Breytingar á keppnisreglum sem taka gildi 1. apríl.

27. mars 2024

Á FEIF þingi sem haldið var í febrúar síðastliðnum urðu ýmsar breytingar og lagfæringar á reglum gerðar á nokkrum stöðum. Breytingar þessar taka gildi 1. apríl og hafa verið færðar inn í regluverk LH.

Reglur mótahaldsins má finna á https://www.lhhestar.is/is/log-og-reglur ásamt heimasíðu Feif www.feif.org

Hér verður stiklað á helstu atriðum sem breytingar þessar taka til í mótahaldinu, en ýmsar breytingar hafa einnig orðið í almennum reglum og kynbótareglum sem gott er að skoða. Athugið að reglurnar eru ekki birtar orðréttar hér, heldur er þetta ítarefni til upplýsinga.

Almennar reglur:

A1.3.2 Gerviefni eða viðgerðir á hófum.
Hestar sem þurfa á viðgerðarefni á hófum að halda, öðru en leyfðum búnaði mega einungis taka þátt í keppni með slíkt ef yfirdómari mótsins samþykkir efnið/viðgerðina.

Þetta þýðir að ef hófur er til dæmis steyptur eftir brot þarf yfirdómari að skoða viðgerðina og gefa samþykki sitt fyrir þátttöku hestsins á mótinu. Meginreglan er sú að nauðsynleg viðgerð er leyfð, en ekkert sem hægt er að túlka sem viðbætur á hófinn.

A2.1.7 Knapar í íþróttakeppni (gildir einnig um gæðingakeppni)
Knapi má ekki fá neina utanaðkomandi aðstoð á meðan á keppni stendur. Öll notkun samskiptatækja af öllu tagi er bönnuð í safnhring og keppnisbraut.

Samskiptatækni fleygir fram, og meðal annars hafa verið framleiddir hjálmar með innbyggðum heyrnatólum þó sjaldgæft sé. En öll slík notkun er bönnuð.

A8.3.2.2. Skeifur
Leður og plastkransar eða botnar
Þegar fylliefni og/eða botn er notaður má hámarksþykkt skeifu vera 8mm, að öðrum kosti má skeifa vera allt að 10mm þykk. Að fylliefni frátöldu má einungis nota einn botn eða krans á hvern fót hestsins. Þegar enginn botn er notaður (eða einungis net) má setja fylliefni í hófinn að meðtaldri þykkt skeifunnar, þ.e. Að neðri brún skeifu.

Reglur um íþróttakeppni:

Í2.5 Úrslit
Fimm efstu hross úr forkeppni komast beint í úrslit (A-úrslit). Ef þátttakendur í greininni eru margir getur mótshaldari haldið B-úrslit fyrir 6.-10. sæti og sigurvegari B-úrslita má taka þátt í A-úrslitum. Ef sigurvegari B-úrslita þiggur ekki sæti í A-úrslitum fer enginn annar knapi þangað í hans stað.
Sama á við um C-úrslit sem heimilt er að halda í stórum flokkum (sæti 11-15). Sigurvegari C-úrslita má taka þátt í B- úrslitum en þiggi hann það ekki fer enginn annar knapi þangað í hans stað.

Ef fleiri en einn eru jafnir inn í úrslitin í sæti 5 og fjöldi hesta yrði því fleiri en 5 í úrslitunum þar sem 5 dómarar eru að störfum eru hæsta og lægsta einkunn reiknuð inn hjá þeim knöpum til þess að skera úr um hverjir ríða til úrslita. Meðaleinkunn með tveimur aukastöfum frá öllum fimm dómurum ræður því hverjir þessarra jöfnu hesta fara beint inn í úrslitin, hinir fara í B-úrslit þar sem við á og þau eru í boði. Í þeim tilvikum þar sem einkunnir allra fimm dómara skera ekki úr um sæti jafnra hesta/knapa og þeir eru enn jafnir þegar allar tölur eru teknar inn fara allir jafnir hestar inn í úrslitin sem um ræðir.

Þar sem ekki er boðið upp á B -úrslit má mótshaldari leyfa 6 knöpum þátttöku í úrslitum í stað 5.

Í praktík þýðir þessi breyting á reglu það að á þeim íþróttamótum þar sem 5 dómarar eru að störfum er sú regla um að hæsta og lægsta einkunn detti út sett til hliðar ef hestar eru jafnir inn í úrslit, einungis til þess að skera úr um hvaða hestar fá sæti í úrslitunum. Þetta hefur ekki áhrif á lokaeinkunn hestsins í greininni, heldur einungis til þess að raða inn í úrslitasætin og er gert til þess að forðast það að of mikill fjöldi hesta sé inni í sömu úrslitum. Það eru mörg dæmi um úrslit þar sem allt að 9 hestar hafa verið á vellinum samtímis og það er óboðlegt fyrir hesta, knapa og ekki síst dómara mótsins að vinna úr því á góðan hátt.

Í2.7 Tónlist
Þegar knapi er einn í braut á hringvellinum, má hann óska eftir því að slökkt sé á tónlist við völlinn. Hljóðstyrkur (Decibel, dB) má ekki fara yfir 85 dB ef mældur er 5 metrum frá hátalara vallarins. Yfirdómari ákveður hljóðstyrk tónlistar.

Í2.8.2.2 Úrslit í T2

Þátttakendur úrslita sýna atriðin að viðsnúningum meðtöldum eftir fyrirmælum þular á eftirfarandi hátt:

  1. Tölt frjáls hraði, hægt niður á fet og skipt um hönd.
  2. Hægt tölt
  3. Hægt til milliferðartölt á slökum taum með báða tauma í annarri hendi og án taumsambands við munn hestsins. Hægt niður á fet og skipt um hönd. Hvílt á feti 120 sek en 30 sekúndum fyrir enda hvíldarinnar mega knapar byrja að undirbúa hesta sína eftir fyrirmæli frá þul. Hægt til milliferðartölt á slökum taum með báða tauma í annarri hendi og án taumsambands við munn hestsins.

Dómarar gefa eina einkunn fyrir allt þriðja atriðið (slakur taumur) sem hefur tvöfalt vægi í aðaleinkunn. Í T2 úrslitum þar sem atriði 3 er sýnt á báðar hendur eftir fyrirmælum þular, gildir tímatafla eins og í greiðu tölti T1/T3, eftir fjölda knapa í braut.

Þessi breyting er kannski sú stærsta sem breytist á þessu ári, og gjörbreytir framkvæmd úrslita í slataumatölti T2. Í fyrsta lagi er það þannig að slakur taumur verður nú riðinn á báðar hendur ólíkt því sem áður var, en einnig það að viðsnúningur færist til og nú er snúið við strax eftir frjálsa ferð á tölti í stað hæga töltsins sem áður var. Nú er því riðið jafn mikið á báðar hendur, þ.e frjáls ferð á aðra höndina, hægt tölt á hina og svo er slakur taumur sýndur á báðar hendur.

Í3.1 Búnaður
Það er leyfilegt að skipta um búnað á milli spretta í öllum skeiðgreinum. Pískur er ekki leyfður í P1 (250 m skeið) og P3 (150 m skeið) að safnhring meðtöldum þar sem hann er til, annars innan 8 metra frá rásbásum.

Nú er pískur semsagt ekki leyfilegur í upphitun í nánasta umhverfi rásbása í kappreiðaskeiðinu.

Í3.6.4.4 Í gæðingaskeiði
Meðaleinkunn beggja spretta ræður úrslitum og sætaröð. Ef knapar eru jafnir eru það einkunnir dómara sem kveða á um sigurvegara. Ef knapar eru enn jafnir er það besti tími úr sprettum sem ræður úrslitum. Ef þeir eru enn jafnir eftir það ræður einkunn fyrir niðurtöku, þar á eftir næst besti tími og að lokum er hlutkesti varpað.

Í þessari reglu er verið að reka marga varnagla til þess að ráða úrslitum áður en hlutkesti er varpað.

Í 8 Viðauki 1: World ranking stöðulistar

Frá og með þessu ári gildir árangur pars inn á stöðulista WR en hingað til hefur það verið knapinn. Reiknað er út frá meðaltali þriggja bestu einkunna parsins til þess að raða á WR lista.

Í 17.5 Innkoma á hringvöll og upphaf keppni

Inngangur á skammhlið (að hornum meðtöldum)- knapi sem hefur keppni á skammhlið fjær inngangi þarf að halda áfram frá upphafspunkti sínum (miðri skammhlið), með langhiðinni öðru megin og byrja beint á miðri næstu skammhlið (bannað að snúa við þar).

Þýðir að knapi skal ríða inn í braut á þá hönd sem hann ætlar að hefja keppni og halda áfram þar.

 

Aðrar breytingar eru meira orðalagsbreytingar sem hafa ekki áhrif á framgang hverrar greinar, eða breytingar á greinum sem lítið eru notaðar í keppni á Íslandi. En ítarefni er að finna á heimasíðu FEIF.

Fréttasafn

24. desember 2025
Jóla- og nýárskveðja frá formanni LH
22. desember 2025
Landssamband hestamannafélaga óskar öllum hestamönnum nær og fjær gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári, með kærri þökk fyrir samstarfið á árinu.  Starfsfólk og stjórn LH
Eftir Berglind Karlsdóttir 18. desember 2025
Hekla Katharína Kristinsdóttir er reiðkennari ársins 2025
9. desember 2025
Ísólfur Líndal Þórisson hefur verið ráðinn landsliðsþjálfari A-landsliðs Íslands í hestaíþróttum
5. desember 2025
Alþjóðlegur dagur sjálboðaliða 5. desember
14. nóvember 2025
Form annafundur LH var haldinn laugardaginn 8. nóvember sl. Fundinn sóttu um áttatíu manns frá þrjátíu hestamannafélögum auk fulltrúa frá fastanefndum LH, dómarafélögunum og stjórn LH. Góðar og uppbyggilegar umræður urðu á fundinum sem stjórn LH tekur með sér í næsta starfsár og í undirbúning fyrir Landsþing 2026. Formaður LH, Linda Björk Gunnlaugsdóttir, fór í ræðu sinni yfir þau mál sem hafa verið fyrirferðarmest í starfsemi LH á árinu ásamt því að tæpa á helstu verkefnum sem framundan eru. Það eru mörg og umfangsmikil verkefni á borði stjórnar hverju sinni og hefur mikill tími farið fyrsta starfsárið hjá nýrri stjórn í að endurskipuleggja og hagræða í rekstri sambandsins. Afreksmálin eru alltaf fyrirferðarmikil á HM ári í verkefnum skrifstofu og stjórnar og eru afreksmálin á ákveðnum tímamótum núna þar sem samningar við landsliðsþjálfara eru lausir. Gjaldkeri LH, Ólafur Gunnarsson, fór yfir stöðu reikninga og uppfærðar fjárhagsáætlanir sem gera ráð fyrir á næstu tvö ár skili hagnaði en eins og áður kom fram hefur verið farið í hagræðingaraðgerðir á árinu í þeim tilgangi að snúa rekstri sambandsins til betri vegar. Starfshópar sem skipaðir voru skv. samþykkt landsþings 2024 kynntu sína vinnu frá landsþingi. Starfshópur um Íslandsmót telur ekki þörf á að gera breytingar á keppnishluta mótsins en leita þurfi leiða til að gera viðburðinn Íslandsmót að stærri viðburði fyrir áhorfendur. Starfshópur um innanhússmót lagði fram tillögu fyrir fundinn um haldið yrði 2ja til 3ja daga Íslandsmót innanhúss í lok innanhússkeppnistímabilsins 2026 til reynslu. Fundurinn vísaði tillögunni til stjórnar til nánari útfærslu og mun stjórn kalla til framhaldsfundar formanna til frekari umræðna. Æskulýðsbikar LH hlaut Hestamannafélagið Skagfirðingur og veittu yfirreiðkennari félagsins og formaður æskulýðsdeildar Skagfirðings bikarnum móttöku. Fulltrúar frá hestamannafélögunum Mána, Hring, Funa, Herði, Freyfaxa og Sleipni sögðu frá sínum verkefnum og helstu áskorunum. Voru það virkilega áhugaverðar frásagnir því flest hestamannafélög eru að eiga við svipaðar áskoranir þó aðstæður hjá hverju félagi séu mismunandi. Að loknum hefðbundnum fundarstörfum var fundinum skipt upp í þrjá umræðuhópa sem fjölluðu um stefnumótun, gjaldkerastörf og nýliðunar -og æskulýðsmál. Mikil umræða og góð vinna var í umræðuhópunum. Í hópnum um stefnumótum urðu mjög líflegar umræður og margir snertifletir ræddir á hinum ýmsu málum og ljóst að það er heilmikið að vinna úr í framhaldinu. Fundinum var skipt upp í sex minni hópa sem fjölluðu hver um sig um ákveðna þætti í starfsemi LH, hvaða markmið skuli setja og hvernig skuli ná þeim. Stefnumótunarfundurinn var framhald af opnum stefnumótunarfundi sem haldinn var sl. vor með fulltrúum hestamannafélaganna. Hópurinn um æskulýðs- og nýliðunarmál fjallaði um þátttöku stráka í hestamennsku, félagshesthús og almenna stöðu hjá félögunum. Margar hugmyndir komu upp og góðar umræður sköpuðust. Í gjaldkerahópnum var rætt um samskipti við sveitarfélög, fjármál hestamannafélaga, félög í almannaheilaskráningu og fyrirmyndafélög ásamt styrkjum til hestamannafélaga. Fjármál hestamannafélaganna eru almennt í góðum málum og faglega staðið að þeim en slíkt er algjör forsenda fyrir því að gott samtal geti átt sér stað við sveitarfélögin þegar kemur að styrkjamálum hins opinbera. Félögin voru einnig hvött til að skrá félagið á almannaheillaskrá en það er gott verkfæri þegar leitað er styrkja hjá almennum fyrirtækjum og veitir skattaafslátt á móti. Einnig voru félögin hvött til að hefju vinnu við að gerast fyrirmyndarfélag ÍSÍ og er það holl og góð vinna til að bæta starfshætti félagsins. Félög geta leitað til hvors annars um þau gögn sem þarf að skila og voru félögin hvött til að vinna þau saman. Samhliða formannafundi var haldinn mótanefndafundur sem um tuttugu manns sátu, en fyrirhugað er að halda framahaldsmótanefndafund um næstu mánaðamót til að ræða frekar mótadagskrá ársins. Stjórn LH þakkar formönnum hestamannafélaga í landinu og öðrum þátttakendum á formannafundi fyrir afar uppbyggilegar umræður sem munu nýtast vel á komandi starfsári. Skýrsla stjórnar LH 2024-2025
12. nóvember 2025
Ættingjar fyrsta heiðursfélaga LH afhentu LH viðurkenningarskjalið til varðveislu
11. nóvember 2025
Guðni Halldórsson og Kristinn Skúlason hlutu gullmerki LH
9. nóvember 2025
Haraldur Þórarinsson er heiðursverðlaunum LH sannarlega verðugur
9. nóvember 2025
Gott æskulýðsstarf er grunnurinn að framtíð hestamennskunnar
Lesa meira