Kæru hestamenn

7. júlí 2025

Sumarpistill frá formanni

Sumarið er tíminn segja margir en í hestamennskunni er veturinn, vorið og haustið líka tíminn. Allar árstíðir hafa sinn sjarma þegar kemur að hestum hvort sem maður er áhugamaður, atvinnumaður, ræktandi, í tamningum eða útreiðum. Við eigum það eitt sameiginlegt að elska að vera með okkar frábæra íslenska hesti í alls konar veðri og aðstæðum og allt hefur sinn sjarma.

Veturinn í vetur var góður að svo mörgu leyti, veðrið var víðast hvar með ágætum, fyrir utan nokkra storma og hestamennskan blómstraði. Alls staðar sem maður fór um landið mátti sjá fólk í útreiðum og á æfingum hvort sem það var úti eða inni. Félagslífið í félögunum út um allt land var mikið, æskulýðsstarfið er virkt og flest félögin eru með félagstúra hvort sem það eru fastir vikulegir reiðtúrar, kvenna- og karlareiðtúrar og svo mætti lengi telja.

 

Keppnisdeildir á öllum stigum voru mjög virkar í vetur og muna elstu menn ekki eftir eins miklum fjölda innanhúss keppna. Með þessari miklu virkni í keppni breikkar hópur knapa sem taka þátt hvort sem það eru æskulýðs, áhugamanna eða atvinnumannadeildir.

 

Það hefur verið forréttindi að fylgjast með hestamennskunni í landinu frá nýju sjónarhorni í vetur en nú eru rétt um átta mánuðir síðan ég tók við formennsku í LH. Tíminn hefur liðið óvenju hratt þökk sé nýjum og fjölbreyttum verkefnum og viðkynningum.


Við í stjórn LH höfum haldið 20 fundi á þessum átta mánuðum og skiptum vel með okkur verkum en í stafni stendur starfsfólkið okkar á skrifstofunni þau Berglind, Hinrik og Jónína Sif.

 

Á þessum mánuðum höfum m.a. styrkt starfið innan FEIF, náð inn fulltrúa inn í ÍSÍ þegar Þórdís Anna Gylfadóttir náði glæsilegu kjöri í framkvæmdastjórn ÍSÍ, fundað um ýmis mál hvort sem það eru réttindamál eða mál er varða almenna hestamennsku, rætt keppnismálin fram og til baka, nefndir hafa verið mjög virkar enda mörg verkefni sem þær vinna og svo mætti lengi telja.     

 

Við héldum frábæran viðburð „Allra sterkustu“ í Samskipahöllinni í Spretti um páskana og þar voru slegin met í áhorfendafjölda og einnig í söfnun sem gerir það að verkum að kostnaður knapa við að fara fyrir hönd Íslands á HM í Sviss í ár verður í sögulegu lágmarki. Við erum sérstaklega stolt af þessu afreki en að baki þessum frábæra árangri standa Landsliðsknaparnir okkar, styrktaraðilar, stóðhestaeigendur sem gáfu tolla, Landsliðsnefndin, stjórnin og fjöldinn allur af sjálfboðaliðum. Við þökkum enn og aftur fyrir stuðninginn.

 

Fegurðin í hestamennskunni felst í fjölbreytninni og nú eru hestaferðir landans í hámarki enda er ekkert betra en að vera í íslenskri náttúru á íslenskum gæðingi hvort sem það er í sól eða regni. Fjölbreytni reiðleiða er gífurleg hvort sem það er innan bæjar, í sveitum landsins eða á hálendinu. Vert er að minnast að allar skráðar reiðleiðir eru inn á kortasjá sem finna má á nýjum vef LH – www.lh.is.

 

Nú í vor og sumar hefur hvert útimótið á fætur öðru verið haldið og þátttakan hefur verið gífurleg. Skemmst er að minnast heimsmets í skráningum sem slegið var á Reykjavíkurmóti Fáks sem haldið var um miðjan júní. Einkunnamet hafa verið sleginn og segja má að keppnismennskan sé á hápunkti. Íslandsmót Ungmenna og fullorðinna var haldið hjá Sleipni á Selfossi og var umgjörðin vægast sagt glæsileg. Þar var heimsmet slegið þegar Konráð Valur Sveinsson og Kastor frá Garðshorni á Þelamörk náðu tímanum 21,06 sek. Þegar sett eru heimsmet þarf FEIF að staðfesta metið og nú er beðið eftir staðfestingunni í ofvæni. Íslandsmót barna- og unglinga verður svo haldið hjá Sörla í Hafnarfirði 17-20 júlí og við hvetjum sem flesta til að mæta og fylgjast með. Í leiðinni er þá einnig hægt að skoða nýju glæsilegu reiðhöll Sörla sem var opnuð á dögunum.

 

Um helgina fór svo fram glæsilegt Fjórðungsmót Vesturlands við frábærar aðstæður þar sem veður lék við mótshaldara, keppendur og áhorfendur. 

 

Það hafa verið margir hápunktar í sumrinu og það er varla byrjað en nú er spennan að magnast því n.k. miðvikudag 9 júlí verður Landsliðshópur Íslands, sem fer á HM í Sviss í byrjun ágúst, kynntur. Kynningin fer fram í húsakynnum Icelandair að Flugvöllum en Icelandair cargo eru einn af stóru styrktaraðilum Landsliðsins ásamt Líflandi, Topreiter og Blue Lagoon.

 

Mig langar að lokum að hvetja fólk að huga vel að hestum nú þegar heitt er í veðri og haginn er mikill. Njótið sumarsins og farið varlega en djarflega.

 

Sumarkveðjur,

Linda B Gunnlaugsdóttir

Formaður LH

 

Fréttasafn

Eftir Jónína Sif Eyþórsdóttir 8. júlí 2025
Landslið Íslands í hestaíþróttum verður kynnt á morgun kl 15:00 og verður hægt að fylgjast með í beinni útsendingu á EiðfaxaTv Að venju ríkir mikil eftirvænting og hafa Landsliðsþjálfaranir lagt mikla vinnu í að setja saman liðin, um helgina fór svo fram dýralæknaskoðun, auk þess sem knaparnir mátuðu keppnis og æfingafatnað. Allur fatnaður knapa og teymis er styrktur af Topreiter og Lífland.
Eftir Jónína Sif Eyþórsdóttir 8. júlí 2025
Í síðustu viku og um helgina fór fram dýralæknaskoðun á þeim hestum og knöpum sem taldir eru líklegastir til að skipa lið Íslands á heimsmeistaramótinu í Sviss.  Nokkuð margir voru kallaðir í skoðun og mátti greinilega skynja eftirvæntingu og spennu. Liðið verður tilkynnt miðvikudaginn 9. júlí, EiðfaxiTv verður með beina útsendingu frá viðburðinum.
Eftir Jónína Sif Eyþórsdóttir 4. júlí 2025
Nú styttist óðfluga í að FEIF Youth Camp (FYCamp) sumarnámsbúðirnar verði haldnar á Hvanneyri en FYCamp fer fram þar daganna 9. til 14. júlí nk. FYCamp fór fyrst fram 1986 og mun þetta vera í fjóra sinn sem það fer fram á Íslandi.
Eftir Jónína Sif Eyþórsdóttir 4. júlí 2025
Nú er einn mánuður í að HM í Sviss hefjist. Þá er ekki úr vegi að minnast þeirrar gífurlegu stemningu og gleði sem einkenndi síðasta mót.
Eftir Jónína Sif Eyþórsdóttir 3. júlí 2025
Skógarhólar hinn geysi vinsæli áningarstaður hestamanna í þjóðgarðinum á Þingvöllum hefur fengið góða andlitslyftinu á síðustu misserum og tekur nú enn betur á móti gestum. Nokkuð er um lausa daga í júlí.
Eftir Jónína Sif Eyþórsdóttir 2. júlí 2025
Í dag eru 32 dagar í að HM í hestaíþróttum hefjist og óhætt að segja að farið sé að örla á töluverðri eftirvæntingu með hestaáhuga fólks, en ekki síst meðal þeirra knapa sem standa nú með tærnar rétt við rás markið og bíða þess og vona að verða kallaðir inn í hópinn, en línurnar eru að skýrast með það nú þegar Íslandsmóti er rétt lokið.
Eftir Jónína Sif Eyþórsdóttir 29. júní 2025
Það má segja að það hafi kristallast í úrslitum Íslandsmóts í dag á hversu háu stigi íþróttakeppnin er. Litlu munar á milli knapa í flestum greinum og heilt yfir frábært mót og sterk úrslit. Veðrið lék ekki við keppendur í byrjun dags en átti heldur betur eftir batna þegar leið á daginn og lauk frábæru móti í fallegu Íslensku sumarveðri.
Eftir Jónína Sif Eyþórsdóttir 28. júní 2025
Dásamlegur dagur að baki á Brávöllum, Selfossi þar sem veðrið lék við keppendur á Íslandsmótinu í hestaíþróttum.  Dagurinn hófst af krafti þegar seinni tveir sprettirnir í 250m skeiði fóru fram en þar gerðu þeir Konráður Valur og Kastor frá Garðshorni á Þelamörk sér lítið fyrir og settu nýtt heimsmet þegar þeir fóru brautina á einungis 21,06 sek. Fyrra heimsmet var 21,07 sek.
27. júní 2025
Jón Ársæll leiðir keppni í Fimmgang, Fjórgang, Tölti og Slaktaumatölti ungmenna.
Eftir Berglind Karlsdóttir 27. júní 2025
Jón Ársæll leiðir líka í fimmgangi
Lesa meira