Fjórir fulltrúar Íslands taka þátt í FEIF Youth Camp 2025
Nú styttist óðfluga í að FEIF Youth Camp (FYCamp) sumarnámsbúðirnar verði haldnar á Hvanneyri en FYCamp fer fram þar daganna 9. til 14. júlí nk. FYCamp fór fyrst fram 1986 og mun þetta vera í fjóra sinn sem það fer fram á Íslandi.

Skipulagsnefnd á vegum æskulýðsnefndar LH hefur verið að störfum síðan í haust eða frá því að æskulýðsnefnd FEIF óskaði eftir að æskulýðsnefnd LH myndi taka að sér að halda FYCamp hérlendis í ár.
Búin var til fjögurra manna skipulagsnefnd sem falið var að halda utan um verkefnið, finna hentuga staðsetningu, skipuleggja dagskrá o.s.frv.. Leitað var til okkar mesta reynslubolta til að leiða nefndina í þeim tilgangi að aðrir í nefndinni gætu síðar tekið við keflinu. Skipulagsnefnd FYCamp 2025 skipa: Helga Björg Helgadóttir, Dagbjört Hulda Guðbjörnsdóttir, Guðrún Linda Björgvinsdóttir og Stefán G. Ármannsson.
FEIF Youth Camp eru sumarbúðir fyrir hestakrakka á aldrinum 14-17 ára á árinu. Markmið þeirra er að kynna krakka frá aðildarlöndum FEIF fyrir hestamenningu annarra þjóða, auka skilning á menningarlegum mun og að gefa þeim tækifæri til að hitta og kynnast ungu fólk með sama áhugamál. Einnig fá þau frábært tækifæri til að efla enskuna sína. Dagskráin verður ákaflega spennandi en meðal annars verður boðið uppá reiðtúr, fyrirlestra, sýnikennslu, sætisæfingar og margt fleira.
Von er á um 40-50 þátttakendum frá 11 aðildarlöndum FEIF og á Ísland alls fjóra fulltrúa. Fulltrúar Íslands á FYCamp 2025 eru:
Kristín Lára Eggertsdóttir, Snæfellingur
Victoria Krystyna Slota, Blær
Edda Lind Einarsdóttir Hallbach, Freyfaxi
Rebecca Luise Lehmann, Snæfellingur
Formaður æskulýðsnefndar Dagbjört Hulda Guðbjörnsdóttir verður fararstjóri íslenska hópsins.
Við óskum þessum flottu fulltrúum góðrar skemmtunar á Hvanneyri og vonum að reynslan muni efla þau og styrkja í áhugamálinu.
Fréttasafn












