,,Erfiðast að horfa á krakkana í keppni" - Viðtal við Elvar Þormarsson

28. maí 2024

 

Við slógum á þráðinn til Elvars Þormarssonar tvöfalds heimsmeistara í hestaíþróttum. Hann var að sjálfsögðu á baki þegar við hringdum, en kom sér fljótt inn á kaffistofu.

Hver er það sem þú varst að þjálfa?

Þetta er sex vetra hryssa frá okkur undan Brynjari frá Bakkakoti. Hún heitir Ronja frá Strandarhjáleigu og ég var svona bara aðeins að þjálfa hana og halda áfram með tamninguna.

En hvernig gengur og hvað er um að vera hjá þér núna?

Það bara gengur eins og síðastliðin ár, nóg að gera við allskonar. Mest verið að temja og þjálfa en líka aðeins að keppa sem gengur stundum ofboðslega vel og stundum aðeins verr. Við erum með fullt af hrossum og alltaf brjálað að gera. Ég er með mikið af ungum hrossum og núna þegar vorsýningarnar og móta sumarið er að byrja er spenningur í loftinu. En eins og gengur eru stundum efnileg hross ekki tilbúin í brautina og þá verður maður bara að bíða sem getur verið erfitt þegar það er mikill hugur í fólki. En það er búið að ganga vel með keppnishrossin og styttist í úrtökur og okkur hlakkar mjög til að taka þátt í því. Krakkarnir eru líka á kafi í keppni, ég er með tvo stráka í barnaflokki og dóttir mín er komin í unglingaflokk svo þetta verður bara spennandi.

Sjálfur stefni ég með Pensil frá Hvolsvelli í B flokk. Það er alveg frábær hestur, gullfallegur með mikla útgeislun. Svo er hann gríðarlega rúmur og með góð gangskil. Hann er bara ofsalega fallegur hestur og vonandi náum við settu marki. Svo stefni ég með nokkur hross í kynbótadóm og kannski maður reyni líka fleiri hross í úrtöku án þess að nefna nokkur nöfn eða vera með neinar yfirlýsingar – það kemur bara ljós hvernig stemningin verður.

En ég hlakka líka til að fylgjast með því hvernig krökkunum á eftir að ganga í þessum undirbúningi og úrtökum. Það er eitt það erfiðasta sem ég geri að horfa á börnin mín ríða í braut mér líður hreinlega aðeins illa á meðan þau ríða hringina. Ekki það þau hafa alltaf staðið sig vel en það er eitthvað með pabba hjartað að það verður aðeins lítið meðan ég horfi á þau og þetta venst illa. Það var til dæmis æfingamót um síðustu helgi og ég var alveg búin á því á eftir. Að vera hestasveinn er alveg rosalega erfitt starf.

Hvers vegna tekur þetta svona á?

Ég veit það ekki, kannski eru þau stundum að fá að ríða full flóknum hrossum, en svo snýst þetta líka bara um hvað það er erfitt að sleppa af þeim taumunum, sjá þau reyna að framkvæma það sem maður er búin að vera leggja upp fyrir þeim og útskýra. Manni langar náttúrlega bara helst af öllu að þeim gangi vel, ég er miklu frekar til í að taka vonbrigðin á mig heldur en þau lendi í því. En við fjölskyldan leggjum mikla áherslu á að þetta eigi bara að vera skemmtilegt og reynum að forðast alla pressu. Það er alltaf í lagi að vera með kröfur en þarf að passa að hafa þær í jafnvægi.

Sérðu mikinn mun á hestamennskunni í dag og þegar þú varst að alast upp?

Já til dæmis tölum við miklu meira um hestamennsku sem íþrótt nú orðið, en hér áður fyrr þá sá ég hestamennsku ekki endilega sem íþrótt en svo þegar maður er búinn að upplifa það að vera hesta sem maður er að þjálfa í mörg ár og maður er farin að vinna meira með þessa hluti eins og andlega jafnvægið og þá blasir þetta öðru vísi við. Ef maður er með mikið af keppnishestum og maður er á þeim stað að vera á fullu í keppni þar sem andlega jafnvægið, stemningin og uppbyggingin þarf að vera hárrétt þá er þetta í pjúra íþróttamennska.

Hins vegar ég held að krakkarnir mínir sjái mig ekki sem neinn atvinnu íþróttamann þó ég sé tvöfaldur heimsmeistari. Fyrir þeim eru íþróttir meira fótboltinn og þesskonar íþróttir.

En svo hefur hestamennskan bara breyst rosalega mikið. Ég held að einn helsti munurinn sé það til dæmis að þegar ég er að alast upp þá elst ég upp við að temja og ríða allskonar hestum en þegar krakkarnir mínir koma inn í þetta þá er ég í þessu sem atvinnumaður og þá kynnast þau kornung mikið af ofboðslega góðum hestum. Svo það gerist kannski hjá mínum krökkum eins og hjá mörgum öðrum sem ég hef pínu áhyggjur af í dag, að krakkar fá bara góða hesta upp í hendurnar og læra því síður að temja hestanna og gera þá að góða frá grunni. Þau koma inn í keppni og hestamennsku á hærra leveli, vön tamdari hestum og meiri gæðum.

Þetta veldur því að það vantar fólk í frumtamningar sem eru það er það mikilvægasta í þessu öllu saman. Þegar ég var að alast upp og byrja með mína tamningastöð þá fékk ég fékk aldrei taminn hest í þjálfun og það kenndi manni alveg helling og það er í rauninni grunnurinn í hestamennskunni minni.

Frumtamningar eru líka svo ofboðslega skemmtilegar og svo gaman að fá að fylgja hestunum eftir. Þar fær maður líka heldur betur svörin hvað maður er að gera rétt og hvað ekki. En krakkar í dag eru yfirleitt að vinna með mikið tamda og góða hesta en þá vantar oft reynsluna í að gera hest taminn. Ég fæ aðeins áhyggjur þegar ég fer að hugsa um þetta en svo spilar inn í að það er orðinn minni tími til að frumtemja hrossin en var áður þegar trippin áttu bara haustin.

Var það alltaf draumurinn að verða atvinnumaður í hestamennsku?

Já, það kom í rauninni aldrei neitt annað til greina, var úti í hesthúsi frá því ég man eftir mér og strax sem bleyjubarn var ég alltaf í hestaleikjum. Annars hef ég alltaf haft gaman að íþróttum og fylgist með flestu en ég var aldrei neitt sérstaklega góður í neinu nema hestum. En ef þeir væru ekki atvinnan mín þá væri ég sennilega að keyra vörubíl eða gröfur hjá pabba og Heiðri bróður. Ég gerði svolítið af því hérna í gamla daga þegar það tíðkaðist að taka sér haustfrí frá hestamennskunni. Á fullorðins árum hefur það svo komið upp að ef ég hefði verið sæmilegur á bókina þá hefði sálfræði mögulega legið vel fyrir mér. Mér finnst hún virkilega áhugaverð og í þessari vinnu með hesta er maður svo mikið að lesa hestinn ekki síður en sjálfan sig og stemninguna og í því öllu saman er heljarinnar sálfræði.

Að mínu mati skiptir svo miklu máli að leggja upp úr réttri stemningu ég finn það alveg að ef það liggur ekki vel á mér þá hefur það áhrif á útkomuna en svo má maður heldur ekki pepp yfir sig og fara fram úr sér. Þetta á við bæði þegar maður er að sýna hesta en líka í daglegri vinnu í hesthúsinu þá finnur maður þetta alveg ef maður er illa fyrirkallaður og kannski gekk eitthvað ekki nógu vel, þá er betra að stíga af baki og fara bara og fá sér kaffibolla svo maður smiti ekki næsta hest.

Það má með sanni segja að stemningin hafi verið með ykkur Fjalladísi í fyrra á HM þar sem flest gekk upp, en hvernig ertu að undirbúa þig núna fyrir HM 2025 í Sviss?

Já, sko þau sem keyptu Fjalladísi, keyptu einnig Djáknar frá Selfossi með það í huga að ég myndi reyna við HM 2025. Nú á ég farseðil og stefni með hann, það er allavegana hugmyndin ef allt gengur upp. Vonandi gengur það, við erum svona að púsla okkur saman og ég held að við eigum allskonar inni og ég von að þetta komi hægt og rólega og að við toppum á réttum tíma á forsendum hestsins. Ég vil að það sé alltaf innistæða hjá hestinum, ég held að það skipti öllu máli, að taka ekki allt út – því þau eiga svo auðvitað að halda áfram að gera vel eftir mótið.

Einmitt eins og við sáum klárlega hjá Falladís og Sigurði Óla, hvernig var tilfinningin að sjá hana í braut?

Ég og Siggi Óli erum búnir að vera í góðu sambandi og vorum í sambandi deginum áður en hann keppir. Ég fór snemma heim til að horfa á hana. Svo kom það mér á óvart hvað það var erfitt að horfa á hana heima og sjá hana þarna, það heltust allskonar tilfinningar yfir mann ég viðurkenni það. En auðvitað var frábært að sjá að hún átti nóg inni og hvað þeim gekk vel, en þetta var erfitt. En svo er bara spennandi að fylgjast áfram með þeim í framtíðinni og sjá hvert þetta leiðir hjá þeim.

Við þökkum Elvari kærlega fyrir spjallið og hlökkum til að fylgjast með framvindunni hjá honum í sumar!

Fréttasafn

8. ágúst 2025
Forkeppni í fjórgangi er nú lokið. Ísland átt fimm fulltrúa, þrjá í fullorðinsflokki þau Helgu Unu Björnsdóttur og Ósk frá Stað, Aðalheiði Önnu Guðjónsdóttur og Hulinn frá Breiðstöðum og Jóhönnu Margréti Snorradóttur og Össu frá Miðhúsum. Í ungmennaflokk kepptu fyrir Íslands hönd þau Herdís Björg Jóhannsdóttir og Kormákur frá Kvistum og Védís Huld Sigurðardóttir og Ísak frá Þjórsárbakka. Herdís og Kormákur riðu á vaðið fyrir hönd íslensku keppendanna en lukkan var ekki í liði með þeim í dag því Kormáki fipaðist á yfirferðinni og útkoman var 5,87. Næst í braut af íslensku keppendunum komu þau Védís Huld Sigurðardóttir og Ísak frá Þjórsárbakka en þau voru í feikna stuði og hlutu í einkunn 7,07 og eru önnur inn A-úrslit ungmenna. Þriðjar í braut íslensku keppendanna voru þær Helga Una Björnsdóttir og Ósk frá Stað með stórglæsilega sýningu sem skilaði þeim 7,47 og beint inn í A-úrslit. Fjórðu í braut af íslensku keppendunum voru síðan Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir og Hulinn frá Breiðstöðum en því miður missti Hulinn skeifu og þau hlutu ekki einkunn. Fimmtu í braut komu loks Jóhanna Margrét Snorradóttir og Assa frá Miðhúsum og enduðu þær með 7,07 og lönduðu þar með sæti í B-úrlitum. Af íslensku knöpunum eigum við því í fullorðinsflokki einn í A-úrslitum og einn í B-úrslitum, og í ungmennaflokki er einn í A-úrslitum. Anne Stine Haugen og Hæmir frá Hyldsbæk leiða fullorðinsflokkinn með yfirburðum en þau hlutu hvorki meira né minna en 8,20 fyrir sína mögnuðu sýningu en þau keppa fyrir hönd Noregs. Eiðfaxi hitti Anne Stine eftir þeirra sýnungu sem sjá má á fréttasíðu Eiðfaxa en hjá Eiðfaxa er að finna fjölmörg stórskemmtileg viðtöl við knapa að loknum sýningum sem og gesti og gangandi. Næst á dagskrá er yfirlit fyrir 7 vetra og eldri hryssur og stóðhesta. Þar eigum við tvo fulltrúa þau Eind frá Grafarkoti, sýnandi Bjarni Jónasson og Hljóm frá Auðsholtshjáleigu, sýnandi Árni Björn Pálsson. Eind hlaut 8,41 í fordómi og var þriðja hæst í sínum flokki. Hljómur frá Auðsholtshjáleigu var hæstur í sínum flokki eftir fordóm með 8,77 í aðaleinkunn. Það verður því einkar spennandi að fygjast með þeim á eftir.  Í kvöld fara svo fram seinni tveir sprettirnir í 250m skeiði. Þar eigum við fimm fulltrúa og sem stendur eiga þau Kristján Árni Birgisson og Krafla frá Syðri-Rauðalæk besta tímann í ungmennaflokk en þau hlupu á tímanum 22,38 sek. Í fullorðinsflokki eiga þeir Sigursteinn Sumarliðason og Krókus frá Dalbæ annan besta tímann eða 21,97 sek. Það verður því spennandi að sjá hvernig þeim og restinni af íslenska hópnum gengur í kvöld.
7. ágúst 2025
Þá er forkeppni í fimmgangi lokið, við áttum fimm fulltrúa, þrjá í fullorðinsflokki og tvo í ungmennaflokki.
7. ágúst 2025
Eftir yfirlit í flokki fimm og sex vetra kynbótahrossa standa þrjú af fjórum hrossum frá Íslandi efst í sínum flokki.
7. ágúst 2025
Kristján Árni og Sigursteinn standa efstir íslensku keppendanna
7. ágúst 2025
Árni Björn leiðir í tölti með miklum yfirburðum
Eftir Unnur Rún Sigurpálsdóttir 6. ágúst 2025
Þá er forkeppni í slaktaumatölti lokið. Þar átti Ísland fjóra fulltrúa, þrjá í fullorðinsflokki og einn í ungmennaflokki.
Eftir Unnur Rún Sigurpálsdóttir 6. ágúst 2025
Ísland landaði sínum fyrsta heimsmeistaratitli á HM 2025
Eftir Unnur Rún Sigurpálsdóttir 6. ágúst 2025
Heimsmeistaramót Íslenska hestsins hófst á kynbótadómum.
Eftir Unnur Rún Sigurpálsdóttir 4. ágúst 2025
Sig­ur­björn seg­ir alla hest­ana vera í góðu standi eft­ir ferðalagið. Hann bend­ir einnig á mik­il­vægi þess að styðja við bak liðsfé­lag­anna þegar keppn­in hefst á morg­un.
Eftir Unnur Rún Sigurpálsdóttir 4. ágúst 2025
Heims­meist­ara­mót ís­lenska hests­ins hefst með form­leg­um hætti í fyrramálið og kynbótadómum.
Lesa meira