH eru Hæfileikamótun LH, U21-landsliðið og A-landslið. 42 verðandi afreksknapar á aldrinum 14-17 ára voru á dögunum teknir inn í Hæfileikamótun LH sem samanstendur af tveimur hópum. Sigvaldi Lárus Guðmundsson yfirþjálfari Hæfileikamótunar er fullur tilhlökkunnar inn í starfsárið sem hefst þegar fyrsti hópur fer námsferð að Hólum í komandi viku. Svo verða vinnuhelgar eftir áramótin með eigin hest og tveir stórir fræðsludagar með sýnikennslum, fyrirlestrum og foreldrafundi. Hvað landsliðin tvö varðar er það skýrt markmið landsliðsnefndar að sterkustu knapar landsins hverju sinni skipi landsliðshópa LH sem starfrækir eru yfir árið. Landsliðsumgjörðin veitir hópunum reglulega fræðslu og utanumhald, vinnur að fjáröflunarmálum með ýmsum viðburðum og veitir knöpum hópanna tækifæri á að efla og styrkja sig sem afreksknapa árið um kring samhliða því að sinna íþróttinni á sínum heimavelli. Því er það stefnan að landsliðshóparnir nái yfir afreksknapana okkar og eðli málsins samkvæmt þrengjast svo hóparnir þegar líður að stórmótum líkt og HM um þá knapa og hesta sem eru í baráttu um sæti í lokahóp og staðfest er hvaða hestar eru í boði inn í verkefnið. Hlutverk hvers knapa þegar kemur að lokahóp fyrir stórmót skal vera skýrt og við kynningu lokahópa verða varaknapar tilkynntir og þeir hafa gríðarlega mikilvægt hlutverk alveg fram að brottför hrossa frá Íslandi á HM. Nú vinnur afreks- og landsliðsnefnd að því að finna landsliðsþjálfara U21 og A-landsliðanna til starfa, og áhugasömum þjálfaraefnum er bent á að hafa samband við Sigurbjörn Eiríksson formann landsliðsnefndar landslidsnefnd@lhhestar.is eða Berglindi Karlsdóttur framkvæmdarstjóra LH berglind@lhhestar.is og láta þannig vita að sér.
6. nóvember 2025
Íslenska landsliðinu í hestaíþróttum var boðið til móttöku á Bessastöðum, þar sem forseti Íslands Halla Tómasdóttir og Björn bóndi hennar tóku móti hópnum. Tilefni boðsins var frábær árangur Íslenska landsliðsins á HM í Sviss sl. sumar en íslenska landsliðið hlaut alls 9 gullverðlaun á mótinu auk þess að vinna liðabikarinn, stigahæst liða á mótinu. Mótakan var hin hátíðlegasta og var landsliðinu mikill heiður sýndur með því að vera boðið til hennar. Halla fór fögrum orðum um íslenska hestinn sem einn mikilvægasta sendiherra Íslands, því hvert sem hún færi bæri fljótlega á góma íslenski hesturinn og hans sérstaka lundarfar og gangtegundirnar fimm. Einnig hafði hún á orði hversu mikið afrek það væri að vinna liðabikarinn þar sem liðsheildin væri mikilvæg. Svo var gestum boðið að rölta um hið merka hús á Bessastöðum, skoða listaverkin og gjafir hinna ýmsu þjóðhöfðingja í gegnum tíðina, sem prýða húsið. Að lokum var stillt upp fyrir hópmyndatöku á tröppunum á Bessastöðum í haustblíðunni.
30. október 2025
Sigvaldi Lárus Guðmundsson yfirþjálfari Hæfileikamótunar LH næstu tvö árin
27. október 2025
Keppnishestabú ársins verða heiðruð á Uppskeruhátíð hestafólks
27. október 2025
Uppskeruhátíð hestafólks fer fram í Gamla Bíó laugardaginn 8. nóvember nk., þar sem hestafólk af landinu öllu kemur saman til að fagna frábæru keppnisári og heiðra þá sem skarað hafa fram úr. Kvöldið verður í senn hátíðlegt og skemmtilegt. Veitingar verða í höndum LÚX veisluþjónustu, sem býður upp á dýrindis mat í takt við hátíðlega stemninguna í Gamla Bíó. Knapar ársins í hverjum flokki verða verðlaunaðir ásamt keppnishestabúi ársins og hljóta glæsilega verðlaunagripi úr smiðju Inga í Sign. Að loknum kvöldverði og öðrum hefðbundnum dagskrárliðum mun Stuðlabandið halda uppi fjörinu fram eftir nóttu og tryggja alvöru partýstemningu. Miðasala fer fram í vefverslun LH - takmarkaður fjöldi sæta í boði!! Sjáumst 8.nóvember í Gamla bíó!
24. október 2025
Íslandsmót 2026 haldið 17. til 21. júní hjá Sörla
23. október 2025
Knapar ársins verða heiðraðir á Uppskeruhátíð hestafólks
22. október 2025
Viðtal við nýjan formann Landsliðsnefndar um afreks- og landsliðsmál
22. október 2025
Þann 15. maí sl. staðfesti framkvæmdastjórn ÍSÍ úthlutunarreglur vegna kostnaðarþátttöku ungmenna í landsliðsverkefnum. Tilgangur reglnanna er að setja ramma um styrki til sérsambanda ÍSÍ vegna kostnaðarþátttöku ungmenna í landsliðsstarfi á vegum sérsambanda ÍSÍ í samræmi við Afreksstefnu ÍSÍ. Meginmarkmið styrkveitinganna er að styðja ungmenni fjárhagslega sem taka þátt í landsliðsstarfi á vegum sérsambanda ÍSÍ og þurfa að greiða kostnað vegna þátttökunnar að fullu eða að hluta. Einnig að jafna möguleika ungmenna á þátttöku í landsliðsstarfi sérsambanda ÍSÍ. LH sótti um styrk fyrir hönd þeirra sjö ungmenna sem fóru á HM sl. sumar og niðurstaðan varð sú að Afrekssjóður styrkir hvert og eitt þeirra um rúmar 200.000 kr. Styrkurinn er gríðarlega mikilvægur stuðningur við ungmennin okkar og mikil hvatning.  Er þetta hluti af því aukna fjármagni sem stjórnvöld hafa sett í Afrekssjóð á þessu ári og markar sú ákvörðun tímamót í allri umgjörð afreksíþrótta í heild sinni. Vonast er til að sambærilegt fjármagn verði til úthlutunar til sérsambanda úr Afrekssjóði til frambúðar.
17. október 2025
NICH - Nordic Icelandic Horse Collaboration
Lesa meira