Dómaramál LH sumarið 2023

Hinrik Sigurðsson • 23. mars 2023

 

Breytingar á verklagi varðandi úthlutun og greiðslu dómarakostnaðar

Á fundarferð stjórnar LH um landið í upphafi árs 2022 kom á flestum eða öllum fundum fram skýr vilji og ákall til stjórnar sambandsins um að taka utanumhald og skipulagningu mótamála ásamt dómaramálum fastari tökum. Var kallað eftir því að Landssambandið kæmi með ákveðnari og skýrari hætti að niðurröðun og skipulagningu móta og mótaraða eins og tíðkast hjá öðrum sérsamböndum. Einnig var skýrt ákall um að dómaramálum yrði komið í fastara horf og að skrifstofa LH héldi betur utan um þau mál.

Þá hafa í áraraðir verið uppi óskir um að fundnar verði leiðir til að jafna ferðakostnað dómara á milli félaga þar sem sum minni félög eru þannig í sveit sett að nær ómögulegt er fyrir þau að halda mót öðruvísi en með stórtapi.

Þáverandi stjórn brást skjótt við enda um þarfar og góðar ábendingar að ræða. LH er íþróttasamband og utanumhald keppni og afreksmála er ein af ríkustu skyldum sambandsins. Ráðinn var verkefnastjóri afreks- og mótamála sem hóf störf síðastliðið haust. Hófst hann þegar handa, ásamt stjórn og öðru starfsfólki að fara yfir verklag og ferla ásamt því að finna leiðir til þess að jafna stöðu félaganna um allt land gagnvart mótahaldinu.

Jöfnun ferðakostnaðar

Síðustu tvö keppnistímabil hefur LH sett til hliðar í sérstakan sjóð fjármuni sem félögin hafa getað sótt um styrki til niðurgreiðslu og jöfnunar ferðakostnaðar dómara. Nokkuð minna hefur verið um umsóknir en búist var við og hafa félögin mörg hver borið því við að erfiðlega hafi gengið að fá útgefna löglega reikninga frá dómurum til að skila inn umsóknum í sjóðinn.

Sá galli var einnig á þessu fyrirkomulagi, sem eingöngu var hugsað til prufu, að þeir fjármunir sem lagðir voru í sjóðinn komu af rekstrarfé sambandsins og því ekki um eiginlega jöfnun ferðakostnaðar að ræða heldur niðurgreiðslu.

Í ár verður farin sú leið að til að jafna ferðakostnað munu allir mótshaldarar löglegra móta greiða sömu upphæð fyrir dæmdan klukkutíma og innifalið í tímagjaldinu verður allur aksturskostnaður dómara. Þannig leggjast u.þ.b. 10% ofan á gjaldskrá dómarafélaganna til að mæta aksturskostnaði. Með þeim hætti er aksturskostnaði jafnað á félögin í landinu og þau sitja við sama borð þegar kemur að kostnaði við dómgæslu.

Til að koma til móts við þau félög sem halda stærri mót sem ná yfir marga daga mun tímagjald fyrir dómgæslu lækka eftir 30 dæmdar klukkustundir pr. dómara.

Greiðslur fyrir störf dómara

Eftir að hafa farið yfir og kynnt sér verklag annarra sérsambanda ÍSÍ og skoðað málið frá mörgum hliðum hefur verið tekin ákvörðun um að á núverandi keppnistímabili 2023 verði fyrirkomulag greiðslu dómarakostnaðar með þeim hætti að í mótaskýrslu verður tilgreindur nákvæmur tímafjöldi dæmdra stunda pr. dómara og mótaskýrslu skilað inn til LH, undirritaðri af yfirdómara og mótsstjóra eins og vera ber.

Mótshaldari fær sendan reikning frá LH fyrir dómgæslu á viðkomandi móti í samræmi við mótaskýrslu.

Dómarar senda inn reikning til LH með eindaga m.v. næstu mánaðarmót eftir að reikningur er sendur inn og skal reikningurinn vera í samræmi við gjaldskrá viðkomandi dómarafélags og mótaskýrslu viðkomandi móts. Verður reikningurinn greiddur á eindaga að því gefnu að mótaskýrslu hafi verið skilað inn með fullnægjandi hætti og að tímaskráning reiknings sé í samræmi við tímaskráningu í mótskýrslu.

Gjaldskrár

Dómarafélögin hafa nú gefið út sína gjaldskrá fyrir komandi keppnistímabil og að viðbættum kostnaði til jöfnunar ferðakostnaðar er gjaldskrá til mótshaldara eftirfarandi:

Gæðingakeppni

Allir dómarar kr. 6.600,- pr. dæmd klukkustund að 30 stundum og eftir það kr. 6.000,- pr. klst.

Íþróttakeppni

Alþjóðadómarar kr. 6.600,- pr. dæmd klukkustund að 30 stundum og eftir það kr. 6.000,- pr. klst.
Landsdómarar kr. 6.100,- pr. dæmd klukkustund að 30 stundum og eftir það kr. 5.500,- pr. klst.
Héraðsdómarar kr. 5.100,- pr. dæmd klukkustund að 30 stundum og eftir það kr. 4.500,- pr. klst.

Útkallsgjald fyrir dómara í styttri verkefni er alltaf að lágmarki 4 klst. hvort sem um ræðir dómara frá HÍDÍ eða GDLH.

Akstursgjald dómara er að öllu leyti innifalið í þessu tímagjaldi. Dómarar fá eftir sem áður greiddan aksturskostnað eftir reikningi sem þeir senda til LH.

Niðurröðun dómara á mót og menntun dómara

Samkvæmt lögum LH er það stjórn sambandsins sem hefur æðsta vald og ber ábyrgð á dómaramálum þess í samráði við Dómaranefnd LH sem skal vera sérfræðilegur ráðunautur stjórnar í öllum málefnum er varða dómara.  Dómaranefnd hefur heimild til að fela Hestaíþróttadómarafélagi Íslands og Gæðingadómarafélagi LH úthlutun dómara á mót. Undanfarin ár og misseri hefur það verklag verið við lýði að dómaranefnd hefur falið dómarafélögunum (HÍDÍ og GDLH) að sjá um menntun, endurmenntun og úthlutun dómara á mót. Stjórn GDLH hefur beðist undan því að sjá um úthlutun dómara á mót frá og með vorinu og mun sú ábyrgð því færast yfir á Dómaranefnd og skrifstofu LH. Ekki er gert ráð fyrir breytingum er varða úthlutun íþróttadómara eða breytingar á útfærslu menntunar eða endurmenntunar dómara að svo stöddu.

Því þurfa þau félög sem hyggjast halda lögleg gæðingamót, hvort sem er hér heima eða að fá íslenska gæðingadómara til dómstarfa erlendis, að sækja um dómara með góðum fyrirvara til skrifstofu LH og senda umsóknir á eyðublaði á heimasíðunni https://www.lhhestar.is/is/keppni/gaedingadomarar

Eins og áður segir þá eru þessar breytingar gerðar með hagræði og bætta umsýslu mótahalds í huga, auk þess að jafna stöðu mótshaldara og bæta stöðu minni félaga sem standa höllum fæti þegar kemur að dómarakostnaði.

Rétt er að taka fram að ekki er um fullmótað verklag til framtíðar að ræða og einhvern tíma mun taka að finna út hagkvæmasta fyrirkomulagið til hagsbóta fyrir félögin í landinu. Vonandi taka allir jákvætt í þessar breytingar og sameinast um að vinna þetta saman í þeirri viðleitni að finna hagkvæmasta og skilvirkasta fyrirkomulagið til framtíðar.

 

 

Fréttasafn

Eftir Jónína Sif Eyþórsdóttir 30. apríl 2025
Dagur Íslenska hestsins er á morgun, 1. maí. Hestamannafélög hérlendis sem og erlendis munu í tilefni af deginum bjóða upp á fjölbreytta dagskrá. Við hverjum áhugasama til að kynna sér viðburði á sínu heimasvæði.  Þá verður einnig spennandi dagskrá í Fjölskyldu og Húsdýragarðinum:
Eftir Jónína Sif Eyþórsdóttir 29. apríl 2025
Í gær mánudaginn 28. apríl fór fram stefnumótunarfundur Landssambands hestamannafélaga. Stjórn boðaði fundinn og voru fulltrúar hestamannafélaganna hvattir til að mæta á staðinn eða vera með á Teams. Markmið fundarins var að skapa sameiginlega framtíðarsýn fyrir samband allra hestamanna og var því ákaflega gleðilegt að sjá hversu margir tóku frá tíma til að vera með okkur í þessari vinnu en um 30 manns mættu á staðinn og 50 tóku þátt í fjarfundi. Petra Björk Mogensen stýrði fundinum ásamt Lindu Björk Gunnlaugsdóttur. Þær fengu svo dygga aðstoð frá þeim Jónínu Björk Vilhjálmsdóttur og Anna Kristín Kristinsdóttir sem tóku saman niðurstöður fundarins.
Eftir Jónína Sif Eyþórsdóttir 28. apríl 2025
Á 77. Íþróttaþingi ÍSÍ, sem fram fer dagana 16. og 17. maí nk. á Hótel Natura, verður kosið um forseta ÍSÍ til fjögurra ára og um sjö meðstjórnendur í framkvæmdastjórn ÍSÍ, til fjögurra ára. Skilafrestur framboða rann út föstudaginn 25. apríl sl. kl. 16:00. Til kjörnefndar bárust fimm framboð til embættis forseta ÍSÍ og níu framboð til setu í framkvæmdastjórn ÍSÍ.  Kjörnefnd ÍSÍ hefur úrskurðað öll innsend framboð gild.
Eftir Jónína Sif Eyþórsdóttir 27. apríl 2025
Nú er rétt rúm vika síðan hinn glæsilegi viðburður Allra sterkustu fór fram. Mikil stemning myndaðist að venju enda glæsilegar sýningar, keppni, happadrætti og stóðhestavelta í gangi. Á kvöldum sem þessum er dásamlegt að hafa fullt hús af áhorfendum og var það rauninn þann 19. apríl. Hinsvegar komust ekki allir sem vildu á sýninguna og því gleður það að tilkynna að Eiðfaxi tók upp herlegheitin og verður hægt að horfa á alla sýninguna á streymisveitunni þeirra frá og með miðri næstu viku.
Eftir Berglind Karlsdóttir 24. apríl 2025
Á Allra sterkustu var skrifað undir samstarfssamning milli Topreiter og Landsliðs Íslands í hestaíþróttum. Samningurinn gildir fram yfir Heimsmeistaramót 2027.
Eftir Berglind Karlsdóttir 23. apríl 2025
Hægt er að sækja vinningana á Skrifstofu LH Engjavegi 6 í Laugardal frá og með mánudeginum 28. apríl gegn framvísun happdrættismiðans.
Eftir Berglind Karlsdóttir 23. apríl 2025
Á Allra sterkustu var skrifað undir áframhaldandi samstarfssamning milli Landsliðs Íslands í hestaíþróttum og Líflands.
Eftir Hinrik Sigurðsson 23. apríl 2025
Ákveðið hefur verið að framlengja skráningafresti fyrir fyrsta Íslandsmótið í gæðingalist sem verður haldið í Samskipahöllinni í Spretti dagana 29.apríl – 1.maí 2025. Skráningafrestur er til miðnættis miðvikudaginn 23.apríl.
Eftir Jónína Sif Eyþórsdóttir 22. apríl 2025
Kæru hestamenn, takk kærlega fyrir samveruna og samvinnuna í kringum ALLRA STERKUSTU. Viðburðurinn heppnaðist vel og skiptir það sköpum fyrir landsliðin að finna þenna mikla áhuga og stuðning úr greininni. Viðburður eins og þessi gerist ekki að sjáflum sér. Að baki honum standa óteljandi klukkustundir sem sjálfboðaliðar hafa ljáð verkefninu, fullt af fyrirtækjum hafa lagt til fjármuni eða aðföng og stóðhestaeigendur sem hafa gefið tolla í stóðhestaveltuna. Þá hefur stjórn, skrifstofa, landsliðsnefnd, framkvæmdanefnd, landsliðsþjálfarar og landsliðsknaparnir sjálfir lagt dag við nótt að undirbúa og framkvæma þennan glæsilega viðburð.
Eftir Jónína Sif Eyþórsdóttir 22. apríl 2025
Ný stikuð leið frá Dalakofa í Landmannahelli. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða veitti Hestamannafélaginu Geysi styrk á síðasta ári til að stika svokallaðan Dalastíg. Leiðin þykir gífurlega falleg en er bæði brött og villugjörn og því miklar úrbætur að fá leiðina betur merkta og skráða.
Lesa meira

Styrktaraðilar